Argentína efnahagslífið,
Flag of Argentina


ARGENTÍNA
EFNAHAGSLÍFIÐ

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Efnahagur Argentínu hefur byggzt á iðnaði og landbúnaði síða á 19. öld en þjónustugreinum hefur fjölgað hratt.  Aðeins Brasilía framleiðir meira af korn- og kjötvöru í Latnesku-Ameríku og landið er líka í öðru sæti í ferðaþjónustu eftir Mexíkó.  Verg þjóðarframleiðsla á mann er líka með því, sem hæst gerist í sama heimshluta.  Á sextíu ára tímabili eftir stofnun landbúnaðarhéraðsins Esperanza 1856 varð mikilvægi kornræktar meiri en nautgriparæktar.  Útbreiðsla hveiti-, maís- og línræktar lagaðist að sams konar ræktun á búgörðunum í Pampas.  Ræktunin þar varð ekki jafnmikil og í Norður-Ameríku, þótt jarðvegurinn væri vel til hennar fallinn og landrými nægilegt.  Iðnaðurinn fór að láta til sín taka, þegar erlendir fjárfestar sáu hag sinn í matvælaframleiðslunni.  Vöxturinn var nokkuð óslitinn fram á 20. öldina, þegar Argentína varð að hagsælasta ríki Latnesku-Ameríku.  Kjöt- og kornvara var flutt út á sístækkandi markaði í Evrópu fyrir eldsneyti og framleiðsluvörur.

Á fyrstu áratugum 20. aldar varð Argentína stórútflytjandi maís, líns og kjötvöru.  Heimstyrjöldin fyrri og heimskreppan á fjórða áratugnum dró verulega úr þessari þróun og skaðaði efnahaginn mjög.  Argentína var meðal ríkustu landa heims en hrapaði úr þeim sessi á árunum fram til 1980 og varð að þróunarríki.  Ríkisstjórnir landsins reyndu að grípa til aðgerða gegn þessari þróun og gera landið að minnsta kosti sjálfu sér nægt með framleiðslu nauðsynja.  Þessum markmiðum var náð m.a. með háum verndartollum.  Áróðurinn, sem var rekinn til að efla iðnaðinn olli, fjárskorti í landbúnaði, þannig að framleiðsla hans minnkaði verulega.  Bændur drógu úr hefðbundinni ræktun hveitis, maís o.fl. korntegunda og einbeittu sér að ávöxtum, grænmeti, sojabaunum og sólblómum auk ræktunar fyrir iðnaðinn (sykurreyr og baðmull).  Þrátt fyrir þetta hélt landið stöðu sinni meðal helztu landbúnaðrríkja heims.

Á sjöunda áratugnum var iðnaðurinn búinn að skjóta landbúnaðninum aftur fyrir sig í mikilvægi fyrir þjóðarbúið.  Landið var orðið sjálfu sér nóg um nauðsynjar en átti mikið undir innflutningi eldsneytis og þungavéla.  Ríkisstjórnin fjárfesti gríðarlega í verksmiðjum fyrir olíuhreinsun, gas, olíuvörur og samgöngum og reyndi að laða erlend fyrirtæki til landsins.  Um miðjan áttunda áratug 20. aldar framleiddi landið mestan hluta olíu, stáls og bíla til eigin þarfa og flutti út talsvert af iðnaðarvörum.  Iðnaðurinn varð mikilvægasta atvinnugreinin miðað við verga þjóðarframleiðslu.  Argentínumenn voru líka orðnir sjálfum sér nægir með eldsneyti.

Verndartollum var smám saman aflétt eftir 1976 og fyrirtækjum gert kleift að taka erlend lán.  Ríkisstjórnin vakti yfir og styrkti gengi gjaldmiðilsins, peso, til að draga úr verðbólgunni og auka framleiðni með samkeppni á markaðnum.  Þessar aðgerðir urðu mörgum argentínskum fyrirtækjum að falli, því að þau gátu ekki keppt við ódýrar, innfluttar vörur.  Á árunum 1975-83 minnkaði hlutur iðnaðarins í þjóðarframleiðslunni úr þriðjungi í fjórðung og þessi þróun hélt áfram næsta áratuginn, þótt hægara færi.

Samtímis ollu aukin útgjöld ríkisins, miklar launahækkanir og lítil framleiðni viðloðandi verðbólgu, sem jókst á níunda áratugnum, þegar hún náði að fara yfir 1000%.  Næstu ríkisstjórnir reyndu að ná tökum á henni með launa- og verðstýringu, niðurskurði og minnkuðu framboði peninga.  Árið 1983 voru fjögur núll skorin af gjaldmiðlinum (peso)  Tveimur árum síðar var honum breytt í „austral” og aftur í peso 1992.

Efnahagsaðgerðirnar 1976 ollu mikilli aukningu erlendra skulda, þannig að þær voru orðnar 75% af þjóðarframleiðslunni fyrir rest.  Verðbólgan magnaðist og atvinnuleysið jókst.  Gengi peso var haldið of háu, þannig að útflutningur varð svo kostnaðarsamur, að ekki tókst að halda jafnvægi við vaxandi erlendar skuldir.  Það dugði ekki að sníða gallana af efnahagsaðgerðunum, því að margar stoðir efnahagslífsins voru rotnar.  Hlutfallið milli iðnaðar og landbúnaðar í þjóðarframleiðslunni var svipað og í iðnríkjunum en framleiðnin var mun minni.  Lífstíll Argentínumanna var á mun hærra plani en í öðrum Suður-Ameríkuríkjum en erlend skuldastaða var sambærileg við þróunarlöndin.

Snemma á tíunda áratugnum greip ríkisstjórnin til strangra efnahagsaðgerða, náði tökum á verðbólgunni og einkavæddi fjölda ríkisfyrirtækja til að greiða niður erlendar skuldir.  Í kjölfarið jókst streymi erlendra gjaldmiðla inn í landið og framleiðniaukning iðnfyrirtækja hleypti nýju lífi í efnahaginn.  Árið 1995 olli skyndileg gengisfelling Mexíkópesosins hræringum í efnahagslífi margra annarra ríkja í Latnesku-Ameríku.  Argentínumenn óttuðust, að fjárfestar, sem höfðu tapað fé í Mexíkó, misstu líka trúna á peningakerfi þeirra.  Því herti ríkisstjórnin enn á efnahagsaðgerðum, sem ollu tímabundnum samdrætti og síðan hóflegum vexti í lok áratugarins.


Náttúruauðæfi.  Miklar orkulindir landsins eru meðal burðarstólpa iðnaðarins.  Á síðari hluta 20. aldar var landið sjálfu sér nægt með kol og vatnsorkuver og var farið að flytja út olíu.  Olíulindir eru vítt og breitt um landið.  Talið er að u.þ.b. 67% olíubirgða landsins séu í jörðu umhverfis hafnarborgina Comodoro Rivadavia í Patagóníu og önnur olíusvæði eru í héruðunum Juiuy, Salta, Mendoza, Neuguén og á Eldlandi.  Aðalgassvæðin eru í norðvesturhlutanum, í grennd við Campo Durán í Saltahéraði, Mendoza, í grennd við Neuguén og Comodoro Rivadavia.  Áður en vinnsla hófst á þessum svæðum 1980, var gas flutt inn frá Bólivíu.  Nokkuð er um kolanámur, en þær duga ekki til innanlandsþarfa.  Aðalnámurnar eru í Suður-Patagóníu.

Fremur er lítið um önnur verðmæti í jörðu.  Járngrýti, úraníum, blý, sink, kopar, magnesíum og tungstein eru unnin í litlum mæli.  Saltnámur eru í suðvesturjöðrum Pampas og leir, kalk, granít og marmari nægir byggingariðnaðinum.


Rafmagn er að mestu framleitt með vatnsorku og framleiðslan hefur margfaldast eftir 1970.  Að lokinni byggingu orkuversins við neðri hluta Paraná-árinnar 1998 var rafmagnsframleiðslan umfram þarfir landsmanna.  Hvergi annars staðar í Latnesku-Ameríku er framleitt meira rafmagn með kjarnorku en í Argentínu.

Landbúnaður.  Argentína er meðal helztu útflutningslanda sojabauna, hveitis og kjötvöru.  Þar er líka mikil ullar- og vínframleiðsla en mestur hluti vínsins er seldur á innanlandsmarkaði.  Þótt landbúnaðurinn sé mikilvæg tekjulind, er hann ekki svipur hjá sjón og krefst ekki mikils vinnuafls.

Hveiti er aðalkorntegundin, sem er ræktuð í landinu, aðallega á nautgripasvæðum Pampas við Buenos Aires og í La Pampahéraði.  Mest ber á hveiti og maís í norðurhlutanum.  Sáning beggja tegunda er samtímis í Norður- Pampas.  Í lok síðari heimsstyrjaldarinnar minnkaði framleiðslan um helming vegna erlendrar samkeppni og hefur aukizt lítillega síðan.  Nærri helmingur maísins er notaður í fóður.  Á Pampassvæðunum hefur ræktun sojabauna og sorghum aukizt síðan 1960.  Þessar tegundir eru að mestu notaðar í fóður og eru verðmætar útflutningsafurðir.  Á þessum slóðum er líka ræktar talsvert af líni.

Rúmlega 90% vínviðsins er ræktaður í norðvesturhéruðum Mendoza og San Juan og berin eru aðallega notuð til víngerðar.  Í La Rioja eru ræktuð vínber til neyzlu.  Í hlýjum noðurhéruðunum, Tucumán, Salta og Juiuy er aðallega ræktaður sykurreyr.  Þar var líka hafin ávaxtarækt til að jafna út sveiflur á heimsmarkaðsverði sykurs.  Í Salta- og Juiuy-héruðum er líka ræktað tóbak.  Bestu baðmullarræktunarsvæðin eru aðallega vestan Paraná-árinnar, milli Bermeio og Juiuy.  Mestur hluti uppskerunnar fer til fullvinnslu í verksmiðjum landsins.

Jurta- eða Paragvæte (maté) er mikilvægasta uppskeran í Misioneshéraði í Mesópótamíu, þótt bændurnir hafi aukið ræktun annarra tetegunda, tungtrjáa og sítrusávaxta.  Sunnar í fylkinu er mikið ræktað af appelsínum, greipaldinum, mandarínum og fjölda grænmetistegunda.  Á áveitusvæðum Negroárinnar í Patagóníu eru einhverjir stærstu aldingarðar landsins.  Þar er einkum ræktað mikið af eplum og perum.

Á Pampassvæðinu er aðallega nautgriparækt.  Nautakjöt er meðal mikilvægustu útflutningsafurða landsins.  Bændurnir hafa fylgzt vel með breyttum markaðsaðstæðum og skipt um tegundir nautgripa og blandað saman alfa alfa og sorghum í fóðrið eftir þörfum til að framleiða fituminna kjöt.  Svínaræktin fyrir innanlandsmarkaðinn er líka að mestu leyti á þessu svæði.  Á svæðinu  milli Buenos Aires og Mar del Plata er ræktun sauðfjár til mjólkurframleiðslu mikilvæg.  Nautgriparækt er ráðandi í Corrientes- og Entre Ríos-héruðum.  Næstum helmingur sauðfjárræktarinnar er í Patagóníu, þar sem lögð er áherzla á framleiðslu gæðaullar.  Innflutningur nautakjöts til landa ESB frá Argentínu, BNA og annarra landa var bannaður um tíma á tíunda áratugnum vegna gin- og klaufaveiki.  Eftir 1993 varð veikinnar ekki vart og útflutingur til þessara landa hófst á ný.


Nýting skóga og fiskveiðar.  Skógabúskapur nægir ekki innanlandsþörfum.  Mestur hluti trjánna er unnin í sögunarmyllum og lítið eitt er notað til framleiðslu eldiviðar og viðarkola.  Í Mesopótamíu er Paraná-furan notuð í borðvið og þar er ösp og víðir líka nýtt talsvert.  Í norðvesturhálendinu fella menn aðallega furu og sedrustré, sem eru notuð í viðarkvoðu.  Rauðá quebracho-tréð á Chaco-svæðinu er verðmætt vegna litunarefna, sem eru framleidd úr því og hvíta quebracho-tréð er notað í borðvið og til viðarkolagerðar.  Íbúar Pampas nota aðallega karobtréð (algaroba) í eldivið og til húsgagnagerðar.

Fiskveiðar og vinnsla eru fremur rýrar atvinnugreinar vegna hefðbundinnar nautakjötsneyzlu í landinu.  Mestur hluti þessarar starfsemi fer fram á Buenos Aires-svæðinu frá Plataánni að San Matías-flóa.  Aðalhafnirnar eru Mar del Plata og Bahía Blanca.  Helztu tegundirnar, sem eru færðar að landi eru kolmúli, smokkfiskur og rækjur og u.þ.b. fjórðungur aflans er annaðhvort frystur eða notaður í fiskimjöl.

Iðnaður.  Framleiðsla iðnaðarvöru nemur u.þ.b. fimmtungi þjóðarframleiðslunnar og krefst u.þ.b. 17% vinnuaflsins.

Kjötiðnaðurinn.  Þróun kæli- og frystibúnaðar olli straumhvörfum í flutningi fersks nautakjöts eftir 1876.  Kjötvinnsluverksmiðjur spruttu upp víða um land á seinni hluta þriðja áratugar 20. aldar, einkum á Buenos Aires-svæðinu   Síðar risu verksmiðjur í La Plata, Rosario og Bahía Blanca.  Kindakjöt var aðallega unnið og dreift frá höfnum í Patagóníu.

Aukin nautgriparækt leiddi til vaxandi kjötiðnaðar, s.s. niðursuðu, framleiðslu kjötkrafts, fitu, verkunar húða og leðurs.  Sútunarsýra er framleidd í Chaco-héraði.

Vinnsla kornvöru hefur vaxið meðfram Plataánni.  Útflutningur kornvöru óx verulega á síðari hluta 20. aldar.  Hveitimjöl er líka fullunnið í ýmsum verksmiðjum, s.s. pasta.  Ullar- og baðmullarvefnaður hefur aukizt, einkum í borgum Pampas, þar sem markaðir eru stærstir og vinnuafl nægilegt.

San Miguel de Tucumán er miðstöð sykuriðnaðarins í norðvesturhlutanum, en nokkrar verksmiðjur eru líka í Salta og San Salvador de Juiuy.  Þessar verksmiðjur anna eftirspurn innanlands.  Mendoza er aðalmiðstöð ólífuræktunar og afurða hennar.  Þar er líka mestum hluta víns, sem er fluttur út til nágrannalanda, Evrópu og BNA, tappað á flöskur.  Argentínskt vín nýtur stöðugt aukinna vinsælda neytenda.

Olía, stál og bifreiðar.  Olíuhreinsun fer aðallega fram á Buenos Aires-svæðinu.  Hráolían er flutt þangað í stórum tankbílum eða dælt um leiðslur frá olíusvæðum í Comodoro Rivadavia og Venesúela.  Olíuhreinsun er líka stunduð á olíusvæðunum í kringum Mendoza, þar sem eru líka framleiddar alls konar olíuvörur.

Stáliðnaðurinn hófst á fimmta áratugi 20. aldar og óx hægt næstu áratugina.  Þrátt fyrir það hefur ekki tekizt enn þá að anna innanlandsþörfinni.  Bílaiðnaðurinn notar mikið stál til framleiðslunnar.  Þessi iðnaður var staðnaður um áratuga skeið og á níunda áratugnum var algengt að sjá „nýja fornbíla” á götunum (1960-70 módel), s.s. ford falcon.  Erlent fjármagn blés nýju lífi í þessa grein á tíunda áratugnum og nýjar verksmiðjur voru reistar.  Í Córdoba er vaxandi flugvélaiðnaður.


Þjónustugeirinn.
Fjármál.  Fjármálakerfi landsins stendur undir u.þ.b. 17% þjóðarframleiðslunnar, þótt fyrirtæki á þessu sviði þurfi aðeins lítið brot vinnuaflsins.  Seðlabankinn gefur út peningaseðla og mynt og ákveður vexti og gengi.  Á áttunda og níunda áratugnum ollu efnahagskrísur næstum hruni fjármálamarkaðarins.  Verðbólgan gerði sparifé landsmanna næstum verðlaust.  Frjálslynd lög um erelenda fjárfestingu, of hátt gengi peso, erlendar lántökur og gjaldfallin lán ollu fjölda gjaldþrota.  Ríkisstjórnin setti strangari lög um rekstur einkabanka um tíma en losaði síðan um höftin aftur á tíunda áratugnum.

Verzlun og viðskipti.  Argentína einbeitti sér að mörkuðum í Evrópu og BNA þar til gagngkvæmur viðskiptasamningur var gerður við Brasilíu, Úrúgvæ og Paragvæ.  Nú er Brasilía mikilvægasta viðskiptaland Argentínu.  Bretar fluttu mikið inn af nautakjöti og kornvöru frá Argentínu á 19. öldinni og allt fram til 1945 var Bretland aðalviðskiptalandið.  BNA urðu smám saman veigamikill markaður fyrir argentínskar framleiðsluvörur en hlutur Breta dvínaði og varð næstum að engu um tíma eftir Falklandseyjastríðið 1982.  Helztu viðskiptalöndin nú eru Brasilía, BNA, Ítalía, Þýzkaland, Holland, Síle og Úrúgvæ.

Viðskiptajöfnuður landsins var oftast hagstæður, en eftir gerð viðskiptasamningsins við nágrannaríkin urðu vöruskiptin landinu óhagstæð í nokkur ár.  Helzti útflutningur landsins byggist enn þá á landbúnaði, aðallega kornvöru.  Útflutningur véla og flutningatækja, olíu og efnavöru sækir í sig veðrið.  Rúmlega helmingur innflutningsins er vélar og flutningartæki.  Efnavörur og neyzluvörur eru líka ofarlega á blaði.


Ferðaþjónusta. Ferðamenn færa landinu líka björg í bú.  Fjöldi þeirra var orðinn rúmlega fjórar milljónir í lok tíunda áratugarins.  Fjórðungur þeirra kom frá Úrúgvæ, hundruð þúsunda frá Síle, Brasilíu, BNA og Paragvæ.  Aðalferðamannastaðir Argentínu eru Iguazúfossarnir og fyrrum trúboðsstöðvar jesúíta í Misioneshéraði, og heilsubótarstaðirnir í San Carlos de Bariloche í Vatnahéraðinu.  Buenos Aires er oft kölluð París Suður-Ameríku vegna hins evrópska yfirbragðs, næturlífsins og fjölda menntastofnana, safna, minnisvarða og leikhúsa (Colón-leikhúsið).

Samgöngur.  Á nýlendutímanum lágu þrjár aðalleiðir um landið.  Mikilvægust þeirra var leiðin milli Buenos Aires og auðugu námasvæðanna í Efra-Perú, sem er nú í Bólivíu.  Þessi leið lá um Córdoba, Santiago del Estero, San Miguel de Tucumán og San Salvador de Juiuy.  Önnur leið tengdi Buenos Aires við Síle um Villa María, San Luis og Mendoza.  Þriðja leiðin teygðist norður frá Buenos Aires til Santa Fe og Corrientes.  Aðalumferðin um þær og aðrar voru múldýralestir, hestamenn, stórar uxakerrur (carretas) og póstvagnar.  Nútímavæðing samgangna lá ekki aðallega í vegabótum, heldur í lagningu járnbrauta frá Buenos Aires, sem hófst upp úr 1857.  Bretar og aðrar þjóðir fjármögnuðu þessa framkvæmd.  Vinna við lagninguna hélt áfram fram á 20. öldina og nú státa Argentínumenn af lengsta járnbrautakerfi Latnesku-Ameríku.  Uppbygging vegakerfisins hófst ekki að marki fyrr en að járnbrautakerfið var komið vel á veg.  Vegakerfin í Mexíkó og Brasilíu eru lengri en í Argentínu.  Nú fer mestur hluti vöruflutninga um vegakerfið og minna um árnar og með járnbrautum en fyrrum.

Strandferðaskip fyrir frakt og farþega hafa þjónað borgunum milli Buenos Aires og Río Gallegos frá lokum 19. aldar.  Millilandaflutningar á sjó eru ekki velskipulagðir, þrátt fyrir mikinn útflutning.  Innanlandsflug er nokkuð velskipulagt.  Allar stórar borgir hafa eigin flugvelli og jafnvel útnárar eins og Ushuaia í Suður-Patagóníu njóta áætlunarflugs.  Stærstu borgirnar hafa alþjóðaflugvelli.  Mikilvægastur þeirra er Ezeiza við Buenos Aires.  Ríkið stofnaðir flugfélagið Aerolineas Argentinas árið 1950 til að anna innan- og utanlandsflugi.  Dótturfélag spænska flugfélagsins IBERIA keypti það árið 1992.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM