Karíbahaf Guadeloupe Basse-Terre,
Flag of Guadeloupe

Booking.com


BASSE-TERRE
GUADELOUPE

.

.

Utanríkisrnt.

    Volcan de La Soufrière 
(Basse-Terrre Guadeloupe)Basse-Terre er við sjávarmál og íbúafjöldinn er u.þ.b. 14.000.  Hún er höfuðborg Guadeloupe, biskupssetur og veigamikil útflutningshöfn fyrir banana.  Borgin er við rætur eldfjallsins Soufrière á suðvesturströnd eyjarhlutans, sem kallaður er Basse-Terre (vesturhlutinn).  Frakkinn Houel stofnaði hana árið 1640 um svipað leyti og hið stóra virki, Fort Charles, reis í bænum sunnanverðum.  Hún er því ein elzta franska nýlenduborgin í Karíbahafi.  Á síðari hluta 17.aldar teygðist borgin frá virkinu til Rivière aux Herbes.  Árið 1702 og síðar, í Sjö ára stríðinu, lögðu Bretar hana undir sig.  Síðasti hluti 18.aldar var mjög órólegur (franska stjórnarbyltingin) og Bretar komu aftur árið 1794.  Árið 1802 varð borgin vettvangur átaka á milli Richepance hershöfðingja Napóleons, sem var falið að koma þrælahaldinu aftur á í Guadeloupe, og föðurlandsvinarins Louis Delgrès ofursta, sem leiddi hersveitir Basse-Terre.  Hinn 25. maí 1802 gengu Delgrès og 200 liðsmanna hans í opinn dauðann fremur en að gefast upp fyrir hersveitum Napóleons.

Oft hefur fólk orðið að yfirgefa borgina vegna eldgosa í Soufrière, síðast árið 1976, þegar meira en 70.000 manns urðu að dvelja á öruggari stöðum í heila fimm mánuði.  Dagana 28. og 29. september 1979 ollu fellibyljirnir David og Frederick miklu tjóni í borginni.

Skoðunarverðir staðir
Höfnin er m.a. útbúin hleðslutækjum fyrir bananaútflutninginn.  Frá henni er stutt að ráðhúsinu og verzlunargötunum bak við það (Rue des Corsaires og Rue du Docteur Cabre).  Við suðurenda Rue du Docteur Cabre er dómkirkjan (19.öld) með fallegri forhlið.

Suðurborgin.  Handan Rivière aux Herbes byrjar suðurborgin með mörgum stjórnarbyggingum.   Milli Rue de la République og Boulevard du Général de Gaulle, sem liggur meðfram höfninni, er Marché Central (Miðbæjarmarkaðurinn) og litlu sunnar, á horni Avenue Félix Eboué, er þinghúsið (Palais du Conseil Général).  Beint á móti því er dómshöllin með íþróttaleikvanga á báðar hendur.  Ofar er torgið Place du Champ d'Arbaud með  minnismerki og umgirt fallegum nýlenduhúsum.  Enn þá ofar (u.þ.b. 500 m) er grasagarðurinn Jardin Botanique.

Héraðsstjórnin er í húsum ofan við Rue de Lardenoy.  Þar er Palais d'Orleans, sem reist var á fjórða áratugnum til að taka á móti tignum gestum og til hátíðarhalda.  Aðeins neðar er hin vinsæla kirkja Notre-Dame du Mont-Carmel, sem á rætur sínar allt aftur til fyrstu kirkjubyggingar Frakka.  Inni í henni eru fallegir legsteinar.  Pílagrímaferðir þangað hinn 16. júli ár hvert.

Charles-virkið rís stórt og mikið yfir Rivière du Gallion.  Það er tákn stofnunar borgarinnar. Meðal þeirra, sem þar réðu ríkjum voru Richepance hershöfðingi og Gourgeyre aðmíráll.

Umhverfi Basse-Terre
*St-Claude er 10 þúsund manna bær í 570 m hæð yfir sjó 5 km norðvestan Basse-Terre.  Hann er
vinsæll heilsubótarstaður og margir kjósa að búa þar vegna hins þægilega loftslags.  Franskir plantekrueigendur, sem lifðu af rannsóknarleiðangur til Gíneu, stofnuðu hann á 18.öld.  Þegar árið 1823 var opnað þar sjúkrahús.  Í Maison du volcan (Eldfjallshúsinu) er safn um eldvirkni með áherzlu á Soufrière.

Matouba er lítið þorp 3 km norðan við St-Claude í mjög fallegu landslagi.  Það var vinsæll íbúðarstaður innflytjenda frá Indlandi en nú á dögum er það þekkt fyrir ölkeldur sínar.  Rétt hjá  þorpinu er minnismerki um Delgrès hershöfðingja og menn hans, sem gengu í dauðann árið 1802.

*Trace Victor-Hugues er fjallastígur, sem liggur um dýrlegar slóðir.  Hann er 30 km langur, talsvert erfiður og það tekur 10 klst. að ganga hann til enda.  Hann byrjar í þorpinu Matouba, liggur um Savane aux Ananas (1002 m) til Sans-Toucher (1354 m) og síðan niður á við um Col de la Matéliane (1298 m) til Ajoupa Moynac og lengra til norðausturs til Montebello á austurströnd Basse-Terre.

Trace Merwart er jafnfalleg leið út frá Trace Victor-Hugues við þorpið Ajoupa Moynac.  Hann liggur um
Morne Moustique, þar sem er ógleymanlegt útsýni í 1120 m hæð, framhjá Merwartfjalli til Vernou.

Frá St-Claude upp á eldfjallið Soufrière.  Frá Eldfjallahúsinu liggur 6 km langur og þröngur akvegur upp í hlíðar eldfjallsins framhjá Aire du Soleil, sem er góður útsýnisstaður á leiðinni.  Þaðan liggur leiðin í gegnum þéttan hitabeltisskóg að Bains-Jaunes (950 m), sem er járnrík ölkelda við rætur Morne Goyave, og síðan að bílastæðinu Savane à Mulets (1142 m).  Savane er gömul háslétta á hæstu bungu Litlu-Antilleyja, sem rís hæst í hinu virka eldfjalli Soufrière.  Frá bílastæðinu er u.þ.b. 2 klst. ganga upp á fjallið.  Til göngunnar þarf góðan fótabúnað og regnfatnað.

* * La Soufrière rís hæst í 1467 m hæð yfir sjó. Það er í laginu eins og keilustúfur, sem er 900 m í þvermál neðst en 400 m efst.  Hlíðarnar eru brattar, stórgrýttar, giljóttar og lítt gróðri vaxnar, m.a. vegna stöðugs útstreymis brennisteinsgufu og geysimikillar úrkomu (allt að 10.000 mm á ári). Eldfjallskeilan er úr seigfljótandi og súru bergi (líku ríólíti), sem storknaði nokkurn veginn á sama stað og það kom upp úr iðrum jarðar.  Sprungukerfi með norður-suður stefnu skiptir keilunni í tvennt.
Allt frá upphafi búsetu Evrópubúa hefur eldfjallið gosið oft.  Hraungosið 1590 virðist hafa verið hið afdrifaríkasta.  Árin 1797-98, 1836-37, 1956 og 1975-77 urðu geysileg sprengigos vegna mikils grunnvatns á svæðinu.  Mikið af eiturgasi leystist úr læðingi, hraun runnu og aska og grjót þeyttust vítt og breitt.  Gosunum fylgdu jarðskjálftar, bæði fyrir og á meðan.

Tindarnir umhverfis, Carmichael (1414 m) að norðvestan og Col de l'Echelle (1397 m) og gígurinn La Citerne að suðaustan, tilheyra eldvirka svæðinu.

Frá bílastæðinu á Savane à Mulets rennur lestin Chemin des Dames um vesturhlíðar eldkeilunnar til Fente du Nord, norðurhluta hins djúpa sprungukerfis.  Þaðan liggur hin erfiða leið, Piste Verte, framhjá fjölda gufuhvera í átt að gígnum.  Á brotalínunni eru tveir gígar, Gouffre Dupuy og Gouffre Tarissan, sem spúa stöðugt frá sér gufu og rymja.  Þegar þokan hylur ekki sýn þarna uppi er útsýnið geysivítt og fagurt frá hæsta tindinum, Pic de la Découverte (1467 m).  Bezti tíminn til upp-ferðar er frá desember til apríl.

Vegna veðrunar og eldvirkni eru hlutar stíganna upp fjallið erfiðir yfirferðar og ekki bætir þokan úr skák.  Mikillar varkárni er þörf í slæmu skyggni vegna sprungna og jarðhitasvæða.

Ferð frá Pointe-à-Pitre umhverfis Grand-Terre (hringferð; u.þ.b. 120 km).
Ferð frá Pointe-à-Pitre umhverfis Basse-Terre (hringferð; u.þ.b. 160 km).
Ferðin: "Route de la Traversée, Parc Naturel (u.þ.b. 26 km).

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM