Spænski
hlutinn.
Spænska verndarsvæðið í norðurhluta landsins náði milli
Larache (El-Araish) við Atlantshafið að línu 48 km handan Melilla við
Miðjarðarhafið. Fjalllendið,
sem berbar bjuggu og búa í, hafði löngum verið utan seilingar soldánanna.
Spánverjar fengu líka ræmu af eyðimörkinni í suðvesturhlutanum,
Tarfaya, sem lá næst Spænsku-Sahara.
Árið 1934 lögðu Frakkar Suður-Marokkó undir sig og Spánverjar
fengu Ifni.
Spánverjar
skipuðu kalífa (varakonung) úr marokkósku konugsfjölskyldunni sem
þjóðarleiðtoga og komu upp leppstjórn.
Á þennan hátt gátu Spánverjar hagað málum eins og þeim líkaði
án afskipta Frakka og á yfirborðinu virtist þjóðin einhuga.
Tangier var undir alþjóðlegri stjórn með franskan leppfulltrúa
soldánsins í fararbroddi, þótt þar byggju 40.000 spænskumælandi
íbúar. Árið 1940 tóku
Spánverjar við stjórninni þar eftir uppgjöf Frakka fyrir Þjóðverjum
en þeir drógu sig í hlé eftir sigur bandamanna í síðari
heimsstyrjöldinni.
Spænski
hlutinn lá umhverfis hafnarborgirnar Ceuta og Melilla, sem Spánn hafði
ráðið um aldir, og yfir járnnámurnar í Rif-fjöllum.
Höfuðborg spænska hlutans var Tétouan.
Stjórn héraðanna var með svipuðu sniðu og í franska
hlutanum. Spánverjar náðu
fyrst fótfestu á sléttunni við Atlantshafið með borgunum Larache,
Ksar el-Kebir og Asilah. Þetta
svæði var áður aðalaðsetur fyrrum landstjóra Marokkó, Ahmad
al-Raisuni (Raisuli), sem var hálfgilding föðurlandsvinur og stigamaður.
Spánverjum fannst óviðunandi að láta hann leika lausum hala
en hann hélt til fjalla í marz 1913, þar sem hann undi í 12 ár áður
en annar marokkóskur leiðtogi, Abd el Krim, handsamaði hann.
Abd
el-Krim var berbi, menntaður í arabískum fræðum og talaði bæði
spænsku og arabísku. Hann
lenti í fangelsi eftir fyrri heimsstyrjöldina fyrir undirróðursstarfsemi
og fór síðar til Ajdir í Rif-fjöllum til að skipuleggja byltingu.
Í júlí 1921 lagði hann spænskt herlið, sem hafði verið
sent honum til höfuðs, að velli og stofnaði í kjölfarið Rif-lýðveldið.
Hann gafst ekki upp fyrr en Spánverjar og Frakkar sendu 250 þúsund
manna lið til að kveða hann niður.
Í maí 1926 gafst hann upp og var sendur í útlegð.
Það
sem eftir var af spænska tímanum var tiltölulega friðsamt.
Francisco Franco, hershöfðinja, tókst því að hefja innrás
sína í Spán árið 1936 frá Marokkó með fjölda marokkóskra sjálfboðaliða,
sem þjónuðu honum af tryggð og hollustu í borgarastyrjöldinni á
Spáni. Þótt spænski
hlutinn byggi yfir færri náttúruauðlindum, var stjórn þeirra þar
frjálslegri en í franska hlutanum og minna bar á kynþáttamisrétti.
Kennsla í skólum fór fram á arabísku fremur en spænsku og námsmenn
voru hvattir til að stunda nám í fræðum islam í Egyptalandi.
Engar tilraunir voru gerðar til að etja berbum aröbum líkt og
í franska hlutanum, en ástæðan kann að hafa verið sú staðreynd,
að Abd el-Krim sjálfur kom á múslimskum lögum.
Eftir endalok Rif-lýðveldisins var lítið um samstarf milli
verndarríkjanna og misklíðarefnunum fjölgaði og náðu hámarki, þegar
Frakkar ráku soldáninn í útlegð 1953.
Spænski landsstjórinn, sem var ekki hafður með í ráðum,
neitaði að viðurkenna þessar aðgerðir og afneitaði ekki valdi
soldánsins í spænska hlutanum. Þjóðernissinnar,
sem neyddust til að flýja franska hlutann, fundu hæli í spænska
hlutanum.
Árið
1956 kom það spænskum yfirvöldum í opna skjöldu, þegar Frakkar ákváðu
að veita Marokkó sjálfstæði. Engu að síður tókst að ná svipuðu samkomulagi við Spánverja
7. apríl 1956 og soldáninn heimsótti Spán því til staðfestingar.
Spænskum yfirráðum lauk því á friðsamari hátt en hin frönsku.
Eftir að Spánverjar og kalífinn hurfu á braut frá Tétouan
breyttist borgin aftur í rólega héraðshöfuðborg.
Þegar marokkóski frankinn var tekinn upp sem gjaldmiðill í
stað peseta, hækkaði framfærslukostnaður mikið í fyrrum spænska
hlutanum, og frönskumælandi embættismenn, sem tóku við af hinum spænskumælandi,
ollu erfiðleikum. Á árunum
1958-59 ollu þessar breytingar glundroða á Rif-svæðinu.
Tangier missi mestan hluta ljóma síns, þegar alþjóðlegri
stjórn lauk. Evrópskum íbúum
og gyðingum fækkaði á báðum fyrrum verndarsvæðunum.
Marokkó fékk Tarfaya-verndarsvæði árið 1958 og Spánverjar
afhentu Ifni án skilyrða árið 1970 og vonuðust til að fá að
halda melilla og Ceuta. Þessar tvær borgir, Ceuta við Gíbraltarsund og Melilla
austar, við Miðjarðarhaf, eru enn þá spænsk yfirráðasvæði, þar
sem íbúarnir eru að mestu Spánverjar.
Árið 1978 yfirgáfu Bandaríkjamenn herstöð sína við
Kenitra, hina síðustu í Norður-Afríku.
Sjálfstætt
Marokkó.
Frakkar höfðu bætt samgöngur og byggt nútímahverfi í
borgunum, bætt landbúnað og stofnað til nútímaiðnaðar víða um
landið. Evrópumenn stjórnuðu
flestum þessara framkvæmda og fyrirtækja.
Þróun á stjórnsýslusviðinu hafði staðið í stað.
Soldáninn að nafninu til alráður, þótt ríkisstjórnin væri
í rauninni undir frönsku eftirliti.
Frakkar kröfðust þess, að fyrsta ríkisstjórnin eftir sjálfstæðis
yfirlýsinguna, byggðist á ráðherrum, sem væru fulltrúar hinna ýmsu
hagsmunahópa þjóðfélagsins, þ.m.t. gyðinga.
Mubarak Bekkai, sem var óflokksbundinn liðsforingi í hernum,
var kosinn forsætisráðherra. Soldáninn,
sem tók sér konungsnafn í ágúst 1957, valdi sjálfur ráðherrana
og hélt stjórninni yfir hernum og lögreglunni.
Hann skipaði ráðgjafarþing með 60 fulltrúum.
Elzti sonur hans, Moulay Hassan, varð yfirmaður herráðsins og
tókst jafnvel að innlima hina dreifðu hópa frelsisbaráttunnar eftir
að þeir höfðu stutt uppreisn gegn Spánverjum í Ifni og Frökkum í
Máritaníu.
Valdaskiptin,
sem fóru fram með aðstoð franskra ráðgjafa, fóru vel fram.
Spenna ríkti milli Marokkó og Frakka vegna stríðsins í Alsír,
sem Marokkómenn studdu, en nánu sambandi var haldið vegna þess, að
Marokkó átti mikið undir tækni- og fjárhagsaðstoð frá Frökkum.
Miklar
pólitískar breytingar urðu árið 1959, þegar Istiglal klofnaði í
tvær fylkingar. Stærri
fylkingin var áfram undir forystu Muhammad ‘Allal al-Fasi en hin
minni kaus sér Mehdi Ben Barka, Abdullah Ibrahim, Abd ar-Rahim Bouabid
og fleiri til forystu og stofnaði Baráttuflokk alþýðunnar (UNFP).
Stærri fylkingin hélt áfram undir merkjum hefðarinnar en UNFP
óx upp frá rótum ungra menntamanna, sem aðhylltust sósíalisma og lýðræði.
Muhammad V nýtti sér þennan ágreining til að gerast hlutlaus
gjörðarmaður. Hann dó
óvænt árið 1961 og sonur hans, Hassan II, tók við völdum.
Árið
1963, þegar loks kom að þingkosningum, lentu klofningsflokkarnir í
stjórnarandstöðu en stuðningsflokkur konungs fékk meirihluta.
Þessi flokkur var í rauninni samsafn margra minni flokka, sem tók
sér nafnið Verndarflokkur stjórnarskárinnar.
Meðal þeirra var dreifbýlisflokkur berba, sem var andstæður
Istiglal-flokknum. Það lá
við stjórnarkreppu og soldáninn rauf þing eftir tæpt ár og stýrði
landinu sjálfur. Árið
1970 var lögð fram ný stjórnarskrá. Þar var gert ráð fyrir einnar deildar þingi.
Í júlí næsta ár gerði herinn hallarbyltingu og 1973 kynnti
Hassan aðra stjórnarskrá. Herinn
gerði aðra hallarbyltingu í ágúst. Þar var fremstur í flokki varnarmálaráðherrann, Muhammad
Oufkir, hershöfðingi, sem hafði verið orðaður við mannrán í París,
þegar útægum UNFP-leiðtoga, Mehdi Ben Barka, var rænt og hann
hvarf. Hann hafði verið
nefndur sem líklegt forsetaefni í landinu.
Hann lézt í forsetahöllinni, líklega fyrir eigin hendi, en mörg
hundruð grunaðra voru handtekin, þar á meðal nokkrir ættingjar
hans. Í kosningunum 1977
vann flokkur konungsins stórsigur og háværar raddir voru uppi um
kosningasvik. Áætlun
konungsins um innlimun Spænsku-Sahara öfluðu honum miklar vinsældir
um miðjan áttunda áratuginn.
Snemma
á níunda áratugnum ollu uppskerubrestir, veikur efnahagur og dýrt
stríð í Vestur-Sahara aukinni spennu innanlands, sem brauzt út í óeirðum
í Casablanca í júní 1981. Þörfin
fyrir umbætur í stjórnsýslunni urðu augljósari, þegar alþjóðlegar
lánastofnanir og mannréttindasamtök beindu athyglinni að óstöðugleikanum
innanlands í Marokkó.
Dregið
hefur úr hættu á uppreisn öfgasinnaðra múslima líkt og í Alsír,
en hættulegustu hóparnir eru undir stöðugu eftirliti.
Óánægð æska landsins og stuðningsmenn öfgamanna hafa reynt
mjög á þolrif yfirvalda. Tíundi
áratugurinn einkenndist af auknu frelsi til orðs og æðis, þótt enn
þá væri bannað að gagnrýna konunginn og fjölskyldu hans.
Mannréttindamálum var gefinn meiri gaumur og fjöldi
samvizkufanga var látinn laus og dregið var úr völdum lögreglu og
öryggissveita. |