Ívan IV, kallaður Ívan
grimmi, tók sér keisaranafn 1547 og lagði undir sig suðausturhluta Rússlands
að Kaspíahafi. Ívan
grimmi var einráður og stjórnaði frá virkinu Kreml.
Bændastéttin var ánauðug en það leiddi til víðtækra
uppreisna á 17. öld. Þær voru allar barðar niður með harðri hendi.
Í kjölfar
landafundanna miklu hnignaði efnahag landsins.
Því var mætt með stórfelldum landvinningum á 16. og 17. öld,
þegar Rússar lögðu undir sig N-Rússland, Síberíu og hluta Úkraínu.
Útþenslan kallaði á
aukna miðstýringu og í tíð Péturs I mikla í upphafi 18. aldar
komst Rússland í fremstu röð stórvelda í Evrópu og opnaði sér aðgang
að Eystrasalti með landvinningum af Svíum.
Evrópskra áhrifa tók
að gæta í auknum mæli og stjórnsýsla var endurskipulögð að
vesturevrópskum hætti. Embættismannaaðall
tók við af þeim gamla og hirðin tók upp vestræna siðu.
Höfuðborgin var færð til Pétursborgar og þungamiðja ríkisins
þar með færð vestar og á síðari hluta 18. aldar lögðu Rússar
undir sig mikinn hluta Póllands og löndin norðan Svartahafs.
Í Napóleonsstríðunum
efldist enn staða Rússlands. Rússar
náðu m.a. Finnlandi af Svíum árið 1809.
Þrátt fyrir vestræn áhrif, hertu valdhafar stöðugt tökin
innanlands. Viðleitni til
landvinninga umhverfis Svartahaf leiddi til Krímstríðsins við Breta,
Frakka og Tyrki 1853-56. Rússar
biðu þar lægri hlut og næstu árin var stuðlað að uppbyggingu
innanlands.
Bændaánauðinni var
aflétt 1861 en bændur voru áfram mjög háðir landeigendum og þjóðfélagsþróun
var almennt mun skemmra á veg komin í Rússlandi en almennt í Evrópu á þessum
tíma.
Á síðari hluta 19.
aldar hófst iðnvæðing og með henni varð til verkamannastétt í
borgum landsins. Þjóðfélagslegur
ójöfnuður leiddi fljótlega til vaxandi ólgu í landinu og
byltingarhreyfingum óx fiskur um hrygg.
Útþenslustefnan hélt
áfram á síðari hluta 19. aldar og þá í austurátt.
Rússar töpuðu í stríði við Japana 1904-05 og álitshnekkir
sá, sem keisarastjórnin beið olli byltingartilraun 1905.
Hún var barin niður, en dúman, þing, sem engin völd hafði
í raun og veru, var stofnuð til að lægja óánægjuöldurnar.
Rússar drógust inn í
fyrri heimsstyrjöldina vegna togstreitu við Austurríki-Ungverjaland
um ítök á Balkanskaga. Þeim varð þó um megn að heyja styrjöld á þessum mælikvarða
til lengdar, sökum vanþróunar á ýmsum sviðum og málalok urðu þau,
að í marz 1917 sagði keisarinn af sér og skammlíf bráðabirgðastjórn
tók við og reyndi að heyja stríðið áfram.
Í október (nóv. skv.
núgildandi tímatali) árið 1917 tóku bolsévíkar völdin með
byltingu. Víðtækar umbætur
voru innleiddar, m.a. var lögboðin átta stunda vinnudagur.
Finnland fékk þá sjálfstæði og haldnar voru frjálsar
kosningar.
Bolsévíkar, sem voru
aðalhvatamenn byltingarinnar, fengu hins vegar aðeins um fjórðung
atkvæða. Þeir brugðust
við með því að leysa upp þingið með hervaldi í janúar 1918.
Kommúnistaflokkurinn
varð til í marz 1918 upp úr flokki bolsévíka og á 8. þingi hans
árið 1919 voru hinar ýmsu stofnanir flokksins stofnaðar.
Borgarastyrjöld geisaði áfram til 1920 en árið 1922 urðu
breytingar á stjórnskipun, þegar ríkið var formlega gert að
sambandi Sovétlýðvelda.
Íslenskir ríkisborgarar verða að hafa gilda vegabréfsáritun í
vegabréfi sínu þegar ferðast er til Rússlands.
Þegar sótt er um vegabréfsáritun til Rússlands verður að framvísa
eftirfarandi:
- Eina passamynd í stærð 35 til 45
mm með ljósum bakgrunni (ekki brosandi skv. ICAO - reglum).
- Útfyllt spurningaeyðublað, sjá
hlekk hér að neðan
- Vegabréfi sem gildir í a.m.k. 6
mánuði eftir áætlaða brottför frá Rússlandi.
- Nákvæmar upplýsingar um
fyrirhugaða ferð (flug og gisting)
- Bréf til staðfestingar á umsókn um
vegabréfsáritun frá ferðaþjónustuaðila.
- Sönnun fyrir að umsækjandi sé með
gilda alþjóðlega sjúkratryggingu.
|