London áhugaverðir staðir,
[Flag of the United Kingdom]


LONDON
ENGLAND

.

.

Utanríkisrnt.

 

ALBERT  HALL heitir fullu nafni 'Royal Albert Hall of Arts and Sciences' (Kensington Gore, SW7; neðanjarðarbrautarstöð:  South Kensington).
Bygging þessa núverandi tónlistahúss, sem hýsir líka alls konar aðrar samkomur, s.s. dansleiki, var hafin að uppástungu Alberts prins, eiginmanns Viktoríu drottningar.

Húsið er sporöskulagað (rúmlega 210 m að ummáli).  Hönnuðir þess voru Fowke kapteinn og Scott hershöfðingi og byggingu þess lauk árið 1871.  Á þeim tíma var það gríðarmikið mann-virki, sem mátti helzt líkja við glæsihús Rómar.  Þrátt fyrir lélegan hljómburð (hefur verið lagað) varð húsið vinsælt tónlistahús vegna skrautsins innandyra og tengsla þess við Albert prins og Viktoríu drottningu.  Meðal vinsælustu tónlistarviðburða í Albert Hall eru hinir svonefndu Proms-tónleikar, sem haldnir eru árlega frá júlí til september.  Miðaverð á þá er mjög lágt, þannig að áheyrendahópurinn er mjög blandaður.  Sjá nánar í hagnýtum upplýsingum, tónlist.

ALBERTS-MINNISMERKIÐ stendur á Kensington Gore, SW7.  Neðanjarðarstöð:  South Kensington.

Sir George Gilbert Scott hannaði minnismerkið af Albert prins frá Sachsen-Coburg-Gotha (1819-1861) og Viktoría drottning afhjúpaði það í Kensington Gardens árið 1876.

Upprunalega hafði drottningin fengið hugmynd um minnismerki í mynd gríðarmikils ein-steinungs (óbilísku), sem átti að stofna til opinberra samskota fyrir.  Það safnaðist ekki nægilegt fé til verksins, þannig að þetta gotneska verk varð til sem afsprengi síns tíma.  Þarna er stytta af Albert prins sitjandi með sýningarskrá heimssýningarinnar 1851 í hendi undir 58 m háum og ríkulega skreyttum hásætishimni.  Sökkullinn (klassískur stíll) er prýddur marmaralágmyndum af 178 nafn-toguðum lista- og vísindamanna allra alda.  Á hornum hans eru frístandandi myndir, sem eru táknrænar fyrir iðnað, verkfræðilist, verzlun og landbúnað.  Á ytri hornunum standa höggmyndir, sem tákna meginlöndin, Evrópu, Asíu, Afríku og Ameríku.

*ALL HALLOWS by-the-TOWER CHURCH er við Byward Street, EC3.  Brautarstöð: Tower Hill.  Kirkjan er opin mánudaga til föstudaga kl. 09:00-17:30 og laugardaga og sunnudaga kl. 10:30-17:30.  Það er einungis hægt að skoða kirkjuna undir staðarleiðsögu.  Aðgangseyrir er greiddur í Undercroft-safninu.

Kirkjan var stofnuð árið 675 og endurbyggð á 13.-15. öld.  Hún skemmdist mikið í loft-árásum í síðari heimsttyrjöldinni og var endurbyggð árið 1957.  Rústir boga frá 7. öld og kross vitna um engilsaxneskan tíma.  Grafhvelfingin, sem var reist á 14. öld, er nú safn.  Múrsteinsturninn (spíran er frá 1959) frá 1658 er gott dæmi um byggingarstílinn á dögum Cromwells.  Stytturnar af hl. Ethelburg og biskupsins Lancelot Andrewes (hann var skírður í kirkjunni) yfir anddyrinu, predikunarstóllinn frá 1670, spænskur kross frá 16. öld (í suðurhliðarskipinu) og grafir frá 15.-17. öld eru áhugaverðar.  Nýi skírnarfonturinn var gerður úr steini frá Gíbraltar árið 1944.

Í grafhvelfingarsafninu (Undercroft-safninu) er eftirlíking af hinni rómversku London auk fleiri muna frá rómverskum og saxneskum tímum.  Í kirkjubókunum er hægt að lesa, að William Penn, stofnandi Pennsylvaníuríkis í BNA, var skírður í kirkjunni árið 1644 og John Quincy Adams, sjötti forseti BNA, gekk þar í hjónaband.

Í minningarkapellunni er krossferðaaltari, sem var upprunalega í kastala Ríkharðs I í Norður-Palestínu, og safn minningartaflna frá London (14.-17.öld).

ALL  SOULS'  CHURCH er við Langham Place, Regent Street, W1.  Brautarstöð:  Oxford Circus.

John Nash teiknaði kirkjuna, sem var byggð á árunum 1822-24.  Í henni er hringlaga súlnafordyri og turn, umkringdur frístandandi súlum.  Mjó turnspíran átti að minna á hin mörgu bogagöng Regent Street, en ljótir veggir BBC-hússins eyðilögðu öll slík áhrif.

Kirkjan skemmdist í síðari heimsstyrjöldinni.  Hún var endurbyggð árið 1951 og færð til nútímahorfs að innan.

ASCOT er 28 km vestan London.  Þorpið Ascot er nokkrum km suðvestan Windsor-kastala.  Þar hittist háaðallinn á hverju ári í júní á hinum heimsfrægu veðreiðum, sem standa í eina viku.  Hápunktur Ascotvikunnar er fimmtudagurinn, 'Gold Cup Day'.  Þá kemur konungsfjöl-skyldan með fylgdarliði í skrautlegri lest frá Windsorkastala.

Mynd:  Covent Garden.

A - B - C - D - E - F - G - H - J - K - L

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM