Samar
búa í Samalandi og tala samísku tungumálin þrjú,
sem eru svo ólík, að samarnir skilja þau ekki innbyrðis.
Sumir álita samt, að þau séu mállýzkur af sama meiði.
Þau eru finnóúrgisk og af úralstofni.
Flestir samar tala a.m.k. tvö tungumál og margir tala ekki
lengur móðurmálið
Heildarfjöldi sama í lok 20. aldar var u.þ.b. 63.000 (N.
35.000; Sv. 20.000; Fi. 6.000; R. 2000).
Samar eru afkomendur hirðingja, sem lifðu í Skandínavíu í
þúsundir ára og líklega voru margar samabyggðir í Finnlandi, þegar
fyrstu Finnarnir komu þangað árið 100 e.Kr.
Finnar hafa smám saman hrakið þá norðar, líkt og gerðist síðar
í Noregi og Svíþjóð.
Uppruni sama er óljós en sumir fræðimenn telja þá af paleosíbrískum
stofni en aðrir af stofni fjallafólks í Mið-Evrópu.
Hreindýrarækt
var aðalatvinnuvegur sama þar til á síðari hluta 20. aldar.
Upphaf hennar nær ekki margar aldir aftur í tímann, því að
þeir veiddu dýrin sér til matar áður fyrr og héldu nokkur dýr til
að laða hin villtu að.
Hirðingjarnir bjuggu í tjöldum eða torfhúsum og færðu sig
með hjarðirnar milli beitilanda.
Venjulega önnuðust 5-6 fjölskyldur hverja hjörð og þær
veiddu bæði láðs- og lagardýr sér til matar.
Hjarðlífið heyrir eiginlega sögunni til, því að hjarðmennirnir
gæta hjarðanna án fjölskyldna sinna, sem hafa fasta búsetu við nútímaþægindi.
Það er líkt á komið með sömum og Íslendingum að því
leyti að sauðféð gengur hér sjálfala á sumrin og er réttað og
dregið sundur á haustin og í Lapplandi ganga hjarðirnar saman og eru
síðan dregnar sundur.
Margir norskir samar stunda fiskveiðar og víða annars staðar
eru samar farnir að stunda hefðbundinn búskap, skógrækt, vatnaveiði
og námugröft.
Margir eru farnir að stunda þjónustustörf í auknum mæli, bæði
fyrir hið opinbera og í einkarekstri.
Samar taka æ ríkari þátt í samnorrænu starfi, mennta- og
menningarlífi.
Finnsku
(skolt) og rússnesku samarnir eru flestir í rússnessku rétttrúnaðarkirkjunni
en flestir hinna eru lúterstrúar.
Shamantrú var útbreidd meðal sama á forkristilegum tíma og
enn þá gætir áhrifa hennar meðal þeirra.
Í norðurhéruðum landsins eru enn þá strangtrúaðir hópar
evangelista, sem eru alls ráðandi á sínum svæðum.
Norðmenn, Svíar og Finnar reyndu löngum að aðlaga sama þjóðskipulagi
landa sinna og notkun samísku var bönnuð.
Á síðari hluta 20. aldar tókst sömum að vekja verðskuldaða
athygli á sérstöðu sinni, tungumáli, hefðum og verndun beitilanda
sinna.
Nú hafa þeir áhrif
á pólitískum og menningarlegum vettvangi, gefa út dagblöð og
reka aðra fjölmiðla. |