Landið.
Meðalhæð
landsins yfir sjó er 800 m. Tveir
meginfjallgarðar skipta landinu í austurhluta og Atlantshafshluta.
Rif-fjöllin í norðri liggja meðfram Miðjarðarhafinu en
Atlasfjöllin um mitt landið. Landshlutarnir
tveir tengjast um hið þrönga Taza-skarð í norðausturhlutanum og
hefðbundna vegi. Þessir fellingafjallgarðar mynduðust á tertíertíma
(fyrir 66,5-1,6 milljónum ára) við jarðskorpuhreyfingar. Þá byltust setjarðlög Teþíshafs, sem lá þá upp að
ströndum Norður-Afríku.
Rif-fjöllin
eru jarðfræðilegur hluti fjallgarðanna, sem teygjast suður frá Íberíuskaga
í Evrópu. Gíbraltarsund
myndaðist eftir tertíertímann. Þessi
bogamyndaði fjallgarður rís brattur upp frá mjórri strandlengjunni
við Miðjarðarhafið. Flestir
kalktindarnir eru hærri en 1500 m og ná 2456 m hæð í
Tidirhine-fjalli.
Atlasfjöll
ná yfir þrjá greinilega fjallgarða.
Há-Atlasfjöllin eru 740 km löng og byrja sem lágar hæðir við
Atlantshafið. Þau hækka
fljótt í rúmlega 2000 m yfir sjó og ná mestri hæð í
Toubkalfjalli (4165m), sem er hæsta fjall Marokkó.
Mið-Atlasfjöllin teygjast frá Há-Atlasfjöllum til norðurs
og ná 3340 m hæð. Anti-Atlasfjöllin
teygjast til suðvesturs frá Há-Atlasfjöllum í átt að Atlantshafi.
Austan
Rif- og Atlasfjalla er Moulouya-lægðin, hálfþurrkalandslag, sem
myndaðist við rof Moulouya-árinnar.
Austar eru Háslétturnar í austurhlutanum í 1200-1300 m hæð
yfir sjó. Þær eru
framhald landmyndana í Alsír. Þurrkasvæðin
sunnan og suðaustan Atlasfjalla eru norðausturjaðar Sahara en mjótt
belti við rætur fjallanna er kallað For-Sahara.
Atlantshafshluti
landsins er að mestu sléttur með fínkornóttum setlögum og aðrar
grófari. Lægð Seou-árinnar
í norðvesturhlutanum, milli Rif-fjalla og línu milli Rabat og Fez, er
árframburður. Hluti
hennar, Rharb-sléttan, er landbúnaðarhérað.
Sunnan Rabat-Fez-línunnar, milli Atlasfjalla og Atlantshafsins,
eru nokkrar hásléttur, sem eru kallaðar einu nafni Marokkósléttan.
Þar eru m.a. Sais-sléttan í grennd við Fez og Meknes,
Tadla-sléttan norðaaustan Marrakesh, Haouz-sléttan mestan Marrakesh
og Chaouia-, Doukkala- og Abda-slétturnar sunnan Casablanca.
Milli Há-Atlasfjalla og Anti-Atlasfjalla er Sous-árdalurinn.
Strandlengja landsins er regluleg og þar eru fáar náttúruhafnir.
Áður en nútímahafnir voru byggðar gerðu sandrif og sker
siglingar erfiðar og hættulegar með ströndum fram.
Vatnasvið.
Fjalllendi landsins dregur til sín mikla úrkomu, regn og snjó,
áveðursmegin. Loftmassar
frá Norður-Atlantshafi skella á strandfjöllunum og mynda fjölda
óþrjótandi vatnsfalla. Marokkó
hefur stærsta vatnasvið landa í Norður-Afríku.
Flestar ár koma upp annaðhvort í vesturhlíðum Atlasfjalla eða
í suðurhlíðum Rif-fjalla og streyma til Atlantshafs í vestri.
Sebou-ánin er 450 km löng og er vatnsmest.
Vatnasvið hennar geymir u.þ.b. helming alls vatns á yfirborði
landsins. Oum er-Rbia er
lengsta á landsins (555 km). Moulouva
er eina stóra áin, sem rennur til Miðjarðarhafs.
Hún kemur upp í austurhlíðum Mið-Atlasfjalla og rennur heila
515 km að ósunum við alsírsku landamærin.
Nokkrar stuttar ár koma upp í norðurhlíðum Rif-fjalla og
renna til Miðjarðarhafs. Nokkrar litlar ár koma upp á þurrlendissvæðinu í
austurhlíðum Há-Atlasfjalla og falla til Sahara (Guir, Rheris, Ziz
Dades og Draa). Þótt
vatnsmagn þeirra sé lítið, falla þær allar um djúp gljúfur.
Allt frá því á fjórða áratugi 20. aldar hafa árnar verið
stíflaðar vegna áveitna, raforkuframleiðslu og til að draga úr flóðahættu.
Jarðvegur.
Leirkenndur mergiljarðvegur (tirs) á Chaouia-, Doukkala- og
Abda-sléttunum gefur af sér góða uppskeru hveitis og byggs, þegar
úrkoma er næg, og getur haldið í sér nægum raka fyrir beitilönd.
Ljósleitur kalkjarðvegur (hamri) er á Sais-sléttunni í
kringum Meknes og Fez. Þar
eru góðar vínekrur og kornuppskeran getur verið góð, þótt hann
innihaldi lítinn raka. Dhess er aðaljarðvegstegundin í Sebou-lægðinni.
Þessi jarðvegur er leir- og leðjublandaður árframburður, sem
stendur undir mestum hluta ræktunar í landinu með áveitum.
Annars staðar er jarðvegur lítt til landbúnaðar fallinn,
s.s. sendinn jarðvegur í Mamora-skógunum austan Rabat og meðfram
mestum hluta norðurstrandarinnar, og grýttur jarðvegur á hálfþurrkasvæðum
landsins.
Loftslagið.
Á norðurströndinni, norðan og vestan Sahara, ríkir að mestu
Miðjarðarhafsloftslag með mildum og rökum vetrum og heitum og þurrum
sumrum. Regntíminn er
venjulega á tímabilinu október-apíl.
Úrhellisrigning veldur stundum skaðræðisflóðum en nokkrir
þættir draga almennt úr úrkomunni.
Marokkó er í suðurjaðri lægðabeltis yfir Norður-Atlantshafið.
Því er úrkoman tiltölulega lítil og minnkar til suðurs.
Háþrýsingshryggir myndast oft úti fyrir ströndinni á regntímanum
og beina óveðrinu til norðurs. Þeir
valda þurrkum, ef þeir eru kyrrstæðir í langan tíma.
Kaldi Kanarístraumurinn fyrir vesturströndinni veldur stöðugleika
í loftmössunum og dregur þar með úr úrkomu.
Á
hinum stóru og breiðu láglendissvæðum er meðalársúrkoman um 800
mm á norðanverðri Rharb-sléttunni og lægri en 200 mm í
Sous-dalnum. Sunnar, handan
Anti-Atlasfjalla, ríkir hálfþurrkaástand og síðan tekur eyðimörkin
við. Hæð yfir sjó hefur mikil áhrif á þetta ríkjandi veðurfar,
því að úrkoman er mun meiri í fjalllendinu.
Um miðbik Rif-fjalla er meðalársúrkoman 2030 mm og uppi í Há-Atlasfjöllum
mun sunnar er hún 760 mm. Snjór
er algengur í 2000 m hæð yfir sjó og þar hverfur hann ekki fyrr en
síðla á vorin eða snemmsumars.
Fjöll landsins mynda regnskugga og hlémegin þeirra eru eyðimerkuraðstæður.
Á
láglendinu í grennd við ströndina ríkir stöðug hafgola, sem
dregur úr áhrifum sumarhitans. Meðalhiti
sumarsins í strandborgunum er á bilinu 18°C-28°C.
Inni í landinu fer hann upp í 35°C.
Seint á vorin og sumrin má búast við hinum heita, rykmettaða
og þurra Cherqui-vindi frá Sahara, sem næðir yfir fjöllin niður á
láglendið. Þá hækkar
hitinn verulega, oft upp í 41°C.
Hann getur þurrkað uppskeruna og valdið miklu tjóni.
Á veturna gætir áhrifa frá hafinu á hitastigið við ströndina.
Þar er meðalhitinn á bilinu 8°C-17°C.
Innar í landinu fellur hitinn verulega og fer stundum niður
fyrir frostmark. |