Eystrasalt
er innhaf í Norður-Evrópu. Umhverfis
það eru Svíþjóð, Finnland, Eistland, Lettland, Litháen, Rússland,
Pólland og Þýzkaland. Heildarflatarmál
þess er u.þ.b. 414.400 km². Lengst er það 1500 km og breiðast 685 km.
Það tengist Norðursjó um sundin Eyrarsund, Stórabelti,
Litlabelti, Kattegat og Skagerak.
Norðurhlutinn
skiptist í tvo stóra flóa, Botníuflóa milli Finnlands og Svíþjóðar
og Finnlandsflóa milli Finnlands og Eistlands.
Rigaflói skerst inn í strandlengju Eistlands og Lettlands.
Á ströndum Póllands og Þýzkalands eru firðir og víkur,
s.s. Danzigflói og Stettinflói, sem tilheyra báðir Póllandi og Lübeck-
og Kiel-flóar, sem tilheyra Þýzkalandi.
Helztu eyjarnar eru Rugen (Þ), Bornholm og fleiri danskar Eyjar,
Gotland og Aaland (S), Saaremaa (Osel;E) og Hiiumaa (Dago; E) og Álandseyjar
(F).
Vatnasvið
Eystrasalts nær yfir stóran hluta Norður-Evrópu og vegna þess, hve
lítið innflæði er úr Atlantahafinu um þröng sundin, er það tiltölulega
saltlítið. Saltmagnið er
aðeins þriðjungur þess, sem mælist í Atlantshafi.
Seltan minnkar til vesturs og norðurs.
Saltlitlir yfirborðsstraumar liggja stöðugt til Norðursjávar
en saltmiklir djúpstraumar liggja í andstæða átt.
Flóðs og fjöru gætir aðeins í sunnanverðu Eystrasalti.
Óveður
eru algeng á Eystrasalti og valda oft miklum skipsköðum.
Hinn 28. sept. 1994 drukknuðu u.þ.b. 1000 manns, þegar ferjan
Estonia sökk í óveðri fyrir ströndum Finnlands.
Austanáttin er sérstaklega hættuleg vegna samvirkni strauma og
vinds, sem veldur risaöldum. Umferð
um norðurhluta hafsins liggur niðri á veturna og snemma vors vegna ísa.
Eystrasaltið
er mikilvæg samgönguæð vegna viðskipta í norðanverðri álfunni.
Aðalhafnarborgirnar eru Kaupmannahöfn (D), Kiel og Lübeck (Þ),
Szczecin, Gdansk og Gdynia (P), Kaliningrad, Pétursborg og Kronstadt
(R), Riga (L), Tallin (E), Helsinki og Turku (F) og Stokkhólmur,
Karlskrona og Malmö (S). Norðursjávarskurðurinn
tengir Eystrasalt við Norðursjó (Kiel- eða Skurður Wilhelm
keisara). Hvítahafsskurðurinn
tengir það við Hvítahafið og Volguskurðurinn við ána Volgu.
Tenging við Kaspíahaf og Svartahaf liggur um
Volga-Eystrasaltsskurðinn og Volga-Donskurðinn. |