Amasonfljótið,
Flag of Brazil

Flag of Peru


AMASONFLJÓTIÐ
.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Amasónfljótið er í Norðanveðri Suður-Ameríku, rúmlega helmingur vatnasviðsins er innan landamæra Brasilíu.  Fljótið er næstlengst í heimi, u.þ.b. 6400 km. Níl er lengst (Sjá lengstu ár í heimi), en vatnasvið Amasón er hið stærsta í heimi, rúmar 6 milljónir km².  Ekkert annað fljót hefur fleiri þverár og vatnsmagnið er einnig hið mesta.  Önnur lönd Suður-Ameríku, sem deila vatnasviði fljótsins með Brasilíu eru Perú, Ekvador, Bólivía og Venesúela.  Vatnsmagnið er mismunandi eftir árstíðum, 34-121 þúsund rúmmetrar á sekúndu.  Setmyndun er að jafnaði u.þ.b. 3 milljónir tonna á dag í árósunum.  Árlegt rennsli árinnar samsvarar u.þ.b. fimmtungi alls fersks vatns á jörðunni, sem rennur til hafs.  Þetta gífurlega magn fersks vatns og sets veldur breytingu á salthlutfalli og lit Atlantshafsins allt að 320 km á haf út frá ósunum.

Aðalkvíslar fljótsins eru Ucayali- og Maranón-árnar, sem koma báðar upp ofan snjólínu í Andesfjöllum.  Þær renna samsíða til norðurs áður en þær sameinast við Nauta í Perú.  Þaðan streymir meginmóðan í austurátt.  Ósasvæði árinnar er u.þ.b. 240 km breitt og þar er sístækkandi völundarhús eyja og hólma, sem stöðugur framburður sezt til milli óteljandi kvísla.  Ós meginkvíslarinnar er 80 km breiður.  Hún er kölluð Pará og milli hennar minni kvíslar er Maraió-eyja, sem er rúmlega 36.000 km² séu öll saltfenjasvæði hennar talin með.  Þegar tungl er fullt og mestu flóð verða í aðfallinu, teygist það fulla 650 km inn í land og nær allt að 65 km hraða á klukkustund.  Þessar náttúruhamfarir mynda oft allt að 5 m háar öldur.

Innan vatnasviðs fljótsins er stærsta og votlendasta hitabeltis- og regnskógasvæði heims.  Á láglendissvæðunum er úrkoma mikil allt árið, þó einkum á tímabilinu janúar til júní.  Meðalúrkoman á þessu svæði er á bilinu 2000-3000 mm á ári.  Mismunandi úrkomu gætir í breidd og vatnsmagni fljótsins.  Meðalbreidd fljótsins er 1,6-10 km, en þegar úrkoman er mikil verður að víða allt að 48 km breitt.  Rennslishraðinn er á bilinu 2,4-8 km á klukkustund og flóðbylgjan getur orðið allt að 15 m hærri en meðalvatnsstaða.  Fljótið er mjög misdjúpt, dýpst í grennd við Óbidos í Brasilíu, 91


Fjöldi þveránna er ekki enn þá kunnur.  Rúmlega 200 þeirra eru í Brasilíu.  Sautján hinna stærstu eru rúmlega 1600 km langar hver um sig.  Tveir þriðjungar meginmóðunnar er gengir hafskipum, sem hafa m.a. reglulega viðkomu í Manaus, sem er í 1600 km fjarlægð frá ströndinni.  Allt að 3000 brúttótonna skip geta siglt til Iguitos í Perú, sem er í u.þ.b. 3700 km fjarlægð frá ósunum.  Minni skip og bátar sigla upp u.þ.b. 100 þverár Amasónfljótsins.

Könnun og nýting.  Talið er, að Vicente Yánez Pinzón hafi fyrstur litið óshólmasvæði Amasón augum árið 1500 en könnun svæðisins hófst ekki fyrii en á árunum 1540-1551, þegar Francisco de Orellana lagði af stað í siglingu niður Napo-ána, þar sem nú er Ekvador, og komst alla leið að Atlantahafi.  Pedro Texeira varð fyrstur til að fara upp eftir Amasón.  Ferð hans hófst í október 1637 og lauk við upptök Napo-árinnar í ágúst árið eftir.  Þaðan fór hann yfir Andesfjöllin til Quito í Ekvador.  Síðar fór hann til baka sömu leið.  Fjöldi vísindalegra leiðangra hefur lagt leið sína um Amasónsvæðið á síðari tímum.  Meðal þeirra var leiðangur Theodore Roosevelt, sem Konunglega landfræðifélagið og brasilíska ríkisstjórnin styrktu árið 1914.

Ýmsar kenningar eru uppi um uppruna nafns árinnar.  Sumir kenna það við valkyrjur í grískum þjóðsögum, sem voru kallaðar Amasónur og margir héldu að réðu hlutum svæðisins.  Aðrir fræðimenn telja það komið úr indíánamáli (amassona = bátabani).

Öldum saman börðust landkönnuðir við miskunnarlaus náttúruöflin á Amasónsvæðinu en skildu ekki eftir sig varanleg ummerki.  Slíks hefur einkum gætt á síðari áratugum með aukinni tækni.  Brýr hafa aðeins verið byggðar í árósunum og svæðið í heild er meðal strjálbýlustu svæða jarðar.  Langmestur hluti svæðisins hefur ekki verið kannaður enn þá.  Það er auðvelt að fljúga yfir svæðið klukkustundum saman án þess að koma auga á merki um búsetu manna.  Indíánar búa enn þá í mörgum árdölum og lifa sama lífi og forfeðurnir áður en Evrópumenn komu til skjalanna.  Öll samskipti við umheiminn eru kominn undir skipgengni ánna og lífsbaráttan byggist á frumstæðri landnýtingu, dýra- og fiskveiðum og nýtingu þess, sem frumskógurinn leggur til.

Ferðaþjónusta og iðnaður eru veigalitlar atvinnugreinar á þessu svæði en námuvinnsla, nýting skóga og nautgriparækt sækja stöðugt á, þrátt fyrir skaðleg áhrif á umhverfið.  Erfitt er að reiða sig á upplýsingar um þessa nýtingu.  NASA hefur birt ýmsar upplýsingar byggðar á gervitunglamyndum og áætlað að eyðing skóga í þessum tilgangi hafi numið u.þ.b. 280.000 km² árið 1993 (u.þ.b. 5% af öllu skóglendi Amasónsvæðisins).  Í þessum niðurstöðum er þess getið, að þessi eyðing skóglendis hafi minnkað um u.þ.b. 11.000 km² á ári eftir að brasilíska ríkisstjórnin afnam skattahlunnindi til þeirra, sem vildu ryðja skóg til að setjast að á svæðinu.  Margir eru ósammála þessum niðurstöðum og fullyrða að ekki sé tekið tillit til allra trjáa, sem rutt er úr vegi á sléttum landsins og annars staðar.  Árið 1993 áætlaði félagsskapurinn Vinir jarðar, að u.þ.b. 14% af Amasónsvæðinu hefðu verið rudd og bágur efnahagur landsins hafi dregið úr frekari eyðingu skóganna.  Þessi umræða hefur stöðugt verið í brennidepli síðan.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM