Moskva III Rússland,
Flag of Russia

MOSKVA I MOSKVA II MOSKVA IV Krýningarkirkjan.

MOSKVA III
RÚSSLAND

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Lega og byggingarlist.  Yfirlitskort af Moskvu sýnir munstur sammiðja hringja og hálfhringja umhverfis ójafnan þríhyrning Kremlar og ferhyrninglagaðs framhalds hennar, Kitay-gorod, og beinna gatna út frá miðjunni, sem tengja hringina.  Moskvuáin, sem hefur norðvestur-suðausturstefnu, brýtur þetta munstur upp.  Hringirnir og geislar þeirra eru sögulegar minjar um vöxt borgarinnar.  Breiðgötu- og Garðahringirnir sýna útþensluna á mismunandi tímum og eru báðir á sömu slóðum og fyrrum múrar borgarinnar voru.  Litlahringsjárnbrautin er að hluta þar sem Kamer-Kollezhsky-tollgirðingin stóð og loks er Hringvegurinn.

Miðja borgarinnar er hin víggirta og sögulega Kreml, veldistákn Rússland og fyrrum Sovétríkjanna.  Múrar hennar með brjóstvörnum og 20 turnum (19 með spirum) voru byggðir í lok 15. aldar, þegar fjöldi ítalskra húsameistara komu til Moskvu í boði Ívans III hins mikla.  Frelsaraturninn (Spasskaya; 1491), sem snýr að Rauða torginu, byggði Pietro Solario, sem hannaði flesta aðalturnana.  Klukkuturni hans var bætt við á árunum 1624-25.  Hljómar bjallanna heyrast í útvarpinu sem tímamerki.  Turn hl. Nikuláss (1491 endurb. 1806) snýr líka að Rauða torginu.  Hinir tveir aðalhliðturnarnir á vesturmúrnum eru Þrenningarturninn (Troitskaya) með brú og ytri turni, Kutafya-turninum, og Borovitskaya-turninn.

Innan Kremlarmúra er eitthvert stórkostlegasta safn byggingarsögunnar í heimi, kirkjur, hallir, sem eru opnar almenningi, og æðstu valdastofnanir ríkisins, þar sem öryggisgæzla er mikil.  Umhverfis Dómkirkjutorgið (Sobornaya Ploshchad) eru þrjár glæsilegar kirkjur, frábær dæmi um rússneska kirkjugerðarlist á hápunkti í lok 15. aldar og upphafi hinnar 16.  Þær voru ekki, fremur en aðrar kirkjur landsins, notaðar til guðsþjónustu eftir byltinguna 1917 og voru gerðar að söfnum.  Hvíta Krýningarkirkjan (Uspensky Sobor) er elzt (1475-79) í ítalsk-býsantískum stíl.  Einföld og falleg hlutföll hennar og glæsilegir bogar eru krýndir fimm gylltum kúplum.  Erkibiskupar og patríarkar rétttrúnaðarkirkjunnar á 14.-18. öld voru grafnir í henni.  Handan torgsins er Uppstigningarkirkjan (Blagoveshchensky Sobor; 1484-89), sem húsameistarar frá Pskov byggðu.  Hún brann árið 1547 og var endurbyggð á árunum 1562-64.  Yfir fjölda kapellna hennar eru gyllt þök og kúplar.  Innandyra er fjöldi helgimynda frá 15. öld, sem eru raktar til  Grikkjans Theophanes og Andrey Rublyov, sem eru taldir meðal mestu listamanna á þessu sviði.  Þriðja kirkjan, Erkiengilskirkjan, var endurbyggð á árunum 1505-08.  Þar voru prinsar Moskvu grafnir (nema Boris Gudunov) fram að stofnun Pétursborgar.

Skammt utan torgsins er hinn fagri, hái og hvíti klukkuturn Ívans mikla, byggður á 16. öld.  Hann skemmdist 1812 og var lagfærður nokkrum árum síðar.  Við hlið hans er hin risavasna Keisaraklukka (Tsar-Kolokol; tæpl. 200 tonn), sem var steypt á árunum 1733-35 en var aldrei hringt.  Keisarafallbyssan er þar nærri (1586).  Við hlið hennar eru Postulakirkjan (Sobor Dvenadtsati Apostolov) og Patríarkahöllin.

Vestan Dómkirkjutorgsins eru nokkrar hallir frá mismunandi tímum:  Fellingahöllin (Granovitaya Palata) með hvítu steinflötunum var byggð á árunum 1487-91.  Á bak við hana er Teremhöllin frá 1635-36, sem nær yfir sjö eldri kirkjur, m.a. Endurlífgunarkirkju Lazarusar (Voskreseniye Lazarya) frá 1393.  Báðar urðu þær að hluta Stóruhallar, sem var byggð sem keisarahöll á árunum 1844-51 og síðar notuð fyrir aðalfundi miðstjórnar Sovétríkjanna.  Gulleit forhlið hennar snýr að ánni.  Hún er tengd Vopnahöllinni (Oruzheynaya Palata; 1844-51), þar sem vopnasafnið er nú með fjölda dýrgripa keisaranna.  Meðfram norðausturmúrnum er vopnabúrið (1702-36), fyrrum Öldungahúsið (1776-88) og Liðsforingjaskóli Rauða hersins (1932-34).  Ráðstefnuhöllin er gríðarstórt mannvirki (1960-61), sem er notað sem leikhús og stjórnmálafundi.

Rauða torgið (Krasnaya Ploshchad) liggur meðfram austurmúrnum.  Það er hátíðasvæði borgarinnar og vettvangur hátíðaskrúðgangna og fyrrum hersýninga.  Yfirlætislítið grafhýsi Lenins fellur inn í múrinn.  Þar eru jarðneskar leifar Lenins og flestra annarra, gengna leiðtoga landsins eftir hans dag.  Við suðurenda Rauða torgsins er Bænakirkjan, betur þekkt sem Kirkja hl. Basils hins blessaða, sem var byggð á árunum 1554-60 til minningar um ósigur tatara (mongóla) í Kazan og Astrakhan fyrir Ívan IV hinum grimma.  Hún sýnir glæsilega duttlunga í byggingarstíl með 10 mismunandi kúplum að gerð og lit.  Kremlarmegin á Rauða torginu er Verzlanamiðstöð ríkisins, GUM, með löngum svalagönguleiðum, járnbrúm, sem tengja efri hæðirnar og miklu glerþaki.  Ríkissögusafnið (1875-83) lokar fyrir norðendann á torginu.  Árið 1990 var Kreml og Rauða torginu bætt á heimsvarðveizlulista UNESCO.

Í Kínahverfinu (Kitay-gorod) standa enn þá margar gamlar kirkjur.  Áhugaverðastar eru Þrenningarkirkjan (1628-34) í Nikitniki, Getnaðarkirkja hl. Önnu (15. öld) og Þrettándakirkjan (1693-96).  Kínahverfið var viðskiptamiðstöð Moskvu um aldir og við þröngar og fjölfarnar götur þess eru fyrrum bankar, kauphöllin og vöruhús.  Margar gamlar byggingar niðri við ána voru rifnar á sjöunda áratugnum til að rýma fyrir hinu stóra Rossiya hóteli.  Meðfram norðurhlið hótelsins er röð verndaðra húsa, þ.á.m. hús Romanov-aðalsins og gamla enska sendiráðið og 17. aldar munkaklaustur.

Innbærinn.  Í öðrum hlutum innbæjarins, innan Garðahringsins (Sadovoye Koltso), eru byggingar frá öllum stigum borgarinnar frá 15. öld fram á okkar daga.  Þar eru nokkrar 17. aldar kirkjur á víð og dreif, .s.s Allraheilagrakirkjan í Kulishki (eftir 1670; turninn endurnýjaður eftir 1980) og Forlagakirkja Putniki (1649-52).  Þetta var tímabil þróunar barokstílsins í borginni og bezta dæmið um hann finnst í Bænakirkjunni í Fili (1693), sem er utan miðbæjarins.  Byggingar í endurreisnarstíl fóru að rísa á síðari hluta 18. aldar og ná til endurbyggingar borgarinnar eftir brunann 1812 (Napóleon).  Því er enginn skortur á þeim innan Garð- og Breiðgötuhringsins, sem nær í hálfhring kringum Kreml og Kínahverfið að norðanverðu.  Einnig er fjöldi slíkra húsa í Zamoskvoreche, sem er að mestu íbúðabyggð sunnan Moskvu.  Góð dæmi um klassíska stílinn eru gamli háskólinn og fyrrum þingstaður aðalsins með súlnasalnum (nú Hús verkalýðsfélaganna).  Kazakov byggði báðar þessar byggingar eftir 1780.  Einnig má nefna  Pashkov húsið (1785-86), sem er nú hluti af ríkisbókasafni Lenins, Lunin húsið (1818-23), nú Austurlenzka listasafnið, Manezh (reiðskólinn; 1817), sem er nú notaður sem sýningahöll og Bolshoileikhúsið (1821-23; endurbyggt 1856 eftir eldsvoða).  Í lok 19. aldar og upphafi hinnar 20. voru byggð hús í rússneska endurreisnarstílnum, s.s. Tretyakov ríkislistasafnið (1906) og Yaroslavl-járnbrautastöðin (1902-04; rétt utan Garðahringsins).

Á Sovéttímanum var mörgum gömlum byggingum í innbænum rutt úr vegi fyrir stórum skrifstofubyggingum og íbúðablokkum.  Nú standa þar hlið við hlið gömul hús og nýjar byggingar í fúnkisstíl frá þriðja áratugi 20. aldar, oft ofskreytt hús frá Stalíntímanum (1930-1960) og skýjakljúfar, sem risu eftir 1960.  Rétt við Pashikov húsið stendur aðalbygging Lenin ríkisbókasafnsins (1927-29).  Meðal hugmyndaríkari bygginga síðari tíma er Taganakaleikhúsið (1983).

Á Sovéttímanum urðu til mun stærri opin svæði í borginni, m.a. torgið Manezhnava (fyrrum helgað 50 ára afmæli októberbyltingarinnar).  Margar götur voru breikkaðar, einkum Gorkygata (Gorkogo Ulitsa), sem er nú ein aðalradíusgatan með aragrúa stórra verzlana, hótela og skrifstofubygginga.  Garðhringurinn sjálfur var breikkaður og er nú fjölakreina hraðbraut í báðar áttir og brýr á gatnamótum aðalgatna út frá miðborginni.  Árið 1960 var ný radíusgata, Prospekt Kalinina, lögð og verzlanamiðstöð og háhýsi fyrir skrifstofur og íbúðir byggð við hana.  Við ytri enda hennar gnæfir þriggja álmu bygging við ána.  Þar var Comecon til húsa til 1991.  Næsta gata við þessa miklu umferðargötu er Arbatgata (Gamla Arbat), sem er einhver fallegasta gata Moskvu og er nú lokuð umferð vélknúinna ökutækja.  Flestar sögulegar byggingar miðborgarinnar, sem fengu góða umhirðu á sjöunda áratugnum, hafa verið verndaðar en fjöldi slíkra bygginga hvarf af yfirborði jarðar snemma á Sovéttímanum.  Árið 1931 lét Stalín rífa Frelsarakirkjuna frá 19. öld.  Árið 1958 skipaði Kruschev svo fyrir, að þar skyldi byggja stóra útisundlaug.  Þessi kirkja var endurbyggð 1997.

Innbærinn er viðskiptamiðstöð borgarinnar.  Þar eru flestar opinberar stofnanir og ráðuneyti, flest hótel borgarinnar og stórar verzlanir, aðalsöfnin, leikhús og gallerí.  Þarna eru einnig íbúðahverfi með stórum og ljótum blokkum ásamt gömlum og rólegum húsahverfum.

Miðhringurinn.  Handan Garðhringsins og næstum að Litla járnbrautahringnum er svæði, sem þróaðist að mestu á 18. og 19. öld.  Þar er fjöldi verksmiðja og aðalbrautarstöðva og fraktsvæða.  Likhachyov-bílaverksmiðjurnar ná yfir mestan hluta suðaustursvæðisins.  Innan þess eru líka fallegar, klassískar byggingar eins og 18. aldar höllin, sem hýsir stjórn Rússnesku vísindaakademíunnar við Leninsky Porspekt.  Niðri við Moskvuá eru víggirt Klaustur, Novodevichy (16. öld) með hinni fallegu Smolenskkirkju og háum klukkuturni hennar (1690), sem gnæfir yfir aðra turna og múrana.  Í kirkjunni er nú klaustursafnið og innan múranna er líka kirkjugarður, þar sem Nikita Khrushchev liggur grafinn meðal margra annarra merkra manna.  Lítið eitt sunnan Novodevichy, inni í bugðu á Moskvuánni andspænis Leninhæðunum, er íþróttasvæðið Luzhniki, þar sem Leninleikvanginn (1955-56) ber hæst.

Mesta endurnýjun borgarinnar á Sovéttímanum fór fram á Miðhringssvæðinu.  Þar er fjöldi brúðkaupstertubygginga, sem voru byggðar síðla á fimmta og snemma á sjötta áratugnum, meðfram Garðahringnum.  Úkraínahótelið handan ár er frá sama tímabili auk risavaxinna bygginga Moskvuháskóla á Leninhæðum.  Endurnýjun Miðhringsins eftir 1960 fólst aðallega í hverfum með breiðum götum með röðum íbúðablokka.  Víða á Miðhringssvæðinu eru þröngar götur með 19. aldar húsum og litlum verksmiðjum.

Ytri borgarhlutarnir.  Utan Garðahringsins er fjöldi nútímaverksmiðja og íbúðarhúsa í byggingu.  Nær borgarmiðjunni eru íbúðasvæði frá Khruschevtímanum með 5-9 hæða húsum, að mestu úr gulleitum múrsteini.  Utar eru mun hærri íbúðablokkir (20 hæða og hærri) úr forsteyptum einingum.  Göturnar eru breiðar og prýddar röðum trjáa.  Milli þéttbýlla íbúðahverfanna eru fleyglaga, opin svæði eins og Izmaylovsky-garðurinn að austanverðu, Sokolniki-garðurinn og talsverð skógasvæði til norðausturs og í norðri er lóð safnsins, sem hýsir fastasýninguna um árangurinn í efnahagsmálum þjóðarinnar.  Í Dzerzhinsky-garðinum í grenndinni við Ostankino, er hinn 533 m hái sjónvarpsturn.

Milli aragrúa nýrra bygginga hafa einstök minnismerki fortíðar staðizt tímans tönn líkt og 17. aldar Bænakirkjan í Medvedkovo.  Stækkandi borgin hefur gleypt marga búgarða og byggingar þeirra eru flestar frá klassíska tímanum.  Austan borgarinnar er Kuskove, sem var fyrrum búgarður Sheremetyev-fjölskyldunnar.  Höll hennar var byggð á árunum eftir 1770 auk kirkju, bústaðar einsetumanns og barokhellis.  Sunnan borgar er Uzkoe-óðalið, sem Trubetskoy-fjölskyldan átti.  Norðan borgar eru Petrovsky-höllin (Kazakov; 1775-82) og Ostankino-höllin (1790-98), sem er kunnust þeirra.  Í suðausturúthverfunum er fyrrum Kolomenskove-þorpið, sem var sumardvalarstaður Moskvuprinsanna.  Turn Himnafararkirkjunnar (1532) gnæfir þar yfir fögrum byggingum.  Kazankirkjan og hliðhúsið eru frá síðari hluta 17. aldar.  Garðarnir umhverfis eru prýddir timburhúsum í gömlum rússneskum stíl víða að í landinu.  Í nálægu þorpi, Dyakovo, er skrautleg kirkja Jóhannesar skírara frá 1557.

Utan nýjustu úthverfanna er opið land og skóglendi innan Hringvegarins auk iðnaðarbæja og svefnhverfa, sem voru innlimuð í borgina eftir 1960.  Helztu iðnaðarbæirnir eru Babushkin í norðri, Perovo í austri, Lyublino í suðaustri, Kuntsevo í vestri og Tushing í norðvestri.  Á miðjum níunda áratugnum voru stór svæði utan Hringvegarins innlimuð í borgina, þ.m.t. borgin Solntsevo.  Nokkru norðan Hringvegarins sprat upp ný borg, Zelenograd eftir 1963.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM