Noregur meira,
Flag of Norway

ÍBÚARNIR LANDIÐ SAGAN STJÓRNSÝSLA

NOREGUR
MEIRA

.

.

Utanríkisrnt.

Sendiráð og ræðismenn

Booking.com

Frá Noregi til Íslands eru u.þ.b. 1100 km, þar sem stytzt er. Eyjar við Noreg eru taldar u.þ.b. 150.000.  Þær eru samtals u.þ.b. 22.000 km².  Rúmlega 2000 eyjar eru byggðar.  Stærst þeirra er Hinnöy, 2136 km². Hér um bil helmingur landsins liggur yfir 500 m hæð yfir sjó.  Hæstu fjöll Noregs eru Galdhöpiggen og Glitretindur, sem eru næstum 2500 m háir. Stöðuvötn skipta mörgum tugum þúsunda, flest smá, og samtals 14.000 km².  Stærsta vatnið er Mjörsvatn (Mjösa) á Upplöndum, 360 km².  Dýpsta vatnið er Hornidalsvatn í Norðfirði í Firðafylki, 514 m djúpt.

Næstum fjórðungur alls þurrlendis er skógi vaxinn, 75.000 km².  Tveirþriðjuhlutar skóglendisins eru barrskógar.  Lauftré vaxa einkum á láglendinu austanfjalls (eik, beyki, linditré, ösp, askur, álmur, hlynur og hesliviður).  Birkið vex mest til fjalla, fyrir ofan barrskógana, sem eru aðallega tvenns konar, greni og fura.  Barrté vaxa í sunnanverðum Noregi, stundum í allt að 1000 m hæð, en í Norður-Noregi í 300-400 m hæð.

Ósló er gamall bær, en margt er á huldu um elztu sögu hennar.  Í Sverrissögu er sagt, að Haraldur Sigurðarson hinn harðráði hafi sett borgina á stofn, en sú sögn er talin hæpin og vafalaust hefur staðið þorp fyrr en það, þar sem Ósló er nú.  Það er eðlilegur hafnarstaður fyrir auðug og frjósöm héruð.

Framan af var Ósló ekki stjórnsetur, því að konungarnir sátu í Niðarósi eða Björgvin.  Um 1300 varð hún höfuðborg landsins, því að Hákon Magnús-son háleggur settist þá að þar.  Er gizkað á, að íbúar borgarinnar hafi þá verið um 3000.  Nokkrum áratugum síðar hætti hún að vera konungssetur, því að Danakonungar náðu þá Noregi undir sig.  Borginni hrakaði þá mjög og íbúum fækkaði.  Um 1550 er talið að þeir hafi ekki verið nema 1500.  Um 1600 tók hún að eflast á ný, en 1624 brann mestur hluti hennar.  Kristján IV lét reisa borgina á ný og var hún kennd við hann, Christiania, og hét hún svo til 1924, þegar Óslóarnafnið var tekið upp á ný.  Á 17. og 18. öld óx borgin fremur hægt.  Um 1800 munu íbúarnir hafa verið tæp 10.000.  Árið 1814 varð borgin stjórnarsetur sjálfstæðs ríkis á ný, þótt konungarnir sætu að jafnaði í Stokkhólmi.  Þá tók hún að vaxa og um 1880 bjuggu þar um 110.000 manns. Sjá meira um Ósló


FUNDURINN Á EIÐSVELLI 1814.
Árið 1813 gengu Svíar til liðs við óvini Napóleons og hófst þá styrjöld milli Svía og Dana.  Í Svíþjóð réð þá mestu Bernadotte, fyrrverandi hershöfðingi Napóleons, sem hafði verið kjörinn ríkiserfingi þar.  Danir og Frakkar fóru halloka í þessum ófriði og urðu Danir að semja sérfrið í Kiel í janúar 1814.  Þeir urðu að láta Noreg af hendi við Svía, en héldu Íslandi, Grænlandi og Færeyjum.  Landsstjóri í Noregi var þá Kristján Friðrik, frændi Friðriks VI Danakonungs.  Hann kvaddi til fundar á Eiðsvelli í febrúar 1814, þar sem því var lýst yfir, að Noregur væri algerlega sjálfstætt ríki og var Kristján Friðrik kjörinn til konungs 17. maí sama ár.

Eftir að sænskur her hafði farið inn í Noreg og Svíakonungur fallizt á að taka gilda stjórnarskrá Noregs með nokkrum breytingum, lagði Kristján Friðrik niður völd (síðar Kristján VIII Danakonungur) og Karl XIII Svíakonungur var tekinn til konungs í Noregi.

Deilur héldu áfram milli Norðmanna og Svía og í nóvember 1905 fór fram þjóðaratkvæðagreiðsla í Noregi um framtíðarstjórnarform ríkisins.  Tæplega 260.000 manns greiddu atkvæði með stofnun konungsríkis en tæplega 70.000 með stofnun lýðveldis.  til konungs var tekinn Carl prins, sonarsonur Kristjáns IX Danakonungs og tengdasonur Játvarðar VI Bretakonungs.  Hann tók sér konungsnafnið Hákon VII og var krýndur í Niðarósi árið eftir.

SÖGULEG TENGSL VIÐ ÍSLAND
AUÐLINDIR, FLÓRA og FÁNA
EFNAHAGSLÍFIÐ
TÖLFRÆÐI

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM