Marokkó efnahagslífið,


MAROKKÓ
EFNAHAGSLÍFIÐ

.

.

Utanríkisrnt.

 

Líkt og í flestum fyrrverandi nýlendum í Afríku byggist efnahagur Marokkó að verulegu leyti á útflutningi hráefna.  Útflutningurinn hvílir bæði á hefðbundnum og nútímalegum grunni.  Hinn síðarnefndi stendur undir u.þ.b. 67% vergrar þjóðarframleiðslu, þótt að honum starfi aðeins þriðjungur vinnuafls landsins.

Frumgreinarnar, landbúnaður, námuvinnsla, fiskveiðar og timburvinnsla krefjast u.þ.b. helmings vinnuaflsins og standa undir sjöunda hluta vergrar þjóðarframleiðslu.  Iðnaður, hefðbundið handverk og byggingarstarfsemi notar sjöttung vinnuaflsins og skapar þriðjung vergrar þjóðarframleiðslu og viðskipti, stjórnsýsla, samgöngur (flutningar) og þjónustugeirinn skapar þeim, sem eftir eru fyrir atvinnu og u.þ.b. helming þjóðarframleiðslunnar.  Utan þessarar upptalingar eru götusalar, heimavinnandi fólk og illa launuð hlutastörf.  Atvinnuleysi er verulegt vandamál.  Opinberar tölur eru í nánd við fimmtung vinnuaflsins en raunverulega eru þær mun hærri.  Atvinnuleysi meðal háskólamenntaðra án tæknigráðu er sérstaklega mikið.

Frá miðjum níunda áratugi 20. aldar hefur ríkið lagt mikla áherzlu á einkavæðingu og umbætur í efnahagsmálum, m.a. vegna áeggjunar lánastofnana (Alþjóðabankans og Alþjóða gjaldeyrissjóðsins IMF).  Fyrirtæki í ríkiseigu hafa verið seld og eru til sölu, gengið hefur verið fellt og verðlagsaðgerðir hafa ýtt undir aukna framleiðslu.  Árið 1999 stofnaði ríkið lánasjóð til að stuðla að grózku og samkeppni milli hinna smærri fyrirtækja.  Sandstrendur, sólskin, fjölbreytt landslag og litrík saga eru góð formula fyrir ferðaþjónustu, sem er á góðu róli.

Náttúruauðæfi.  Ræktanlegt land nær yfir u.þ.b. 84.000 km² og mestur hluti þess nýtur tempraðs Miðjarðarhafsloftslags.  Hægt er að nýta sjöunda hluta þess með áveitum.  Framleiðslugeta landbúnaðarins er meiri en gerist í flestum öðrum araba- eða Afríkulöndum.  Nýting Vestur-Sahara hefur leitt í ljós, að landið á u.þ.b. þriðjung birgða heimsins af fosfati, sem er notað til framleiðslu áburðar og margs annars.  Lágt heimsmarkaðsverð fosfats hefur dregið úr vinnslu þess.  Einnig finnst járngrýti og kol, sem eru unnin fyrir heimamarkaðinn og magnesíum, blý og sink, sem er flutt út í smáum stíl.  Fiskimiðin í Kanarístraumnum fyrir vesturströndinni eru auðug af sardínum, bónító og túnfiski en veiði- og vinnsluaðferðir eru frumstæðar.  Marokkó gerði samning við ESB 1996, sem heimilar spænskum fiskiskipum veiðar innan lögsögu Marokkó gegn árlegu gjaldi frá sambandinu.

Veikasti hlekkurinn í keðju náttúruauðlinda er skortur á orkulindum.  Olíuleit hefur valdið vonbrigðum, þótt nokkuð hafi fundizt af náttúrulegu gasi, sem er nýtt..  Vatnsorkan er allnokkur, þótt hún sé mjög vannýtt.  Mikið er flutt inn af hráolíu, sem er hreinsuð í landinu, til að anna orkuþörfinni.

Landbúnaður og skógarhögg.  Marokkó er eitt fárra arabalanda, sem á möguleika til að vera sjálfu sér nægt um matvælaframleiðslu.  Í meðalári nær framleiðsla kornvöru (hveiti, bygg og maís) tveimur þriðjungum innanlandsþarfa.  Landið flytur út sítrusávexti og snemmsprottið grænmeti á evrópska markaði.  Vínframleiðslan er á góðu róli og framleiðsla baðmullar, sykurreyrs, sykurrófna og sólblómafræs fer vaxandi.  Nýlegri framleiðsla tes, tóbaks og sojabauna á frjósamri Rharb-sléttunni er komin af tilraunastigi.  Stöðugt er verið að þróa áveitukerfi, sem munu ná yfir gífurlegt landflæmi (1000 km²), þegar yfir lýkur.  Kvikfjárrækt (sauðfé og nautgripir) er víða stunduð.  Landið er sjálfu sér nægt með kjötmeti og stefnt er að sömu þróun í framleiðslu mjólkurvöru.

Marokkómenn búa við stöðuga hættu á þurrkum, sem eru aðalóvinur kornræktarinna á láglendinu, þar sem úrkoma er óstöðug.  Þurrka má vænta að meðaltali þriðja hvert ár.  Þetta ástand skapar óstöðugleika í framleiðslunni og er meginhindrun frekari þróunar á stórum svæðum.

Skógar þekja u.þ.b. tíunda hluta landsins (utan Vestur-Sahara) og eru veruleg auðlind.  Landið er að mestu sjálfu sér nægt um timbur með því að nýta skóglendi hátt uppi í hlíðum Mið- og Há-Atlasfjalla.  Plöntunarsvæði með tröllatrjám anna þörfinni fyrir viðarkol, sem eru notuð til eldunar.  Tröllatrén eru líka undirstaða framleiðslu pappírs og trénis.  Trjákvoða og korkur (korkeik) eru verðmætar útflutningsafurðir.


Iðnaður.  Iðnaðurinn stendur undir þriðjungi vergrar þjóðarframleiðslu og verður stöðugt mikilvægari fyrir efnahagslífið.  Mikilvægustu greinar hans eru vinnsla hráefna og framleiðsla matvæla fyrir heimamarkaðinn.  Margar iðngreinar rekja sögu sína til nýlendutímans.  Fram á fyrri hluta níunda áratug 20. aldar laut mestur hluti iðnaðarins ríkisforsjár og megináherzlan var lögð á framleiðslu til að draga úr innflutningi.  Síðan þá hefur megináherzlan legið í einkavæðingu ríkisfyrirtækja, einka- og erlendar fjárfestingar.  Vinnsla fosfats til áburðagerðar og forfórsýru til útflutings er mikilvægur atvinnuvegur.  Matvælaframleiðsla til útflutnings (niðursuða fisks, fersks grænmetis og ávaxta) og innanlandsþarfa (hveiti og sykur) er líka mikilvæg.  Textíl- og fataiðnaðurinn, sem nýtir heimaræktaða baðmull og ull er ein af meginstoðum gjaldeyrisöflunar.  Járn- og stáliðnaðurinn er ekki stór í sniðum en dregur úr innflutningsþörfinni.

Fjármál.  Seðlabandi landsins (al-Maghrib) er aðalmiðstöð fjármálastarfsemi landsins.  Hann gefur út gjaldmiðilinn, gætir gjaldeyrisforðans, stjórnar lánamarkaðnum, hefur yfirumsjón með lánastofnunum ríkisins og stýrir viðskiptabönkunum.  Einkavæðingin hefur lífgað viðskiptin í kauphöllinni í Casablanca, þar sem meira er höndlað með hlutabréf í fyrrum ríkisfyrirtækjum.

Tilraunir ríkisins til að auka útflutning og stýra innflutningi hafa borið nokkurn árangur og dregið hefur úr viðskiptahallanum.  Á tíunda áratugi 20. aldar hafði einnig tekizt að lækka erlendar skuldir verulega.  Þrjár helztu útflutningsafurðirnar eru landbúnaðarafurðir (sítrusávextir og grænmeti), hálfunnar vörur og neyzluvörur (þ.m.t. vefnaður) og fosfat og fosfatafurðir.  Innflutningurinn byggist aðallega á hálfunnum vörurm og tækjum til iðnaðar, hráolíu og matvælum.  Stærsta viðskiptasvæði landsins er ESB.  Á níunda áratugnum fóru fram viðræður milli ESB og Miðjarðarhafslandanna um gagnkvæman fríverzlunarsamning, Fríverzlunarsamtök Norður-Ameríku og lönd í Miðausturlöndum og Norður-Afríku.

Samgöngur.  Vegakerfi landsins tengir hin ólíku héruð.  Þróun þess hófst á nýlendutímanum og stöðugt hefur verið unnið að stækkun þess og viðhaldi síðan.  Járnbrautakerfið tengir helztu borgir í norðurhlutanum og ný spor og endurbættir þjóðvegir tengjast nú svæðunum í Vestur-Sahara (El-Aajún).  Á þriðja tug hafnarborga eru á strandlengju landsins.  Casablanca tekur við u.þ.b. helmingi allra flutninga um höfnina.  Aðrar mikilvægar hafnarborgir eru Safi, Mohammedia, Agadir, Nador, Tangier, Kenitra og El Jorf Lasfar.  Tólf flugvellir geta tekið við stærstu flugvélum en aðalmillilandavöllurinn er við Casablanca.  Konunglega Maroc-flugfélagið (RAM) er ríkisrekið og annast áætlunarflug til Evrópu, Norður-Ameríku, Miðausturlanda og Vestur-Afríku.  Síðla á níunda og fyrri hluta tíunda áratugarins stóð ríkið fyrir mikilli stækkun og nútímavæðingu símakerfisins.  Þessar umbætur fjórfölduðu næstum innanlandsgetuna og bættu mjög sambandið við útlönd.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM