Karíbahaf Dóminíska lýðveldið Santo Domingo,
Flag of Dominican Republic

Booking.com


SANTO DOMINGO
DÓMINÍSKA LÝÐVELDIÐ

.

.

Utanríkisrnt.

Santo Domingo,höfuðborg landsins, er á suðausturströndinni í landshluta, sem kallaður er Distrito Nacional.  Borgin er við sjávarmál og þar býr 1,1 milljón manns (1,6 milljónir með útborgum).

Millilandaflugvöllurinn Las Americas er 30 km austan Santo Domingo.  Þaðan er áætlunar-flug til Aruba og Curaçao (Hollenzku-Antilleyjar), Mayagüez og San Juan (Puerto Rico), Port au Prince (Haïti), Miami, Detroit, New York (BNA) og Madrid (Spánn).

Skemmtiferðaskip hafa reglulega viðkomu, aðallega á leið sinni frá Miami og Fort Lauderdale (BNA), San Juan (Puerto Rico) og Willemstad (Curaçao).  Oft er hægt að fá far með flutn-ingaskipum til Norður-Ameríku og Evrópu.

Höfuðborgin er við vík á suðausturströndinni, sem áin Rio Ozama rennur út í.  Hún var um tíma miðstöð Spánverja í nýja heiminum.  Margar gamlar byggingar frá nýlendutímanum hafa verið vandlega endurnýjaðar.

Sagan.  Bartholomäus kólumbus, bróðir landkönnuðarins, stofnaði borgina við ósa Rio Ozama árið 1496 og skírði hana Nueva, sem síðar varð Santo Domingo.  Næstu árin á eftir var bærinn bækistöð frekari landkönnunarleiðangra til næstu eyja og meginlandsins.  Fyrsti háskóli nýja heimsins var stofnaður þar árið 1538.

Á 16. og 17. öld varð bærinn oft fyrir árásum sjóræningja alls staðar að, m.a. rændi Sir Francis Drake þar og ruplaði árið 1586.  Pólitískur glundroði hafði mikil áhrif á þróun borgarinnar fram til ársins 1844 og blómaskeið hófst eftir að landið fékk sjálfstæði, þótt spænskra áhrifa gætti áfram.

Er tímar liðu, olli óstöðugt stjórnmálaástand stöðnum.  Bandaríkjamenn hernámu landið til að bjarga því frá borgarastyrjöld og héldu því frá 1916 til 1924.  Árið 1930 komst Rafael Leónidas Trujillo til valda með hallarbyltingu.  Á valdatíma hans var nafni höfuðborgarinnar breytt í „Ciudad Trujillo”.  Eftir að einræðisherrann var myrtur árið 1961 og stuttan forsetaferil Juan Bosch, geisaði aftur borgarastyrjöld árið 1965, sem olli á ný stöðnun og afturför í borginni.  Bandaríkjamenn skárust aftur í leikinn.  Þegar nýr forseti hafði verið kosinn árið 1966, hófst endurbygging og verndun gamalla bygginga, sem vel sér merki nú.  Undanfarin ár hefur verið unnið að byggingu nútímaborgarhluta við Plaza de la Cultura, sem skapar áberandi andstæður milli gamla og nýja tímans.

Colóngarðurinn er miðpunktur gamla borgarhlutans, sem er kallaður „Intramuros”.  Þar gnæfir stór bronzstytta af Kólumbusi frá 1897 eftir franska listamanninn Gilbert.  Austan við torgið er Palacio de Borgellá, sem var landstjórabústaður á meðan landið var undir yfirráðum Haïti (1822-1844).  Vestan við torgið stendur fyrrum ráðhús borgarinnar.

**Dómkirkjan 'Santa María la Menor' (1521-1540; endurreisnarstíll) er sunnan við torgið.  Hún var fyrsta dómkirkjan í Ameríku og er líka nefnd „Catedral Primada de América”.  Við aðaldyr hennar er fagur legsteinn úr marmara og bronzi eftir spænska myndhöggvarann Carbonell.  Legsteinninn er til heiðurs Kristófer Kólumbus, sem dóminískir sagnfræðingar álíta að sé grafinn þar.  Kólumbus dó í spænsku borginni Valladolid og var grafinn þar en jarðneskar leifar hans voru fluttar til Santo Domingo og komið fyrir í dómkirkjunni í samræmi við síðustu ósk hans á dánarbeði.  Árið 1795 voru bein, sem talin voru hans, flutt til Havanna og loks til Sevilla, þar sem reistur var yfir þau legsteinn í dómkirkjunni.  Dóminísku sagnfræðingarnir eru þeirrar skoðunar, að líkamsleifar barnabarns hans, Luis Kólumbus, hafi verið fluttar, því að kista landkönnuðarins fannst í Santo Domingo árið 1877 og er enn þá í dómkirkjunni.

Gotneski stíllinn ríkir inni í kirkjunni.  Predikunarstóllinn er silfri skreyttur svo og klukku-verkið, sem Benvenuto Cellini smíðaði líka.  Ríkulegar gersemar kirkjunnar geyma m.a. kórónu Isabellu drottningar frá Kastillíu, sem sett var að veði fyrir greiðslu kostnaðar við fyrstu könnunar-ferð Kólumbusar.

*Casa Tostado (16.öld), sunnan dómkirkjunnar á horni Arzobispo Meriño og Padre Billini, var skírt í höfuðið a rithöfundinum Francisco de Tostado.  Síðar varð húsið bústaður erkibiskupa.  Nú er þar safn um dóminísku fjölskylduna á 19.öld.

Santa Clara-kirkjan er austar og til hægri.  Þá tekur við Calle de las Damas og austan hennar á lóð Ozama-virkisins er Homenajeturninn, sem var byggður árið 1502.

Casa Bastidas, fögur bygging, sem Rodrigo de Bastidas lét byggja í byrjun 16.aldar, stendur aðeins austar.  Húsinu var breytt á 19.öld.  Inngarðurinn með súlnagöngum er athyglisverður.  Nú er keramikdeild Museo de las Casas Reales og nokkrir málverkasalir í húsinu.  Þar eru líka skrifstofur stjórnar þjóðgarða landsins.

Casa Nicolás Ovando, fyrrum bústaður húsameistara borgarinnar, er aðeins norðar.  Andspænis því er fyrrum jesúítaklaustur (1714-1745).  Við hliðina á því er Panteón Nacional, minningarsafn um fræga föðurlandsvini.

Capilla de Nuestra Señora de Los Remedios, sem var guðshús áður en dómkirkjan var byggð.  Skammt norðan þaðan er sólúr, sem smíðað var árið 1753.

**Museo de las Casas Reales er í byggingu, sem áður var stórnarsetur Spænsku-Vesturindía og höll landstjóranna og yfirhershöfðingjanna. Byggingarnar eru frá upphafi 16.aldar en hefur margoft verið breytt og endurbyggðar í tímans rás.  Sýningargripirnir eru ákaflega fræðandi um þróun félagsmála, efnahagslífs, stjórnmála og hernaðar á Hispanjóla allt frá fundi hennar til skammvinns sjálfstæðis árið 1821 (Independencia Efímera).  (Afstöðumynd á bls. 293).

*Alcázar de Colón (byggt 1510-14) er á horni Las Damas og Emiliano Tejera.  Þar bjó Diego Colón, sonur landkönnuðarins mikla.  Innréttingar gangsvalnanna, hátíðar- og móttökusalanna, hús-og listmunir gefa góða mynd af lifnaðarháttum við hirð spænsks varakonungs.  Í byggingum, sem kallaðar eru „Atarazana” (1507), var fyrrum geymsla fyrir alls konar útbúnað skipa.  Nú er þar veitingahús og næturklúbbur og einnig sýningarsalir, listasalir og listmunaverzlanir.

Santa Barbará er virki og kirkja frá 1574 lítið eitt norðar.  Virkishliðið er líka kallað Santa Barbará.

Casa del Cordón á horni Tejera og Isabel Católica er elzta varðveitta húsið í borginni.  Um aldamótin 1500 bjó Diego Colón varakonungur þar, unz byggingu Alcázars var lokið.

San Francisco (1512-1544) var kirkja og klaustur aðeins vestar.  Nú eru þar rústir einar.

San Nicolás de Bari (1508) var fyrsta sjúkrahús í nýja heiminum.  Nicolás de Ovando stofnaði það en nú standa rústirnar eftir.

Las Mercedes (1555-1576) er kirkja og klaustur, sem glataði flestum gersemum sínum, þegar Sir Francis Drake rændi það árið 1586.

Sjálfstæðisgarðurinn (Parque de la Independencia).  Gatan Calle de las Mercedes endar að suð-vestanverðu við garðinn.  Þar er borgarhliðið „El Conde”, þar sem lýst var yfir stofnun Dóminíska lýðveldisins árið 1844 og haldið upp á frelsun landsins undan yfirráðum Haïti.  Handan hliðsins er Þjóðaraltarið og Þjóðargrafreiturinn úr marmara og steinsteypu.  Þar liggja jarðneskar leifar stofnenda lýðveldisins.

Þjóðarhöllin (Palacio Nacional) er norðar í glæsihverfinu Gascue.  Þetta er gríðarmikil kúpulbygging, lögð bleikum marmara.

**Menningartorgið (Plaza de la Cultura) er vestar, í grennd við Avenida Máximo Gómez.  Kringum torgið, sem er prýtt nútíma höggmyndum, eru Þjóðleikhúsið, Þjóðarbókhlaðan, Þjóðminjasafnið (mannfræði og þjóðfræði, og nýlistasafn  með listaverkum frá 20.öld).

Náttúrusögusafnið er aðeins sunnar, við Calle Nicolás Pensón.

Avenida George Washington liggur frá höfninni Placer de los Estudios, sunnan gamla bæjarins, meðfram ströndinni til suðvesturs.  Við hana eru mörg góð hótel og veitingahús.  Tveimur km lengra er háskólahverfið (Ciudad Universitaria), arftaki fyrsta háskólans í nýja heiminum, sem var stofnaður árið 1538.

Centro de los Héroes de Constanza Maimón y Estero Hondo er minningarstaður um þá, sem börðust gegn hinum hataða harðstjóra Trujillo.  Umhverfis eru stjórnarbyggingar, m.a. þinghöllin og ráðhúsið auk útileikhússins „Teatro de Aguq y Luz”.

Paseo de los Indios er skemmtigarður við Avenida Anacaona.

Arroyo Hondo er nýtt hverfi í norðvestanverðri borginni.  Þar er grasagarðurinn, m.a. japanskur garður og fjöldi orkideutegunda.  Dýragarðurinn er aðeins norðar (1,3 milljónir m²).  Þar eru dýrin í náttúrulegu umhverfi sínu.

Villa Duarte-hverfið er austan árinnar Rio Ozama.  Þar er Faro à Colón, stór minningarstaður um Kólumbus á 800 m löngu, krosslaga svæði.

Duartesafnið er við Avenida Isabel la Católica 138.  Þar eru alls konar munir til minningar um sjálfstæðishetjuna Juan Pablo Duarte.  Bezt er að skoða forkólumbíska listmuni við Avenida San Martín.

Umhverfi Santo Domingo
*Los Tres Ojos de Agua eru kalkhellar með neðanjarðarvötnum, sem ár falla í.  Dropasteinamynd-anirnar eru mjög fallegar.  Hellarnir eru 2 km austan borgarinnar í grennd við Autopista de las Américas.

Las Américas-flugvöllurinn.  Autopista de las Américas liggur að honum.  Við aðkeyrsluna að honum er Caletagarðurinn (indíánagrafreitur og safn).
Boca Chica-víkin er austan flugvallarins.  Þar eru góðar baðstrendur (Guayacanes, Juan Dolio).

San Pedro de Macoris er u.þ.b. 80 km frá Santo Domingo.  Þar búa margir þýzkir, franskir, arabískir og spænskir innflytjendur.  Fyrrum var bærinn miðstöð sykurviðskipta í landinu.  Nýlega hafa skilyrði til móttöku ferðamanna verið bætt.

Autopista Sánches liggur til vesturs til Haina og áfram til San Cristóbal, borgar einræðisherrans Trujillo (mahónihús hans er skoðunarvert).  Í grenndinni eru góðar baðstrendur (Najayo, Nigua og Palenque).  Síðan kemur Bani, borg skáldanna, við fagra Ocoavíkina, þar sem alþjóðlegar íþróttakeppnir fara fram ár hvert.Peraviadalurinn í grenndinni er þekktur fyrir góðar mangóplómur.

Azua de Compostela er bær, sem stofnaður var 1504, við víkina norðvestanverða.  Þaðan lögðu Diego Velásquez og Hernán Cortés af stað til að ná undir sig krúnu Montezumas.  Baðstrendurnar við Azua heita Playa Monte Rio, Playa Chiquita og Playa Corbanito.

San Juan.  20 km vestan Azua liggur vegur til norðvesturs til San Juan.  Þar eru velvarðveittir bústaðir indíána.

Sierra de Bagiruco-fjallendið er vinsælt veiðisvæði er vestan Azua. Þar eru líka verulegar báxít-, ónyx- og travertinnámur.

Barahona er sykurframleiðslu- og hafnarborg, sem Toussaint Louverture stofnaði við rætur fjallanna austanverðra.  Um það leyti sem Kólumbus kom, ríkti þar indíánahöfðinginn Anacoana.  Á 18.öld er sjóræninginn Coresis sagður hafa falið fjársjóði sína á þessum slóðum.  Fyrstu vikuna í oktober ár hvert er haldin Carabinédanshátíð.

Lago del Rincón.  Frá Barahona liggur fögur leið til norðvesturs í átt að Rincónvatninu og áfram um þurrvirðrasaman sigdalinn á milli jarðefnaríkra fjallanna Sierra de Bahoruco og Sierra de Neiba, sem var fyrrum vinsælt veiðisvæði.

**Lago Enriquillo er 300 km² stöðuvatn í sigdalnum.  Þangað sækja helzt ferðamenn í ævintýraleit.  Vatnsbotninn liggur 44 neðar en sjávarmál.  Þar er að finna margar tegundir amerískra krókódíla.  Umhverfis vatnið er fjöldi staða, þar sem hafa fundizt forleifar frá tímum indíánanna.

Cabritoseyja var gerð að þjóðgarði vegna dýranna, sem þar lifa.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM