Á
19. öld var þessi fyrrum nýlenda Spánverja þekkt sem land hinna
einmana hestamanna (gauchos) á Pampashásléttunum og búgarðseigenda,
sem lifðu eins og furstar á landareignum á stærð við lítil þjóðlönd.
Síðla á sömu öld og fyrstu þrjá áratugi hinnar 20. varð
Argentína að draumalandi fátækra Evrópumanna, sem sáu tækifæri
til að sjá sér og sínum betur farborða inni í landinu eða í stækkandi
borgunum við hafið. Milljónir innflytjenda streymdu til Argentínu á þessu tímabili.
Þeir fluttu með sér þekkingu og tækni, sem gerðu landið
fljótlega að mesta iðnaðar- og landbúnaðarsvæði Latnesku Ameríku.
Argentínumenn
hafa ítrekað orðið að lúta stjórn harðstjóra, oft með íhlutun
hersins. Annaðhvort var þessum
harðstjórum vikið í byltingum eða þeir sátu þar til þeir dóu
á náttúrulegan hátt. Á
lýðveldistímanum hefur landinu verið stjórnað sem sjálfstæðu fylkjasamband, þar sem hvert þeirra hefur lýðræðislega stjórn.
Síðla á 20. öldinni leið þjóðin fyrir rangar ákvarðanir
ríkisstjórnarinnar og varð fyrir miklum sálrænum og fjárhagslegum
áföllum, s.s. í Falklandseyjastríðinu 1982.
Þar að auki hafa margar efnahagsaðgerðir ríkisstjórna
landsins kynt undir óðaverðbólgu.
Batavonir og úrræði í efnahagslífi landsmanna liggja aðallega
í gífurlegum náttúruauðæfum og velmenntuðum mannauði. |