Moskva,
stærsta borg Rússlands, er höfuðborg og innlandshafnarborg landsins.
Hún var höfuðborg Sovétlýðveldanna til 1991. Hún er einnig höfuðborg héraðsins Moskva-Oblast við
Moskvuána. Moskva er
söguleg móðurborg allra Rússa og miðstöð stjórnmála og
menningar allra landsmanna. Hún er miðstöð samgangna í lofti, á landi og á
vatnaleiðum. Skipgengar
vatnaleiðir eru m.a. Moskvuskurðurinn, Moskvuáin og Volga-Don-skurðurinn,
þannig að borgin er tengd Eystrasalti, Hvítahafi, Svartahafi og Kaspíahafi auk
Azovshafs. Heildarflatarmál
borgarinnar er tæplega 900 ferkílómetrar.
Sammiðja hringvegir borgarinnar voru lagðir, þar sem stóðu
fyrrum varnarmúrar, og skipta borginni í borgarhluta.
Fjærst miðborginni eru íbúðahverfi.
Í miðju þessara hringvega og hálfhringvega er Kreml, fyrrum
setur stjórnar landsins og Rauða torgið.
Lestakerfið neðanjarðar er velskipulagt og brautarstöðvarnar
eru skreyttar marmara.
Kreml
stendur við bugðu á bökkum Moskvuár.
Veggir Kremlar eru allt að 21 m háir og yfir þeim gnæfa 19
turnar. Þeir umkringja þríhyrningslagað svæði með höllum og
kirkjum og öðrum minnisvörðum keisaradæmisins allt frá miðöldum. Byggingu stóru Kremlarhallarinnar lauk árið 1849 og hún
er mest áberandi innan múranna. Granovitaya-höllin
(1491) og Terem-höllin (1636) njóta sín líka vel.
Meðal
kirkjubygginga,
sem eru nú aðallega söfn, eru Krýningarkirkjan og
Erkiengilskirkjan, báðar með gylltum kúplum og Uppstigningarkirkja
Maríu (13.-14. öld) með níu gylltum kúplum.
Turn Ívans mikla er 98 m hár bjölluturn.
Á palli við hlið hans stendur Keisarabjallan (u.þ.b. 200
tonn), einhver stærsta kirkjuklukka heims.
Henni var aldrei hringt. Nýleg
viðbót við Kreml er ráðstefnuhöllin, sem var lokið við árið
1961. Í þessari
risabyggingu voru haldnir fundir Sovétlýðveldanna og kommúnistaflokks
landsins. Húsið hefur
einnig verið notað sem leikhús og aðrar listgreinar hafa verið hýstar
þar.
Kirkja hl. Basils
er fræg fyrir einstakan byggingarstíl og
litaða kúpla.
Hún er við annan enda Rauða torgsins.
Undir Kremlarmúrum við Rauða torgið er grafhýsi Lenins með
jarðneskum leifum hins horfna leiðtoga.
Eitthvert
kunnasta hverfi Moskvu er
„Kitaigorod”,
Kínverska borgin, sem er
gamla verzlunarhverfið austan Kremlar.
Þar eru nú margar stjórnarbyggingar.
Meðal annarra áhugaverðra staða í borginni eru
Leninleikvangurinn með u.þ.b. 130 byggingum fyrir ýmsar íþróttir
og Ostankino sjónvarpsturninn með snúningsveitingahúsi og útsýnispalli.
Viðskipti
og iðnaður.
Auk þess að vera hafnarborg fimm hafa og þess vegna einhver
mesta verzlunarborg heims er Moskva leiðandi iðnaðarborg sem framleiðir
u.þ.b. sjöttung allra iðnvara, sem voru framleiddar í Sovétríkjunum.
Raforka er næg í borginni og iðnaðurinn mjög fjölbreyttur.
Meðal þess, sem framleitt er, eru flugvélar, hágæðastál, kúlulegur,
bifreiðar og önnur farartæki, smíðavélar, raftæki, nákvæmnistæki,
viðtæki, efnavara, textílvara, skór, pappír, húsgögn og skotfæri.
Framleiðsla matvæla, prentun og járnbrautaviðgerðir eru
mikilvægar iðngreinar. Nokkrar nágrannaborganna, sem verða smám saman hluti af Stór-Moskvu,
eru miklar iðnaðarborgir.
Menningarstofnanir.
Í borginni eru rúmlega 75 æðri menntastofnanir en ríkisháskólinn
er hin mikilvægasta og var hin stærsta í fyrrum Sovétríkjunum.
Nærri 700 vísindastofnanir eiga sér höfuðstöðvar í
Moskvu. Meðal stórkostlegra
safna eru Tretyakov listasafnið, A.S. Pushkin listasafnið, Ríkissögusafnið,
V.I. Leninsafnið og Safn um austurlandamenningu.
Safnið um efnahagslegan árangur er hýst í 72 sölum, þar sem
rakin er saga iðnaðar, landbúnaðar, vísinda og menningar.
Umhverfis safnið er grasagarður Rússnesku vísindaakademíunnar.
Söguágrip.
Árið 1147 hófst saga borgarinnar sem hluta af furstadæminu
Suzdal. Ekki er ljóst,
hvenær byggð hófst þar. Saga
þorpsins, sem varð að stórborg, hófst árið 1295, þegar það varð
höfuðborg hins nýstofnaða furstadæmis Moskvu.
Vöxtur bæjarins var sérstaklega hraður á fyrri hluta 14.
aldar, þegar völd og auður hlóðust á furstadæmið.
Árið 1325 fluttist erkibiskup rétttrúnaðarkirkjunnar til
Moskvu og gerði borgina að trúarlegri miðstöð landsins.
Ívan III Vasilyevich, stórhertogi (1462-1505), sem sameinaði rússnesku
furstadæmin, gerði Moskvu að stjórnmálalegri höfuborg.
Rússneska stjórnin var flutt til Pétursborgar árið 1712.
Moskva
hefur oft orðið fyrir miklum áföllum, s.s. eldsvoðum, plágum, uppþotum,
uppreisnum, umsátrum og erlendri hersetu.
Hersveitir Napóleons náðu borginni á sitt vald 12. sept.
1812. Rússneskir föðurlandsvinir
brenndu borgina, svo að Frakkar urðu að hverfa þaðan og yfirgefa Rússland.
Íbúar borgarinnar tóku þátt í byltingunni 1905 og októberbyltingunni
1917. Eftir hina síðari
varð Moskva höfuðborg Sovétríkjanna.
Stórir hlutar borgarinnar voru endurbyggðir eftir sigur bolsévíka. Þjóðverjar komust inn í úthverfi borgarinnar í desember
1941 en voru hraktir brott. Árið
1991 var borgin miðpunktur þeirra atburða, sem leiddu til hruns Sovétríkjanna.
Áætlaður íbúafjöldi árið 1990 var tæplega 9 milljónir. Íslenskir
ríkisborgarar verða að hafa gilda vegabréfsáritun í vegabréfi sínu
þegar ferðast er til Rússlands.
Þegar sótt er um vegabréfsáritun til Rússlands verður að framvísa
eftirfarandi:
- Eina passamynd í stærð 35 til 45
mm með ljósum bakgrunni (ekki brosandi skv. ICAO - reglum).
- Útfyllt spurningaeyðublað, sjá
hlekk hér að neðan
- Vegabréfi sem gildir í a.m.k. 6
mánuði eftir áætlaða brottför frá Rússlandi.
- Nákvæmar upplýsingar um
fyrirhugaða ferð (flug og gisting)
- Bréf til staðfestingar á umsókn um
vegabréfsáritun frá ferðaþjónustuaðila.
- Sönnun fyrir að umsækjandi sé með
gilda alþjóðlega sjúkratryggingu
MOSKVA
er ein af ellefu borgum í Rússlandi sem riðlakepni HM
2018. mun fara fram
Ísland er
fámennasta landið í sögunni sem tryggir sér sæti á
lokamóti HM í knattspyrnu karla (2018)
eftir 2:0-sigur á Kósóvó á Laugardalsvelli
9. oktober 2017.
Strákarnir dvelja hótel Nadezhda í bænum Gelendzhik
við Svartahafið á
meðan HM stendur yfir. |