Marokkó sagan II,

SAGAN III      

MAROKKÓ
SAGAN II

.

.

Utanríkisrnt.

 

Fyrsti hershöfðingi (síðar marskálkur) Frakka, Louis Hubert-Gonzalve Lyautey, sem var landstjóri, hafði barizt í Indó-Kína (Vietnam), Alsír og Madagaskar.  Hann var aristókrati og kunni vel að meta menningu Marokkó.  Fordæmi hans við stjórn landsins var fylgt til loka franskra yfirráða 1956.

Abd al-Hafid gat ekki sætt sig við nýju valdhafana.  Hann hætti afskiptum af landsmálum eftir nokkra mánuði og settist að í Tangier hjá bróður sínum.  Þriðji bróðirinn, Moulay Yusuf, sem var mun ábyrgari, var gerður að soldáni.  Hann fann leið til að laga sig að aðstæðum án þess að glata virðingu þegna sinna vegna nauðsynlegra samskipta við frönsk yfirvöld.  Rabat varð höfuðborg og höfnin í Casablanca var gerð að aðalkaupskipahöfn landsins.  Í lok franska tímabilsins 1956 var Casablanca orðin að líflegri borg með næstum 1 milljón íbúa og verulegan iðnað.  Hugmyndir Lyauteys um að byggja evrópskar borgir í nokkurri fjarlægð frá gömlu marokkósku borgunum tryggði tilvist gömlu borgarhlutanna.  Stríðsreksturinn í fyrri heimsstyrjöldinni truflaði þessa þróun lítið.  Franska stjórnin lagði til að Lyautey takmarkaði frönsku yfirráðin við strandlengjuna en honum tókst að halda öllu yfirráðasvæði Frakka í landinu undir sinni stjórn.

Eftir fyrri heimsstyrjöldina blöstu tvö meginvandamál við í landinu.  Nauðsynlegt var að koma á friði á afskekktum svæðum í Atlasfjöllum, þar sem ríkisstjórn soldánsins hafði lítil áhrif.  Þetta tókst árið 1934.  Hitt vandamálið var uppreisn Abd el-Krim, sem breiddist út frá spænska yfirráðasvæðinu.  Frökkum og Spánverjum tókst að bæla hana niður árið 1926.  Sama ár tók borgaralegur landstjóri við af Lyautey marskálki.  Þessi mannaskipti breyttu stjórnunarmunstrinu í átt að því, sem tíðkaðist í nýlendunum, ollu fjölgun Evrópumanna í landinu og meiri áhrifum þeirra á hugsanagang yngri kynslóðarinnar, sem hafði hlotið franska menntun.

Samkvæmt skýrslu Lyauteys frá 1920 var efnilegt, ungt fólk að vaxa úr grasi og það vantaði útrásarleiðir fyrir orku sína.  Hann sagði að stjórnarfarið í landinu gæfi þessu fólki aðeins takmörkuð tækifæri til að nýta krafta sína og það fyndi örugglega sína eigin leiðir til athafna.  Sex árum síðar var það farið að farið að hittast í Rabat og Fez og krefjast umbóta innan ramma verndarsamningsins.  Það krafðist fleiri skóla, nýs réttarkerfis og skerðingar sjálfstjórnar berba í suðurhlutanum.  Það krafðist einnig námsmöguleika í Frakklandi og Austur-Arabíu og afnáms nýlenduhaldsins. 

Frakkar settu yngri son Moulay Yusuf, Sidi Muhammad (Muhammac V), á valdastól, þegar hann dó 1927.  Hann var rólegur að eðlisfari en sýndi síðar talsverða diplómatíska hæfileika og ákveðni.  Frakkar reyndi stöðugt að ala á ósamkomulagi milli araba og berba til að draga úr samkennd þjóðarinnar eins og kom vel fram í svokallaðri berbatilskipun árið 1930.  Áhrif hennar voru þveröfug og vöktu þjóðernisandann, þannig að Frakkar neyddust til að draga verulega í land.  Árið 1933 stofnuðu þjóðernissinnar til hátíðarhalda á svonefndum krúnudegi til að halda upp á afnæli valdatöku soldánsins.  Þegar hann heimsótti Fez næsta ár var honum gífurlega vel fagnað og íbúarnir efndu til mikilla mótmælaaðgerða gegn Frökkum.  Yfirvöld ákváðu að stytta heimsóknina af þessum sökum.  Stofnun stjórnmálaflokka fylgdi í kjölfarið og kröfunni um sjálfstæði landsins jókst stöðugt fylgi.  Samtímis þessum atburðum náðu Frakkar því markmiði að leggja Suður-Marokkó að fullu undir sig og Spánverjar náðu Ifni.  Árið 1937 urðu óeirðir í Meknes, þar sem franskir innflytjendur voru sakaðir um að hamstra vatn á akra sína á kostnað innfæddra bænda.  Í kjölfarið var leiðtoginn Muhammad ‘Allal al-Fasi dæmdur í útlegð til Gabon í Frönsku-Miðbaugsafríku, þar sem hann dvaldi næstu níu árin.

Síðari heimsstyrjöldin og sjálfstæði.  Árið 1939, þegar síðari heimsstyrjöldin brauzt út, hvatti soldáninn til samvinnu við Frakka og fjöldi berba og annarra skráði sig til þjónusu í hernum og stóð sig með sóma.  Uppgjöf Frakka árið 1940 og stofnun Vichy-stjórnarinnar breytti öllum aðstæðum.  Soldáninn sýndi sjálfstæði sitt með því að neyta að udirrita lög gegn gyðingum.  Þegar Bandamenn lentu á ströndum landsins 1942 neitaði hann fyrirmælum franska hershöfðingjans og landstjórans, Auguste Nogues, að flytjast inn í land.  Árið 1943 hitti soldáninn Bandaríkjaforseta, Franklin D. Roosevelt, á leið sinni til Casablanca-ráðstefnunnar.  Roosevelt hafði veruleg áhrif á soldáninn vegna þess, hve lítt hrifinn hann var af veru Frakka í landinu.  Koma bandarískra og brezkra hersveita hafði líka mikil áhrif á þjóðina, því að henni opnaðist sýn inn í annan heim, sem hún hafði aldrei kynnzt áður.

Fólkið hlustaði mikið á útvarpsútsendingar bandamanna og öxulveldanna, sem hvöttu til sjálfstæðis landsins.  Þjóðernishreyfingin tók sér nafnið Sjálfstæðisflokkurinn (Hizb al-Istiglal).  Í janúar 1944 lagði flokkurinn til við soldáninn og bandamenn, að landið fengi sjálfstæði og stjórnarskrárbundna stjórn.  Leiðtogar flokksins, m.a. Ahmad Balafrei, aðalritari hans, voru ákærðir að ósekju og handteknir fyrir samstarf við nasista.  Þessar aðgerðir ollu óeirðum í Fez og annars staðar og rúmlega 30 mótmælendur voru drepnir.  Árið 1947 bað soldáninn nýjan og umbótasinnaðan hershöfðingja og landstjóra, Erik Labonne, um að fá leyfi fyrir sig til að heimækja Tangier og fara um spænskt yfirráðasvæði á leiðinni.  Ferðin var ein samfelld sigurganga fyrir soldáninn.  Þegar hann flutti ræðu í Tangier eftir frábærar móttökur í norðurhluta landsins, lagði hann áherzlu á tengsl þjóðarinnar við arabaheiminn og sleppti öllu hóli um hina frönsku verndara.

Labonne var umsvifalaust leystur frá störfum og hershöfðinginn (síðar marskálkur) Alphonse Juin frá Alsír tók við.  Juin, sem var vel að sér í málefnum Norður-Afríku, var hliðhollur ungum þjóðernissinnum landsins og lofaði að koma því til leiðar, að borgir landsins komust undir innlenda stjórn.  Hann skapaði sér þó óvild með því að stinga upp á því, að franskir borgarar yrðu líka borgarfulltrúar.  Soldáninn nýtti sér einu forréttindin, sem hann átti eftir, og neitaði að undirrita tilskipanir hershöfðingjans, þannig að þær öðluðust ekki lagagildi.  Heimsók til Frakklands í október 1950 og góðar móttöku þar gerðu ekkert til að milda skoðanir soldánsins og þegar hann kom aftur heim var honum tekið fádæma vel.

Í desember rak Juin hershöfðingi fulltrúa þjóðernissinna út af fjárlagafundi ríkisstjórnarinnar.  Tíu aðrir fulltrúar þjóðernissinna gengu af fundi.  Juin hugleiddi að fylla skörðin með höfðingjum berba.  Síðar í mánuðinum var haldin veizla í höll soldáns.  Þar sakaði Thami al-Glaoui, berbahöfðingi, soldáninn um að vera að leiða þjóðina til glötunar.

Sidi Muhammad neitaði stöðugt samvinnu við Frakka.  Juin lét innlenda hermenn undir eftirliti franskra hersveita umkringja höllina undir því yfirskini, að hann væri að vernda soldáninn fyrir hugsanlegum innlendum morðingjum.  Við þessar aðstæður neyddist Sidi Muhammad til að afneita ákveðnum stjórnmálaflokki, sem hann nefndi ekki á nafn.  Hann hélt uppteknum hætti og neitaði að undirrita tilskipanir, þ.á.m. þá, sem átti að gera frönskum borgurum kleift að verða borgarfulltrúar og borgarráðsmenn.  Heimafyrir var framganga Juins gagnrýnd harðlega og Augustin Guillaume, hershöfðingi, tók við landstjórninni í ágúst 1951.  Á krýningarhátíðinni (18. nóv.) lýsti soldáninn vonum sínum um tryggingu fyrir fullu sjálfstæði Marokkós með áframhaldandi samstarfi við Frakka, eins og hann hafði tekið fram í bréfi til Frakklandsforseta.  Þetta vandræðaástand hélt áfram fram í desember 1952, þegar verkalýðsfélög í Casablanca skipulögðu mótmælafund í kjölfar morðs túnisíska verkalýðsleiðtogans Ferhat Hashad, sem Frakkar létu líklega myrða.  Þessi fundur endaði með átökum við lögregluna, sem fangelsaði nokkur hundruð þátttakenda og hélt þeim í tvö ár í fangelsi án réttarhalda.

Í apríl 1953 hófu Abd al-Hayy al-Kittani, leiðtogi trúfélagsins Kittaniya, fjöldi berbaleiðtoga undir forystu Al-Glaoui og margir franskir liðsforingjar og landnemar undirbúning að því að koma soldáninum frá völdum.  Ríkisstjórn Frakka, sem hafði verið upptekin við innanríkismál, skipaði soldáninum loks að hann afsalaði sér völdum til marokkóskra ráðherra og franskra forstjóra og undirrita allar tilskipanirnar, sem hann hafði neitað að árita.  Soldáninn lét undan en það var ekki nóg fyrir óvini hans.  Al-Glaoui setti frönsku ríkisstjórninni afarkosti í ágúst.  Soldáninn og fjölskylda hans voru rekin úr landi og setti Moulay Ben Arafa, sem var mun undirgefnari, í hans stað.  Þessar aðgerðir bættu ekki ástandið, því að Sidi Muhammad varð strax þjóðhetja.  Stjórn spænska hlutans, sem hafði ekki verið með í ráðum, leyndi ekki óánægju sinni.  Spænski hlutinn varð þar með að hæli fyir þjóðernissinna.

Í nóvember 1954 varð aðstaða Frakka enn flóknari vegna frelsisstríðsins, sem brauzt út í Alsír, og í júní næsta ár breytti ríkisstjórn Frakklands stefnu sinni og skipaði Gilbert Grandval landstjóra.  Tilraunir hans til málamiðlunar mistókust vegna þögullar andstöðu margra liðsforingja og ódulins fjandskapar meirihluta frönsku landnemanna.  Marokkóskir þingmenn voru þá kallaðir til fundar í Frakklandi og þar var samþykkt, að leppsoldáninn léti af völdum og hirðráð tæki við.  Sidi Muhammad samþykkti þessa tillögu en það tók margar vikur að fá leppsoldáninn til að flytjast til Tangier.  Samtímis þessu hófu skæruliðar frelsishersins að herja á franskar herstöðvar í grennd við spænska hlutann.

Í október lýsti Al-Glaoui því yfir, að endurkoma Muhammad V væri eina leiðin til að lægja öldurnar.  Franska ríkisstjórnin samþykkti að leyfa soldáninum að mynda stjórnarskrárbundna ríkisstjórn fyrir landið og Sidi Muhammad snéri aftur til Rabat í nóvember.  Sjálfstæðisyfirlýsing landsins var kunngerð 2. marz 1956.  Soldáninn myndaði ríkisstjórn með þátttöku hinna ýmsu flokka og ættbálka landsins og fyrrum franskar valdastofnanir urðu að ráðuneyti ríkisstjórnar landsins.

SAGAN III

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM