London áhugaverðir staðir,
[Flag of the United Kingdom]


LONDON
ÁHUGAVERÐIR STAÐIR

.

.

Utanríkisrnt.

 

BANQUETING  HOUSE er í Whitehall, SW1.  Brautarstöðvar:  Charing Cross og Westminster.  Opið þriðjudaga til laugardaga kl. 10:00-17:00, sunnudaga, annan páskadag kl. 14:00-17:00.  Aðgangseyrir.Banqueting House var veizlu- og dansstaður hins gamla Whitehallhöll og þjónar nú aftur sama hlutverki.  Whitehall-höll, sem nú er horfinn, var setur erkibiskupanna af York og síðar hins valdamikla kardínála, wolsey.  Eftir að honum var velt úr sessi (1529), lét Hinrik VII stækka höllina og gerði hana að konungssetri.  Þar kvæntist hann Önnu Boleyn, Hinrik VIII dó þar og Elísabeth prinsessa var flutt þaðan til fangavistar í Tower (hún snéri aftur sem drottning).  Oliver Cromwell bjó þar og dó (1658).  Eftir að Vilhjálmur III hafði flutt einkaheimili sitt til Kensington, brann höllin og Banqueting House stóð eitt eftir.Inigo Jones teiknaði húsið í palladio-stíl.  Það var fullbyggt árið 1622.  Húsið, sem stóð þar áður frá tíma Hinriks VIII brann árið 1619.  Innviðir hússins voru endurnýjaðir í sömu mynd og áður.

Við efri enda stigans í húsinu er veizlu- og danssalurinn, tvíkúbískur salur, 38 m langur, 18 m breiður og 18 m hár.  Aðalskraut hans eru níu myndir undir loftinu eftir Peter Paul Rubens, sem hann málaði með aðstoð nemenda sinna (m.a. Jordaens) árið 1635.  Í miðjunni er helgun Karls I og önnur mynd sýnir sameiningu Englands og Skotlands.  Rubens fékk 3000 pund að launum og Karl I sló hann til riddara.

Í Banqueting House gerðust líka sögulegir atburðir.  Brjóstmynd Karls I í stigahúsinu stendur á þeim stað, þaðan sem hann steig út um glugga á pallinn, þar sem höggstokkurinn beið hans.  Þingið skoraði þarna á Oliver Cromwell að taka sér konungstign og þarna hét þingið líka Karli II eilífum trúnaði, þegar Stuart-ættin tók aftur við völdum að syni Olivers Cromwell gengnum.

*BARBICAN  CENTRE heitir fullu nafni 'Barbican Centre for Arts and Conferences', Barbican, London EC2B2AT.  Brautarstöðvar:  Moorgate, Barbican, St. Paul's.  Opið mánudaga til laugardaga kl. 09:00-23:00 og sunnudaga og frídaga kl. 12:00-23:00.  Barbican Centre er menningar- og ráðstefnumiðstöð.

Barbican Centre var opnað í marz 1982.  Það er tíu göngumínútum norðan við St. Paul's dóm-kirkjuna á milli Aldersgate Street og Moorgate Street.  Á þeim rúmlega tíu árum reis 6000 manna byggð, þ.á.m. tvær 120 m háar íbúðablokkir með þessari menningar- og ráðstefnumiðstöð.  Græn svæði, tjörn, gosbrunnar og hjallar gefa svæðinu vinalegt yfirbragð.  Eina byggingin frá því fyrir stríð er St. Giles kirkjan, sem var endurbyggð (upprunalega frá 1390).  Þarna eru líka Guildhall tón- og leiklistarháskólinn, stúlknamenntaskóli og viðskiptadeild City-háskólans.

Aðalaðdráttaraflið hefur samt menningar- og ráðstefnumiðstöðin, sem var hin stærsta sinnar tegundar í Evrópu, þegar hún var opnuð.  Þar er Barbican Hall, tónleika- og ráðstefnusalur, sem tekur 2026 manns í sæti og beinni túlkun, aðalaðsetur Synfóníuhljómsveitar Lundúna;  Barbican leikhúsið (1166 sæti; setur Konunglega Shakespear-leikhópsins;  stúdíóleikhús fyrir 200 áhorf-endur);  listsýningasalur fyrir skiptisýningar í tengslum við höggmyndagarð;  Borgarbókasafn;  Fundarsalir;  þrjú kvikmyndahús;  tvær sýningahallir;  veitingahús;  Guildhall tón- og leiklistarhá-skólinn (hljómleikasalur;  leikhús).

BATTERSEA  PARK er á suðurbakka Themse.  Brautarstöð:  Battersea Park.  Skemmtigarðurinn Fun Fair er opinn daglega frá apríl til september frá kl. 13:00.  Hinn 80 ha Battersea garður var lagður um miðja 19. öldina á suðurbakka Themse í suð-vesturhluta London.  Óteljandi gestir koma, einkum á heitum dögum,  til að njóta íþróttaaðstöðu, sólbaða, bátsferða og fjölda veitingastaða.

Þarna er líka skemmtigarðurinn Fun Fair, sem ungir gestir eru sérstaklega hrifnir af.

Austan garðsins er hið stóra Battersea orkuver, sem var byggt síðla á þriðja áratugi 20. ald-ar og er orðið eitt af táknum London.  Það var hætt að nota það fyrir nokkrum árum og er nú verndað minnismerki um iðnað.  Þar á að byggja upp útivistaraðstöðu og skemmtigarð.

BETHNAL  GREEN  MUSEUM er við Cambridge Heath Road, London E2 9EA.  Brautarstöð:  Bethnal Green.  Lestarstöð:  Cambridge Heath.  Opið mánudaga til fimmtudaga og laugardaga kl. 10:00-17:50 og sunnudaga kl. 14:30-17:50.

Þetta safn er hluti af Viktoríu- og Albertsafninu (sjá þar).  Því var komið fyrir í sérkenni-legri byggingu í viktorískum stíl úr járni, gleri og múrsteinum árið 1872 og hýsir mesta leikfangasafn landsins.  Það er undraheimur fyrir börn á öllum aldri og safnara.

Það er unun að skoða austurlenzka tindáta, evrópska tuskubirni og alls konar dúkkur, sem er stillt upp á mjög smekklegan hátt, eða dúkkuhús, dúkkuföt frá 19. og 20. öld eða ýmiss konar spil.  Þar er líka sýnt silki og silkigerð (Spitalfields silk) og skreytilist (Art Deco) frá 19. öld.

BREZKA  SAFNIÐ (BRITISH  MUSEUM) er við Great Russell Street, Bloomsbury, WC 1B 3DG.  Brautarstöðvar:  Russell Square, Holborn, Tottenham Court Road.  Opið mánudaga til laugardaga kl. 10:00-17:00 og sunnudaga kl. 14:30-18:00.  Leiðsögn fer fram með segubandi, sem gestir leigja og hlusta á á leiðinni í gegnum safnið.  Aðgangur ókeypis.

Á fyrstu hæð safnsins eru (sjá kort):
1-2 grísk bronzöld, 3 Grikkland hið forna, 4 Kuroi, 5 Harpy-gröfin, 6 Bassae, 7 Nereid, 8 höggmyndir frá Parthenon, 9 Karyatid, 10 Payava, 11 list etrúska, 12 mausoleion (niður þrep til 12A), 13 hellensk list, 14-15 rómversk list, 16 Khorsabad, 17 Assyría (niður tröppu á neðri hæð), 19-20 Nimrod, 21 Ninive, 22 niður stiga að grískri og rómverskri byggingarlist, 23 upp stiga að etrúskri list á efri hæð, 24 Palestína á fornöld, 25 stórar egypzkar höggmyndir, 26 assyrískt kirkju-þverskip, 29 Grenville bókasafnið, 30 söguhandrit, tónlist og bókmenntir, 31 Crawford herbergið, 32 Konungsbókasafnið, 33 landakort, 34 íslömsk list frá Suður- og Austur-Asíu, Kína og Kóreu.

Á annarri hæð safnsins eru (sjá kort):
35 Britanía á forsögulegum- og rómverskum tímum, 36 mannlíf á járnöld, 37-39 yngri forsögulegur tími í Evrópu, 40 Britanía á rómverskum tíma,41-42 miðaldalist, 43 leirmunir og kera-mík frá miðöldum, 44 tímamælar og úr, 45 skartgripur frá endurreisnartímanum, 46-47 endurreisn-artímin og næsta tímabil á eftir,49 skiptisýningar, 50 mynt og medalíur, 51 Persía á miðöldum (Persapólis), 52 Anatólía á miðöldum, 53 nýhittítískar höggmyndir, 54 súmerískir og babilónískir skartgripir, 55 forsögulegir tímar Vestur-Asíu, 56 saga ritmáls, 57 Sýría á miðöldum, 58 fílabeins-munir frá Nimrod, 59 Suður-Arabía, 60-61 múmíur, 62 Egyptaland (grafamálverk og papírus), 63 Egyptaland (hversdagslífið), 64 Egyptaland (leirmunir og smáhlutir), 65 Egyptaland (litlar högg-myndir), 66 koptísk list, 67 prentverk og dagblöð, 68 grískar, etrúskar og rómverskar styttur og munir úr brenndum leir, 69 daglegt líf í Grikklandi hinu forna og Róm, 70 Ágústus keisari, 71 Sutton Hoo fjársjóðurinn, 72-73 grískir vasar, 74 austurlenzk málverk, 75 austurlenzk list.

Brezka bókasafnið er undir sama þaki og Brezka safnið.  Bókasafnið fær lögum samkvæmt eitt eintak alls, sem prentað er í Stóra-Bretlandi.  Kjarni þess eru bókasöfn Sir Robert Cotton, Robert Harley (jarls af Oxford), Charles Townley og Sir Hans Sloane, sem voru allir uppi á 18. öld, og hið gamla, konunglega bókasafn Georgs II, sem hann afsalaði sér árið 1757 og safnið fékk árið 1823.  Deildin með prentuðum bókum á 8 milljónir eintaka, handrit eru rúmlega 70.000, skjöl og papírusstrangar rúmlega 100.000, rúmlega 35.000 austurlenskar bækur og handrit og rúmlega 250.000 prentaðar bækur.  Þetta bókasafn er ásamt bókasafni Parísarborgar hið verðmætasta í Evrópu.  Bókaskrá þess er í 63 bókum, sem eru 500 síður hver.

Brezka safnið hýsir listasöfn, sem eru talin meðal hinna mikilvægustu í heimi og hefur verið safnað í Egyptalandi, Assyríu, Babýlon, Grikklandi, Rómarveldi, Suður- og Suðaustur-Asíu, Kína og Evrópu.  Brezka þingið samþykkti lög til stofnunar safnsins árið 1753.  Það var upphaflega (frá 1759) í Montague House, áður en það var flutt í núverandi húsnæði.  Robert Smirke teiknaði það og hóf byggingarframkvæmdirnar, en bróðir hans hélt verkinu áfram og hannaði hina hringlöguðu lestrarsalshvelfingu.  Bygging hússins fór fram á árunum 1823-57.  Það er í klassískum stíl.  Aðal-forhlið þess er 123m löng með bogagöngum, sem hvíla á 44 jónískum súlum.  Norðurhluti hússins, sem er tileinkaður Játvarði VII konungi, var byggður á árunum 1907-14.

Hlutar safnsins, s.s. mannfræðisafnið (sjá Museum of Mankind) og náttúrusögusafnið (sjá Natural History Museum) eru nú í eigin byggingum.  Teikningin af safninu sýnir vel skipulagninguna innandyra, sem er þó breytingum undir-orpin.  Hún kemur í veg fyrir, að fólk þurfi að eyða tíma til að leita þeirra staða, sem það vill skoða. Samt sem áður verða nefndir hér nokkrir hinna athyglisverðustu sýningargripa safnsins:

Höggmyndir frá Parthenon í Aþenu (í sal 8), þ.á.m. 'Hestur Selenu' frá austurgafli.  Tveir hinna fjögurra hesta, sem drógu sigurvagn Selenu, eru í Aþenu, einn týndist.

Risabrjósmyndir Ramses II úr Ramsesseum í Vestur-Þebu (salur 25).  Í sama sal er Rosetta-steinninn, sem fannst árið 1798 við Rosetta í óshólmum Nílar.  Áritarnirnar þessarar svörtu blá-grýtishellu á þremur tungum (egypzkt hýróglífur, heimsmálið og grísk þýðing) eru frá árinu 195 f.Kr.  Þær gerðu mönnum í fyrsta skipti kleift að lesa egypzka hýróglífrið.

Í 'Magna Charta-salnum' (30) eru Codex Sinaiticus (4.öld) og Codes Alexandrinus (5.öld), sem eru meðal dýrmætustu handrita Brezka safnsins.

Í sal 40 er silfurskál með myndum af bakkusi, Herkúles og öðrum verum úr rómverskri þjóðtrú.  Í skálinni miðri er skeggjuð gríma (líklega sjávarguðinn Oceanus) umkringd dísum ríðandi sjávarófreskjum.  Skálin er hluti Mildenhall-fjársjóðsins (4.öld), sem fannst árið 1942 í Mildenhall í Suffolk.

Í Terrakottasalnum (68) er höfuð af tvöfaldri stærð frá 4. öld f.Kr., sem fannst í Satala í Armeníu.

Í sal 69 er Portlandvasinn.  Hann er rómverskur, tveggja laga og í grískum stíl.  Hann er frá 2. öld f.Kr.

Í kjallara safnsins (farið um sali 12, 16 eða 18) eru assýrískir, grískir og rómverskir munir.  Ishtar-musterið í sal 90 er athyglisvert.

BROMPTON  ORATORY heitir fullu nafni 'The Church of the London Oratory of St. Philip Neri' og er við Brompton Road, SW7.  Brautarstöð:  South Kensington.  Opið kl. 06:30-20:30.

Þessi rómversk-katólska kirkja var byggð í endurreisnarstíl á árunum 1854-1884.  Hún er kirkja Oratorian-reglunnar, sem hl. Filippo í Róm (stytta í garði kirkjunnar) stofnaði árið 1575 og Newman kardínáli innleiddi í Englandi árið 1847.  Að innan er hún stórbrotin og kirkjuskipið breitt (hið þriðja stærsta í Englandi á eftir Westminster og dómkirkjunni í York) og ríkulega skreytt.  Auk postulalíkneskjanna úr Carraramarmara milli súlnanna (stytturnar voru í 200 ár í dómkirkjunni í Siena), er eftirfarandi áhugavert:  Hið stórkostlega endurreisnaraltari í Maríukapellunni (altaris-taflan er úr Dóminikanakirkjunni í Brescia); altarið í St.-Wilfried-kapellunni með altaristöflu úr dómkirkjunni í Maastricht auk marmaraskreytingar og mósaíkmynda.

Fólk, sem hefur áhuga á kirkjutónlist og er í London, ætti að athuga, hvort í boði séu hljómleikar í Brompton-Oratorium.  Kirkjan er kunn fyrir orgel- (4000 pípna orgel) og kórtónleika.

BUCKINGHAM-HÖLL er við The Mall, SW1 0QH.  Brautarstöðvar:  St. Jame's Park, Victoria, Hyde Park Corner, Green Park.  Höllin sjálf er lokuð gestum og gangandi.  Vaktaskipti fara fram a.m.k. annan hvern dag í góðu veðri kl. 11:30.  Queen's Gallery er skoðunarvert.  Aðgangseyrir.

Allt frá dögum Viktoríu drottningar hefur Buckinghamhöllin verið setur konungsfjöl-skyldunnar (1837).  Hún var byggð árið 1703 eftir teikningum þáverandi hertoga af Buckingham og árið 1762 tók Georg III sér búsetu þar.  Árið 1825 fól Georg IV byggingameistara hirðarinnar, John Nash, að gera breytingar og stækka höllina.  Árið 1846 var austurálmunni bætt við.  Georg V fól Sir Aston Webb að gera breytingar á austurhlið hennar árið 1913, en þá fékk hún klassískan svip.

Frá dögum Viktoríu drottningar hafa ríkjandi konungar komið fram opinberlega á miðsvöl-um.  Ríkisfáninn blaktir alltaf við hún, þegar þjóðhöfðinginn er heima, og varðmenn standa vörð nótt og dag með bjarnarskinnshúfur sínar.

Fyrir framan höllina er minnismerki helgað Viktoríu drottningu.  Sir Aston Webb annaðist skipulagningu þess og Sir Thomas Brock, myndhöggvari, vann verkið.

Skoðunarferð til Buckingham-hallar ætti að skipuleggja með góðum fyrirvara.  Enginn ætti að missa af vaktaskiptum varðanna, sem fara fram með pompi og prakt þrisvar í viku kl. 11:30, og heimsókn í sýningarsal drottningarinnar (Queen's Gallery), þar sem eru skiptisýningar á ýmsum forláta munum, sem tilheyra krúnunni.

BURLINGTON  ARCADE er við Piccadilly, W1.    Brautarstöðvar:  Piccadilly Circus, Green Park.  Burlington Arcade er mjög dýr og falleg verzlunargata í hjarta Westend.  Þar er verzlað með ýmiss konar smávarning, föt og annað, sem veldur fólki ekki hneykslun vegna útlits eða lyktar.  Á þessari götu er bannað að flauta lagstúf, syngja, leika á hljóðfæri, að bera pakka og spenna upp regnhlíf.

Mynd:  Nelsonsúlan.

A - B - C - D - E - F - G - H - J - K - L

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM