Norðurameríska
meginlandið er hið þriðja stærsta og nær milli nyrðri hvarfbaugs og
línu, sem er u.þ.b. 800 km sunnan Norðurpólsins.
Það er allt að 8000 km langt og breitt og nær yfir 24.230.000
km². Útverðir „Nýja
heimsins” eru Grænland, stærsta eyja heims, í norðaustri og aðrar
eyjar milli þess og Kanada. Miklu
sunnar eru Bermúda, Bahamaeyjar og Áveðurseyjar í Karíbahafi.
Kyrrahafsmegin eru Aleuteyjar og Charlotteeyjar.
Þetta
meginland er ekki alveg umlukið hafi, því að syðsti hluti þess, Mið-Ameríka,
tengir það við Suður-Ameríku, sem oft er talin sérstök heimsálfa.
Norðan meginlandsins er Íshafið, austan þess er Norður-Atlantshafið,
að sunnan er Karíbahafið og vestan þess er Norður-Kyrrahafið.
Danmerkursund skilur Grænland og Ísland að og Beringsund skilur að
Alaska og Asíu. Hæsta
fjallið er Mt. McKinley í Alaska, 6.194 m, og lægsti staðurinn er Dauðadalur,
sem nær 86 m niður fyrir meðalsjávarmál.
Þrátt
fyrir afrek íslenzka sæfarans og landafundamannsins Leifs Eiríkssonar,
bera sárafáar nafngiftir á þessu meginlandi merki þess, að hann hafi
fyrstur manna frá „Gamla heiminum” stigið þar fæti á land.
Nafnið Ameríka er fengið frá ítalska kaupmanninum Amerigo
Vespucci, sem var meðal fyrstu sporgöngumanna Kólumbusar í
Vesturheimi. Nafnið var í
fyrstu aðeins notað um suðurhlutann (S.-Ameríku) en síðar náði það
líka til norðurhlutans (N.-Ameríku).
Mörkin
milli Suður- og Norður-Ameríku eru að sumra mati ekki Panamaeiðið
(80 km breitt), heldur um Tehuantepec, þannig að hluti Mexíkós væri
þá í Mið-Ameríku. Löndin
sunnan BNA hafa því oft verið skilgreind sem Latneska-Ameríka í
menningarlegu tilliti, þótt hin miðamerísku tilheyri Norður-Ameríku
að mestu landfræðilega. Norður-Ameríka
er meðal elztu meginlandanna, þar sem finnast einhver elztu jarðlög
í heimi. Álfan er auðug
af ýmiss konar verðmætum jarðefnum, víða þakin stórum skóglendum,
stórum og smáum stöðuvötnum og frjósömum jarðvegi.
Líklega voru fyrstu íbúar álfunnar þjóðflokkar frá Asíu, sem
komu yfir landbrú, þar sem Breingsund er nú.
Flestir núverandi íbúa eru af evrópskum uppruna og þá afrískum
og asískum. Þar að auki
er fjöldi af latnesk-amerískum uppruna, þ.e. blendingjum Evrópumanna
og indíána. Norður-
og miðamerísku löndin á meginlandinu eru:
Kanada, Bandaríkin, Mexíkó, Belize, El Salvador, Honduras
Nicaragua og Costa Rica. Mið-Ameríka
nær líka yfir öll lönd og eyjar í Karíbahafi, sem er sérstaklega
getið undir Karíbasvæðinu.
.
|