London áhugaverðir staðir,
[Flag of the United Kingdom]


LONDON
ÁHUGAVERÐIR STAÐIR
.

.

Utanríkisrnt.

 

DOWNING STREET er í Whitehall, SW1.  Brautarstöðvar:  Embankment, Charing Cross.  Gatan er lokuð almennri umferð og ekki er viturlegt að stöðva bíl við enda hennar utan hliðs, því að víkingasveit lögreglunnar kemur umsvifalaust og fer oft óblíðum höndum um fólk vegna ótta við sprengjur.

Downing Street er lítt áberandi blindgata.  Síðan Georg II konungur gerði hús nr. 10 að aðsetri fyrsta forsætisráðherrans, Sir Robert Walpole, árið 1732, hafa stjórnmálalínurnar verið dregnar þar.

Hús nr. 11 er nú opinbert aðsetur fjármálaráðherra landsins og nr. 12 hefur ríkisstjórnin líka til sinna þarfa.  Þessi þrjú hús eru öll einföld í sniði, í georgískum stíl.  Downing Street var byggt upp og skírt í höfuðið á Sir George Downing, sem Karl II sló til riddara, þótt hann hefði þjónað Cromwell.

*DULWICH COLLEGE PICTURE GALLERY er við College Road, SE21.  Brautarstöð:  Brixton.  Lestarstöð:  West Dulwich.  Opið þriðjudaga til laugardaga kl. 10.00-13:00 og 14:00-17:00 og sunnudaga kl. 14:00-17:00.  Aðgangseyrir.

Listasafnið er tæpa 10 km sunnan miðborg Lundúna í Dulwich, þar sem ríkir þægileg þorp-stemmning.  Þar eru falleg georgísk einbýlishús, eina tollgirðingin, sem eftir er í London, lysti-garður, sem skartar sínu fegursta á vorin og háskóli, sem Edward Alleyn (1566-1626) stofnaði í byrjun 17. aldar.  Þessi skóli var síðar endurstofnaður undir nöfnunum Dulwich Collega og Alleyn's skólinn.  Þar er málverkasafnið, fyrsta listasafn Lundúna (1814), sem Sir John Soane hannaði.  Það skemmdist mikið í síðari heimsstyrjöldinni en var endurbyggt.

Í listasafninu eru hollenzk verk (Rembrandt, J. van Ruisdael og Aelbert Cuyp), málverk enskra málara á 17./18. öld (Sir Peter Lely, Sir Godfrey Kneller, William Hogarth, Thomas Gainsgorough, Sir Joshua Reynolds, George Romney og Sir Thomas Lawrence), ítölsk verk (Raffael, Paolo Veronese, Guercino, Canaletto og Giovanni Battista Tiepolo), flæms verk (Peter Paul Rubens, Anthonis van Dyck og David Teniers), spænsk verk (m.a. Bartolomé Murillo) og verk franskra meistara (Antoine Watteau, Nicolas Poussin og Le Brun).

ENGLANDSBANKI er við Threadneedle Street, EC2R, 8AH.  Brautarstöð:  Bank.  Skoðunarferð um bankann möguleg, ef lögð er inn fyrirframumsókn.

Bankinn er oft kallaður „Gamla hefðarmærin við Threadneedle Street” (The Old Lady of T.S.).  Hann er aðalbanki Englands, líkt og Seðlabankinn á Íslandi.  Honum er ætlað að vernda gjaldmiðil landsins, sjá um peningaútgáfu, gæta gjaldeyrisforðans, gefa vísbendingar um vexti og veita ríkisstjórnum ráðgjöf í fjármálum.  Í neðanjarðarhvelfingum bankans eru gullbirgðir landsins.

Englandsbanki var stofnaður með konunglegri tilskipan sem einkabanki árið 1694 til að fjármagna stríðið við Lúðvík 14. Frakkakonung.  Hann var ekki settur undir opinbert eftirlit fyrr en árið 1946.  Bygging bankahússins hófst árið 1788 og lauk árið 1833.  Arkitekt hússins var Sir John Soane.  Sir Herbert Baker endurbyggði húsið að verulegu leyti árið 1924-39.  Hann lét forhliðina og kórinþskar súlurnar standa óbreyttar, en breytti innviðunum þannig, að húsið varð sjö hæða.

Höggmyndirnar yfir aðalinnganginum eru eftir Sir Charles Wheeler.

Gestum bankans er ekki leyft að skoða annað en fordyrið, jafnvel þótt þeir hafi sótt um skoðunarferð fyrirfram.

ETON COLLEGE heitir fullu nafni 'The King's College of Our Lady of Eton beside Windsor'.  Háskólinn er við Slough Road, Eton, Berkshire-greifadæmi, Mið-England, 35 km vestan London á M4.  Símaforval:  0 48 86.  Hann er opinn á skólatíma kl. 14:00-17:00 og í fríum kl. 10:30-17:00.  Aðgangseyrir.

Skoðunarferðir til Windsor-kastala innfela flestar viðkomu í litla bænum Eton með heimsókn í hinn heimsfræga Etoháskóla.  Eton er nærri Windsor, norðan við Windsorbrúna yfir Themse, og bæjarbragurinn er markaður af skólastarfinu.  Englendingar leggja miklu meira upp úr vali skóla en gerist víðast annars staðar í heiminum.  Þetta val getur haft mikil áhrif á stéttarlega stöðu viðkomandi, atvinnumöguleika og afkomu í lífinu.  Eton-háskólinn er meðal „fínustu” skóla Englands.  Þennan siðafastasta háskóla á Bretlandseyjum stofnaði Hinrik VII árið 1440.  Stúdent-arnir skiptast í tvo hópa, heimavistaða ('Collegers'), sem eru beztu nemendurnir og búa og læra frítt (skv. stofnlögum Hinriks VII), og fjarvistaða, sem greiða fyrir skólavist sína og búa á stúdenta-görðum eða í heimagistingu (oft hjá kennurum).  Stúdentarnir verða allir að klæðast skólabúningi.

Kennslan byggist fyrst og fremst á því að þroska og skapgerð einstaklinganna og síðan að auka þekkingu þeirra. Stefnt er að fyrrnefnda markmiðinu með því að kenna nemendum að stjórna tilfinningum sínum í sambúðinni með öðrum á skólamisserunum með ströngum aga og strangri líkamlegri þjálfun.  Með þessu móti eru mótaðir einstaklingar, sem hafa fulla stjórn á sér við allar aðstæður og kunna líka að taka mótlæti.  Þessi aðferð á líklega rætur sínar að rekja til agaðs lífs í klaustrum fyrri alda.

Aðalbygging háskólans er úr rauðum múrsteini umhverfis tvo húsagarða.  Byggingar efri bekkjanna (Upper School) er frá árunum 1689-94, en neðri bekkjanna (Lower School) frá 1624-39.

Skólakapellan er meðal áhugaverðustu hluta skólans.  Hún er byggð í svonefndum 'lóðréttum stíl' (enskur snemmgotneskur stíll) árið 1441.  Hún er í rauninni aðeins kórhluti miklu stærri kirkju, sem fyrirhugað var að reisa á þessum stað.  Auk gamalla grafa eru veggmálverk frá lokum 15. aldar athyglisverð.  Þar eru lýsingar á lífi Maríu guðsmóður, sem málað var yfir á 16. öld en voru síðan hreinsaðar árið 1928.  Í skólagarðinum er bronzstytta af Hinrik VI eftir Francis Bird, 1719.  Gangur liggur frá Lupton-turninum (1520)  að súlnagöngum með 'Salnum' (The Hall; 1450) og að bókasafninu (1729.

FLEET STREET
Brautarstöðvar:  Blackfriars, Temple.  Lokað á sunnudögum.  Fleet Street er líka kallað „Blekstræti”, því að það er aðalmiðstöð brezku pressunnar.  Þar eru ritstjórnir allra stóru dagblaðanna í Bretlandi og alþjóðlegra fréttastofnana.

Allt frá því að fyrsta prentvélin var sett niður í Fleet Street í lok 17. aldar og frá því að fyrsta dagblaðið kom út árið 1702 og fjöldi annarra fylgdi í kjölfarið, hefur þessi útgáfustarfsemi vaxið langt út fyrir þessa mjóu götu.  Hún er engu að síður enn þá kjarni þessarar starfsemi og bundin órjúfanlegum böndum við blaðaútgáfu, þegar um hana er rætt.

Gatan var nefnd eftir læknum „Fleet”, sem hlykkjaðist þarna um og var, eins og aðrar sprænur í borginni, bakteríupyttur, sem var fljótlega byggt yfir.

Meðal sögulegra húsa við götuna eru krárnar „Ye Old Cheshire Cheese”(fyrrum mótstaður margra mikilsmetinna rithöfunda) og „Ye Old Cock Tavern”(mótstaður blaðamanna og prentara), báðar frá 17. öld, og kirkjan St.-Dunstan-in-the-West með styttu af Elísabetu I við suðurvegginn.  Hús nr. 1 við merki hringblómsins við Temple Bar hýsir elzta banka Lundúna, Barnabankann, sem var stofnaður 1671.

FOUNDING HOSPITAL ART TREASURES eða Thomas Coram Foundation for Children er við 40 Brunswick Square, WC1.  Brautar-stöð:  Russell Square.  Opið mánudaga til föstudaga kl. 10:00-16:00.  Aðgangseyrir.

Þetta listasafn er nátengt starfsemi munaðarleysingjahælisins.  Sjúkrahúsið, sem nú er þekkt undir nafninu Thomas Coram Foundation for Children, stofnaði Thomas Coram skipstjóri til að annast munaðarlaus börn.  Þá málaði William Hogarth andlitsmynd stofnandans og hvatti aðra listamenn til að gefa af list sinni, svo að hægt væri að afla fjár til þessara verkefnis.

Árið 1926 var sjúkrahúsið flutt til Berkhamsted, en listasafnið varð eftir í Lundúnum.  Þar eru málverk eftir Hogarth, Reynolds, Kneller, Bainsborough og Millais, uppkast eftir Raffael og minjagripir um vin Comrams, Friedrich Händel.  Í safninu eru líka gripir úr sögu munaðarleysingja-hælisins.

Mynd:  Sólúrið nærri Tower of London.

A - B - C - D - E - F - G - H - J - K - L

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM