Karíbahaf Guadeloupe sagan,
Flag of Guadeloupe

Booking.com


GUADELOUPE
SAGAN

.

.

Utanríkisrnt.

Líklega hefur Guadeloupe byggzt arawökum frá Venezuela líkt og aðrar Karíbaeyjar fyrir 2000 árum.  Minjar sýna, að þessi þjóðflokkur hafi náð allháu menningarstigi.  Hinir herskáu karíbar hófu landvinninga sína í kringum árið 1000 e.Kr. Fátt er um minjar um karíba og þær bera merki um lægra menningarstig en arawaka.

Hinn 4. nóvember 1493 fann Kólumbus eyjuna og Spánverjar misstu fljótt áhuga á henni, þar sem ekki var þar að finna nein verðmæt efni í jörðu.  Fram að lokum 15.aldar heyrði til undantekninga, að Evrópumenn tækju þar land, einkum vegna erfiðs sambýlis við hina árásargjörnu frumbyggja. 

Árið 1635 afréð Richeliu kardínáli að fylgja ráðum landstjórans á St. Christophe, Belain d'Esnambuc, og gerði Guadeloupe að franskri nýlendu.  Undir forustu Liénard de l'Olive og Duplessins d'Ossonville, aðalsmanna frá Normandí, sigldi hópur sjálfboðaliða og trúboða frá Frakklandi til Guadeloupe.  Sjálfboðaliðarnir höfðu gert þriggja ára vinnusamning við Iles d'Amérique félagið.  Landnámið var mjög erfitt vegna skoðanaágreinings foringjanna tveggja og fjandsamlegrar afstöðu indíánanna.  Frá árinu 1644 lét Charles Houel rækta sykurreyr á eyjunum.  Ræktunin var mannfrek og leiddi til þrælahalds.

Árið 1664 var Guadeloupe innlimað í hið nýstofnaða Austur-Indíafélag.  Eftir að það fór á hausinn varð Guadeloupe konunglegt yfirráðasvæði.  Á fyrri hluta 18.aldar var hafin ræktun fleiri nytjaplantna, fyrst indígó (litarefni) og síðan baðmull, kaffi, kakó og tóbak.  Vinnuaflið var samtíningur fanga, mótmælenda, lauslátra kvenna og Afríkunegra.  Dóminikanapresturinn Père Labat skrifaði greinargóða lýsingu á lífinu á eyjunum á fyrsta fjórðungi 18.aldar (1722) og gaf hana út undir nafninu: „Nouveau Voyage aux Iles de l'Amérique".

Árin 1759 og 1763 hernámu Englendingar eyjarnar en létu þær af hendi við friðarsamningana í París.  Á árabilinu 1789 til 1815 gætti glundroðans, sem stjórnarbyltingin í Frakklandi olli víða.  Oft kom til vopnaskaks milli konungssinna og boðbera nýrra hugmynda.  Konungssinnar fengu Breta til liðs við sig.  Erindreki velferðarnefndarinnar, Victor Hugues, sigraði Englendinga og gaf út yfirlýsingu um afnám þrælahaldsins árið 1794.  Á valdatíma hans voru margir plantekrueigendur líflátnir.  Það olli því, að fjöldi hvítra manna fór í felur eða flúði til Louisiana á meginlandi Norður-Ameríku.  Þessar ströngu aðgerði Hugues ollu því, að hann var leystur frá starfi.

Richenpance hershöfðingi Napóleons varð eftirmaður hans.  Hann kom þrælahaldi aftur á árið 1802 og tímabil afturhaldsstefnu hófst.  Á árunum 1810 - 1816 hernámu Bretar Guadeloupe oft.  Árið 1848 var þrælahaldi endanlega afnumið fyrir tilstilli þjóðhetju Martinique, Victor Schoelcher.

Á síðari hluta 19. aldar tóku búskaparhættir eyjunnar á sig þá mynd, sem þeir hafa nú.  Stórfyrirtæki náðu undir sig meira en 50% af ræktanlegu landi og nýttu smábændur og yfir 40.000 indverska verkamenn til búskaparins.  Einnig voru kínverjar og Afríkunegrar fluttir til eyjarinnar.  Vegna hins ólíka uppruna íbúanna komu upp alls konar félagsleg vandamál og árekstrar, sem leiddu til baráttu um sjálfstjórn.

Í seinni heimsstyrjöldinni fylgdu eyjarskeggjar Vichystjórninni en árið 1943 slógust þeir í lið með þjóðfrelsishreyfingunni.  Árið 1945 varð Guadeloupe utanlandshérað í Frakklandi og er því aðili að evrópska efnahagsbandalaginu.  Um alllangt skeið hafa ýmis þjóðarbrot gripið til vopna og barizt fyrir aðskilnaði frá Frakklandi.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM