Peru
á langa sögu óstöðugleika í stjórnmálum, margra byltinga og
hallarbyltinga og breytinga á stjórnarskránni.
Stjórnarskrá landins frá 1979 kveður á um ríkisstjórn
undir stjórn forseta, sem er kosinn í almennum kosningum og þjónar
sem þjóðhöfðingi og yfirmaður herafla landsins.
Forseti skipar forsætisráðherra, sem stýrir ráðherraliðinu,
sem forsetinn skipar líka. Ríkisstjórnin
fjallar um öll lagafrumvörp forsetans og semur frumvörp, sem þingið
fjallar um. Þingið
starfar í tveimur deildum og þingmenn eru kjörnir til 5 ára í senn
á sama tíma og forsetinn. Forsetinn
skipar alla dómara samkvæmt tillögum réttargæzluráðs.
Hæstiréttur hefur lögsögu í landinu öllu og fjallar um áfrýjanir
dóma frá lægri dómstigum og hefur eftirlit með þeim.
Landið
skiptist í 24 héruð auk Callaosvæðisins samkvæmt stjórnarskránni.
Héruðunum er skipt í sýslur og hreppa.
Héruðunum stjórna héraðsstjórnir og þær hafa talsverð völd
samkvæmt stjórnarskránni frá 1979.
Árið 1987 voru samþykkt lög, sem fækkuðu héruðunum í 12.
Fjöldi stjórnmálaflokka, sem ná yfir mestallt litróf stjórnmálanna,
tekur þátt í stjórnmálastarfi.
Menntun.
Ör fjölgun íbúa landsins veldur miklum erfiðleikum í
menntakerfinu. Útgjöld ríkisins
til menntamála eru í ósamræmi við önnur útgjöld vegna þess, að
frí skólaskylda nær til barna á aldrinum 6-15 ára.
Það er erfitt að framfylgja þessari lögboðnu skólaskyldu,
einkum í strjálbýlinu. Ofsetnir bekkir, ófullkomin aðstaða og illa menntaðir
kennarar valda því að gæði menntunarinnar eru rýr.
Flestir há- og miðstéttar foreldrar senda börn sín í
einkaskóla. Meðal háskóla
landsins eru hágæðastofnanir eins og Páfaháskóli Perú, Limaháskóli
og Ríkisháskóli San Marcos (1551), sem er líklega elzti háskóli Suður-Ameríku.
Auk þeirra eru starfandi héraðsháskólar.
Heilbrigðis-
og velferðarmál.
Fjöldi
stofnana er tengdur heilbrigðis- og félagsmálakerfi landsins.
Meiri skortur er á menntuðu starfsfólki og aðstöðu í
heilbrigðisgeiranum á landsbyggðinni en í þéttbýli.
Barnadauði hefur verið stórt vandamál.
Húsnæðismál eru í olestra og sífelldur flótti úr dreifbýlinu
veldur borgaryfirvöldum óyfirstíganlegum erfiðleikum í tengslum við
almenna þjónustu við borgarbúa, s.s. vatnsveitu og afrennsli í fátækrahverfunum,
sem spretta upp eins og gorkúlur.
Menningarlíf.
Hin flókna deigla kynþátta og menningarblöndunar er flétta
algyðistrúar frumbyggjanna, spænskrar dulúðar og trúarsiða Afríku,
sem kemur fram í þjóðlegri tónlist, bókmenntum, fatnaði,
handverki og matarræði.
Menningarleg
fortíð er sýnilegust í rústum Machu Piccu, fornborgar, sem fannst
1911 í 2350 m hæð yfir sjó norðvestan Cuzco.
Hún er umlukin skógi vöxnum hæðum og snævi þöktum tindum.
Umhverfis hana eru manngerðir stallaakrar og í borginni sjálfri
er fjöldi steinhúsa og hofa. Rannsóknir
hafa leitt í ljós, að þar var samastaður inkakeisarans Pachacuti.
Vítt og breitt um landið eru fornleifastaðir en flestum finnst
mest til rústasvæðanna í grennd við Cuzco koma, aðallega í Dalnum
helga. Fornleifafræðingar
hafa uppgötvað þúsundir skrautvasa og skála og útsaumaðan fatnað.
Vefnaður Paracas-indíána og leirkerasmíði mochica-indíána
eru þar fremst í flokki. Þurrt
loftslagið meðfram ströndinni hefur stuðlað að góðri varðveizlu
fornra muna í jörðu.
Listir.
Þjóðleg list er bersýnilega tengd fortíðinni. Úrval þjóðlegra siða, söngva, hjátrúar, dansa og
handverks er mjög fjölbreytt í sveit og borg.
Ferðamenn og safnarar komast í náið samband við forn vinnubrögð
(vefnaður, leirkerasmíði, skartgripagerð og málmvinnslu).
Fámennur
flokkur menntamanna landsins hefur löngum laðast að listalífinu.
Frá síðari hluta 19. aldar hefur rithöfundum fundizt þeir þurfa
að bregða ljósi á þjóðfélagið. Ricardo Palma var meðal hinna fyrstu til að vinna úr þjóðlegum
efnum. „Fugl án hreiðurs”
eftir Clorinda Matto de Turner (1889) var fyrsta margra bóka um líf
indíána. César Vallejo
er að margra áliti bezta ljóðskáld Perú.
José María Arguedas og Mario Vargas Llosa hafa notið hylli
eftir síðari heimsstyrjöldina. Óperan
Ollanta eftir José María Valle-Riestra og Sinfonía autóctona
(Frumbyggjasynfónían) eftir Vicente Stea voru líklega merkustu tónlistarverk
19. aldar. Síðar færði
Luis Duncker Lavalle þjóðleg yrkisefni í vestrænan búníng.
Málaralistin
reis hæst með hinum fræga Cuzco-skóla á 17. og 18. öld.
Flest þúsunda málverka og höggmynda frá þessum tíma eru
eftir ókunna listamenn og þessi verk eru undir býsönskum og asískum
áhrifum. Nútímalistin er
á óhlutstæðum línum (Fernando de Szyszlo, Joaquin Roca Rey).
Fornperúmenn
voru miklir kunnáttumenn um húsagerðarlist (íbúðarhús, hof,
hallir og virki) og löguðu byggingarnar að umhverfinu.
Elzta nýlendubyggingin er Limadómkirkjan og mesta gersemi
byggingarlistar landsins er klaustur og kirkja San Francisco í Lima.
Samtímabyggingalist landsins kemur fram í nýbarok og nútímahúsum
úr steinsteypu og stáli.
Leikhús
hafa verið vinsæl afþreying allt frá nýlendutímanum.
Borgarleikhúsið í Lima var byggt á grunni nýlenduleikhússins,
sem var byggt 1604. Þar stíga
atvinnulistamenn úr öllum landshornum á svið.
Ríkissynfóníuhljómsveitin á þar samastað auk
listdansflokks þjóðarinnar og listdansara, sem fara um landið með
farandsýningar. Kvikmyndaiðnaður
er lítt þróaður og mest er framleitt af stuttmyndum.
Menningarstofnanir.
Menningarmálaráð landsins heldur um flesta tauma menningarlífsins
og reynir að gera öllum kleift að njóta þess.
Söfn landsins eru ríkulega búin forngripum frá forspænskum tímum.
Flest hinna athyglisverðust eru í Lima, s.s. Þjóðlistasafnið,
Mannfræði- og forngripasafnið og Gullsafnið.
Helzta bókasafn landsins er Þjóðarbókhlaðan í Lima og háskólabókasöfnin
eru líka stór og fjölbreytt.
Afþreying.
Ástundun fjölbreyttra afþreyingarmöguleika fer mikið eftir
þjóðfélagshópum en allir taka þátt í hátíðum, sem eru haldnar
um allt land. Þessar litríku
hátíðir eru oft helgaðar trúnni.
Vinsælustu áhorfendaíþróttirnar eru, líkt og í öðrum löndum
Rómönsku-Ameríku, knattspyrna og nautaat.
Nautaatið laðar ótrúlegan fjölda áhorfenda, einkum eftir að
nýi nautaatshringurinn var opnaður í Lima.
Körfubolti, veðreiðar og hanaslagur draga líka að sér marga
áhorfendur. Íþróttavellir
og aðstaða eru að mestu bundin við þéttbýlið meðfram ströndinni.
Fjölmiðlar.
Ritfrelsi er meðal ákvæða stjórnarskrár landsins en fjölmiðlar
hafa oft orðið að lúta opinberri ritskoðun.
Helzu dagblöðin taka oftast afstöðu með stjórnmálaflokkum
og eru gefin út í Lima (El Comercio, Expreso og Ojo) en önnur í
Arequipa og Chiclayo. Eitt
elzta dagblað Rómönsku-Ameríku í Lima, El Peruano, var stofnað
1825. Netfjölmiðlar hafa
ekki farið varhluta af ritskoðun, sem var hvað strongest á áttunda
áratugi 20. aldar, þegar ríkið þjóðnýtti allt að 51%
eignarhluta allra sjónvarpsstöðvar og 25% útvarpsstöðva.
Nokkrar sjónvarpsstöðvar starfa í Lima og einnig í öðrum
helztu borgum meðfram ströndinni. |