Karíbahaf Dóminíska lýðveldið Romana,
Flag of Dominican Republic

Booking.com


ROMANA
DÓMINÍSKA LÝÐVELDIÐ

.

.

Utanríkisrnt.

Romana er höfuðstaður samnefnds héraðs á suðausturströndinni við sjávarmál.  Íbúafjöldi 40.000.  Flugvöllur borgarinnar er einungis fyrir litlar flugvélar, þannig að erlendir gestir komast þangað frá Santo Domingo.  Þar  er smábátahöfn og tollafgreiðsla.

Romana er 120 km austan Santo Domingo.  Áin Rio Romana hverfur þar í Karíbahafið.  Ræktun og vinnsla sykurreyrs er mikilvæg tekjulind borgarinnar.


*Casa de Campo
er lúxusferðamannastaður (1975) austan borgarinnar.  Þar er fjöldi hótela, flug-völlur, einn bezti golfvöllur heims, skeiðvöllur, póló- og tennisvellir og fleiri afþreyingarmöguleikar.  Svæðið er 3000 ha stórt og ströndin er að hluta klettótt.  Sandstrendurnar Playa Minitas og við Bayahibevíkina eru pálmum girtar.  Þangað er hægt að komast með smárútum eða bátum.

*Altos de Chavón er eftirlíking af spænskum nýlendubæ frá 18.öld aðeins norðaustar.  Þar er listamannanýlenda með vinnustofum og sýningasölum.

Umhverfi La Romana
Isla Catalina liggur úti fyrir La Romana.  Þangað sækja sóldýrkendur, kafarar, sportsiglarar og stangaveiðimenn með bátum í eigu hótelanna.  Kennsla í köfun og öðrum íþróttum stendur til boða.

La Laguna Beach, Club Dominicus.  Austan La Romana eru fagrar víkur.  Leiðin til la Laguna Beach liggur um stóra sykurreyrsakra.  Þar er ferðamannastaðurinn Club Dominicus (60 sumarhús).

Bahía de Yuma-víkin, austar, er vinsæl meðal sportveiðimanna.

Samaná/Bahía de Samaná.  Víkin er í Samaná- og El Seibohéruðum í norðausturhlutanum.  Leiguflug frá Santo Domingo (Herrera).  Samaná er undurfögur vík með fjölda kóralrifja.  Hún er framhald Cibaosigdalsins.  Í hana rennur Rio Yuna með allstórum árósum.  Sportveiðimenn telja hana einn áhugaverðasta veiðistað í heimi.  Við hana eru margar fallegar, litlar baðstrendur, sem eru aðeins aðgengilegar frá sjó.

Samaná-skaginn.  er 64 km langur og 8-18 km breiður (768 km²; 73.000 íb) með allt að 600 m háu fjalllendi.  Þar til fyrir fáum árum var einungis hægt að komast til hinna ýmsu staða á skaganum á bátum.  Nú hafa verið lagðir vegir um hann.  Á 18. öld settust innflytjendur frá Kanada að á skaganum.  Mörg hundruð bandarískir negraleysingjar stofnuðu þar allmörg þorp á fyrri hluta 19.aldar.  Þeir voru mótmælendur og flestir afkomendur þeirra einnig.

*Santa Bárbara de Samaná er 7000 manna velvarðveittur fiskimannabær við víkina norðanverða.  Hann er höfuðstaður samnefnds héraðs og er orðinn að miðstöð ferðaþjónustu vegna góðra bað-stranda og aðstöðu til köfunar og sjóstangaveiði.  13 km austar er Playa Playuelaströndin og 10 km lengra í norður er Rincónvíkin, þar sem hafa fundizt minjar um frumbyggjana.

Sánchez er 9000 manna hafnarbær 34 km vestan Samaná.  40 km frá Sánchez er Las Terrenasströndin (ferðamannastaður).  Aðrar góðar baðstrendur í grenndinni eru Playa El Cozón, ströndin við Portillo Beach Club og ströndin á Cayo Balleno.

Sabana de la Mar, 10.000 manna hafnarbær, er við víkina sunnanverða, andspænis Samaná.  Þaðan siglir ferja til ýmissa staða í grenndinni.  Góðar baðstrendur umhverfis.

*Bahía de la Jina er einhver mest heillandi baðvíkin á norðurströndinni 30 km austan Sabana de la Mar.

*Cuevas de Cano eru skoðunarverðir kalkhellar 13 km vestan Sabana de la Mar.  Það er allerfitt að komast að þeim og inn í þá.

*Los Haitises er torfært, skógi og gróðri vaxið kalkkeilusvæði suðvestan bæjarins.  Hluti þess er þjóðgarður.

Yunaóshólmarnir er vestantil við víkina. Þeir eru mjög mýrlenir og vinsælir meðal skotveiðimanna.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM