Moskva I Rússland,
Flag of Russia

MOSKVA II MOSKVA lll . Mynd:  Dúman

MOSKVA l
RÚSSLAND

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Nafn borgarinnar kom fyrst fram í frásögn af hátíð, sem Yury Wladimirovich Dolgoruky, prins í Suzdal, hélt bandamanni sínum, prinsinum af NovgoroSeversky, árið 1147.  Rússar halda sig við þetta ár sem upphaf Moskvu, þótt margar minjar hafi fundizt um fyrri búsetu, eða allt frá nýsteinöld. Einnig hafa fundizt merki um járnvinnslu og leðurgerð frá 11. öld.  Þegar árið 1156 lét Dolgoruky prins víggirða borgina með varnargörðum úr jarðvegi og timbri á svæði, þar sem Kreml stendur núna.  Ekki eru allir á eitt sáttir með skýringu á nafni Kremlar.  Sumir rekja það til grísks orðs, sem þýðir einfaldlega virki eða bratty.  Aðrir nota rússneska orðið „krem” , sem þýðir toppmjótt, fullvaxið barrtré.  Kremlvirkið stóð á Tungu milli Moskvuár og lítillar þverár, Neglinnava.  Að austan var grafið virkissíki milli ánna.  Áin Neglinnava rennur nú neðanjarðar í borginni og ofan á henni er samnefnd gata.

Moskva varð brátt meðal mikilvægustu borga furstadæmisins Vladimir-Suzdal.  Austan Kremlar settu kaupmenn upp bækistöðvar sínar, þar sem heitir Zaradye.  Mongólar rændu og brenndu borgina eins og þeir gerðu annars staðar á árunum 1236-40 og prinsar hennar urðu að lúta yfirráðum þeirra.  Moskva byggðist fljótt upp aftur, þrátt fyrir eins árás enn árið 1293.  Þremur árum síðar voru varnir Kremlar styrktar með nýjum varnargarði og eikarstaurum og viðskipti og handiðnir fóru að blómstra.  Brátt tók borgin við hlutverki Suzdal og Vladimir, sem voru aðalborgir furstadæmisins.  Hún var vel í sveit sett við samgöngukerfið á ánum og gamlar verzlunarleiðir.

Svæðin norðan Moskvu voru betur fallin til landbúnaðar en víðast í Norður-Rússlandi, þannig að þar efldist landbúnaður og velstæðar borgir.  Staða hennar efldist við flutning erkibiskups rétttrúnaðarkirkjunnar  frá Vladimir 1326 og síðan hefur Moskva verið miðstöð hennar.  Á valdatíma Ivans I Katila var Vladimir innlimuð í Moskvu.  Prinsar borgarinnar sölsuðu smám saman undir sig völdin á landsvæðunum í kringum hana og hún varð leiðandi afl í baráttunni gegn yfirráðum Mongóla.  Í fyrstu mátti ekki á milli sjá hvorir hefðu betur.  Árið 1378 vörðust hersveitir Moskvu árás við Vozha-ána sunnan borgarinnar og árið 1380 gjörsigraði Dmitry prins mongóla, sem voru undir stjórn Mamai khans hins mikla, við Don.  Þá var búið að stækka Kreml og byggja múra úr hvítum kalksteini árið 1367, sem nægðu þó ekki til að standast árás mongóla 1382.  Þá tókst Moskvubúum ekki að hrekja þá brott og Tokhtamysh khan rændi og eyðilagði borgina.  Enn voru mongólar á ferð 1408 með Yedigei khan í fararbroddi og fóru halloka.  Moskva stækkaði stöðugt og máttur hennar jókst.  Fyrsta steinkirkjan, helguð himnaför Maríu, var byggð í Kreml árið 1326.  Höll fyrir prinsinn og aðalsmenn hirðarinnar, munkaklaustur og kirkjur voru byggðar.  Utan Kremlarmúra stækkaði hverfi kaupmanna og handiðnaðarmanna í austurhlutanum og fengu nafnið Kitay-gorod á 16. öld.  Þetta nafn er líklega dregið af stauragirðingunum, sem voru sett upp til varnar hverfinu áður en steinmúrar voru byggðir.

Moskvar verður höfuðborg.  Á síðari hluta 15. aldar, eftir innlimun Novgorod 1478, var Moskvar orðin miðstöð hins sameinaða, rússneska ríkis.  Á valdatíma stórprinsins í Moskvu, Ivan III hins mikla, var Krem enn stækkuð og tæplega 2 km langur múrveggur var reistur, sums staðar 18 m hár.  Samtímis var kirkja himnafarar Maríu endurbyggð og Facet-höllin og bjölluturn Ivans III byggð.  Árin 1534-38 var byggður múrveggur með 12 turnum utan um Kitay-gorod, sem hafði fram að því verið varin með moldargarði og tréverki.  Borgin óx stöðugt utan múranna og hverfið Bely Gorod (Hvíta borgin) myndaðist í hálfhring utan um Kreml og Kitay-gorod.

Þrátt fyrir allar varnirnar galt borgin afhroð í árásum og eldsvoðum.  Árið 1547 eyddu tveir eldsvoðar næstum allri borginni.  Ívan IV hinn hræðilegi náði undir sig tatarahéruðunum Kazan (1552) og Astrakhan (1556) og krímversku tatararnir lögðu Moskvu undir sig 1571 og eyddu öllu nema Kreml.  Samkvæmt annálum lifðu u.þ.b. 30 þúsund af 200 þúsund borgarbúum þessar hörmungar af.  Sömu tatarar réðust aftur á borgina 1591 en höfðu ekki erindi sem erfiði.  Nýir múrar, u.þ.b. 9 km langir, höfðu verið reistir umhverfis Bely Gorod.  Þessir múrar stóðu þar sem nú er trjáprýdd, breið hringgata í borginni.  Árið 1592 var byggður ytri múr með 50 turnum, einnig á hægri bakka Moskvu.  Þessi nýja viðbót við borgina var kölluð Skorodom en fékk síðar nafnið Zemlynoy Gorod (Austurborgin).  Garðhringurinn um borgina sýnir okkur legu þessa múrs.  Yztu varnirnar voru mjög vel varin munkaklaustur sunnan og austan borgarinnar, aðallega Novodevichy-, Donskoy-, Danilovsky-, Simonov-, Novospassky- og Andronikov-klaustrin.  Flest þeirra eru nú söfn.

Öruggari varnir borgarinnar ýttu undir verzlun og handiðnir, sem blómstruðu.  Borgin fór að skiptast upp í hverfi hinna mismunandi iðngreina og gilda.  Í Bronnaya voru herklæðasmiðir, járnsmiðir í Kuznetskaya og í Kotelniki voru katlasmiðir.  Hinum megin í borginni vorur vefarar.  Þessara hverfa handiðnaðarmanna er minnst í götu- og hverfanöfnum.  Ríkisreknar smiðjur steyptu fallbyssur, smíðuðu önnur vopn og blönduðu byssupúður.  Keisarahirðin og ættingjar aðalsmanna keyptu gæðaframleiðsluna.  Aðalsmennirnir fóru að koma sér fyrir í Kitay-gorod og handiðnaðarmenn fluttust til úthverfanna.  Kreml varð smám saman setur æðstu manna ríkis og kirkju.  Rauða torgið, milli Kreml og Kitay-gorod, var aðalmarkaðurinn.  Þar stóðu langar raðir sölubása með sérvörur.  Rússneska orðið „krasnaya”, sem var upphaflega nafn torgsins, þýðir bæði rauður og fallegur.  Viðskipti við Vestur-Evrópu, einkum England og Holland, auk Mið-Asíu, Transkákasus, Persíu og lönd við Svartahaf voru fjörug.  Þessi viðskipti byggðust mikið á skinnavöru.  Erlendir kaupmenn bjuggu í Nemetskaya Sloboda (Þýzka hverfinu) og menningarlífið blómstraði.  Markaður fyrir bækur jókst og fyrsta prentsmiðjan var byggð 1553.

Hungursneyð var á árunum 1601-03, þegar Goris Godunov var við stjórn.  Hann dó 1605 og Dmitry hinn falski hrifsaði völdin í Moskvu með aðstoð Pólverja.  Hann var drepinn 1606 og Pólverjar hraktir brott.  Þeir snéru aftur og annar Dmityr hinn falski tók völdin (1608-10).  Moskvubúar réðust á Pólverjana í maí 1611.  Þeir hörfuðu inn fyrir Kremlarmúra.  Undir forystu Prins Dmitry Mikhaylovich Pozharsky og kaupmannsins Kusma Minin tókst Moskvubúum að neyða Pólverja til uppgjafar í október 1612.

Romanovættin tók við völdum árið 1613 (Michael) og allgóður friður komst á.  Viðskipti fóru að blómstra á ný en fátæklingar borgarinnar stofnuðu oft til óeirða líkt og gerðist árin 1382, 1445 og 1547.  Árið 1648 kom til óeirða vegna hækkunar saltskattsins og aftur 1662, þegar handiðnaðarmenn, verkamenn og kaupmenn gerðu uppreisn.  Uppreisnin mikla, Stenka Razin, í Suður-Rússlandi 1667-71 breiddist út alla leið til Moskvu og árið 1671 var Razin tekinn af lífi í Moskvu borgarbúum til viðvörunar.  Herinn og „streltsy” bældu uppreisnirnar niður en gerði síðan sjálfur uppreisn á dögum Péturs I hins mikla, sem barði þá miskunnarlaust niður.  Menningin dafnaði í landinu, þrátt fyrir þennan stöðuga ófrið.  Fyrstu æðri menntastofnanir landsins voru stofnaðar.  Slavnesk-grísk-latneska akademían við Zaikonospassky-klaustrið í Kitay-gorod var stofnuð 1687.  Árið 1701 stofnaði Pétur mikli Stærðfræðiskóla og Siglingafræðiskóla.  Fyrsta dagblað landsins var gefiö út í Moskvu árið 1703.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM