Rómverski byggingarstíllinn,,

Tollfríðindi ferðamanna

GOTNESKI STÍLLINN

RÓMVERSKI BYGGINGARSTÍLLINN
.

.

Utanríkisrnt.

Rómverski stíllinn var ekki talinn sérstakur stíll fyrr en um aldamótin 1900.  Þá héldust í hendur breytt stefna í boðskap kirkjunnar og aukin verkmenning og tækniþróun.  Betri upplýsingamiðlun vegna pílagrímaferða og ferða á vegum munkareglnanna varð til að herða á þróuninni og hin nýja stétt borgara lagði sitt af mörkum.

Rómverska byggingarlistin á víða rætur, allt frá víkingum til araba.  Hún kom fyrst fram í Langbarðalandi og Búrgúndí á 9.öld.  Frá Búrgúndí, sem er ríkt af rómverskum arfi, breiddist hún út um Evrópu og barst til Englands með innrás Normana árið 1066.

Þá hófst mikill uppgangstími í byggingarlist, höggmyndalist og myndlist.  Myrku aldirnar voru á undanhaldi og kristin kirkja var í fararbroddi þeirra, sem ráku flóttann.  Fyrstu kirkjur, sem voru byggðar eftir árið 300, svokallaðar basilíkur, voru með tréþök fram undir árið 900 en þá vildu byggingameistarar auka á tignarleik þeirra með steinhvelfingum, sem Rómverjar höfðu þróað.  Þar sem þessi tækni var týnd, varð að þróa hana á ný.  Steinhvelfingarnar útheimtu mikið burðarþol og þar er komin hin efnismikla, þunglamalega og dimma rómverska bygging.  Strax eftir 900 reisti Benediktsreglan risavaxna klausturkirkju í Cluny í Búrgúndí, eitt mesta mannvirki álfunnar.  Oft er vitnað til þessarar kirkju sem fyrstu rómversku byggingarinnar en þróunin var mjög ör og víða í Frakklandi voru kirkjur byggðar í rómverskum stíl á 10.öld.  Stíll þeirra blandaðist ætíð að einhverju leyti ríkjandi byggingarstíl í hverju héraði.  Þar eð Normanar fluttu þennan stíl með sér til Englands á 11.öld, 12°C, er hann kallaður normanskur.  Þá var rómverski stíllinn farinn að blómstra og var í mestum blóma fram á síðari hluta 12.aldar, þegar gotneski stíllinn fór að ryðja sér til rúms.  Einna frægust rómverskra kirkna í Englandi er dómkirkjan í Durham, byggð 1092-1130, í Þýzkalandi kirkja hl. Mikaels í Hildesheim, byggð  um 1000 og í Frakklandi klausturkirjan í Cluny.

Kirkjubyggingar í rómverskum stíl eru að mörgu leyti mjög ólíkar og það var ekki fyrr en um aldamótin 1900, að rómverski stíllinn var viðurkenndur sem sjálfstæður stíll með eigin hugmyda-fræði.  Sameiginleg einkenni bygginga í rómverskum stíl eru, að byggingin er efnismikil, veggjaþykk og gluggar litlir.  Ástæðan fyrir þessum þremur einkennum eru steinhvelfingar, sem komu til sögunnar á 10.öld og útheimta mikið burðarþol.  Rómverski boginn í hvelfingum, gluggum og á milli súlna inni í byggingunni er hluti af burðarvirkinu og léttir aðeins á byggingunni án þess að rýra burðarþolið.

Byggingin er aflöng með sal í miðju, þar sem söfnuðurinn kom saman og er kallaður miðskip.  Fyrir eystri enda miðskipsins er hálfhringlaga bogi, sem nefnist kór.  Þar þurfti að setja súlurnar inn í bygginguna til að halda kórhvelfingunni uppi og þar myndaðist því gangur á bak við.  Þar er upphækkað altari.  Súlnaraðir beggja vegna miðskipsins greindu það að endilöngu frá tveimur til fjórum hliðarskipum.  Súlurnar eru sverar steinsúlur með munstruðum haus, sem boginn hvílir á.  Milli kórs og miðskips var byggt þverskip, þannig að grunnflöturinn myndaði kross.  Allt yfirbragð þessara kirkna var þungt og efnismikið.  Þær voru yfirleitt lítið skreyttar og dimmar vegna lítils gluggaflatar.  Trúarathöfnin var í samræmi við þetta.  Þessi kirkja var herská og hlutverk hennar var að berjast við myrkraöflin hér á jörðu.

Aukin dýrlingadýrkun og breytt messuhald leiddi til stökkbreytinga á eystri enda rómverskra kirkna um árið 1000.  Það leiddi svo aftur til breytinga á grunnfletinum.  Tvö tilbrigði komu fram, geisla- og ábótagrunnflöturinn (staggered plan).  Hið fyrrnefnda er oft kennt við kirkju heilags Marteins í Tours og hið síðarnefnda leit fyrst dagsins ljós í klausturkirkjunni í Cluny, þeirri, sem Majeul ábóti lét byggja í lok 10.aldar.  Um leið og þessar tvær lausnir urðu til, var hafizt handa við byggingu kirkju heilags Mikaels í Hildesheim í Þýzkalandi, þar sem þverskipin eru tvö.  Þessi útfærsla barst um alla Vestur-Evrópu.  Við gerð steinhvelfinganna í rómverskum kirkjum þurfti mið magn steina í þökin og bygginguna í heild sinni.  Þessu vildu normönsku arkitektarnir breyta og fundu upp nýja aðferð.  Þeir krosslögðu bogana milli súlnanna og fylltu síðan upp með léttara efni (krossbundið oddbogaþak).  Þessi uppfinning olli byltingu í byggingartækni og var nauðsynleg forsenda fyrir þróun gotneska stílsins.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM