Lífshættir
Perúmanna, hvort sem þeir búa í borg eða sveit, eru mismunandi
eftir landshlutum. Nútímabyggðirnar
hafa þrenns konar yfirbragð: Forspænska
indíánamenningu, evrópumenningu á strandlengjunni og uppi í Andesfjöllum
og blandaða menningu aðfluttra í borgum og meðal landnema í Montana
(selva).
Margar
ættkvíslir indíána bjuggu á Perú-svæðinu áður en Spánverjar
komu til sögunnar. Þegar
þeir komu fyrst til Andessvæðisins fyrir rúmlega 13.000 árum, voru
þeir veiðimenn og safnarar. Smám
saman þróuðust fjölbreyttari og þægilegri lífshættir.
Með ströndum fram lærðu þeir að veiða fisk og safna
skelfiski. Uppi á hásléttunni
(Puna) stunduðu þeir lamadýraveiðar og lærðu síðan að nýta þau
sem húsdýr. Landbúnaður
þróaðist víða um landið, m.a. með nýtingu margra náttúrulegra
plantna (baunir, kartöflur o.fl.)
Þegar
Spánverjar komu til landsins, bjuggu íbúar þess að mestu í strjálbýlinu
og félagslífið byggðist á þorpum (ayllus).
Þéttbýlustu svæðin voru í árdölunum á strandlengjunni,
nokkrum frjósömum dölum uppi í fjöllum (Cajamarca, Mantaro-dalur við
Huancavo og Cusco) og í kringum Titicaca-vatnið.
Nokkrar borgir höfðu þróast sem höfuðborgir konungsríkja,
s.s. Chimú’s Chan Chán nærri Trujillo og inkaborgin Cuzco, eða trúarmiðstöðvar
eins og Pachacamac sunnan Lima fyrir tíma inka.
Sigur
Spánverja gegn inkum 1532 olli miklum breytingum á búsetu í Andesfjöllum.
Hugur þeirra stóð fyrst og fremst til föðurlandsins í Evrópu
og því byggðu þeir fyrstu borgirnar (Piura, 1532; Lima, 1535, og
Trujillo, 1534) við ströndina til að halda uppi samgöngum við Spán.
Þá einbeittu þeir sér að nýtingu auðæfa í jörðu og
komu upp námum í Huancavelica og Potosí (Bólivíu).
Þegar Indíánarnir fóru að hrynja niður úr evrópskum sjúkdómum,
stofnuðu Spánverjar borgir og smöluðu eftirlifandi indíánum þangað
úr strjálbýlinu. Spánverjar
skiptu landinu í svæði (encomiendas), sem síðar urðu að stórbúgörðum
(haciendas) og komu beztu landbúnaðarsvæðunum í hendur ríkra
eigenda. Þeir komu á
leiguliðakerfi, sem var í gildi fram á miðja 20. öld, þegar farið
var að skipta landinu milli smábændanna.
Líkt
og í öðrum löndum Rómönsku-Ameríku hefur verið gífurlegur
straumur fólks úr strjálbýlinu til borganna á 20. öld, einkum
eftir síðari heimsstyrjöldina. Lima
hefur verið aðalaðdráttaraflið en Trujillo í norðurhlutanum og
Arequipa í suðurhlutanum hafa líka fengið sinn skerf.
Þeir, sem flytjast úr strjálbýlinu segjast vera að flýja
skort á tækifærum og leita betra lífs, betri heilsugæzlu, betri
menntunar og atvinnutækifæra. Sumum
tekst að láta drauma sína rætast en aðrir enda í fátækrahverfunum
til frambúðar og búa þar við sízt betri aðbúnað en heima.
Í
lok 19. aldar varð gúmmí mjög eftirsótt og mikill fjöldi flutti
til Amasónlægðarinnar. Ríkisstjórnin
lagði áherzlu á að bæta hag íbúanna þar, m.a. til að draga úr
flóttanum til borganna á ströndinni, sem voru þegar yfirfullar.
Lagning þjóðvega frá Chiclayo á norðurströndinni til
Montana og frá Lima til Pucallpa í Mið-Montana hefur ýtt undir búsetu
í Montana. Frekara þróunarstarf
austan Andesfjalla á að opna ný svæði til búsetu.
Þessi landshluti en enn þá hinn strjálbýlasti, þrátt fyrir
allar þessar aðgerðir.
Hinn
mikli flótti úr sveitum landsins á 20. öldinni olli mikilli stækkun
borga og þéttbýlisstaða. Lima
er orðin að risavöxnu bákni, tífalt stærra en næststærsta
borgin. Eftir síðari heimsstyrjöldina hafa búsetumálin þróazt
þannig, að í kringum 70% landsmanna búa í borgum og rúmlega fjórðungur
í eða í grennd við Lima.
Arequipa
í Andesfjöllum og Trujillo á ströndinni eru stórar borgir.
Arequipa er stærsta borgin í suðurhluta landsins, stofnuð
1540 og oft kölluð Hvíta borgin vegna þess, að flestar byggingar
hennar eru úr hvítum steini. Nokkrar
stórar áveitur voru byggðar umhverfis borgina til að bæta landbúnaðinn
og nú blómstrar ullar- og mjólkurframleiðsla.
Trujillo er mikivæg borg í norðurhlutanum en er ekki eins áberandi
og Arequipa í suðri, því að samkeppni er minni milli hennar og
annarra nágrannaborga. Í
norðurhlutanum er valdadreifing milli borganna Trujillo, Chimbote,
Chiclavo og Piura. Sögulega
séð er Trujillo miðstöð stjórnsýslunnar og mikilvæg
verzlunarborg. Þar eru
verksmiðjur, sem framleiða dráttarvélar og dísilvélar og matvælaiðnaður.
Chimbote státar af beztu höfn landsins og þar er stálverksmiðja
og fjöldi fiskiðjuvera. Chiclavo
og Piura eru aðallega héraðsmiðstöðvar.
Flestar
borgin uppi í fjöllum eru litlar.
Aðalborgin í norðurhluta Andesfjalla er Cajamarca, sem er þekktust
vegna þess, að þar tókst Francisco Pizarro að handsama inkahöfðingjann
Atahuallpa. Huaraz, 365 km
norðan Lima, er hraðvaxandi borg, sem var tengd Lime með þjóðvegi
á áttunda áratugnum. Sunnar
er Cerro de Pasco, stærsta námuborg landsins.
Huancavo, 165 km austan Lima, er miðstöð landbúnaðar og þekkt
fyrir litríkan sunnudagsmarkað, þar sem indíánar selja alls konar
handverk (lamaullarteppi, slár (poncho) og peysur).
Þekktasta borgin í Andesfjöllum er hin forna Cuzco, sem var
eitt sinn höfuðborg inka. Ferðamenn
alls staðar að koma til að skoða inkarústirnar í borginni og
umhverfis hana og kirkjurnar frá nýlendutímanum.
Aðalborgirnar
í austurhluta landsins eru Iquitow og Pucallpa.
Iquitos er við Efri-Amasónfljótið.
Hún var ekki annað en lítið þorp, þegar gúmmívinnslan hófst
eftri 1880. Þegar henni
lauk, tók við timburvinnsla. Síðustu
árin hafa íbúarnir hafa vaxandi tekjur af ferðaþjónustu og olíu.
Pucallpa við Ucayali-ána er tengd lima um þjóðveg og Iquitos
með fljótabátum. Svæðin
umhverfis borgina eru landnámsbyggðir.
Íbúarnir.
Þjóðflokkar indíána í Perú lifðu aðskildu lífi í
landinu vegna landslags landsins allt fram að komu Spánverja.
Þrátt fyrir samgönguerfiðleikana breiddust sameinandi
menningarstraumar yfir Andesfjöllin a.m.k. þrisvar sinnum.
Chavin-menningin náði til alls svæðisins í kringum 1000
f.Kr., líklega frá trúarhátíðarstaðnum Chavín de Huántar í norðurhlutanum.
Eftir árið 600 réðu huari-indíánar, sem bjuggu í grennd við
núverandi Avacucho, yfir miðhluta Andesfjalla.
Síðan þróaðist inkaríkið, sem náði alla leið frá Norður-Ekvador
til Mið-Síle. Inkatungan
breiddist út um allt hálendið og til strandar, þótt nokkrir hópar
indíána við Titicaca-vatnið töluðu aymara, þegar Spánverjar komu
til sögunnar. Quechua og
aymara eru enn þá ráðandi og opinber tungumál ásamt spænsku á svæðum,
þar sem þau voru töluð fyrrum.
Regnskógasvæðin lágu utan áhrifasvæða inka og þar voru og
eru töluð mörg tungumál og mállýzkur.
Þjóðerni.
Spænsku sigurvegararnir réður þjóðskipulagi landsins, stjórnmálum,
trúarbrögðum og efnhahagsmálum.
Þeir fluttu með sér evrópska menningu og breiddu út tungumál
sitt og trú. Spánverjarnir
fluttu inn nokkra afríska þræla en fjöldi þeirra varð aldrei
mikill. Að fengnu sjálfstæði
og afnámi þrælahalds var fjöldi kínverja fluttur til landsins til
verkamannavinnu og nýir hópar Spánverja, Norður-Evrópubúa og
Japana námu land. Þessar
ólíku þjóðir hafa blandast með hjónaböndum, þannig að þjóðfélagið
er orðið að litríku kynþáttamunstri.
Lífshættir
og framkoma
íbúanna er mjög mismunandi.
Fólk af spænskum ættum og kynblendingar (mestizos) búa aðallega
í strandhéruðunum og ráða yfir mestum hluta auðæfa landsins.
Lítill hópur hvítra heldur um stjórnvölinn í ríkisstjórn
og atvinnulífinu. Menning
kynblendinganna er blanda hátta Evrópumanna og indíána og kölluð
„criollo”. Spænskumælandi
kynblendingar eru miðstétt þjóðfélagsins.
Þeir eru í stjórnunarstöðum og embættum og sumir eru
landeigendur eða verkamenn. Indíánarnir
uppi í fjöllum, sem eru u.þ.b. þriðjungur þjóðarinnar, búa við
örgustu fátækt í erfiðu umhverfi.
Þeir láta sér yfirleitt í léttu rúmi liggja, hvað er að
gerast í þjóðfélaginu. Skipting
lands bætti hag þeirra nokkuð en margir fjallaindíánar eru hirðar
lamadýrahjarða og rækta sína smáskika sér til framfæris.
Líkt og forfeður þeirra, inkarnir, lesa þeir hvorki né
skrifa á spænsku eða sínu gamla máli.
Láglendisindíánarnir í Montana eru í svipaðri stöðu ob
fjallaindíánarnir.
Trúarbrögð.
Trúarbrögð fornindíána voru bæði fjöl- og algyðistrú.
Mikilvægustu guðir þeirra voru Viracocha (faðir og skapari)
og Pacha Mama (Móðir jörð). Sólin,
tunglið og fyrirbæri eins og eldingar og fjöll voru líka tignuð.
Hver menning byggði hof til dýrðar sínum eigin guðum.
Spánverjar
færðu inkunum og öðrum indíánum nýja trúarsiði.
Þeir kenndu katólskuna og boðuðu hana út um allt, byggðu
hundruð kirkna og héldu dýrlingunum hátíðir í hverju þorpi.
Fólkið var ekki nákvæmt í trúarsiðum sínum.
Mótmælendatrúboði óx fiskur um hrygg á 20. öld og Indíánarnir
hafa blandað mörgum heiðnum siðum saman við katólskuna.
Flestir landsmanna eru rómverk-katólskir en trúfrelsi er
tryggt í stjórnarskránni. |