Noregur söguleg tengsl við Ísland,
Flag of Norway


NOREGUR
SÖGULEG TENGSL VIÐ ÍSLAND

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

HEIÐMERKUR er alloft getið í fornsögunum.  Á dögum Ólafs helga var konungur þar Hrærekur, sem var mikill óvinur Ólafs.  Lét konungur blinda hann og síðan flytja til Íslands.  Hann lézt á Kálfskinni í Eyjafirði og er sagður eini konungurinn, sem hvílir í íslenzkri mold.
UPPLÖND koma talsvert við fornsögu Norðmanna og þar hafa fundizt ýmsar fornminjar.  Í vatninu Rönd drukknaði Hálfdán konungur hinn svarti, faðir Haralds hárfagra.

VESTFOLD kemur snemma mikið við sögu Noregs.  Þar hafa fundizt merkustu fornleifar landsins, Gokstadskipið og Osebergskipið. 

Halda sumir að Ólafur konungur Geirsstaðaálfur hafi verið heygður í Gokstadskipinu, en í Osebergskipinu var grafin drottning hans ásamt ambátt sinni og margvíslegum áhöldum, sem hún átti að nota í öðru lífi.

ÞELAMÖRK.  Þar er m.a. borgin Skíðan (Skien), sem er ein af elztu borgum Noregs.  Þess er getið í Sturlungu, að Hákon gamli gerði Þórð kakala að sýslumanni í Skíðunni og lézt þórður þar 1256.

ROGALAND.  Syðsti hluti fylkisins nefnist Dalir og þar norður af er Jaðar (Jæren).  Nyrzt á Jaðri er Sandnes og norðarlega er þar einnig Sóli, þar sem Erlingur Skjálgsson bjó.  Á Sóla er flugvöllur.  Norður af Sóla er Hafursfjörður, þar sem Haraldur hárfagri barði niður síðustu skipulögðu mótspyrnuna innan-lands.  Skammt frá Hafursfirði er Stafangur, sem mun þýða Stafsfjörður (angur = fjörður, vík).  Þar er dómkirkja frá miðöldum (12. eða 13. öld), ein merkasta dómkirkja Noregs að Niðarósdómkirkju einni undanskilinni.  Úti fyrir Rogalandi norðanverðu eru margar eyjar.  Merkust er Körmt (Karmöy).  Norðarlega á eyjunni er Ögvaldsnes (Avaldnes), þar sem Hákon góði barðist við Eiríkssonu.  Um 1700 bjó þar íslenzki sagnaritarinn Þormóður Torfason (d. 1719) og þar er hann grafinn.

HÖRÐALAND.  Meðal syðstu eyjanna á Hörðalandi er Mostur, en þar var Þórólfur Mostrarskegg höfðingi áður en hann fluttist til Íslands.  Fleiri íslenzkir landnámsmenn voru ættaðir af Hörðalandi, m.a. Hrafna-Flóki.  Nokkru fyrir norðan Mostur er eyjan Storð, sem kemur mjög við sögur.  Á Fitjum á Storð féll Hákon góði í viðureign við sonu Eiríks blóðaxar.

BJÖRGVIN (Bergen) stendur nærri miðju Hörðalandi á skaga úti við ströndina.  Björgvin er gamall bær og á sér margar sögulegar minjar.  Bærinn er talinn hafa orðið til á 11. öld og segir sagan að Ólafur kyrri hafi stofnað hann.  Á 13. öld var þar lengstum konungasetur.  Sátu þeir þar að jafnaði Hákon gamli og Magnús lagabætir, sonur hans.  Það var skreiðarverzlun, sem fyrst kom fótum undir Björgvin.  Þaðan var flutt út skreið frá Vestur- og Norður-Noregi.  Í fyrstu var skreiðin aðallega flutt til Englands en á 14. öld náðu Hansakaupmenn skreiðarverzluninni að mestu undir sig.  Mátti heita, að þeir réðu lögum og lofum í Björgvin í tvær aldir eða fram á 16. öld.  Margir Hansakaupmenn fluttust til bæjarins eða dvöldust þar um hríð.  Á vissu tímabili var Hansakaupmönnum í erlendum bæjum bannað að kvænast og voru þeir nefndir piparsveinar vegna þess, að þeir verzluðu einna mest með krydd.  Þótt Íslendingar hefðu meiri skipti við Niðarós en Björgvin, dvöldust margir Íslendingar með Noregskonungum í Björgvin, og má segja, að flestir stórhöfðingjar á Íslandi hafi dvalizt þar lengri eða skemmri tíma.  Létust ýmsir þeirra þar og voru grafnir þar, t.d. Arnór Tumason og Jón murtur, sonur Snorra Sturlusonar.

SYGNA - og  FIRÐAFYLKI.  Við mynni Sognsævar að sunnanverðu er Gula, þar sem talið er að hið forna Gulaþing hafi verið háð.  Úr Sygnafylki var ætt Bjarnar bunu, hersis.   Af þeirri ætt var Auður djúpúðga, Helgi bjólan, Örlygur gamli, Björn austræni í Bjarnarhöfn, Ketill fíflski í Kirkjubæ o.fl.  Úr Sogni var ættaður Ævar hinn gamli Ketilsson, sem nam Langadal og varð ættfaðir Æverlinga í Húnaþingi. - Norður af Sognsbyggðum tekur við Sunnfjörður, suðurhluti hins forna Firða-fylkis.  Þar er t.d. Dalsfjörður, ættbyggð Ingólfs Arnarsonar.  Byggðir þar umhverfis nefndist Fjalir og þar eru einnig Gaular, setur Atla jarls, föður Hásteins landnámsmanns í Flóa.  Úr Firðafylki fluttist og Skallagrímur til Íslands.  Nokkru norðar er eyjan Selja, þar sem áður var frægt klaustur, helgað hinni heilögu Sunnevu.  Skammt norðar er Staður (Stad), hár höfði, sem skilur Sygna- og Firðafylki frá Mæri.  Þar hefur löngum þótt hættuleg siglingaleið.  Þar fórst m.a. Páll Sæmundsson frá Odda árið 1216.

MÆRI kom í fornöld við sögu Íslendinga.  Þar setti Haraldur hárfagri Rögnvald sem jarl.  Sonur hans var Hrollaugur landnámsmaður í Hornafirði.  Dýri landnámsmaður í Dýrafirði var frá Sunnmæri.  Í Raumsdal bjó Ketill raumur hersir, afi Ingimundar gamla.  Af Norðurmæri var Moldagnúpur, sem fyrst nam Álftaver, en settist síðan að í Grindavík.

ÞRÆNDALÖG.  Uppi af Þrándheimsfirði utanverðum liggur Orkadalur og austur af honum Gaulardalur.  Á Rimul á Gaulardal skar Karkur þræll Hákon jarl á háls.  Á heiðum uppi af Gaulardal er námabærinn Röros, þar sem Johan Falkenberget, höfundur Bör Börsson, bjó.

NIÐARÓS stendur við ósa Niðar við sunnanverðan Þrándheimsfjörð.  Heimskringla segir , að Ólafur Tryggvason hafi fyrstur látið gera þar bæ (Kaupang í Niðarósi).  Víst er að bærinn var löngum konungasetur á 11. og 12 öld.  Hann varð erkibiskupssetur 1152.  Ísland laut erkistólnum í Niðarósi frá þeim tíma fram að siðaskiptum.  Í Niðarósi var hið fræga klaustur Helgisetur, þar sem Eysteinn Ásgrímsson, höfundur Lilju, dvaldi um hríð.

Niðarósdómkirkja er talin ein frægasta og sérkennilegasta dómkirkja í Evrópu.  Bygging hennar hófst á 11. öld, en var ekki lokið fyrr en um 1300.  Hún er að mestu í gotneskum stíl, en elztu hlutar hennar eru þó með rómönsku sniði.  Árið 1153 var flutt í Niðarósdómkirkju helgikvæðið Geisli eftir Einar Skúlason, ort í minningu Ólafs helga.  Er það talið elzta heila tímasetta helgikvæðið, en helgikvæðagerð hófst sennilega þegar á 11. öld.

Við austanverðan Þrándheimsfjörð innarlega er bærinn Lifangur (Levanger).  Þar lézt Gunnlaugur Ormstunga af sárum sínum.

Naumudalur er við ána Naumu (Namsen), uppi frá Naumufirði.  Við ósa hennar er Naumuós (Namsos).  Úr Naumdælafylki fóru þeir Ketilbjörn gamli, ættfaðir Haukdæla, og Þorsteinn svörfuður, sem nam Svarfaðardal.  Undan Naumudal er eyjan Hrafnista, sem ætt Hrafnistumanna er kennd við.  Af þeirri ætt var Ketill hængur, sem nam Rangárvelli.

NORÐURLAND.  Syðsti hlutinn kallast Hálogaland (Helgeland).  Þaðan kom t.d. Þuríður sundafyllir og Þórólfur Kveldúlfsson átti bú á Torgum og í Sandnesi á Álöst (Alsteröya).

ÚR EGILSSÖGU:  Eftirtaldir staðir koma við sögu á leiðinni frá Þrándheimi til Bodö (Búðareyjar).  Torgar er rétt hjá Brönnöysund.

Haraldur, sonur Hálfdánar svarta, strengdi þess heit að skera eigi hár sitt fyrr en hann væri einvaldskonungur yfir Noregi.  Hann barðist við þá konunga, sem næstir voru og sigraði þá.  Eignaðist síðan Upplönd og fór norður í Þrándheim.  Hann vann Raumdælafylki og Hálogaland, sigraði Húnþjóf á Mæri og eignaðist Norðurmæri og Raumsdal.

Haraldur konungur setti Rögnvald jarl yfir Mæri og Raumsdal.  Rögnvaldur jarl brenndi Vémund inni í Naustadal.  Breðlu-Kári fór með Rögnvaldi norður á Mæri og tók skip Vémundar og lausafé.  Fór síðan norður til Þrándheims til fundar við Harald konung og gerðist hans maður.

Í fyrstu köflum Egilssögu er sagt frá því, að Kveld-Úlfur hafi verið í víking með Breðlu-Kára og áttu þeir einn sjóð saman.  Börn Kára voru Eyvindur lambi, Ölvir hnúfa og Salbjörg.  Hennar fékk Úlfur.  Synir þeirra voru Þórólfur og Skalla-Grímur.

Þórólfur fór í hernað á tvítugsaldri og synir Breðlu-Kára, Eyvindur og Ölvir.  Kári og Ölvir gerðust menn Haraldar en Kveld-Úlfur sagðist vera orðinn of gamall til að þjóna konungum og Skalla-Grímur vildi ekki gerast lendur maður meðan faðir hans væri á lífi.  Síðar fór Þórólfur á fund konungs og gerðist hans maður.  Faðir hans taldi það ekki verða til hans gæfu.

Í sjöunda kafla Egilssögu segir frá Björgólfi á Hálogalandi, sem bjó í Torgum.  Hann var orðinn aldraður og hafði selt öll ráð í hendur syni sínum Brynjólfi.  Kona Brynjólfs var Helga, dóttir Ketils hængs.  Sonur þeirra var Bárður.

Eitt haustið var veizla í Torgum og meðal gesta var Högni frá Leku og dóttir hans Hildiríður.  Síðar um haustið fór Björgólfur gamli á skútu sinni með 30 manns til Leku og bað Hildiríðar.  Fór hún með honum í Torga (hjá Brunneyjarsundi) og eignuðust þau synina Hárek og Hrærek.  Brynjólfur, sonur Björgólfs, var ekki hrifinn af þessu uppátæki föður síns og þegar gamli maðurinn andaðist, rak hann Hildiríði í burtu.  Fór hún til föður síns í Leku með syni sína tvo.  Þeir ólust þar upp og voru kallaðir Hildiríðarsynir.  Brynjólfur lét þá ekki fá arf eftir Björgólf.

Norður á Hálogalandi heitir fjörður Vefsnir og í honum er eyjan Álöst.  Þar á bænum Sandnesi bjó Sigurður, auðugur maður og lendur.  Bárður Brynjólfsson fór á skútu frá Torgar með 30 manns og bað dóttur Sigurðar, sem var einbirni og hét Sigríður.  Var svo um ráðið, að Bárður sækti Sigríði næsta sumar.  Hann gerðist síðan hirðmaður Haraldar konungs og hitti þar Ölvi hnúfu.  Síðar um haustið komu til hirðarinnar þeir Þórólfur Kveldúlfsson og Eyvindur lambi.  Um vorið fékk Bárður leyfi konungs til að fara á heimaslóðir að sækja unnustu sína og fór Þórólfur með honum.

Brynjólfur og Bárður fóru á Sandnes og var brúðkaup haldið.  Bárður og Þórólfur dvöldu á Torgum um veturinn, en fóru svo aftur til konungs.  Þegar Brynjólfur andaðist fengu Hildiríðarsynir ekki arf.

Í níunda kafla Egilssögu er sagt frá því, þegar Bárður særðist til bana í Hafursfjarðarorrustu.  Áður en hann lézt, gaf hann Þórólfi lönd sín, bú og konu.  Fór Þórólfur þá norður í Torgar og sagði tíðindin.  Hann fór á langskipi sínu ásamt 60 mönnum í Álöst á Sandnes og heimsótti Sigurð föður Sigríðar.  Var brúðkaup hans og Sigríðar gert í Torgum um haustið.  Þegar Sigurður á Sandnesi andaðist tók Þórólfur arf eftir hann.  Hildiríðarsynir leituðu til hans eftir arfi, en Þórólfur vildi eigi greiða.

Haraldur konungur heimsótti Þórólf í Torgum með 300 manna lið, en þótti heldur miður, að Þórólfur skyldi hafa 500 manns með sér.  Í lok heimsóknarinnar gekk Þórólfur með konungi til strandar og gaf honum skip.

Hildiríðarsynir tóku að rægja Þórólf við konung og endaði með því, að konungur kastaði eign sinni á bú Þórólfs í Torgum og afhenti það Hildiríðarsonum.  Þá fór Þórólfur í Sandnes.

Þórólfur heimti skatt í Finnmörku og sendi heimamann sinn, Þorgils gjallanda, til Englands með skinnafarm.  Konungsmenn handtóku hann á heimleið í furusundi.  Þórólfur sigldi til Danmerkur og aftur til Noregs, tók tvö skip (við Mostrarsund og Hísing), fór heim með viðkomu hjá föður sínum.  Þar kom, að konungur fór með lið að Þórólfi, brenndi hús hans og drap hann sjálfan.  Þá sagði Þórólfur: „Nú gekk ég þrem fótum til skammt”.  Eyvindur fékk Sigríðar, en Ölvir fór til konungs.  Ketill hængur drap síðan Hildiríðarsyni í Torgum, hlóð skip sitt og hélt til Íslands.

Torgar eru rétt hjá Brönnöysund.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM