Argentína landið,
Flag of Argentina


ARGENTÍNA
LANDIÐ

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Lanfræðilega má skipta Argentínu í fjögur meginsvæði:  Andesfjöllin, Norðurhlutann, Pampas og Patagóníu.  Anesssvæðið teygist 3700 km meðfram vesturmörkunum frá Bólivíu til Suður-Patagóníu og myndar náttúruleg landamæri við Síle.  Almennt er þessu svæði skipt í Norðvestur- og Patagóníu-Andesfjöll.  Norðurhlutanum er almennt skipt í tvennt, Gran Chaco, sem er þurrt svæði milli Andesfjalla og Paraná-árinnar, og Mesopotamíu, sem er á milli ánna Paraná og Úrúgvæ.  Miðslétturnar, Pampas, eru grasi vaxnar, en skiptast þó í þurrlendari vesturhluta og rakari austurhluta.  Patagónía er hinn kaldi, skrælnaði og stormasami hluti, sem teygist u.þ.b. 1900 km suður frá miðsléttunum, frá Coloradoánni að Eldlandi (Tierra del Fuego).

Norðvesturhlutinn.  Þarna er helmingur Andesfjalla Argentínu, sem smáhækka upp frá láglendinu austan þeirra.  Efri hluti Colorado-árinnar myndar suðurmörk þessa svæðis.  Innan þess ná tindar Andesfjalla 4900-6700 m hæð yfir sjó.  Milli þeirra eru lægri svæði, punas, og dalir í 3000-4080 m hæð.  Umfang fjallanna og hæð þeirra minnkar, er sunnar dregur frá landamærum Bólivíu.  Hæsta fjall Suður-Ameríku, Aconcagua (6959m) er í Norðvesturhlutanum auk fjölda annarra tinda, sem eru hærri en 6400 m.  Sumir þessara tinda eru eldfjöll.

Suðaustar verða samhliða fjallgarðarnir lægri og mynda stakar einingar.  Dalirnir á milli þeirra eru kallaðir „bolsones”.  Þessi landshluti er oft kallaður Pampasfjöll og líkt við Klettafjöllin í Vestur-BNA.  Einkennandi fyrir þessa fjallgarða eru brattar vesturhlíðar og aflíðandi austurhlíðar, einkum ber á þessu í fjallgarðinum „Sierra de Córdoba”.  Pampasfjöllin eru mjög mishá.  „Sierra de Mogotes” í austurhluta þeirra eru 700 m há og vestar er „Sierra de Famatina” fjalllendið, sem fís upp í 6250 m.

Flóran.  Norðvesturhlutinn nær yfir háfjallaeyðimörkina (puna), skógivaxnar hlíðar Andesfjalla og jaðartrópískan runnagróður í Pampasfjöllum, sem skarast við laufskóga í Gran Chaco.  Háfjallaeyðimörkin skartar dvergvöxnum runnum og lífseigum grastegundum.  Gróðurinn þarna uppi er brúnleitur eins og jarðvegurinn.

Skóglendi þrífast meðfram þessum eyðimörkum alla leið suður að kaldari svæðum í hlíðum Andesfjalla.  Jujube-skógur þrífst ofan 500 m hæðar en risasedrustrén og aðrar tegundir hverfa, þegar komið er upp fyrir 1000 metrana.  Jaðartrópískur regnskógur þrífst í 1200-2100 m hæð.  Þar ber mest á lárviði, sedruðviði og fleiri tegundum.  Verulega dregur úr hæð trjáa ofar og þar svipar gróðurfarinu til þokuskóga, þar sem mytra og lárviður ráða ríkjum.  Enn ofar vaxa lítil og kræklótt tré (guenoa), víða alla leið upp að 3500 metra mörkunum.

Suðaustan Andessvæðisins þrífast þurrkasvæðaplöntur, runnaskógar (monte) og harðger grös eru útbreidd í Pampasfjöllum.  Þar vex líka mímósa, akadía og kaktusar.

Fána.  Í háfjallaeyðimörkinni ber mest á lamadýrategundum (guanaco, alpaca og vicuna).  Suðaustan Andessvæðisins ber mest á hérum, þefdýrum og litlum dádýrum.

„Gran Chaco”.  Vesturhluti norðursvæðisins er „Gran Chaco”.  Hann nær yfir landamærin við Pilcomayo-ána inn í Paragvæ, þar sem svæðið heitir „Chaco Boreal” í munni Argentínumanna.  Argentínski hlutinn milli ánna Pilcomayo og Bermeio er kallaður Mið-Chaco og alla leið suður að 30°S, þar sem Pampasháslétturnar byrja kallast svæðið Suður-Chaco.  „Gran Chaco” lækkar í flötum stöllum frá vestri til austurs.  Vatn af þessu svæði fær litla framrás og við þær aðstæður auk jaðartrópísks loftlags með miklum hita valda lítilli ásókn í búsetu.  Þarna er kyrkingslegur gróður og búast má við sumarflóðum.

Flóra.  Á vestursvæðinu ber mest á þyrniskógi, aðallega karobtré (algaroba) á þurrari og saltari svæðum.  Quebracho-tré, sem sútunarsýra er unnin úr, vaxa þarna líka en ekki í líkum mæli og austar.  Engar plöntur þrífast þar sem saltlag er á yfirborðinu.  Gróft knyppisgrastegundir eru algengar á þurrlendissvæðum steppnanna, þar sem vaxa líka þétt runnastóð auk margra tegunda af kaktusum.

Gróðurinn verður smám saman blómlegri eftir því sem austar dregur.  Þyrkniskógarnir breytast í quebracho-skóga og sums staðar eru þéttir karobtrjálundir.  Nokkurn veginn 150 km vestan Paraná-árinnar þrífast stórvaxin tré.

Fána.  Meðal fjölbreyttrar fánu þessa landshluta má finna dádýr, villisvín, apa, tapíra, jagúara,  púmur (þ.m.t. ocelot), beltisdýr, stóra bjórtegund (tæpl. metri á lengd; capybara) og agouti-nagdýr.  Fuglafánuna prýða m.a. Argentínustrútar (friðaðir).  Í ám og vötnum er fjöldi fiskategunda, s.s. pírana og tegundafjöldi skriðdýra og snáka er mikill.

Mesópótamía er austan „Gran Chaco” í 100-300 km breiðri lægð, sem nær norður til hálendis Suður-Brasilíu.  Þetta svæði er u.þ.b. 1600 km langt til suðurs og sameinast Pampashásléttunni sunnan Plataárinnar (Río de la Plata).  Nafnið er komið úr grísku og þýðir „landið milli ánna”, enda eru árnar Paraná og Úrúgvæ hvor sínum megin.  Norðausturhlutinn, Misioneshéraðið á milli Efri-Paraná- og Úrúgvæánna, er hærra yfir sjó en aðrir hluta Mesópótamíu, en í suðurhlutanum er hæðótt landslag.

Flóra.  Landnámið hefur haft gífurleg áhrif á náttúrulegan gróður, þar sem menn hafa sezt að í landinu.  Mjó belti vaxpálma vaxa á flóðasvæðum.  Meðal algengustu trjátegunda eru quebracho-tré, sem eru nýtt til framleiðslu sútunarsýru, ununday-tré og guayacán-tré (sútunarsýra og byggingarefni).  Trjábelti meðfram ám eru þéttust og hæst í Misiones-héraði.  Paranáfura vex hærra yfir sjávarmáli.

Fána.  Helztu dýrategundir eru jagúarar, apar, dádýr, tapírar, villisvín, fjöldi snáka- og fuglategunda, s.s. hornnefir, þyrilfuglar o.fl.  Talsvert ber á broddlausum býflugum.

Pampas er nafn úr máli quechua-indíána og þýðir „flatlendi” og er mikið notað um grasivaxnar slétturnar í suðausturhluta Suður-Ameríku.  Pampasháslétturnar breikka vestan Plataárinnar upp að hlíðum Andesfjalla og hverfa inn í Suður-Chaco og Suður-Mesópótamíu allt suður að Colorado-ánni.  Austurmörkin eru meðfram strönd Atlantshafsins.

Jarðvegur Pampashásléttunnar, sem er að mestu flatlend, er árset með litlum svæðum þöktum möl og sandi og eldfjallaösku.  Í suðurhlutanum hækkar landslagið smám saman upp að fjallahlíðunum, þar sem finna má gömul setlög og kristölluð berglög.

Flóra.  Einkennisgróður Pampas er fjalllendisskógur á þurrkasvæðum og gras, þar sem úrkoma er meiri.  Mörkin milli þessara svæða fylgja nokkurn veginn 64°V.  Grasið verður allt að hnéhátt, þar sem bezt lætur en á þurrkasvæðunum er meira um lífseigari tegundir.  Upprunalegur gróður er að mestu horfinn vegna ræktunar.

Fána.  Eftir landnám hafa stórar hjarðir nautgripa og hesta tekið við á svæðum, sem eru ekki ræktuð, og náttúrulega fána hefur minnkað.  Samt finnast þar enn þá Argentínustrútar, lítil dádýr, hérar og nagdýr.

Patagónía.  Í þessum landshluta eru Andesfjöllin í bakgrunni Patagóníusléttunnar sunnan Pampas alla leið að syðsta odda álfunnar.  Landslagið lækkar í breiðum, flötum stöllum í átt til Atlantshafs.  Það er augljóst, að sömu jarðskorpuhreyfingarnar, sem mynduðu Andesfjöllin, voru að verki, þegar þessir stallar og sjávarhamrarnir við Atlantshafið urðu til.  Nyrzt í Patgóníu eru sjávarhamrarnir fremur lágir en hækka til suðurs, þar sem þeir verða rúmlega 45 m háir.  Ár og lækir, sem eru stundum jökullituð, hafa myndað breiða dali og þröng gljúfur á leið sinni austur til hafs.

Á Patagóníusvæðinu er svokallað Vatnahérað í nokkrum dölum og lægðum milli Andesfjalla og hásléttunnar.  Eldbrunnar hæðir eru á miðsléttunni vestan Río Gallegos-borgar.  Umhverfis þær er jarðvegur dökkur og vaxinn brúskum af ljósu grasi.  Þetta yfirbragð líkist hlébarðaskinni og er einkennandi fyrir Patagóníu.  Skriðjöklar ísaldarinnar gengu fram á láglendið allrasyðst í Patagóníu, þar sem er að finna stærstu jökulöldurnar í Argentínu.

Flóra.  Víða í Patagóníu eru laufskógar í Andesfjöllunum og austan þeirra eru steppur og eyðimerkur.  Steppusvæðið, sem er stærst, er í norðurhlutanum milli ánna Colorado og hafnarborgarinnar Comodoro Rivadavia.  Suður frá því fer að bera á þurrlendisrunnum en trjágróður þrífst meðfram ám og lækjum.  Vestast, við Andesfjöllin, þrauka sígræn tré (araucaria) og grasbrúskar.  Lágvaxinn runnagróður og grænn steppugróður skiptast á sunnan Comondoro Rivadavia, allt að suðurodda álfunnar.  Barr- og laufskógar Andesfjallanna ná yfir í Síle.  Heimskautabeyki og greni er innan um „araucaria-trén”.  Suður á Eldlandi virðast ýmsar grastegundir hafa elt hopandi ísaldarjöklana og eftir að eldgosaaska hafði dreifzt yfir svæðið fóru heimskautabeyki og kýpressur að nema land í dalverpum og bröttum hlíðum.

Fána.  Á norðursvæðum Patagóníu er lamadýrategund (guanaco), smávaxnir strútar, ernir, hegrar, nagdýr (þ.m.t. hamstrateg. „cavy”), fjallakettir og púmur auk fjölda eitraðra skriðdýra. Patagóníu-Andesfjöllin eru fremur fátæk af dýralífi.  Þar er m.a. að finna minnstu tegund dádýra í heiminum, pududádýrin og villisvínin, sem Evrópumenn fluttu til landsins hafa fjölgað sér þar.  Syðst á meginlandinu eru sérstakar tegundir páfagauga og kanarífugla.  Slíkar fuglategundir eru ella að mestu tengdar hitabeltinu.

Vatnasvið.  Stærsta vatnsfall landsins er Plataáin.  Vatnasvið hennar er 4,1 milljón km² og nær yfir allt Paragvæ, Austur-Bólivíu, mestan hluta Úrúgvæ, stóran hluta af Brasilíu og Norður-Argentínu.  Nafnið nær í rauninni aðeins yfir ósasvæði ánna Pparaná og Úrúgvæ og þýðir „Silfurá”.  Það varð til vegna silfurleitar spænsku landkönnuðanna.  Mikilvægar þverár þessa kerfis eru m.a. Iguazú, Paragvæ, Pilcomayo, Bermeio, Salado og Carcaraná.  Ofan ármóta ánna Iguazú og Alto Paraná dunar áin niður hlíðar Brasilíufjalla, þar sem Iguazú-fossarnir verða til.  Þeir eru meðal mestu náttúruundra heims.

Auk Plataárinnar og aðalþveránna eru fáar meginmóður.  Breiðar ár streyma um „Gran Chaco”, en þær eru sjaldnast nógu djúpar til að vera samgönguæðar.  Langvarandi sumarflóð þekja stór landsvæði og að þeim loknum verða eftir mýrlendi, sem reyndar þorna fljótt á ný.  Á veturna þorna flestar ár og votlendi á „Gran Chaco” upp og talsvert kólnar í veðri.  Aðeins þrjár ár á þessu svæði, Pilcomayo, Bermejo og Salado, sem eiga upptök sín í Andesfjöllum og streyma til ánna Paragvæ og Paraná, þorna ekki alveg upp en mynda víða saltlægðir (salinas).  Stærstu ár svæðisins mynda flókið net kvísla í sumarflóðunum.

Í norðvesturhlutanum veitir Desaguadero-áin og þverár hennar í Andesfjöllunum vatni niður á eyðimerkur Mendoza-héraðsins.  Aðalþverárnar eru Jáchal, Zanión, San Juan, Mendoza, Tunuyán og Diamante.  Árnar Dulce, Primero og Segundo renna til stærsta stöðuvatn Argentínu, Mar Chiquita í Norður-Pampas, sem hefur ekkert frárennsli.  Nafn þess þýðir „Litlisjór”, sem gefur til kynna, hve salt það er.

Árnar, sem renna um Patagóníu frá vestri til austurs, missa mikinn vatnsforða á leið sinni um þurrlend svæði.  Árnar Colorado og Negro eru stærstar í miðsuðurhluta landsins.  Þær vaxa mjög í leysingum á vorin.  Sunnar streymir áin Santa Cruz úr jökullóninu Argentino við rætur Andesfjalla austur til Atlantshafs.


Jarðvegur er margvíslegur eftir landshlutum.  Í norðvesturhlutanum er jarðvegurinn ljósleitur og ísaltur en á Pampassléttunum er hann dökkur, þykkur og víða frjósamur.  Í Gran Chaco er hann gulbrúnn og svolítið saltur en við mörk Mesópótamíu er hann dekkri.  Í Misiones er hann allt frá því að vera ryðrauður að dökkrauðu.  Í Norður-Patagóníu er hann ljósbrúnn og annars staair í þeim landshluta er hann fremur ljósleytur á þurrlendissvæðum.  Í hlíðum Andesfjalla er jarðvegur aðallega gráleytur nema í skóglendum, þar sem hann er dökkbrúnn.

Loftslagið.  Langmestur hluti Argentínu er innan tempraða beltinsins á suðurhveli, þótt önnur lönd í norðurhluta álfunnar séu í hitabeltinu.  Hitabeltisloft berst tiltölulega sjaldan inn í héruðin Formosa og Misiones allranyrzt í landinu.  Syðsti hluti landsins er á 55°S og þar er loftslagið einnig tiltölulega temprað, ólíkt svæðum á sömu breiddargráðu í Norður-Ameríku, þar sem ríkir meginlandsloftslag.  Suðurmeginlandið mjókkar verulega til suðurs, þannig að mildandi áhrifa beggja heimshafanna, Atlants- og Kyrrahafs gætir þar.  Meðalhiti vetrarmánaðanna allrasyðst er yfir frostmarki.  Uppi í Andesfjöllum og í syðsta hluta Eldlands gætir heimskautsveðráttu og freðmýra á mjóu belti frá suðri til norðurs.

Úrkoma er tiltölulega tempruð um allt land  Þurrustu svæðin eru í norðvesturhlutanum og suðurhluta Patagóníu.  Mest rignir í norðausturhltuanum, rakari Pampassléttunum, Mesópótamíu og Austur-Chaco.  Þrumuveður (pamperos) með hagléljum eru algeng.  Á veturnar valda kyrrstæð skil löngum úrkomutímabilum, einkum á Pampassléttunum.  Stundum ryðjast heitir loftmassar frá hitabeltinu suður á bóginn á veturna og ylja fólkinu, sem býr við þetta rigningartímabil.

Andesfjallasvæðið.  Á hlutum norðaustursvæðisins er sumarmeðalhiti nálægt 20°C og stundum ber við meginlandsloftslagi, þannig að hiti fer niður fyrir frostmark á veturna, þegar heiðskírt er.  Hærra uppi í fjöllunum er stundum talað um túndru- (<10°C) eða jafnvel heimskautaloftslag (>3500m).  Þegar sunnar dregur nær túndruloftslagið til lægri svæða, þar til fer að gæta áhrifa heimshafanna allrasyðst á Eldlandi.  Hæstu tindar Andesfjalla eru þaktir eilífum snjó.

Regnskuggasvæðið.  Argentína hefur stærstu þurrkasvæði meðfram Atlantshafsströndinni allra Suður-Ameríkuríkja.  Þessu veldur regnskuggi, sem myndast, þegar loftmassar fara yfir fjalllendi austan Andesfjalla   Þetta náttúrufyrirbæri á norðvestursfæði Andesfjalla og teygist meðfram austurhlíðunum suður að Eldlandi.  Á þessu svæði er miðlægt þurrkasvæði umkringt steppum, sem fá u.þ.b. tvöfalda úrkomu þurrkasvæðisins.  Þar er uppgufunin samt meiri en úrkoman, þannig að þar þrífst ekki trjágróður.  Víðast á þurrkasvæðunum er vindasamt og landrof mikið.  Þetta á einkum við í Patagóníu, þar sem sandstormar valda stöðugu mistri.

Pampassvæðin.  Á þessum sléttusvæðum er sumarhiti hár í norðurhluta landsins og svalara er sunnar dregur.  Buenos Aires  er við norðurjaðar þessara svæða.  Þar er meðalhiti svipaður því, sem Bandaríkjamenn búa við í suðausturhluta BNA.  Loftslagið er heitt og rakt á sumrin og veturnir eru svalir og mildir.  Sumarhitinn er 22-24°C (desember-febrúar) og vetrarhitinn 8-13°C (júní-ágúst).  Á rakari pampassvæðunum er úrkoman mismunandi.  Í austurhlutanum u.þ.b. 990 mm og 500 mm nær Andesfjöllunum, sem rétt dugar til að ræktunar án áveitna.  Kuldaskil á leið norður frá Patagóníu, einkum í júlí, valda stundum frosti og snjókomu á pampassvæðunum og í Mesópótamíu.  Snjókoma er afarsjaldgæf í Buenos Aires.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM