Karíbahaf Guadeloupe meira,
Flag of Guadeloupe

Booking.com

SAGAN DÉSIRADE
BASSE-TERRE
ILES des SAINTES
MARIE GALANTE
POINTE-à-PITRE
ST. BARTHÉLEMY

GUADELOUPE
MEIRA

.

.

Utanríkisrnt.

Map of Guadeloupe

Náttúrufar.  þríhyrningslagaður austurhluti eyjunnar, Grande Terre, er byggður upp af hnikuðum kalklögum og miðhluti þessa svæðis einkennist af mjög áberandi merkjum þessarar hreyfingar jarð-skorpunnar.  Þar er að finna kalkhóla, marga keilulaga, sem líta út eins og samansett munstur úr tölunni 8 séð ofanfrá.  Fyrir veðrun vatns og vinds berst kalkið niður á lægra land og myndar sléttlendi, sem kallað er Fonds og nær upp í 136 m yfir sjávarmáli.  Þessu svæði hallar niður til suðurs að ströndinni Riviére du Sud, sem liggur í skjóli kóralrifjanna á milli Pointe-à-Pitre og austuroddans, hins giljótta Pointe des Châteaux-höfða. 

Frábærar strendur og turkislitaðar (turkis = blágrænn gimsteinn) víkurnar eru notaðar út í yztu æsar fyrir ferðaþjónustuna.  Helztu miðstöðvar hennar eru þorpið Gosier, Ste-Anne og St-François.

Landslagið lækkar líka frá miðjum austurhlutanum til austurs og norðurs, allt niður í 40-60 m hæð við strendurnar.  Þar er ræktaður sykurreyr.  Á norðvesturströndinni, á milli flugvallarins og þorpsins Port-Louis, ber mikið á mangrovefenjum, en einkennandi fyrir austur- og norðausturhlutana eru baðstrendur.

Hinar minni eyjar, La Désirade, Iles de la Petite Terre og Marie-Galante eru líka myndaðar úr sprungnum kalklögum, sem halla mismikið til norðvesturs eftir hæð þeirra.  Nokkrar lítt notaðar baðstrendur þar liggja í góðu skjóli kóralrifja.

Riviére Salée er mjór skurður, sem tengir flóana Grand Cul-de-Sack Marin og Petit Cul-de-Sack og skilur austur- og vesturhluta eyjunnar að.  Nyrðri flóinn, hinn fyrrnefndi, iðar af sjávarlífi í kringum kóralrifin.  Hinn syðri skera líka nokkur kóralrif og við hann er Pointe-à-Pitre, viðskiptamiðstöð Guadeloupe.

Vestari hluti Guadeloupe er kallaður Basse Terre.  Hann er líkastur eggi í lögun séður ofanfrá.  Hann er hluti af austur-karabíska eldfjallabeltinu og ber augljós merki eldvirkninnar.  Hann hækkar hægt og sígandi frá Piton de Ste-Rose (357 m) í suðurátt um Mamelles (768 m) til hins virka eldfjalls Soufriére (1 467 m).  Suður af eldfjallinu hallar brattar niður af til suðurs um Monts Caraibes (573 m) og alla leið niður í sjó.  Eyjarnar þar suður af, Dýrlingaeyjar, eiga tilveru sína að þakka landrisi tengdu eldvirkninni á þessum slóðum.

Skipta má Basse Terre í fimm hluta eftir landslagi.  Austurströndin er tiltölulega flöt og sundur skorin af fjölda vatnsfalla.  Þar eru bananaekrur og í bakgrunni eru gljúfrótt fjöllin og margir fossar.  Hitabeltisskógur teygist upp hlíðarnar og endar í regnskógi.  Einkennandi fyrir suðaustur- og suðurstrendurnar eru svartsendnar víkur.  Á vesturströndinni er mikið um lítil flæðilönd umhverfis árósa.  Fyrir ströndinni eru engin kóralrif eins og fyrir austurströndinni og því verða oft flóð þar í stórviðrum. 

Nokkurn vegin beint vestur af Soufriére er höfuðstaður eyjunnar, Basse Terre, þar sem er miðstöð stjórnsýslunnar í landinu.

Þjóðgarðurinn, sem umlykur eldfjallið La Soufriere, nær yfir u.þ.b. 30.000 ha og þar eru nálægt 300 km langir göngustígar.

Engin hættuleg dýr er að finna á eyjunni.  Á árum áður fluttu eyjaskeggjar inn merði til að útrýma rottum, sem þeir gerðu, en þeir útrýmdu líka snákum í leiðinni.  Engin hættuleg skordýr eru þarna á sveimi.

Loftslagið.  Guadeloupe-eyjaklasinn er við vesturjaðar Atlantshafsins í staðvindabelti hitabeltisins.  Eins og á öðrum Karíbaeyjum hefur landslag og hæð fjalla mikil áhrif á loftslagið.  Staðvindarnir flytja með sér rakt loft úr austnorðaustri í u.þ.b. 300 daga á ári og losa sig við lungann af rakanum í austanverðum fjöllunum á Basse Terre.  Úrkoman austast á Grande-Terre er nálægt 700 mm á ári, 1000- 1200 mm á Pointe-à-Titre-svæðinu og milli 8000 og 10.000 mm í austurhlíðum Soufriére á Basse Terre.  Þrír fjórðu hlutar þessarar úrkomu falla á tímabilinu milli júlí og desember.  Febrúar og marz eru þurrviðrasömustu mánuðir ársins.

Meðalárshiti er 25°C við sjávarmál og hitamunur dags og nætur er frá 5°C til 9°C.  Hitamismunur heitasta og kaldasta mánaðar ársins er 5°C.  Vegna legu eyjanna gætir áhrifa kaldra loftmassa frá meginlandi Norður-Ameríku, þannig að hitinn uppi á eldfjallinu Soufriére getur fallið niður að frostmarki.  Hætta á skæðum fellibyljum er mest á tímabilinu júli til september, eins og þeim, sem æddu yfir eyjuna eftirtalin ár og ollu stórkostlegu tjóni í hvert skipti: 12.09.28, 11.08.56 ('Betsy'), 27.09.66 ('Ines) og ágústlok/septemberbyrjun 1979 (David og Frederick).

Stjórnarfar.  Landinu er stjórnað eins og hverju öðru héraði í Frakklandi.  Höfuðborg og stjórnsýslusetur er Basse-Terre.  Fulltrúar amtsmanns eru í Pointe-à-Pitre og St-Martin.  Eyjaskeggjar eiga 3 þingmenn í fulltrúadeild franska þingsins og 2 í öldungadeild.  Þjóðarráðið sitjur 41 fulltrúi og 35 eru í félags- og viðskiptaráðinu.  Allsherjarráðið er skipað 36 fulltrúum frá öllum sýslum og sveitum landsins.

Íbúarnir.  Um þessar mundir búa 330.000 manns í landinu.  Þeir eru að mestu kynblendingar franskra innflytjenda, afrískra negraþræla og indverskra verkamanna.  Aðeins lítill hluti íbúanna, sem flestir eru rómversk-katólskir, er af hreinum evrópskum uppruna.

Fæðingartíðni er há, líkt og á öðrum Karíbaeyjum, þannig að 54% íbúanna eru undir tvítugu.  Árleg fjölgun er á bilinu 1,5% - 2%.  Til að draga úr fólksfjölgunni veitir hið opinbera fólki fjölskylduráðgjöf og þar sem hún dugar ekki ein sér, verður að flytja marga til dreifbýlli svæða.  Árlega eru 2.500 - 3.000 manns fluttir til Frönsku-Gíneu, sem er strjálbýl, eða til Frakklands.  U.þ.b. fjórðungur vinnuafls er bundinn í frumatvinnuvegunum, flestir þeirra í landbúnaði.  Annar fjórðungur starfar í iðnaði og nálega 50% í þjónustugreinum, s.s. verzlun, ferðaþjónustu og stjórnsýslu.

Mesta þéttbýlið er í og við Pointe-à-Pitre, þar sem búa nú (1989) u.þ.b. 110.000 manns.  Næstmesta þéttbýlið er í og við Basse-Terre (50.000).

Undanfarin ár hefur miklu verið kostað til uppbyggingar félagslega- og menntunarkerfisins, þannig að landið telst meðal þróuðustu svæða Karíbahafsins.

Atvinnulífið
Landbúnaðurinn byggist að mestu á ræktun sykurreyrs og banana.  Sykurreyr er ræktaður á 24.000 býlum (60.000 ha), einkum á Grande-Terre, og árleg uppskera er í kringum 965.000 t.  Hún gefur af sér 100.000 t af sykri, 40.000 t af melassa og 100.000 hl af rommi.  Mestur hluti þessarar framleiðslu er fluttur til Frakklands eða annarra landa EB.  Guadeloupe stendur frammi fyrir miklum erfiðleikum með að koma framleiðslu sinni í verð vegna hins mikla offramboðs af sykri í heiminum, mikils kostnaðar við framleiðsluna og úreltra vinnsluaðferða.

Bananaframleiðsla er stunduð á 7.300 ha lands, mest í suðausturhluta Basse-Terre.  Framleiðslan er rúmlega 150.000 t á ári.  Hún er flutt til Frakklands og annarra landa EB.

Grænmetisræktun hefur haslað sér æ stærri völl.  Árið 1989 lágu 5.000 ha lands undir henni og rúmlega 4.200 t voru flutt úr landi, einkum eggaldin.  Þrátt fyrir þessa ræktun, verður að flytja inn 10.000 t af grænmeti á ári.

Beitiland er 22.000 ha og mikil áherzla er lögð á að draga úr innflutningi mjólkur, nauta-, svína- og alifuglakjöti og eggjum.  Miklu fé hefur verið varið til styrktar þessu sviði landbúnaðar hin síðari ár.

Skógrækt er erfið vegna landslags og jarðvegs.  Eyjaskeggjar eru tæplega sjálfum sér nægir með timbur.

Fiskveiðar.  Hinir 800 fiskimenn veiða nálægt 7.500 t, sem eru að mestu flutt úr landi.

Iðnaður.  Uppbygging iðnaðar hefur smám saman sýnt árangur á síðustu árum.  Helzta iðnaðarsvæði landsins er í og umhverfis Pointe-à-Pitre.  Elzlu verksmiðjurnar eru í sykur- og rommframleiðslu, sem hefur átt undir högg að sækja undanfarið.  Í kjölfar þeirra risu verksmiðjur, sem framleiða alls konar drykkjar- og niðursuðuvörur.

Byggingariðnaður hefur eflzt við byggingu virkjana og sementverksmiðju.  Stefnt er að frekari iðnvæðingu á svæði við Pointe Jarry og í grennd við höfuðborgina Basse-Terre.

Viðskipti og þjónusta eru mikilvægustu atvinnuvegir landsins, sem krefjast helmings vinnu-aflsins.  Hið opinbera reynir að stemma stigu við atvinnuleysi ungs fólks með því að veita því vinnu í þessum geira.

Ferðaþjónustan er orðin veigamesta þjónustugreinin.  Árið 1973 voru 1.649 gistirými í landinu en 1988 rúmlega 4.000.  Nýting þess var 64% á þessu árabili.  Lengd dvalar ferðamanna lengdist úr 4,3 dögum í 6 daga í lok þess.  Árið 1988 komu 1,2 milljónir gesta til skemmri eða lengri dvalar.  Tæplega helmingur þeirra kom frá Frakklandi, fimmtungur frá öðrum ESB-löndum, þriðjungur frá Bandaríkjunum og Kanada og restin frá latnesku Ameríku og Austurlöndum fjær.  Flestir komu fljúgandi til Raizet-flugvallar (1 milljón).  Samtímis komu 100.000 ferðamenn með skemmtiferðaskipum.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM