Fyrrum
var Noregur bændasamfélag líkt og Ísland.
Þar erjuðu bændur landið, stunduðu fiskveiðar og skógarhögg
og ungir menn hleyptu heimdraganum og sigldu út í heim.
Enn þá eru þessar athafnir í fullu gildi en iðnaður er orðinn
aðalatvinnuvegur landsins.
Iðnaður.
Iðnþróunin byggðist og byggist á ódýrri vatnsorku og Norðmenn
voru lengi mestu notendur raforku miðað við höfðatölu.
Meðal orkufrekra iðnfyrirtækja eru verksmiðjur, sem framleiða
ál, kopar, nickel, sink, títaníum og köfnunarefni í tilbúinn áburð
og sprengiefni. Verksmiðjur, sem framleiða trjákvoðu og pappír nýta bæði
raforku og trjávið. Nokkuð
er um stál- og járnframleiðslu í norðurhluta landsins og mikið er
um skipasmíðar og byggingu olíuborpalla auk framleiðslu vökvaaflstækja.
Olíuiðnaðurinn í Norðursjónum skapaði mörg atvinnutækifæri,
s.s. við framleiðslu tækja, birgðaöflun og aðra þjónustu. Lækkun heimsmarkaðsverðs á olíu olli talsverðum erfiðleikum
við dýra vinnlslu olíunnar í Norðursjónum.
Landbúnaður.
Nú á dögum eru einungis 7% vinnuaflsins bundin í landbúnaði.
Landbúnaðurinn er erfiður vegna fjalllendisins og skorti á
frjósömum jarðvegi, þannig að einungis 3% landsin eru talin nýtileg
á þessu sviði. Beitilönd
eru víð og breið og heyöflun tiltölulega auðveld.
Landið er sjálfu sér nægt með mjólk og mjólkurvörur.
Ræktunin beinist aðallega að höfrum, byggi og hveiti auk
kartaflna og fóðurkáls. Kornvara
og ávextir eru að mestu innfluttir.
Bændabýli eru lítil og langflest í einkaeign. Samvinnufélög
sjá að mestu um vinnslu og sölu afurða og innkaup fyrir landbúnaðinn.
Skógarhögg
er verulegur atvinnuvegur, sem oft er í höndum bænda, sem eiga mestan
hluta skóglendis. Trjáviðurinn
er aðallega unninn í verksmiðjum, sem framleiða trjákvoðu og pappír
til útflutnings og innanlandsþarfa.
Fiskveiðar
eru stundaðar víðast með ströndum fram.
Þar ber hæst stór og lítil úrgerðafélög og bændur, sem
drýgja tekjur sínar á þennan hátt.
Djúpsjávarveiðar eru stundaðar með verksmiðjutogurum og útflutningur
fiskafurða vegur þungt í efnahagslífinu.
Einkum er fluttur út frosinn þorskur og niðursonar sardínur
og síld. Síldin er líka brædd og notuð í fiskimjöl.
Hvalveiðar voru mun mikilvægari atvinnugrein á 20. öldinni en
nú. Fiskirækt hefur verið
í stöðugum vexti frá síðari hluta 20. aldar og hún hefur orðið
fyrir ýmsum hremmingum á sokkabandsárunum.
Engu að síður líta menn björtum augum til framtíðar á því
sviði og halda ótrauðir áfram.
Aðalútflutningsvörur
landsins eru trjákvoða, fiskur, hráolía, náttúrulegt gas, málmar,
efnavara og vélbúnaður. Gasleiðslur
hafa verið lagðar til nokkurra nágrannalanda.
Innflutningur
til landsins byggist aðallega á vélbúnaði, eldsneyti og olíuvörum,
efnavöru og textílvöru. Aðalviðskiptalöndin
eru m.a. Svíþjóð, Þýzkaland og Bretland.
Samgöngur.
Fjöllinn og firðirnir gera lagningu járnbrauta og vegagerð mjög
erfiða. Járnbrautin milli
Ósló og Björgvinjar fer um 184 göng.
Mikill fjöldi ferja sér um flutninga yfir langa og djúpa firðina.
Aðalleiðirnar frá Ósló liggja um dalina eða með ströndum
fram. Vegakerfið var bætt
verulega, þegar landið fór að hagnast á Norðursjávarolíunni en
enn þá er fátt um hraðbrautir nema í nágrenni Ósló.
Flutningar
á sjó eru enn þá veigamiklir. Skerjagarðurinn og eyjarnar meðfram ströndinni skýla
flutningaleiðunum. Kaupskipafloti
Norðmanna er einhver hinn stærsti í heimi.
Hann er veigamikil tekjulind.
Landslag og veðurfar gera samgöngur og flutninga oft erfiða.
Vegalengdir milli borga landsins eru miklar og samgöngur í
lofti hafa komið sér vel. Víða
eru notaðar litlar sjóflugvélar, þar sem er ekki hægt að koma
flugvöllum við vegna landslags eða veðurfars í afskekktum sveitum.
Norðmenn, Svíar og Danir reka flugfélagið SAS, sem varð
fyrst til að hefja áætlunarflug yfir Norðurpólinn til BNA og
Japans. Aðalalþjóðaflugvöllur
landsins er við Fornebu nærri Ósló.
Landsíminn
er ríkisrekinn og ríkisútvarpið sér um rekstur útvarps og sjónvarps.
Fjöldinn allur af einkastöðvum er líka á öldum ljósvakans. |