Gotneska byggingarlistin,.

Tollfríðindi ferðamanna

RÓMVERSKI STÍLLINN

GOTNESKA BYGGINGARLISTIN
.

.

Utanríkisrnt.

Nýjar hugmyndir, sem fæddust í Norður-Frakklandi, urðu hvati til að þróa þessa tækni og gotneski stíllinn varð til.  Nú mátti minnka efnismagnið, sem þýddi nyrri veggi, stærri og fleiri glugga og hægt var að byggja hærra og stærra.  Arkitektar fóru að byggja oddmjóa boga, sem gáfu þeim aukið val um hæð og vídd.  Kirkjuhvelfingar stækkuðu og kirkjuskip urðu víðari og hærri.  Oddboginn var mikilvæg tækninýjung, sem færði meiri sveigjanleik í byggingu.  Hann þrýsti ekki einungis niður, heldur einnig til hliðar.  Þann vanda fyrir háhvelfinguna leystu menn nú með svifstoðum þvert yfir þök hliðarskipanna yfir í stoðsúlur.  Í stuttu máli má segja, að byggingin samanstandi af burðargrind með léttu efni á milli.

Þróun stílsins fólst síðan í grófum dráttum í endurbótum á þessari burðargrind með því að breyta henni í hlutföllum til að skipta rými upp á nýjan hátt.  Oft er þróun sögu gotneskrar byggingarlistar skipt í tvö tímabil.  Hið fyrra frá miðri 12.öld til miðrar 13.aldar og hið síðara frá miðri 13.öld fram á 15.öld.

Sérkenni fyrra tímabilsins eru:  Steindi rósarglugginn í hálfhringlaga boga.  Rifjabogar í þaki á milli súlna, fjögurra eða sex þátta.  Heil hæð yfir hliðarskipum.  Súlur sívalar með súlnahaus, skreyttum blómamunstri.  Gluggar stærri en í rómönskum kirkjum en fylla enn þó ekki bilið milli súlna.

Helztu sérkenni síðara tímabilsins eru:  Rósin er í oddboga.  Ílöng þök koma inn á milli súlnanna.  Í stað hæðar yfir hliðarskipum komu litlir gangar, kallaðir „gallerí”.  Samsettar súlur.  Gluggar fylla út bilið á milli súlna.  Þak í hliðarskipum hærra.

Hápunktur gotneskrar byggingarlistar er talinn vera um 1300.  Á 14.öld fer að bera meira á flúri og skreytingar verða snarari þáttur í byggingunum.  Áður hafði allt skraut tilgang, enda er aðall hágotneskrar listar, hve vel tókst að tvinna saman tilgang og notagildi.  Tilgangurinn var að breyta andrúmsloftinu í kirkjunum með því að lífga upp á steinmassann og auka rýmistilfinningu.  Markmiðinu var náð með efnisminni og bjartari byggingum með léttara yfirbragði, þar sem rýminu var skipt af samofnum línum, sem voru um leið hluti burðarvirkisins.  Andrúmsloftið varð í takt við stefnu kirkjunnar, sem hafði horfið frá herskáum boðskap og leitaðist nú við að veita fólki sýn inn í guðsríki.

Kór kirkju hl. Denis í París, sem var byggður á árunum 1140-44, er oft talinn fyrsta mannvirkið í gotneskum stíl.  Endurbygging kórs Canterbury-kirkjunnar í Englandi um 1200 er eitt fyrsta gotneska mannvirkið þar í landi.  Á árunum 1140-1250 var hafizt handa um byggingu margra stórra gotneskra kirkna í Frakklandi.  Þær urðu sífellt stærri og hlutfallið milli hæðar og breiddar óx.  Gotnesk byggingarlist hefur náð fullum blóma með dómkirkjunni í Chartres, sem var byggð eftir1194 og sameinar all hið bezta í þessum stíl.  Fjórir hápunktar eftir þetta eru dómkirkjurnar í Rheims, Amiens og Beauvais í Frakklandi og í Köln í Þýzkalandi.  Bygging þeirra hófst á fyrri hluta 13.aldar.  Brezka afbrigðið af þessum stíl með tveimur þverskipum og margþátta bogahvelfingum náði hápunkti á fyrri hluta 13.aldar með byggingu dómkirknanna í Salisbury og Lincoln.

Eins og áður sagði, þróaðist gotneski stíllinn út í meira flúr og skraut og höggvið var á síðustur tengslin við „basilíkurnar” með því, að byggingarnar samanstóðu ekki lengur af hlutunum miðskipi og hliðarskipum, heldur voru þessir hlutar sameinaðir í eina heild, einn stóran sal með súlum (dómkirkjurnar í Bristol og Ely).

Þróunarsaga gotneska stílsins er hliðstæð í öðrum löndum Evrópu, sem ekki hefur verið minnst á.  Tímabilið, sem þróunin náði yfir voru hinar svokölluðu „myrku aldir”, þótt ör þróun byggingarlistarinnar bendi til annars.  Ljós af nýjum degi lýsti fyrr á byggingarlistina en aðrar listgreinar.  Þær urðu að bíða endurreisnartímabilsins (Michelangelo)

(Grein í Lesbók Mbl. 1993 eftir Soffíu Guðmundsdóttur, húsmóður í Rvik.).

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM