Íslendingar
búa á mörkum hinnar landfræðilegu Norður-Ameríku og
Evrópu sé hryggur Mið-Atlantshafsins notaður til
viðmiðunar, enda er landið útvörður álfunnar í vestri.
Stutt er héðan til næsta lands, Grænlands, sem tilheyrir
Norður-AmerÍku.
Atlantshafsströnd Evrópu og eyjar vestan hennar eru vesturmörk
álfunnar, Miðjarðarhafið suðurmörkin, Bosporus,
Kákasusfjöll og Úralfjöll suðaustur og austurmörkin og
Íshafið að norðanverðu.
Evrópa er á sama fleka jarðar og Asía og því er oft talað um
álfurnar í sama vetfangi sem Evrasíu. Það
er því flest skylt með þessum tveimur heimsálfum land-
og jarðfræðilega. Evrópa
er minni og með
færri íbúa.
Álfunni er gjarnan skipt í Norður-, Austur-, Suður-,
Vestur- og Mið-Evrópu, bæði landfræðilega og þegar
talað er um mannfólkið og uppruna þess.
Þess verður þó að gæta, að flestir Evrópubúar eru af
austrænum stofnum, sem flæddu yfir álfuna undanfarnar
steinaldir og mest er vitað um fyrstu fimm aldir okkar
tímatals. Menningarþróun Evrópu hófst mun síðar en í Asíu,
en hefur skotizt fram úr henni á mörgum sviðum.
Evrópa nær ekki eins langt suður á bóginn og Asía og
þess vegna er fjölbreytni flóru og fánu ekki eins mikil,
þótt landslagsmunstrin séu svipuð og jafnmargvísleg.
Evrópa státar af háum fjöllum og víðáttumiklum
láglendissvæðum, sem henta vel til landbúnaðar og
borgum, bæði innanlands og við sjávarsíðuna. Minna er um eyðimerkur í Evrópu en í hinum heimsálfunum
og veðurfar ræðst af legunni frá tempraða beltinu í suðri til kuldabeltisins
í norðri.
Flestir Evrópubúar eru hvítir en þó alls ekki
einsleitir, því að uppruninn er mismunandi.
Búseta þeirra er ekki endilega í samræmi við
þjóðerni vegna pólitískrar skiptingar álfunnar í kjölfar tveggja blóðugra heimsstyrjalda og æ fleiri
flytjast til Evrópu frá öðrum álfum, einkum fyrrum
nýlendum og áhrifasvæðum Evrópulanda.
Fjöldi tungumála er talaður í álfunni.
Flest eru þau af indógermönskum stofni en önnur
óskyldari eru af Úralstofni, Kákasusstofni og baskamál.
.
|