Hráefni
í jörðu eru gífurlega mikil (kopar, járn, blý, sink, bismút,
fosfat og magnesíum). Gull
og silfur finnast í miklu magni auk annarra sjaldgæfra málma og olíusvæðin
eru meðfram nyrztu ströndum. Rannsóknir
í austustu regnskógasvæðunum gefa til kynna talsverðar olíubirgðir
í jörðu. Fjármagnsskortur
hefur tafið rannsóknir, fjármögnun námuvinnslu og uppbyggingu
samgangna og verðsveiflur á heimsmarkaði hafa valdið miklum erfiðleikum.
Landfræðileg lega hefur einnig hindrað aðgang að mörgum verðmætum
efnum í jörðu, sem liggja víða ofar 3600 m uppi í fjöllum eða í
frumskógum Amasón.
Orkumál.
Vatnsafl til rafmagnsframleiðslu er ærið í landinu.
Árnar, sem streyma til austurs um Amasónlægðina, eru einkum
fýsilegar til virkjunar. Stórar virkjanir voru byggðar við árnar Santa og Mantaro og
áætlanir eru uppi um beizlun vatnsaflsins og jarðhita víðar.
Flestar núverandi virkjana hafa verði samtengdar og rúmlega 75%
rafmagns er framleitt í vatnsorkuverum.
Mesta orkuþörfin er í Lima, þar sem iðnaðarframleiðslan er mest.
Landbúnaður hefur verið aðalatvinnuvegur þjóðarinnar um langan aldur, þótt
þáttur hans hans í efnahagslífinu hafi dvínað eftir síðari
heimsstyrjöldina. Rúmlega
þriðjungur vinnuaflsins er enn þá bundinn í landbúnaði, en
afrakstur hans hefur ekki verið í takt við íbúafjölgunina og
framleiðslan hefur minnkað síðan á sjöunda áratugnum.
Perú verður að flytja inn mikið magn af korni (hveiti, hrísgrjónum
og maís), grænmetisolíu, mjólkurvörum og kjöti til að fæða þjóðina.
Skortur á ræktanlegu landi stendur í vegi fyrir umbótum.
Mest er landbúnaðarframleiðslan í áveitudölunum í strandhéruðunum.
Þar er aðallega ræktaður sykurreyr, baðmull, hrísgrjón, maís,
vínviður, ólífur og grænmeti.
Uppi í fjöllum er ræktanlegt land takmarkað og gæði jarðvegs
rýr. Þar eru aðallega ræktaðar
kartöflur og korn (hveiti, maís, guinoa).
Í Amasónlægðinni er aðallega stundðaur sjálfsþurftarbúskapur,
þótt Montanaindíánarnir hafi löngum ræktað kókójurtina til
eigin nota og vöruskipta við fjallaindíánana.
Fiskveiðar. Á sjötta og sjöunda áratugi 20. aldar jukust fiskveiðar gífurlega
vegna mikilla gangna ansjósu, sem var unnin í fiskimjöl og lýsi til
útflutnings sem dýrafóður. Árið
1963 var Perú orðin mesta fiskveiðiþjóð heims miðað við tonnatölu.
Árið 1970 var metaflaár með rúmlega 12 miljóir tonna.
Ofveiði og El Nino, sem reið yfir 1971-72, ollu samdrætti í
fiskveiðum. Síðar á
sama áratug og fram á hinn níunda batnaði ástandið, þótt ekki tækist
að ná fyrri stöðu. Aukin
áherzla er lögð á fiskveiðar og vinnslu til manneldis innanlands og
til útflutnings. Skógarhögg
og timburvinnsla er aðallega stunduð í Montana (Selva).
Margar nýtanlegar trjátegundir vaxa á Amasónsvæðinu en oft
er erfitt að komast að þeim og óttinn við umhverfisspjöll hefur
dregið úr nýtingunni.
Iðnaður.
Flestar verksmiðjur landsins eru á Stór-Limasvæðinu, þótt
ríkið hafi lagt áherzlu á dreifingu iðnaðar um landið.
Talsvert er um samsetingarverksmiðjur, s.s. fyrir bíla og
heimilistæki. Stór hluti
neyzluvöruframleiðslunnar fer fram í litlum verksmiðjum, sem starfa
á svarta markaðnum. Ríkið
leggur áherzlu á að auka hlut iðnaðar í vergri þjóðarframleiðslu,
þannig að hann er í örustum vexti atvinnugreina landsins.
Kapp er lagt á að þjóðin verði sjálfri sér næg á sem
flestum sviðum iðnaðar, þannig að hressilega er ýtt á eftir
framleiðendum olíuvöru, vefnaðar, matvæla, stáls, sements, tilbúins
áburðar og efnavöru. Margar
þessara verksmiðja voru þjóðnýttar eða nutu sérstakrar skattameðferðar
og verndartolla á áttunda áratugnum.
Viðleitni ríkisstjórna landsins á þessum vettvangi hefur
ekki borið tilskilinn árangur.
Fjármál.
Helztu fjármálastofnanir landsins eru ríkisreknir bankar, sem
stýra útlánum, viðskiptum með gjaldeyri og reglum um gjaldeyrismál.
Stefna ríkisins beinist aðallega að lækkun verðbólgu og
erlendra skulda, sem hafa vaxið þjóðinni yfir höfuð síðan um miðja
20. öldina. Aðalbankarnir
eru seðlabankinn, Landsbankinn og Þróunarbankinn.
Viðskipti.
Erlend viðskipti hafa verið grundvöllur efnahags landsins síðan
á nýlendutímanum. Landsmenn
hafa alla tíð verið háðir innflutningi fullunninnar vöru en ríkisstjórnir
landsins hafa beitt sér fyrir breytingu á þessu sviði með því að
styrkja innlendan iðnað án mikils árangurs.
Allt frá sjötta áratugnum hefur aðalinnflutningurinn verið
matvara, neysluvörur og tól og tæki fyrir iðnaðinn.
Olíuvöruinnflutningurinn á áttunda áratugnum vóg þungt í
heildarinnflutningnum en aukin innlend framleiðsla, einkum á Amasónsvæðinu,
snéri dæminu við, þannig að Perúmenn fóru að flyta út olíu og
olíuvörur í kringum 1980. Aðrar
mikilvægar útflutningsafurðir eru hrá- og unnir málmar (kopar,
silfur, blý og sink) og landbúnaðarafurðir (baðmull, sykur og
kaffi). Allt frá sjöunda
áratugnum hefur útflutningur fiskimjöls verið mikilvægur.
Aðalviðskiptaland
Perú eru BNA (u.þ.b. þriðjungur inn- og útflutnings).
Vestur-Evrópulönd og Japan koma næst í röðinni.
Önnur viðskiptalönd eru nágrannalöndin.
Árið 1969 varð Perú aðili að fríverzlunarsambandi Andesríkja
en efnahagsvandamálin hafa komið í veg fyrir að stefnu sambansins
hafi verið framfylgt.
Samgöngur.
Andesfjöllin og flókið vatnakerfi Amasónlægðarinnar gera
Perúmönnum erfitt fyrir í samgöngumálum.
Eina samfellda kerfin eru vegakerfið og flugsamgöngurnar. Járnbrautakerfin tvö hafa ekki verið samtengd og samgöngur
á sjó byggjast á áætlunum alþjóðlegra skipafélaga.
Umferð á ánum á Amasónsvæðinu er ekki mikilvæg vegna
hinna miklu vegalengda og strjálbýlis.
Þjóðvegir liggja frá norðri til suðurs og út frá þeim
til austurs yfir Andesfjöllin. Mikilvægastur
er Pan American-þjóðvegurinn, sem liggur meðfram ströndinni frá
Ekvador til Síle. Annar meginþjóðvegur tengir Lima við Síle um Andesfjöllin.
Aðaljárnbrautin
byrjar í Callao á ströndinni í grennd við Lima og liggur yfir
Andesfjöllin (hæst 4760m). Hún
tengist hliðarsport til Cerro de Pasco, sem þjónar námuvinnslunni á
því svæði. Lengri járnbraut,
Suðurbrautin svokallaða, þjónar Cuzco, Arequipa og öðrum borgum.
Nokkuð af umferðinni um hana hefst í Bólivíu. Callao við Kyrrahafið er stærst margra hafnarborga
landsins. Iquitos við Amasónfljótið,
u.þ.b. 3780 km frá árósunum, er aðalhafnarborgin í austurhlutanum.
Fjöllótt
landslag Perú krefst mikillar samgangna í lofti, þótt þær séu
ekki með öllu hættulausar. Afskekktir
staðir í þéttum regnskógunum og til fjalla eru mjög háðir þeim. Atvinnuflut hófst í landinu árið 1928 og innanlandsfélög
starfa við hlið margra erlendra.
Jorgo Chávez millilandaflugvöllurinn við Callao er mikilvægasti
flugvöllur landsins. |