London áhugaverðir staðir,
[Flag of the United Kingdom]


LONDON
ÁHUGAVERÐIR STAÐIR
.

.

Utanríkisrnt.

 

CABINET  WAR  ROOMS eru við Clive Steps, King Charles Street, SW1.  Brautarstöð:  Westminster.  Opin fimmtu-daga til sunnudaga kl 10:00-17:50.  Aðgangseyrir.

Neðanjarðarbyrgin (19 herbergi), sem brezka stjórnin undir forsæti Sir Winston Churchill notaði í síðari heimsstyrjöldinni, eru aðeins nokkra metra undir yfirborðinu.  Byrgið, sem var nýlega opnað til sýnis almenningi, er búið alls kyns munum frá stríðsárunum, s.s. símanum, sem Churchill notaði til langra samtala við Roosevelt Bandaríkjaforseta. Fundarherbergið, kortaherbergið og óbrotið svefnherbergi Churchills eru enn þá í bezta standi.


CARNABY  STREET 
Brautarstöðvar:  Oxford Circus, Piccadilly Circus.  Hin þjóðsagnakennda Carnaby-gata, sem aðdáendur bítla- og popptónlistar um allan heim flykktust til á sjöunda áratug 20. aldar, er í Soho.  Hippar, blómabörn og furðufuglar voru þar á hverju strái.  Enn þá minna margar tízkuverzlanir, gallabuxnabúðir og minjagripasölur á þessa tíma.

CENOTAPH er við Whitehall, SW1.  Brautarstöð:  Westminster.  Cenotaph, þjóðarminnismerkið um fallna í báðum heimsstyrjöldum, er í ríkisstjórnarhverfinu Whitehall.  Sir Edward Lutyne hannaði það og á því stendur „To The Glorius Dead”, sem táknar „Tóma gröfin”.  Það var upprunalega gert úr gipsi en síðar úr enskum marmara (Portland-steini) að ósk alþýðu manna og afhjúpað 11. nóvember 1920, tveimur árum eftir stríðslok.  Það var til minningar um hina föllnu í „Stóra stríðinu” eins og fyrri heimsstyrjöldin var þá kölluð.  Það ber engin trúarleg tákn, þar eð hinir föllnu voru af mörgum trúarbrögðum, heldur einungis hernaðarleg merki, fána hersins, flughersins og sjóhersins og verzlunarflotans.

Á minningardegi stríðsins, annan sunnudag í nóvember kl. 11, safnast fulltrúar samveldisins saman við Cenotaph til heiðurs hinum föllnu í báðum heimsstyrjöldum.  Þjóðhöfðinginn og þingmenn, fulltrúar stríðsaðila og aðrir opinberir fulltrúar sækja síðan minningarguðsþjónustu.

CHARTERHOUSE er við Charterhouse Square, EC1.  Brautarstöð:  Barbican.  Opið frá apríl til júlí á miðviku-dögum frá kl. 14:45.  Aðgangseyrir.

Nafnið er komið frá fyrrum klaustri.  Þar er nú elliheimili fyrir karlmenn með sérstök inngönguskilyrði.  Dvalargestir verða að vera í anglíkönsku kirkjunni, piparkarlar eða ekklar eldri en 60 ára og verða að hafa verið í þjónustu hersins eða kirkjunnar.

Þagnarmunkaklaustrið stofnaði Sir Walter de Manny, liðsforingi í her Játvarðar III, árið 1371.  Eftir að klausturlíf lagðist niður (1537) eignuðust ýmsir fasteignina, John Dudley, hertogi af Norðymbralandi (líflátinn 1553) og Thomas Howard (líflátinn 1572).  Árið 1611 keypti Thomas Sutton eignina og breytti henni í skóla, sem varð frægur heimavistarskóli á hæðunum fyrir ofan Godalming í Surrey.

Byggingarnar urðu fyrir miklum skemmdum í síðari heimsstyrjöldinni og voru endurbyggðar mjög vandvirknislega.  Enn þá standa hlutar upprunalegu bygginganna frá 16. og 17. öld og gestum er leyfður aðgangur að eftirfarandi stöðum:

Aðalgarðinum (Master's Court), sem farið er inn í gegnum hliðvarðarhúsið (15.öld; endur-nýjað).  Austurveggir garðsins eru að hluta til veggir fyrrum klausturkirkju.

Kapellunni, sem geymir gröf stofnanda skólans og elliheimilisins, Thomas Sutton, fallega altaristöflu og kór.  Núverandi kapella er fyrrum biblíusalur klausturkirkjunnar.

Stóra salnum (Great Hall) við norðanverðan garðinn.  Hann var reistur á 16. öld úr steinum fyrrum klausturbyggingar.  Nú er hann notaður sem matsalur.

Bókasafninu frá 17. öld við hliðina á matsalnum.

Stóra herberginu (Great Chamber) í bókasafninu.  Það er skrautlegt herbergi með fögrum loftskreytingum og flæmskum veggteppum.

CHELSEA  OLD  CHURCH er við All Saints, Cheyne Walk, Chelsea, SW3.  Brautarstöð:  Sloane Square.  Opin mánu-daga til laugardaga kl. 10:00-12:00, 14:00-16:00 og sunnudaga kl. 14:00-16:00.  Ókeypis aðgangur.

„Gamla kirkjan í Chelsea” var stofnuð á 12. öld, oft endurnýjuð og eftir miklar skemmdir í síðari heimsstyrjöldinni var hún endurbyggð á árunum 1954-58.

Sir Thomas More lét reisa More-kapelluna árið 1528.  Hann lét vin sinn, Holbeins, annast breytingu á tveimur biblíusölum í endurrreisnarstíl, sem voru áður ítalskur altarissalur. Hið leynilega brúðkaup Hinriks VIII og Jane Seymour fór fram í Lawrence-kapellunni nokkrum dögum fyrir hið opinbera brúðkaup.

Meirihluti minnismerkja og grafsteina er frá 17. og 18. öld, s.s. minnismerki Lady Jane Cheyne eftir Bernini (við norðurvegginn) og gröf hins fræga náttúruvísindamanns, Sir Hans Sloane († 1753), í suðausturhorni kirkjutorgsins.

RÁÐHÚS CHELSEA er við Kings Road, Chelsea, SW1.  Brautarstöð:  Sloane Square.  Ráðhúsið var reist árið 1887.  Þar eru haldin einhver virtasta  fornminja- og listsýning í heimi á hverju ári á vorin.  Búnaður hússins innan dyra er í anda þessara sýninga, þannig að hús-gögn, teppi, postulín, gler- og silfurbúnaður, skreytingar, málverk og prentanir verða að vera eldri en frá árinu 1830.

*CHELSEA ROYAL HOSPITAL er við Royal Hospital Road, Chelsea, SW3 4SR.  Brautarstöð:  Sloane Square.  Opinn mánudaga til laugardaga kl. 10:00-12:00, 14:00-16:00 og sunnudaga kl. 14:00-16:00.

Chelsea Royal Hospital var byggður sem heimili fyrir uppgjafahermenn og þar eru nú rúm-lega 500 hermenn eldir en 65 ára.  Þeir klæðast enn þá hinum hefðbundnu einkennisbúningum frá tíma hertogans af Marlborough, skarlatsrauðum á sumrin og dökkbláum á veturna.

Sjúkrahúsið og elliheimilið stofnaði Karl II.  Hann fékk hugmyndina líklega frá Lúðvík 14, Frakkakonungi (Hôtel des Invalides í París, 1670).  Sir Christopher Wren annaðist byggingu fyrstu húsanna á árunum 1682-92 og Robert Adam byggði viðbótarbyggingar 1765-82.  Sir John Sloane lauk verkinu árið 1819.

Það er gengið inn í sjúkrahúsið um 'London-hliðið' að norðaustanverðu.  Í austurhlutanum er sögusafn hans.

Í höggmyndagarðinum er bronzmynd af Karli II, meistaraverk eftir Grinling Gibbons.  Höggmyndin er ævinlega skreytt 29. maí, stofndegi spítalans.  Eftirlaunaþegarnir fá þá tvöfalda greiðslu.

Í aðalbyggingunni er 'Stóri salurinn' (Great Hall), matsalur með fallegum spjaldþiljum.  Konungamyndir og gunnfánar, teknir herskildi í stríðum gegn BNA og Frökkum, prýða veggi hans.  Í húsi forstöðumannsins (Governor's House) er ráðssalurinn (Council Chamber) upprunalega gerður af Sir Christopher Wren með breytingum John Adam og málverkum eftir Van Dyck, Lely og Kneller.

Í garðinum (Royal Hospital Gardens), sem nær niður á bakka Themse, er haldin hin árlega Chelseablómahátíð í maí.  Fallbyssurnar í garðinum eru í nánum tengslum við vistmenn.  Sumar þeirra voru teknar herfangi í orrustunni við Waterloo.

COUNTY  HALL er við Belvedere Road, South Bank, SE1 7PB.  Brautarstöðvar:  Westminster, Waterloo.  Ráðhúsið er opið annan hvern þriðjudag nema á sumarleyfistíma kl. 14:30.

Borgarráð og borgarstjórn Stór-London situr í níu hæða og rúmlega 1500 herberja ráðhúsi á suðurbakka Themse við Westminster-brúna á rúmlega tveggja og hálfs hektara spildu.  Fundir borgarráðs eru opnir.

Bygging hússins, sem er í gerviendurreisnarstíl, hófst árið 1912 og lauk ekki fyrr en tuttugu árum síðar.  Árin 1936 og 1956 var viðbótarbyggingunum, sem lokuðu húsagarðinum, bætt við.

Ráðhúsið sést bezt frá Themse.  Forhlið þess er 250 m löng og miðju hennar prýðir íhvolf súlnaröð.  Áætlanir eru uppi um að leggja göngustíg meðfram ánni til að hægt sé að ganga frá Westminster til City á suðurbakkanum.  Verönd ráðhússins er fyrsti hluti þessa verkefnis og þaðan er gott útsýni yfir ána til þinghússins, alla leið að Waterloo-brúarinnar og Þjóðleikhússins.

**COURTAULD  INSTITUTE  GALLERIES Heimilisfang:  Courtauld-Warburg Building, Woburn Square, WC1.  Brautarstöðvar:  Goodge Street, Russell Square, Euston Square.  Opið mánudaga til laugardaga kl. 10:00-17:00 og sunnudaga kl. 14:00-17:00.

Listasafnið byggist á listaverkum, sem hafa verið gefnar Lundúnaháskóla.  Kjarni þess eru verk, sem Samuel Courtauld, Lord Lee of Fareham, Roger Fry og Princes Gate Collection, ánöfnuði því að þeim látnum.

Courtauldsafnið, eitt hið áhugaverðasta sinnar gerðar í heiminum, er frá tímabilum impressionismans og hinu næsta á eftir.  Þar eru m.a. verk eftir Manet, Degas, Monet, Renoir, Seurat, Cézanne, Gauguin og van Gogh.  Í Lee-safninu eru verk eftir Bartolomeo di Giovanni, Giovanni Bellini, botticelli, Veronese, Bernardino Luini, Tintoretto, Goya og Rubens auk verka brezkra listamanna frá 17. til 19. aldar.  Fry-safnið inniheldur mörg verk listgagnrýnandans sjálfs (Frys) auk verka brezkra og franskra listamanna á síðari hluta 19. aldar og upphafi hinnar tuttug-ustu.

Í minni gjöfum til listasafnsins eru m.a. höggmyndir, munir úr fílabeini, málverk o.fl.

Fyrirhugað er að flytja listasafnið í Somerset House (sjá þar).

COVENT GARDEN Brautarstöðvar:  Covent Garden, Charing Cross, Leicester.

Covent Garden er skemmtanahverfi með veitingastöðum fyrir sælkera, fallegum verzlunum, góðum matvörubúðum o.fl.  Það er í 15 mínútna göngufjarlægð frá Piccadilly Circus og er í raun nýjasta þróun blóma- og grænmetismarkaðarins, sem stóð þar yfir í þrjár aldir.  Eftir að hann var fluttur á hentugri stað upphófust deilur milli borgaryfirvalda, sem vildu láta rífa gömlu markaðshallirnar og borgaranna, sem vildu varðveita svipmót hverfisins og finna húsunum ný hlutverk.

Hugmyndir borgaranna urðu ofan á og hverfið blómstrar.  Í einu vöruhúsanna er ópera Covent Garden og í öðru er haldinn forngripa- og skranmarkaður, sem óhætt er að mæla með.  Bóka- og frímerkjasafnarar komast í feitt í Covent Garden.  Í aðalbyggingunni er verzlanamiðstöð, sem hefur alls kyns vörur á boðstólnum og er opin til kl. 20:00.

Í byggingunni, þar sem gamli blómamarkaðurinn var, er nú Samgöngusafn Lundúna (opið dagl. kl. 10:00-18:00).

Leikhússafnið, sem er allviðamikið, er í gamla blómamarkaðnum.

Ljósasafnið ('The Fantastic Gallery of Holography') er opið þriðjudaga til laugardaga kl. 12:00-18:00.

CRYSTAL PALACE GARÐURINN og ÍÞÓTTAMIÐSTÖÐIN er í Penge, SE19.  Brautarstöð:  Brixton.  Lestarstöð:  Crystal Palace.  Garðurinn er 11 km sunnan London.

Það er margt til afþreyingar í þessum vinsæla skemmtigarði, s.s. dýragarður fyrir börn, skrauttjarnir, bátatjörn og gerviskíðabraut.  Mesta athygli vekur fjöldi forsögulegra dýra úr gipsi á eyju í tjörninni (síðustu merki heimssýningarinnar 1851).

Eftir að garðurinn fékk nafn sitt var hann miðpunktur heimssýningarinnar árið 1851.  Þar var meistaraverk úr steypujárni og stáli, sem leit út eins og steinrunninn foss.  Árið 1854 var flutt þangað höll frá Hyde Park.  Hún var eitt þeirra fyrirbæra í London, sem fólk lét ekki hjá líða að skoða, en hún brann til kaldra kola árið 1936.  Þar sem höllin stóð er nú aðalíþróttamiðstöð Stór-London.

Mynd:  Covent Garden.

A - B - C - D - E - F - G - H - J - K - L

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM