Perú
er venjulega skipt í þrjú meginsvæði:
Þurra strandlengjuna í vestri, hrikaleg Andesfjöllin í miðju
og rakt Montana í hitabeltisskógum Amasón í austri.
Strandlengjunni
er hægt að skipta í norður-, mið- og suðurhluta með tillite til
sléttlendis og fjarlægðarinnar milli Andesfjalla og sjávar.
Flatlendið mjókkar frá norðri til suðurs.
Nyrzt, frá Ekvador til Chimbote er strandsléttan 33-50 km breið,
en breiðust í Sechura-eyðimörkinni, sunnan Piura, 150 km.
Miðstrandlengjan frá Chimbote til Nazca er mjórri og
einkennist af hrjúfum hæðum út frá Andesfjöllum, allt í sjó
fram. Frá Nazca suður að
landamærum Síle er strandlengjan að mestu lágfjöllótt.
Suðurdalirnir eru mjóir og undirlendið er lítið og dreift með
ströndinni.
Andesfjöllin.
Þessi fellingafjöll byrjuðu að myndast á júratímanum
fyrir 190 miljónum ára, þegar land- og sjávarset safnaðist í
Andessamhverfuna og Suður-Ameríkuflekinn fór að ganga yfir
Kyrrahafsflekann. Snemma á
tertíertímanum (fyrir 65 miljónum ára) hófst eldvirkni, sem myndaði
ríólít- og dasítlög með kopar, járni, silfri, molybdenum og
magnesíumæðum. Kolabirgðirnar
í miðhlutanum eru einnig frá þessum tíma.
Fellingamyndunin hélt áfram á síðtertíer og eldvirkni jókst.
Þessi aukna virkni skildi Andesfjölli frá eldri strandfjöllunum
og miðlægðin myndaðist. Í
upphafi kvartertímans voru Andesfjöllin orðin hærri en þau eru núna.
Fyrir 2½-3 miljónum ára kólnaði um allan heim og jöklar
mynduðust á hæstu tindum. Stöðuvötnin
í suðurhlutanum eru afleiðing bráðnunar jökla, sem hófst fyrir u.þ.b.
17.000 árum, og síðan þá hafa engar stórbreytingar orðið á
Andessvæðinu, þótt fellingahreyfingum og eldgosum sé ekki lokið.
Þrír
aðalfjallgarðar liggja út frá Andesfjöllum í Perú. Þeir eru kallaðir Occidental, Central og Oriental, þótt
þessi nöfn séu ekki notuð í Perú.
Hlíðar Andesfjalla eru víðast aflíðandi í noðurhluta
landsins og mesta hæð þeirra í kringum 5000 m.
Í miðhlutanum eru þau hærri og hrjúfari og erfið yfirferðar.
Aðalskarðið austan Lima er rúmlega 4500 m hátt.
Margir fjallatindar þar eru snævi þaktir og laða að sér
fjalla- og ferðamenn. Cordillera
Blanca er vinsælasti hlutinn, þar sem hæsti tindur landsins, Huascarán,
trónir (6729m). Í suðurhluta
landsins eru Andesfjöllin að mestu háslétta, Puna, í 4000-5000 m hæð
yfir sjó. Dreifðir tindar
standa upp úr hásléttunni (6364m).
Þetta er að mestu röð eldfjalla, sem byrja á Misti í grennd
Arequipa og teygjast inn í Síle.
Montana.
Lægri hlíðar Vestur-Andesfjalla líða niður í þéttan
hitabeltisfrumskóg Amasónlægðarinnar, sem nær yfir rúmlega 40%
landsins. Þetta svæði er
líka kallað „selva”. Þarna
er öldótt landslag og sléttur, sem teygjast austur að landamærum Kólumbíu,
Brasilíu og Bólivíu. Hæðin
yfir sjó lækkar smám saman úr 1000 m við austurhlíðar Andesfjalla
í 80 m meðfram Amasónfljótinu við landamæri Brasilíu.
Vatnasvið.
Flestar árnar, sem falla í Kyrrahaf, eru stuttar (almennt innan
við 330 km langar) og brattar með mismunandi vatnsmagni eftir árstíðum.
Flestar eru þær vatnsmestar á tímabilinu desember til marz og
síðan tekur við langur þurrkatími.
Stærstu árnar, s.s. Santa, halda nokkru vatnsmagni allt árið. Uppi í Andesfjöllum eru upptök allra helztu ánna, sem
streyma til vesturs og austurs. Í
suðurhlutanum renna nokkrar ár um hásléttuna (altiblano) til
Titicaca-vatns, sem er á landamærum Bólivíu í 3788 m hæð yfir sjó
og þar með hæstliggjandi skipgenga stöðuvatn heims.
Stórar
ár einkenna Montana-svæðið. Amasónfl´jotið
er stærsta fljót heims og kemur upp víða í Andesfjöllum í Perú.
Ein aðalkvíslanna, Ucayali, kemur upp í Suður-Perú, rúmlega
2800 km frá ármótum aðalárinnar.
Amasónfljótið er skipgengt en stóru þverárnar, s.s. Maranón,
Huallaga og Ucayali, aðeins stuttan spöl vestan Iquitos.
Þessar ár renna til norðurs um langa og djúpa dali áður en
þær snúa til Amasónfljótsins í austri og eru fremur hindrandir en
samgönguleiðir.
Jarðvegur.
Lítið er um frjósaman jarðveg í Perú.
Á strandlengjunni eru árdalirnir víðast frjósamir.
Sums staðar hefur landið verið ofnýtt með þeim afleiðingum,
að jarðvegurinn er orðinn saltur.
Milli dalanna er aðallega ófrjósamur áfoksjarðvegur.
Uppi í Andesfjöllum er víða frjósamur jarðvegur í dölum
en í hliðunum er hann þunnur og gæðarýr.
Í Montana (selva) er regnskógajarðvegurinn laus í sér, þegar
skógurinn hefur verið ruddur og veðrast fljótt brott.
Loftslagið.
Landið skiptist í þrjú aðalloftslagssvæði á sama hátt og
landinu er skipt í samræmi við landslag:
Strandlengjan, Andesfjöll og Montana (selva).
Strandlengjan.
Frá landamærunum að Ekvador suður að norðurlandamærum Síle
ríkir eitthvert þurrasta loftslag jarðar, sem skapast aðallega af
regnskugga Andesfjalla, þurrum loftmössum frá háþrýstisvæðum
yfir Kyrrahafi og köldum hafstraumum (Perú- eða Humboltstraumnum),
sem lítið gufar upp úr. Eyðimörkin
meðfram ströndinni er ekki heit. Meðalhitinn á veturna er 19°C og 22°C á sumrin.
Þrátt fyrir þurrkinn, er sums staðar nægilegur loftraki til
að mynda þoku á veturna (garúa), sem vökvar tiltölulega fábreyttan
gróður.
Andesfjöllin
búa yfir fjölbreyttum loftslagsskilyrðum eftir breiddargráðu, hæð
yfir sjó, ríkjandi vindáttum og áhrifum regnskuggans.
Hitastig fellur almennt með hæð yfir sjó og úrkoma minnkar
frá norðri til suðurs og frá austri til vesturs.
Á regntímanum (desember-marz) rignir mest nyrzt og meðfram
austurjaðri fjallanna. Hitasveiflur
eru litlar milli árstíða en mikill munur er á milli dags og nætur.
Meðalhitinn í janúar í Cuzco (3380m) er 11°C og í júlí 8°C.
Hitasveiflur milli dags og nætur geta numið 22°C.
Hærra uppi í fjöllum snjóar og sumir tindar eru þaktir eilífum
snjó.
Regnskógaloftslagið
er rakt í Montana. Úrkoma
á öllu svæðinu er mikil (Iquitos = um 2300 mm á ári) allt árið,
þó mest frá desember til marz. Hitasveiflur
eru litlar milli árstíða en hitamunur dags og nætur er talsverður.
Dagshiti í Iquitos fer stundum upp í 35°C en getur fallið niður
fyrir 15°C.
El
Nino.
Mestu loftslagssveiflur í landinu eru óreglulegar, á u.þ.b. 10
ára fresti. Þessi
óregla er oft nefnd El Nino (Barnið) vegna þess að hennar verður
oftast fyrst vart um jólaleytið.
Þetta ástand er aðeins hluti af mun meiri breytingum á loft-
og sjávarskilyrðum yfir og í Kyrrahafinu.
Ástæður þessara breytinga eru enn þá ekki kunnar að fullu
en afleiðingar þeirra valda því, að hlýr sjór kemur í stað
kalda Perú- eða Humboltsstaumsins, mikið rignir í eyðimörkum
strandlengjunnar og þurrkar ríkja á suðurhásléttunum.
Þegar þessar loftslagsbreytingar eru alvarlegastar (1925 og
1983) valda þær miklu umhveristjóni og efnahagslegum hremmingum.
Flóra og fána
landsins fylgir landfræðilegri skiptingu milli
strandlengjunnar, Andesfjalla og Montana (Selva).
Strandhéruðin.
Lítið þrífst af plöntum á hrjóstrugum eyðimörkum
strandlengjunnar. Þar sem
þoka (lomas) ríkir, vex blanda af grasategundum og öðrum jurtum.
Í norðurhéruðunum er hluti eyðimarkanna þakinn rótalausum
plöntum, runnum eða sígrænum trjám (mesquite).
Mest ber á fjölbreyttu fuglalífi með ströndum fram og mörgum
tegundum sjávarspendýra og stórum fiskistofnum.
Þar er gríðarmikið af ansjósu, aborra, túnfiski, sverðfiski
og marlin. Á afskekktum stöðum er mikið um sæljón. Meðal fuglategunda eru pelikanar, dílaskarfar, súlur og
margar mávategundir. Humbolt-mörgæsir
eru í útrýmingarhættu en finnast enn þá á Ballestas-eyjum í nágrenni
við Paracas-höfða.
Andesfjöll.
Tvö plöntusamfélög einkenna hálendi Perú, puna-graslendið
í 4000-5000 m hæð yfir sjó og neðar vaxa innlendar tegundir blandaðar
innfluttum. Mikið er um fóðurgras
og þar eru lamadýrin á beit. Lægra
í fjöllunum eru ræktaðar kartöflur, guinoa og maís.
Nokkrar tegundir tröllatrjáa eru komar í stað hinna náttúrulegu.
Montana.
Austurhlíðar Andesfjallanna og Andeslægðin eru þakin þykkum
regnskógum. Þar er aragrúi
plöntu- og dýrategunda (jagúar, rúmlega 1 m löng rottutegund
(capybara), tapír og fjöldi apategunda).
Fugla- og fiskategundir eru sérstaklega athyglisverðar.
Í skógunum vex fjöldi harðviðartegunda og annarra trjáa,
sem eru nýtilegar til margra hluta.
Uppi í Andeshlíðum eru strjálir akrar, þar sem íbúarnir rækta
kókóplöntuna. |