Perú sagan III,
Flag of Peru


PERÚ
 SAGAN III

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Brokkgengt lýðræði.  Oscar Benavides, hershöfðingi (1933-39), var eftirmaður Sánchez.  Honum tókst að endurvekja trú fólksins á efnahag landsins.  Hann leiddi líka hættulegar landamæradeilur um hafnarborgina Leticia við Efra-Amasónfljótið og landræmu, sem veitti aðganga að fljótinu, við Kólumbíu til lykta.  Samkvæmt samningum frá 1922 hafði Perú látið Kólumbíu þessi svæði eftir en trassað að skila þeim.  Benavides vildi komast hjá stríði og Kólumbíumenn fengu yfirráðin.  Hann dró úr áhrifum APRA-flokksins með því að lýsa hann ólöglegan og leggja forsprakka hans í einelti.  Í forsetakosningunum 1939 studdu apristar Manuel prado, sem var bankamaður og kominn af aðalsmannafjölskyldu í Lima.

Í síðari heimsstyrjöldinni studdi Perú BNA, leyfði bandamönnum afnot af flugvöllum og höfnum og seldi þeim eldsneyti, baðmull og málmgrýti.  Árið 1942 rauf Perú stjórnmálasamband við öxulveldin og sagði þeim stríð á hendur 1945.  Í stríðinu tókst Perúmönnum að komast að hagstæðum samningum um landamærin að Ekvador, sem þeir höfðu ráðist inn í, með stuðningi Bandaríkjamanna.

Síðari heimsstyrjöldin var ekki einungis efnahagslega hagkvæm Perúmönnum, heldur vakti hún vonir um raunverulegt lýðræði í landinu.  Prado lét undan almenningsálitinu og studdi framboð José Luis Bustamante y Rivero, lögfræðings og frjálshyggjumanna frá Arequipa, til forsetakjörs.  Hann var aðallega fulltrúi samtaka mið- og efristéttarfólks.  APRA, sem var orðinn löglegur flokkur á ný, fékk meirihluta í neðrideild þingsins og helming sæta í efrideild.  Bustamante framfylgdi sjálfstæðri stefnu og apristar hættu stuðningi við hann.  Þeir stóðu fyrir misheppnaðri uppreisn í Callao og forsetinn bannaði flokkinn.

Einræði Manuel Odría.  Manuel Odría, hershöfðingi, hrifsaði til sín völdin í október 1948 á þeim forsendum að forsetinn væri of linur í baráttunni gegn róttæklingum og greip til harðra aðgerða gegn apristum.  Haya de la Torre leitaði hælis í kólumbíska sendiráðinu, þar sem hann hélt til í 5 ár áður en hann fór úr landi.

Einveldisskeið Odría var pólitískt stöðugt og velmegun var endurreist.  Kóreustríðið á fyrri hluta sjötta áratugsins hleypti lífi í útflutning málmgrýtis og erlend fjárfesting jókst.

Afturhvarf til lýðræðisstjórna.  Í kosningunum 1956 studdi Odría Manuel Prado til sigurs til annars kjörtímabils hans gegn Belaúnde Terry.  Í þessum kosningum gekk fjöldi aprista til liðs við þjóðarflokk Belaúnde.  Prado tók við efnahagskreppu frá Odría og skipaði Pedro Beltrán fjármálaráðherra.  Ráðstafanir hans leiddu til 4½% aukningar vergra þjóðartekna.  Fiskiðnaðurinn tók fjörkipp en indíánar, sem áttu ekkert land til að erja og fátæklingar í borgum létu ekki af þrýstingi sínum.

Árið 1962 var pólitísk spenna í hámarki og enginn þriggja forsetaframbjóenda fékk nægilegt magn atkvæða og þinginu var falið að skera úr um úrslitin.  Herinn hrifsaði völdin og næsta ár stuðlaði hann að því að flokkur Belaúnde fékk sigur í kosningunum.  Belaúnde lofaði að finna lausnir á efnahags- og félagslegum vandamálum.  Lög um eignarnám ónýtts og vannýtts lands voru samþykkt 1964 og tveimur árum síðar búið að endurúthluta talsverðum landsvæðum.  Stjórnin vann að þróun í þéttbýli og sveitarfélögum og uppbyggingu áveitukerfa og skipulagði nýja vegi.  Indíánar voru hvattir til að nema land við austurrætur Andesfjalla.  Nýir háskólar voru stofnaðir og baráttan gegn ólæsi var hert.

Herstjórn 1968-80.  Herinn þvingaði Belaúnde til afsagnar 3. október 1968.  Herstjórnin undir stjórn Juan Velasco Alvarado handsamaði stjórnmálamenn stjórnarandstöðunnar og afnam pólitískt frelsi.  Hinn 9. október þjóðnýtti stjórnin eignir Alþjóðlega olíufélagsins og olli þar með erfiðleikum í viðskiptum við BNA.

Árið 1969 fylgdu frekari aðgerðir í efnahagsmálum, sem juku enn á stirðleika í viðskiptum milli BNA og Perú.  Jarðskjálftinn, sem reið yfir Norður-Perú 31. maí 1970, olli gífurlegu tjóni og ógnaði fjárhagslegu jafnvægi í landinu.

Herstjórnin vann sér fylgi meðal smábænda vegna skiptingar lands, sem var sumpart nýtt undir samyrkjubú ríkisins, einstaklinga eða indíánasamfélaga.  Mikið ávannst í áveitumálum og mikið landflæmi var gert ræknunarhæft.  Fiskveiðar voru styrktar en asjósan hvarf af miðunum 1972 vegna áhrifa El Nino.  Útflutningur fiskafurða hrundi og olli miklu efnahagsáfalli.  Árið 1973 þjóðnýtti stjórnin fiskimjölsverksmiðjur landsins og undir stjórn ríkisfyrirtækisins Petroperú jókst útflutningur olíu og olíuafurða.

Menntunarátak var hafið í samræmi við lög frá árinu 1972.  Það lagði áherzlu á skólakerfi frá „vöggu til grafar”.  Þar var kveðið á um jafnrétti kvenna til names, stofnun skóla í sveitum landsins, sjálfstæði háskóla og viðurkenningu indíánatungnanna quechua og aymara í skólunum í Andesfjöllum austan miðhluta landsins (Sierra).

Herstjórnin ritskoðaði fjölmiðla og lokaði nokkrum útvarpsstöðvum og dagblöðum til að koma í veg fyrir gagnrýni á hina hörðu einræðisstjórn og tók nokkrar einkareknar sjónvarpsstöðvar eignarnámi.  Lögð var áherzla á viðskipti við Kina í þeirri von að hægt væri að selja kínverjum járngrýti og fiskimjöl.  Hvatt var til japanskra fjárfestinga.  Vináttusamband við Sovétríkin leiddi til stofnunar sendiráða Austantjaldsríkja í Perú.

Samdráttur í útflutningi fiskimjöls og lækkað heimsmarkaðsverð á kopar markaði endalok efnahagsbatans og erlendar skuldir jukust vegna umbóta í landbúnaði og uppbyggingar í kopar- og olíuvinnslu.  Ný herstjórn tók við völdum 29. ágúst 1975 undir stjórn Francisco Morales Bermúdez, hershöfðingja, fyrrum ráðherra efnahags- og fjármála.  Stefna stjórnarinnar sveiflaðist stöðugt vegna sífelldra mannaskipta.  Morales hallaðist að hógværri hægri stefnu.  Hann sleppti tökunum á landbúnaðnum og skilaði fiskiðnaðnum til fyrri eigenda.  Námuvinnslan var einkavædd og hvatt var til erlendrar fjárfestingar.

Lýðræðislegir stjórnarhættir á ný.  Moralesstjórnin lagði áherzu á að endurvekja stjórn samkvæmt stjórnarskránni og þing, sem var kosið í almennum kosningum í júní 1978 kom saman til að semja nýja stjórnarskrá.  Apristar voru fjölmennastir á þingi og Haya de la Torre var kosinn forseti.  Nýja stjórnarskráin tók gildi 12. júlí 1979.  Kosningar voru haldnar í maí 1980 og Fernando Belaúnde Terry var kosinn til forseta á ný.  Flokkur hans var í meirihluta í samsteypustjórn.  Hann skilaði dagblöðunum, sem herstjórnin hafði tekið eignarnámi, til fyrri eigenda.  Fjöldi ályktana var samþykktur til efnahagsumbóta og minni afskipta stjórnvalda en þessar aðgerðir dugðu ekki til að draga úr vaxandi efnahags- og stjórnmálakreppu.  Frjálsleg stefna Belaúnde í markaðsmálum leiddi til aukins innflutnings, lægra heimsmarkaðsverð á aðalútflutningsvörum landsins, háir vextir á alþjóðlegum lánamörkuðum og skaðleg áhrif El Nino 1982-83 sköðuðu efnahag landsins gífurlega.  Þessar aðstæður voru frjór jarðvegur til uppvaxtar skæruliðasamtaka nýmaóista Sendero Luminoso og Tupac Amaru, sem kostuðu ríkið stórfé vegna baráttunnar gegn þeim og tjónsins, sem þau ollu.  Verðbólaga jókst stöðugt og náði 3240% frá júní 1980 til júlí 1985.  Efnahagur landsins var í rúst og gjaldmiðillinn sol var lagður niður og inti tók við 1986.

Í kosningunum 1985 gerði APRA sér mat úr ástandinu og kom forseta úr sínum röðum að í fyrsta skipti.  Þetta var hinn ungi og aðlaðandi Alan García Pérez.  Hann stuðaði alþjóðasamfélagið með yfirlýsingu sinni, að Perú myndi aðeins verja 10% af útflutningsverðmætum landsins til að greiða niður erlendar skuldir, sem námu US$ 14.000.000.000.-.  Heimavið tók hann stöðu með þjóðinni og reyndi að koma hjólum efnahagslífsins í gang á ný.  Hann stóð gegn mannréttindabrotum í baráttunni gegn skæruliðum, beitti sér gegn eiturlyfjasölu og reyndi að auka samhygð þjóðarinnar.  Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn lýsti því yfir, að hann gæti ekki veitt landinu frekari lán fyrr en García breytti stefnu sinni í endurgreiðslu lána og sýndi fram á bættan efnahag og jók þannig á hörmungarnar í landinu.  Forsetinn þjóðnýtti bankana 1987 og dró þannig mjög úr vinsældum sínum.  Í lok kjörtímabilsins var verðbólgan stjórnlaus, allsherjarverkföll lömuðu atvinnuvegina og flokkur García sleit sambandi við hann.

Kosningarnar árið 1990 fóru fram í skugga óðaverðbólgu og styrjöld við skæruliða og eiturlyfjasala.  Naumt var á mununum milli Mario Vargas Llosa (demókrata; Fredemo) og Alberto Fujimori (Breytingar 90).  Mario Vargas Llosa, rithöfundur, boðaði harðar aðgerðir gegn verðbólgunni, sem ollu fátæklingum í landinu verulegum áhyggjum.  Fujimori, sem sigraði í kosningunum, náði miklu fylgi með gagnrýni á stefnu Vargas Llosa.  Þó liðu ekki meira en tvær vikur frá því að hann tók við embætti, að hann greip til aðgerða, sem voru ekki mildari en þær sem hann hafði gagnrýnt.  Meðal þess, sem stjórn hans greip til, var að hækka verð á benzíni um 3000%.  Aðgerðir stjórnarinnar dugðu til að ná verðbólgunni niður í eðlilegt horf en þær bitnuðu mest á hinum fátæku.

Í apríl 1992 studdi herinn Fujimori í hallarbyltingu, sem gerði honum kleift að leysa upp þingið.  Nýtt þing var kosið í kjölfarið og ný stjórnarskrá var samin.  Fujimori beitti hinni nýju frjálshyggjustefnu og einkavæddi ríkisnámurnar og önnur ríkisfyrirtæki.  Hann státaði líka af góðum árangri í baráttunni gegn skæruliðum og herinn handsamaði Abimael Guzmán Reynoso, leiðtoga Sendero Luminoso 1992.  Hann stóð líka fyrir skyndiinnrás hersins í bústað japanska sendiherrans, þar sem Gupac Amaru-félagar héldu tugum gísla.  Fujimori sigraði í kosningunum 1995.  Hann var sakaður um spillingu og stjórnarhætti, sem samræmdust ekki stjórnarskránni, þegar hann var kosinn til þriðja kjörtímabilsins árið 2000.  Stjórn hans hrundi síðar sama ár, þegar yfirmaður leyniþjónustunnar, Vladimiro Montesinos, var dæmdur fyrir að múta öldungardeildarþingmanni.  Alejandro Toledo var kosinn forseti árið 2001.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM