Deilur
Frakka og Þjóðverja um framtíð Marokkós á árunum 1905-06 og
1911.
Fyrri
kreppan. Þegar fyrri
kreppan reið yfir, var Marokkó hnignandi konungsríki undir stjórn
soldánsins. Landið hafði
löngum verið undir stjórn Frakka og Spánverja af viðskipta-,
efnahags- og hernaðarlegum ástæðum.
Árið 1905 virtust Frakkar, sem áttu verðmæt viðskiptaítök
í landinu, vera að ná varanlegri fótfestu ásamt Spánverjum.
Þjóðverjar voru ákveðnir að gera áætlanir Frakka að engu
og 31. marz 1905 lenti Vilhjálmur II, Þýzkalandskeisari, í Tangier
og lýsti stuðningi Þjóðverja við sjálfstæðisbaráttu
landsmanna. Þetta var
opinber ögrun við Frakka og var ætlað að neyða þá til fylgilags
við Þjóðverja. Stjórn
Þýzkalands gerði þetta til að reka fleyg milli Frakka og
Englendinga, sem höfðu ekki bolmagn til að koma Frökkum til aðstoðar
hernaðarlega. Rússar, sem
voru bandamenn Frakka, höfðu heldur ekki mátt til að styðja þá
vegna nýafstaðins stríðs við Japana og byltingarinnar 1905.
Franska
stjórnin var klofin í viðbrögðunum gegn þessari ögrun.
Forsætisráðherrann, Maurice Rouvier, vildi semja við Þjóðverja
en utanríkisráðherrann, Theophile Delcasse, hataði Þjóðverja og
vildi verjast. Rouvier, sem
óttaðist stríð, þvingaði Celcasse til að segja af sér í júní
og vonaði að þessar aðgerðir liðkuðu fyrir í samningum við Þjóðverja.
Þjóðverjar kröfðust ráðstefnu leiðtoga stórveldanna í
Marokkó til að hægt væri að staðfesta sjálfstæði Marokkó og auðmýkja
og einangra Frakka. Þjóðverjar
töldu, að hin stórveldin myndu ekki styðja Frakka.
Ráðstefnan
var haldin í Algeciras á Spáni snemma árs 1906.
Niðurstaðan var ekki Þjóðverjum í hag.
Samþykkt var að viðhalda sjálfstæði Marokkós en Frakkar
fengu lögregluvald og leyfi til bankastarfsemi, sem gerði þeim kleift
að draga úr sjálfstæðinu. Öflugur stuðningur Breta við Frakka á ráðstefnunni og
upphaf viðræðna milli ríkjanna um hernaðarbandalag í janúar
treysti böndin milli þjóðanna í stað þess að veikja hlekkina
eins og Þjóðverjar höfðu vonað.
Seinni
kreppan. Snemma árs
1911 sendu Frakkar hersveitir til höfuðborgar Marokkós, Fez, til að
bjarga soldáninum, sem var í umsátri í borginni eftir uppreisnir ættbálkanna.
Þjóðverjar álitu að þetta væri upphaf yfirtöku Frakka í
Marokkó og kröfðust nýlendna úr höndum Frakka í staðinn fyrir
samþykki fyrir stofnun fransks verndarsvæðis í Marokkó.
Þjóðverjar sendu fallbyssubátinn Pardusdýrið til Agadir 1.
júlí 1911 til að leggja áherzlu á kröfur sínar.
Þessi
þýzka ögrun leiddi til íhlutunar Breta. Hinn 21. júlí 1911 hélt fjármálaráðherra Breta, David
Lloyd George, ræðu í Mansion House og varaði Þjóðvarja við því
að ganga of langt í kröfum sínum gegn Frökkum.
Frakkar tóku einarðari afstöðu gegn kröfum Þjóðverja
eftir þessa ræðu og spennan jókst, þegar Þjóðverjar kenndu
Bretum um óbilgirni Frakka. Um sumarið hófu Bretar undirbúning að styrjöld við Þjóðverja.
Um haustið varð fjármálakreppa í Berlín og þýzki
keisarinn var ófús til að standa í styrjöld við Breta vegna Marokkós.
Þessi þróun leiddi til málamiðlunar milli Frakka og Þjóðverja
4. nóvember 1911, þar sem Frakkar tryggðu sér völdin í Marokkó í
staðinn fyrir tvær landræmur í Franska-Kongó, sem Þjóðverjar
fengu. |