Noregur íbúarnir,
Flag of Norway


NOREGUR
ÍBÚARNIR

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Noregur ei eitthvert strjálbýlasta land meginlands Evrópu.  Margir Norðmenn eru af norrænu bergi brotnir með ljóst hár og blá augu en talsverð blöndun hefur átt sér stað í aldanna rás.  Eini minnihlutahópur landsins er samar, sem búa aðallega í norðurhlutanum og stunda hreindýrabúskap.  Þeir eru af evrópskum uppruna og fjöldi þeirra er u.þ.b. 30.000 í Noregi en þeir búa einnig í Svíþjóð og Finnlandi.  Allmargir Rússar búa á Spitsbergen og fjöldi annarra Norðurlandabúa setjast að í Noregi eða vinna þar um tíma.  Flestir Norðmenn eru í Norsku þjóðkirkjunni.  Stærsta borg landsins og jafnframt höfuðborg er Ósló.  Björgvin er næststærst og síðan kemur Þrándheimur.  Flestar aðrar borgir eru litlar.

Norzkan er norrænt mál og líkist dönsku og sænsku.  Allar þessar tungur eru afsprengi fornnorrænu, sem íslenzkan er skyldust.  Norðmenn tala margar mállýzkur og tvö opinber tungumál eru samhliða viðurkennd í landinu, bókmál og nýnorska.

Noregur á sér sess á menningarkorti Evrópu á sviðum bókmennta, tónlistar og annarra lista.  Elztu bókmenntirnar fjalla um norrænu goðin og konunga landsins, sem lesa má um í Snorra-Eddu og Heimskringu.  Afkomendur norrænu og keltnesku landnemanna á Íslandi rituðu sögurnar, sem fjalla um Ísland og Noreg.  Ritstörf voru lítið stunduð frá þeim tíma fram á 18. öld, þegar Ludvig Holberg skrifaði leikrit, ljóð og ritgerðir á dönsku.  Á 19. öld kom Henrik Wergeland fram sem höfuðskáld Norðmanna.  Hann mótaði þjóðleg stílbrögð í ljóðagerð en Johan Welhaven hélt sig við danskt form.  Á 19. öld voru rithöfundarnir Jonas Lie, Alexander Kjelland og leikritahöfundarnir og skáldin Björnstjerne Björnson og Henrik Ibsen allsráðandi á bókmenntasviðinu..  Ibsen var einn mestu áhrifavalda á þróun leikritunar í Evrópu.  Meðal síðari
tíma rithöfunda voru Knut Hamsun, Sigrid Undset og Olav Duun.  Undset og Björnson fengu Nóbelsverðlaun.

Frægasta tónskáld Norðmanna var Edvard Grieg (1843-1907).  Hann samdi mörg verk, sem hlutu viðurkenningu og njóta vinsælda á alþjóðavettvangi.  Hohan Svendsen hefur veruleg áhrif á nútímatónlist í landinu.

Norsk list er ekki mjög útbreidd á alþjóðavettvangi.  Helzti málari Norðmanna er Edvard Munch (1863-1944), sem hafði áhrif á nútíma expressionista.  Myndhöggvarinn Gustav Vigeland er bezt þekktur fyrir höggmyndasafnið í Frognergarðinum í Ósló.  Styttan af Snorra Sturlusyni í Reykholti er eftir hann.

Vetraríþróttir njóta mikilla vinsælda í Noregi og Norðmenn eru duglegir að sópa að sér verðlaunum í skíðagöngu og skíðastökki á alþjóðlegum keppnum.  Á sumrin er vinsælt að fara í langar gönguferðir, klífa fjöll og sigla með ströndum fram.  Þegar Ólafur V, konungur, var krónprins, vann hann Ólympíuverðlaun í siglingum 1928.

Skólaskylda í Noregi er á aldrinum 5-16 ára og er frí.  Auk grunnskóla eru margs konar framhaldsskólar, tækniskólar og fagskólar.  Háskólar eru fjórir, í Ósló, Björgvin, Þrándheimi og í Tromsö auk átta annarra menntastofnana á háskólastigi.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM