Karíbahaf Dóminíska lýðveldið meira,
Flag of Dominican Republic

Booking.com

HIGÜEY
SAGAN
PUERTO PLATA
ROMANA
SANTO DOMINGO SANTIAGO DE LOS CABALLEROS

DÓMINÍSKA LÝÐVELDIÐ
MEIRA

Map of Dominican Republic
.

.

Utanríkisrnt.

Náttúrufar.  Hispaníóla er fjalllendust Vestur-Indía og hæsti hluti eyjunnar er í Dóminíska lýðveldinu.  Cordillera Miðfjöllin rísa hæst í Pico Duarte (3.175 m) Loma la Rucilla (3.029 m).  Fjöllin hafa nv-sa-læga stefnu og liggja samhliða þremur öðrum fjallgörðum, sem eru austurhluti ameríska Kordillerfjalllendissins.  Þessir fjórir fjallgarðar á eyjunni eru jarðfræðilega mjög ung rissvæði, eins og fjöldi jarðskjálfta gefur til kynna.  Jarðskorpan er á stöðugri hreyfingu og veldur oft miklu mann- og eignatjóni.

Annað jarðfræðilegt einkenni eru þrír breiðir sigdalir milli fjallagarðanna.  Enriquillosigið er greinilegast.  Dýpsti hluti þess er stöðuvatnið Lago de Enriquillo í sv-hluta Dóminíska lýðveldisins, 44 m undir sjávarmáli.  Hæðarmunur milli vatnsins og Pico Duarte er 3.219 m gefur skorpuhreyfingarnar ógreinilega til kynna, því að landslagið á sjávarbotni vantar í myndina.  Í aðeins 50 km fjarlægð frá norðurströndinni er Puerto-Ricosigdalurinn, sem er dýpsti hluti   Milwaukeeálsins, 9.219 m.

Ræktað land nemur 7% heildarflatarmálsins, ræktanlegt land 43%, beitiland 43%, skóglendi 13% og annað land 14%.  Áveitur voru notaðar á 2.250 km² árið 1989.

Dóminikar búa við vatnsskort.  Jarðvegseyðing vegna ofnýtingar skóga veldur tjóni á kóralrifjum með ströndum fram.  Fellibyljir ganga yfir á tímabilinu júlí til oktober.

Þjóðarsteinninn er raf, sem er allt frá því að vera ljósgult til dökkbrúnt og í flestum tilfellum gegnsætt.  Það er líka kallað „ambar”.  Þessi steintegund finnst aðallega á miðhálendinu og fjalllendinu í norðausturhlutanum.  Þetta er raunar steinrunnin viðarkvoða úr furutrjám, sem innfæddir iðnaðarmenn og listamenn breyta í fallega muni og skartgripi, sem eru vinsælustu minjagripir landsins.  Þeir búa til armbönd, eyrnalokka, brjóstnælur, taflmenn, pípumunnstykki og skálar, sem fást í skartgripaverzlunum.  Einfaldir, slípaðir rafsteinar eru líka vinsælir.  Stærsti, heili steinninn, sem fundizt hefur í landinu vó 9,5 kg.

Loftslagið.  Eyjan er í norðurjaðri hitabeltisins og hitamunur árstíðanna er lítill.  Í júlí, heitasta mánuðinum, er meðalhitinn við sjávarmál 28°C og í janúar, hinum kaldasta, 23°C.  Árstíðamunurinn kemur skírast fram í úrkomunni.  Þurrkatíminn er frá desember til marz og úrkomuskeiðin eru tvö, frá apríl til júní og ágúst til september.  Norðaustan staðvindurinn, sem ríkir allt árið um kring, stjórnar veðurfarinu.  Á regntímanum rignir ekki stöðugt, heldur er mest um síðdegisskúrir.

Landslagið veldur verulegum mismun veðráttu milli landshluta, bæði hvað snertir hitastig og úrkomu.  Hægt er að skipta landinu í grófum dráttum í þrjú veðursvæði eftir hæð yfir sjávarmáli.  Allt upp í 900 m hæð ríkir „tierra caliente” með meðalárshita yfir 21°C. Ofar ríkir „tierra templada” með 21°C-16°C og ofar 2000 m ríkir „tierra fria” með undir 16°C.  Úrkoman breytist líka verulega með hæð, því að staðvindurinn lendir þvert á fjallgarðana.  Mest rignir áveðurs í norðausturhluta landsins (allt að 1900 mm á ári) en í Cordillera Central í suðurhlutanum ekki nema 300 mm á ári.  Þurrviðrasamasta svæði landsins er Enriquillosigdalurinn með ísöltum vötnum sínum.

Gróðurinn.  Flóra landsins er mjög fjölbreytt vegna mismunandi veðurfars og landslags.  Hún nær yfir sígræna regnskóga, fenjaskóga á norðurströndinni og kyrkingslegan þurrviðrisgróður í Enriquillodalnum.  Loftslagið hefur líka áhrif á, hvaða nytjaplöntur eru ræktaðar í hinum ýmsu landshlutum.

Fyrrum var landið gróið furu- og harðviðarskógum, sem fellibyljir, eldur og stjórnlaust skógarhögg eyddi.  Aðeins 14% landsins voru vaxin harðviðarskógi í norð- og suðvesturhlutunum árið 1980.  Þeir eyðast stöðugt vegna kolagerðar og ofbeitar geita, sem éta ungplönturnar.  Furu-skóga, sem þekja nú 10% af flatarmáli landsins, er helzt að finna uppi í fjöllum, þar sem erfiðara er aðgöngu.  Trjávöruviðskipti landsins eru óhagstæð um 30 milljónir dollara á ári.

Fjölbreytni loftslagsins í Dóminíska lýðveldinu gerir landið að fjölbreyttasta gróðurríki Antilleyja, u.þ.b. 36% hinna 5.600 tegunda gróðurs eru upprunaleg.  Rúmlega 125 tegundir plantna eru í útrýmingarhættu, þ.á.m. fjöldi brönugrasa.  Taldar hafa verið 139 tegundir fugla, sem verpa í landinu auk 90 tegunda gesta.

Mikil náttúruspjöll af manna völdum, skotveiðar og innflutningur dýra (kanína, vísla o.fl.) hefur dregið úr fjölda innlendra dýrategunda.

Stjórnarhættir.  Forsetinn, sem kosinn er til fjögurra ára í senn, er mjög valdamikill, því að hann er  jafn-framt forsætisráðherra og yfirmaður herafla landsins og lögreglu.  Þingið starfar í tveimur deildum, öldunga- og fulltrúadeild.  Öldungar eru 27 en fulltrúar 91.  Báðar deildir mynda þjóðþingið.  Landinu er skipt í 26sýslur eða héruð og höfuðborgarsvæðið , Santo Domingo.  Héraðsstjórar eru æðstu menn héraðanna.  Þeir eru kosnir í almennum kosningum og forsetinn staðfestir kjör þeirra.  Kosningaaldur er 18 ár.  Síðustu kosningar fóru fram 16. maí 1994 (næstu í maí 1998).

Efnahagsmál.  Landbúnaðurinn er enn þá mikilvægasta atvinnugrein landsins.  Rúmur helmingur landsins (56%) er nýttur til ræktunar og beitar.  Smábændur rækta einkum banana, (yuca), baunir og sætar kartöflur, sem eru meðal aðalmarkaðsvörutegunda landsins.  Flestir íbúa í strjálbýli eru smábændur, sem hafa lítið land hver um sig og eru of fátækir til að geta beitt beztu ræktunaraðferðum.  Því eru tekjur þeirra lágar og margir þeirra flytja á mölina í leit að betra lífi.  Matvæli eru flutt inn til að mæta stöðugt minni innanlandsframleiðslu á því sviði.  Stórbændur eiga bezta landið og einbeita sér að ræktun til útflutnings, einkum sykurreyr, kaffi, kakóí og tóbaki.  Þeir rækta einnig nautgripi til kjötframleiðslu.

Fólk hefur vaxandi áhyggjur af stjórnlausri ræktun smábænda í fjallahlíðum landsins, þar sem þeir ryðja skóg án alls tillits til þess, hve mikil hætta stafar síðan af hraðvirkri vatns- og vindveðrun.  Þessir búnaðarhættir valda því, að geysimikið magn jarðvegs berst með ánum og fyllir smám saman upp miðlunarlón fyrir áveitur, vatnsveitur og raforkuver.

Landbúnaðarafurðir standa undir tveimur þriðjungum útflutningsverðmæta landsins.  Báxít, nikkel og gull eru þar að auki mikilvægar útflutningsafurðir.  Dóminíkanska lýðveldið er meðal 10 helztu gullútflutningsríkja í Vesturheimi.  Tekjur af útflutningi þessara málma eru nánast jafnmiklar og eytt er í innflutning eldsneytis.  Aðrar útflutningsgreinar eru m.a. vélar, efnavara og matvæli.

Undanfarin ár hafa ríkisstjórnir landsins einbeitt sér að efnahagsumbótum með eflingu ferðaþjónustunnar.  Rúmlega hálf milljón ferðamanna kemur til landsins ár hvert til að njóta hlýs loftslags, fallegra stranda og höfuðborgarinnar.

Íbúarnir.  Hinn mikla mun kynþáttanna á Antilleyjum má rekja til mismunandi atvinnuuppbyggingar nýlendnanna.  Á hinum þéttbýlu sykureyjum blómstraði sykurræktin vegna ódýrs innflutts vinnuafls þrælanna alla 19.öldina.  Á hinu strjálbýlli var stunduð kvikfárrrækt og sjálfsbjargarbúskapur og plantekrubúskapur hófst ekki fyrr en í upphafi 20.aldar, þegar smájarðirnar söfnuðust á fáar hendur.

Frönsku og brezku nýlendurnar voru þéttbýlli vegna fjölda þrælanna og þar eru þeir í meirihluta en hinar spænsku strjálbýlli með hvítt fólk (Spánverja) í meirihluta.  Í Dóminíska lýðveldinu er hvorki svartur (11%) meirihluti né hvítur (16%).  Þar eru múlattar flestir (73%).  Ástæðan fyrir þessari skiptingu er sú, að Haïti, sem var frönsk nýlenda frá 1697 fram á 19.öldina með fjölda svartra íbúa, náði landinu tvisvar undir sig.  Þúsundir hinna þeldökku fluttust frá Haiti til hinna strjálbýlu héraða Dóminíska lýðveldisins og enn þá streyma ólöglegir innflytjendur yfir landa-mærin vegna þess að staða efnahagsmála er hagstæðari í Lýðveldinu og lífsskilyrði betri.

Flestir íbúanna búa inni í miðju landinu, einkum í Cibaodalnum og á Santo Domingo-svæðinu.  Fáir búa í vesturhluta landsins meðfram landamærunum að Haïti.

Heildaríbúafjöldinn var 7.511.263 skv. áætlun 1995.  Íbúafjölgunin er að meðaltali 2,6%, þannig að íbúafjöldinn tvöfaldast á 27 ára fresti.  Hún er í öðru sæti í Vestur-Indíum á eftir Bahama-eyjum (4,2%).  Þrátt fyrir þessa fjölgun er landið enn þá tiltölulega strjálbýlt, 144 íb./km², því að 53% íbúanna búa í borgum.  Á Stór-Santo- Domingosvæðinu búa 1050 íb./km² og í Valle del Cibao, hinum nyrzta langdalanna þriggja, búa 190 íb./km².  Utan þessara þéttbýlustu svæða landsins fer íbúafjöldi á hvern km² langt undir 100.  Samkvæmt áætlun frá 1995 er aldursskipting íbúanna eftirfarandi:  0-14 ára 35% (1.288.210 kvenkyns, 1.336.162 karlkyns), 15-64 ára 61% (2.246.791 konur; 2.312.555 karlar) og eldri en 65 ára 4% (konur 178.388; karlar 149.157).  Fæðingar eru 23,92 á hverja 1000 íbúa og dánartíðni 6,15.  Lífslíkur við fæðingu:  Karlar 66,57 ár og konur 70,99 ár.  Dánartíðni nýbura er tæplega 5% (49,5 af hverjum 1000 lifandi fæddum).  Að meðaltali á hver kona 2,72 börn.

Fátækt hefur knúið fjölda fólks til að flytja til þéttbýlissvæðanna í atvinnuleit, þótt rúmlega helmingur íbúanna búi enn þá í strjálbýli.  Hið aðflutta fólk á mjög erfitt með að finna atvinnu, þannig að landflótti er einnig talsverður.  Flestir þeirra, sem yfirgefa landið, taka stefnuna á BNA.

Þótt múlattar séu fjölmennastir íbúanna, hafa hvítir íbúar landsins haft völdin í sínum höndum.  Þeir ráða viðskiptum, fjármálum, æðri stöðum og ríkisstjórn.  Múlattar skipa flestar stöður foringja í hernum, bæjarstjórna í strjálbýli og lægri stöður embættismanna.  Langflestir tala spænsku og eru rómversk-katólskir.  Kirkjan hefur enn þá mikil áhrif á ýmsum sviðum, sem snerta  menntun, hjónaskilnaði, getnaðarvarnir o.fl., þótt mikið hafi dregið úr þeim.

Atvinnulífið  
Landbúnaðurinn.  Dóminíska lýðveldið er landbúnaðarland.  65-70% útflutningsins er landbúnaðarafurðir með sykur í fyrsta sæti (25% útfl.verðmæta) og auk hans kaffi, bananar, kakó, romm og tóbak.  Ræktað land er rúmlega 50% heildarflatarmálsins og 40% af því eru undir stórbýlum (> 100 ha), sem leggja þó ekki til meira en 0,7% af afurðum.  Mestur hluti stórbýlanna er á sykurræktarsvæðinu á suðurströndinni.  Kakóræktin er aðallega stunduð í Rio Yaqui-dalnum og kaffið er mest ræktað í hlíðum Sierra de Baoruco í suðvesturhlutanum.  Bananar eru helzt ræktaðir á norðvesturlandinu, en þar ræður bandaríska fyrirtækið „United Fruit Company” ríkjum.  Smábændur rækta lítið til útflutnings heldur mest til eigin þarfa.  Þeir rækta m.a. hrísgrjón, maís, linsubaunir, lauk, kartöflur, tapióka og hnýðisaldin.  Kvikfjárræktin er líka áríðandi þáttur í smábúskapnum.

Námugröftur.  Járnnikkel, gull og silfur stóðu undir 25% útflutningsverðmæta árið 1985.  Einnig bíða verulegar báxítbirgðir í jörðu og frekara gull- og silfurnám er í sigtinu.

Iðnaður hefur tekið fjörkipp síðustu árin og er vaxandi atvinnugrein í landinu.  Einkum hefur útflutningsiðnaður á fríverzlunarsvæði landsins aukizt.

Ferðaþjónustan er vinnuaflsfrekur atvinnuvegur, sem hefur farið stórvaxandi með ári hverju.  Árið 1986 komu 600.000 feramenn til landsins.  Santo Domingo, elzta nýlenduborg nýja heimsins og baðstrendurnar (aðallega La Romana í sa-hlutanum) laða æ fleiri ferðamenn að.  Stjórnvöld stuðla að uppbyggingu ferðaþjónustunnar með skattaívilnunum fyrir þá, sem vilja fjárfesta.

Samgöngur.  Járnbrautir eru 1.655 km langar og sporin misbreið (0,558 m og 1,435 m).  Þjóðvegir eru 12.000 km langir, þar af 5.800 km með bundnu slitlagi, malarvegir 5.600 km og slóðar 600 km.

Olíuleiðslur fyrir hráolíu eru 96 km langar og 8 km fyrir fullunnar olíuvörur.  Helztu hafnir eru Barahona, La Romana, Puerto Plata, San Pedro de Macoris, Santo Dominco.  Í landinu eru 36 flug-vellir, 190.000 símar, 6 útvarpsstöðvar og 18 sjónvarpsstöðvar.

Hermál.  Landið heldur úti land-, sjó- og flugherjum auk ríkislögreglu.  Í landinu eru rúmlega 2 milljónir karla á aldrinum 15-49 ára, þar af eru tæplega 1,3 milljónir hæfar til  herþjónustu.  Herskyldualdur er 18 ár og u.þ.b. 80.000 manns er skráður ár hvert.  Heildarútgjöld vegna hermála voru 116 milljónir US$ árið 1994 eða 1,4% af brúttóþjóðartekjum.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM