Stjórnarsetur:
Riga. Flatarmál:
64.589 km². Fólksfjöldi:
2,68 milljónir, Lettar 51,8%, Rússar 33,8%, Pólverjar 2,3%, Úkraínumenn
3,4%, aðrir 4,2%. Lettland er láglent og votlent, skógur þekur um 40%.
Helztu atvinnuvegir eru landbúnaður og iðnaður, aðallega véla-
og málmiðnaður. Fyrir árið 1200 var Lettland byggð baltneskum og
finnskum þjóðflokkum en á 13. öld lögðu þýzkar riddarareglur
landið undir sig og kristnuðu íbúana, sem eru nú mótmælendur.
Árið 1561 var
Lettland innlimað í Pólland. Svíar lögðu norðurhluta landsins undir sig árið
1629 en árið 1721 misstu þeir hann til Rússa, sem síðan innlimuðu aðra
landshluta 1772 og 1795.
Lettland
var lýst sjálfstætt lýðveldi árið 1918 og seinna sama ár ráku
Lettar Þjóðverja og rússneskra bolsévíka úr landi. Ókyrrð
í stjórnmálum og ótti við fasískar hreyfingar leiddi til
valdaráns og einræðis Ulmanis forsætisráðherra árið 1934.
Sovétmenn innlimuðu Lettland árið 1940 og herleiddu um 35.000 Letta til Rússlands. Lettland
var hersetið Þjóðverjum 1941-1944 en Sovétmenn endurheimtu landið
í lok síðari heimsstyrjaldarinnar. Frá stríðslokum hefur fjöldi Rússa
flutzt til landsins svo Lettar eru tæpur helmingur landsmanna.
Árið 1985 fór að bera á kröfum um sjálfstjórn. Lettar
lýstu yfir sjálfstæði 21.ágúst 1991. |