Argentína búseta,
Flag of Argentina


ARGENTÍNA
BÚSETA

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Landslag, loftslag, náttúrufar og náttúruauðæfi réðu mestu um búsetu Evrópumanna í landinu.  Nútímasamgöngur hafa jafnað skilyrðin að mörgu leyti í borgum og dreifbýli en samt gætir ýmissa lífshátta frá nýlendutímanum.

Norðvesturhlutinn.  Fjöldi fornleifa gefa til kynna fasta búsetu indíána, sem notuðu áveitur og stunduðu stallaræktun í frjósömum dölum áður en Spánverjar komu frá Perú- og Bólivíusvæðunum.  Þeir settust að fjarri óvinveittum frumbyggjum landsins, fyrst í Santiago del Estero árið 1553.  Skömmu síðar voru byggð virki við San Miguel de Tucumán (1565), Salta (1582), San Salvador (1593) og San Luis (1594).  Sunnar var Córdoba stofnuð árið 1573.  Bæði Spánverjar og kynblendingar (kreólar) komu frá Sílesvæðinu allmiklu sunnar og stofnuðu borgirnar Mendoza og San Juan skömmu eftir 1560.

Borgir í þessum landshluta þróuðust í tengslum við þarfir landbúnaðarins og verzlun við silfurnámurnar í Perú, einkum í Potosí (nú í Bólivíu).  Síðar, þegar Buenos Aires fór að þróast og silfurnámið minnkaði, beindi fólkið athyglinni í suðausturátt.  Verzlunarleiðir milli Síle og Buenos Aires opnuðust um Córdoba og Mendoza, sem blómstruðu á þessu tímabili.  Þessi leið var valin til að sneiða hjá Pampasindíánum og er enn þá meðal aðalsamgönguleiða landsins.  Landnámið á regnskuggasvæðinu (1000 km langt) austan Andesfjalla var aðallega á gróðursælum stöðum við árnar sunnan San Miguel de Tucumán til San Rafael, sem er sunnan Mendoza.

Járnbrautir voru lagðar milli Mendoza og Pampas 1885.  Þessar samgöngubætur ýttu undir vínrækt á Mendozasvæðinu.  Aðgangurinn að Buenos Aires efldi efnahaginn með stærri markaði, fjölgaði landnemum og olli framförum í vínræktinni.  Mendoza og aðrar vinjar, s.s. San Rafael, uxu og döfnuðu og fjölskyldubúgarðarnir við rætur Andesfjalla juku sykurframleiðslu sína, sem hófst í upphafi landnáms.  Fyrsta beina járnbrautin milli Tucumán og Pampas 1875 greiddi leið til stækkandi sykurmarkaða og nútímalegri framleiðsluaðferða.  Farandverkamennirnir sáu sér hag í að búa allt árið í þessum landshluta, þannig að Tucumán varð þéttbýlasti staður Argentínu.


Gran Chaco.  Þessi landshluti hefur löngum þótt vera frumbýlingsland og ríkisstjórnir hafa ósjaldan hvatt til landnáms og þróunar hans.  Landbúnaður þróaðis fyrst á vatnasvæðum ánna Paraná og Paragvæ og byggð myndaðist meðfram járnbrautinni, sem var lögð til að þjóna quebracho-iðnaðinum (sútunarsýra).  Borgin Resistencia var stofnuð 1878 og Formosa 1879.

Landbúnaðurinn hefur ætíð verið takmarkaður vegna erfiðra náttúruskilyrða.  Fyrstu leiðangrar landkönnuða komu frá Santiago del Estero í vestri, Santa Fe í suðaustri og Ascunción (nú höfuðborg Paragvæ).  Þeim tókst ekki að sigrast á frumbyggjunum, sem þar voru fyrir.

Landnám Gran Chaco hófst frá Santiago del Estero, þar sem baðmull hafði verið ræktuð með áveitum allt frá upphafi (ca 1550) og frá Santa Fe, þar sem nautgripabændur höfðu keypt gífurlega stór svæði til að rækta criollo-nautgripi, sem fyrstu leiðangrar til landsins fluttu með sér.  Bændurnir sigruðu indíánana árið 1885 og færðu út kvíarnar til norðurs, allt að Bermeio-ánni.  Skógarhöggsmenn komu í kjölfarið og ruddu land til ræktunar, einkum í austurhlutanum, þar sem hægt var að framleiða sútunarsýru fyrir skinnaiðnaðinn.  Í upphafi 20. aldar fóru evrópskir innflytjendur í Ausur-Chaco að rækta baðmull, sem þoldi löng þurrkatímabil.  Þessi ræktun teygði sig hér um bil alla leið til San Miguel de Tucumán, norður að landamærum Paragvæ við Pilcomayo-ána og inn í Mesópótamíu í austri.


Mesópótamía.  Norðurhlutinn var fyrst numinn frá Asunción.  Spánverjar stofnuðu borgina Corrientes 1588 í nánd ármóta Alto Paraná og Paragvæ.  Landnemar frá Santa Fe fóru yfir Paraná-ána til að setjast að í suðurhlutanum og stofnuðu borgina Paraná.  Báðar þessar borgir eru við skipgengar ár, þannig að samgöngur við ströndina voru tryggðar um árósa Plataárinnar.

Þegar Spánverjar komu fyrst til Mesópótamíu, voru vegalengdir milli byggða svo miklar og samgöngur svo erfiðar, að landnemarnir urðu að vera sjálfum sér nægir með nauðsynjar.  Þeir náðu þessu markmiði með því að kúga indíánana og nota þá sem ófrjálst vinnuafl.  Indíánarnir gerðu uppreisnir, sem spænski herinn bældi niður og margir þeirra neyddust til að flýja.  Spænsk yfirvöld áttuðu sig ekki fyrr en í byrjun 17. aldar og fólu jesúítum að friðmælast við indíánana og vernda þá.  Næstu öldina reistu jesúítarnir fjölda trúboðsstöðvabyggðir (reducciones), sem síðar voru kallaðar „Misiones”.  Norðurhluti Mesópótamíu, sem var undir stjórn jesúítanna, varð að mikilvægasta landnámssvæði í austurhluta álfunnar.


Héraðið „Misiones” var stofnað skömmu eftir 1880 og Evrópumenn, einkum Þjóðverjar, hófu landnám í skólglendum norðurhlutans.  Smábýlin í héraðinu ræktuðu aðallega te (maté), sítrusávexti, grænmeti, sykurreyr og tung-tré.  Nautgriparækt varð ráðandi utan ræktunarsvæða.

Pampas.  Pampassvæðið var upphaflega byggt indíánum (Querandí).  Þeir voru veiðimenn, sem lifðu á fisk- og dýraveiðum og notuðu m.a. snörur (bolas), sem þeir þeyttu frá sér til að flækja í fótum strútanna til að hægja á þeim eða stöðva.  Heiftugar árásir þeirra neyddu spænsku landnemana í Buenos Aires til að flýja upp með ánni til Asunción og Efra-Perú.  Síðar voru stórir nautgripabúgarðar (estancias) settir á fót norðvestan Buenos Aires.  Þeir urðu hornsteinn efnahagslífs, stjórnmála og menningar Argentínu.  Þeir náðu víða yfir þúsundir ferkílómetra í upphafi en var síðan skipt niður í smærri skákir, sem kynblendingarnir (kreólar) keyptu eða fengu úthlutað á 17. öld.  Þarna höfðust stórar hjarðir hálfvilltra criollo-nautgripa og hesta við.  Búgarðarnir réðu kúreka (gauchos) til að annast hjarðirnar fram á síðari hluta 19. aldar, þegar þessum þætti í atvinnusögunni lauk.

Vítt og breitt um landareignir búgarðanna voru hús, sem óðalsbændurnir notuðu sem aðalstöðvar á hinum mismunandi svæðum.  Þau voru miklu betur byggð en íverustaðir kúrekanna.  Þar voru líka krár, sem voru veitingastaðir, bankar og stundum var ýmis önnur þjónusta veitt.  Sumir þessara litlu byggðarkjarnar urði að þorpum.  Smám saman teygðust búgarðarnir vestur og suður að Buenos Aires.

Buenos Aires og Santa Fe voru lítil þorp þar til um miðja 19. öldina en þá hljóp hraður vöxtur í þau samhliða blómstrandi landbúnaði, sem breytti ásjónu Pampas.  Þörf heimsmarkaðarins fyrir matvæli jókst og óðalsbændurnir nútímavæddu rekstur sinn til að mæta henni.  Sauðfé og enskar tegundir nautgripa voru fluttar inn til að taka við af criollo-nautgripunum.  Ensku tegundirnar gátu ekki gengið sjálfala á sléttunum og þá var farið að rækta alfa alfa til að fóðra þær.  Kúrekarnir vildu ekki taka upp nýja siði og ganga í þau störf, þannig að óðalseigendurnir réðu til sín evrópska innflytjendur sem smábændur til þeirra verka.  Suðurmörk Pampas voru færð sunnar og indíánarnir, sem bjuggu norðan Negroárinnar  hrökkluðust undan.  Þeir voru horfnir af þessu landsvæði í kringum 1880.  Nokkrar milljónir evrópskra verkamanna voru við störf á búgörðunum í kringum 1914.  Buenos Aires þandist út á sléttuna og varð þéttbýlasta svæði landsins.  Í lok 19. aldar voru byggðu erlendir fjárfestar miðstöðvar fyrir kjötvinnslu og pökkun við mynni Plataárinnar.  Smám saman fjölgaði smábýlum vestan og sunnan Santa Fe- og Entre Ríos-héraðanna.

Vöxtur landbúnaðarins ýtti undir borgarmyndun.  Járnbrautir út frá Buenos Aires teygðust inn á slétturnar og til varð þéttasta samgöngunet landsins.  Stuðningur ríkisins beindist að hafnarborgum, sem löðuðu til sín flesta innflytjendur og íbúa í mesta dreifbýlinu.  Buenos Aires varð því stærsta borg heims um tíma.  Pampasslétturnar urðu að hagsælasta iðnaðar- og landbúnaðarsvæði landsins.


Patagónía.  Mestur hluti brattrar strandlengju Patagóníu var hafnleysa í háflóði, þannig að samgöngur á sjó voru óáreiðanlegar.  Í norðurhlutanum þrengdu evrópskir innflytjendur æ meira að indíánunum, sem fóru að bera hönd fyrir höfuð sér um miðja 19. öldina.  Indíánastríðin á þeim slóðum og á suður og vestur Pampassléttunum náðu hámarki í „Baráttunni um eyðimörkina” og lauk 1879, þegar hafði tekizt að bæla niður mestu mótstöðu indíánanna.  Argentínumenn, Sílebúar og Evrópumenn settust að í Patagóníu undir hervernd.  Þeir fengu fjárhagslegan stuðning til að berjast við indíánana og stórar, ókeypis skákir af landi.  Landnámið breiddist út til suðurs frá hafnarborginni Bahía Blanca í Pampasfylki og frá Neuquén við rætur Andesfjalla.  Sílebúar frá Punta Arenas settust að á Eldlandi og Beuquén-búar við rætur Andesfjalla.  Velskir, skozkir og enskir innflytjendur dreifðust meðfram ströndinni og inn í landið og enn þá er bæði enska og velska töluð á afmörkuðum svæðum í Patagóníu.

Syðsta borg heims, Ushuaia á Eldlandi, óx upp úr trúboðsstöð.  Þangað er ófært landleiðina.  Í lok 19. aldar hófst nautgriparækt meðfram járnbrautinni milli hafnarborgarinnar Río Gallegos og kolanámanna við Río Turbio.  Comodoro Rivadavia varð að mikilvægri miðstöð olíu- og gasvinnslu og ávaxtaræktunin við Negroána fór að þróast 1886, þegar uppgjafahermenn úr indíánastríðunum og aðrir fóru að setjast að austan Neuquén.


Búsetuþróun.  Íbúafjöldi landsins hefur tuttugufaldast síðan 1869, þegar fyrsta manntalið fór fram og 1,8 milljónir voru taldar.  Fjölgunin var ör í upphafi 20. aldar, en síðan dró úr náttúrulegri fjölgun og fjölda innflytjenda, þannig að hlutfall ungs fólks lækkaði.  Íbúafjölgun og fæðingatíðni er með því minnsta í álfunni.  Íbúafjöldi á ferkílómetra er sömuleiðis lágur miðað við önnur nágrannalönd.  Íbúum fjölgar meira í borgum, einkum í Buenos Aires, en annars staðir í landinu.  Nálægt 90% þjóðarinnar búa í borgum og þriðjungur þeirra í Stór-Buenos Aires.

Innflytjendur og uppruni þeirra.  Gífurlegur fjöldi innflytjenda, aðallega frá Spáni og Ítalíu, leiddi til þess, að langflestir landsmenn eru af evrópskum uppruna.  Á nýlendutímanum fundu landkönnuðir og landnámsmenn fjölda ættkvísla frumbyggjanna.  Meðal þeirra voru diaquita-ættkvíslirnar í norðvesturhluta Andesfjalla.  Þessir indíánar bjuggu í þorpum og stunduðu jarðrækt en voru teknir í nauðungarvinnu.  Spánverjar skiptu þeim í smáhópa og sendu þá til Perú og Río Plata-svæðisins.  Í Mesópótamíu mættu guaraní-indíánarnir, sem stunduðu takmarkaða jarðrækt, sömu örlögum.

Flestir aðrir indíánar landsins voru veiðimenn og safnarar, sem börðust grimmilega gegn Spánverjum en var að lokum útrýmt eða voru hraktir á brott.  Í Gran Chaco voru m.a. indíánaþjóðir, sem töluðu guaycuruan.  Araucania-indíánar komu yfir fjöllin frá Síle til að ráðast á spænsku byggðirnar á Suður-Pampas þar til að eyðimörkin var unnin 1879.  Querandí-indíánar voru líka á Pampas í grennd við núverandi Buenos Aires.  Tehuelche-indíánar voru fjölmennastir í Patagóníu og Ona-indíánar á Eldlandi.

Áætlanir um íbúafjölda á nýlendutímanum gefa til kynna, að rúmlega 400.000 manns hafi búið í landinu í kringum 1810.  Hlutfall indíána var í kringum 30% um þær mundir, 10% voru svertingjar eða kynblendingar, annaðhvort þrælar eða afkomendur þeirra, og talsverður fjöldi blendingja hvítra og indíána bjó vítt og breitt.  Á þessum árum voru hreinir Evrópumenn í minnihluta.

Mikil bylgja innflytjenda frá Evrópu reið yfir á síðari hluta 19. aldar og skapaði núverandi stöðu og mannlegt svipmót landsins.  Indíánar og blendingjar voru hraktir upp að Andesfjöllum eða runnu saman við deigluna.  Svartir og múlattar hurfu við frekari blöndun.  Allt frá þessum tíma hefur blendingjum hvítra og indíána frá Síle, Bólivíu og Paragvæ fjölgað í landamærahéruðum.  Síðla á 20. öld hófst verulegur flutningur fólks frá Paragvæ og Úrúgvæ til borga Argentínu.

Næstum helmingur evrópsku innflytjendanna seint á 19. og snemma á 20. öld var frá Ítalíu og u.þ.b. þriðjungur frá Spáni.  Verulegur fjöldi kom frá Frakklandi, Póllandi, Rússlandi, Þýzkalandi og Stóra-Bretlandi..  Árið 1869 voru 12% íbúanna fæddir erlendis.  Þetta hlutfall var komið upp í þriðjung árið 1914.  Víða í borgum var hlutfallið 2 erlendir á móti 1 frumbyggja sama ár.  Síðla á 20. öldinni, þegar dró úr fjölda innflytjenda lækkaði hlutfall folks af erlendum uppruna.

Ítalskir innflytjendur höfðu mestu áhrifin á argentínska menningu og ítalska er víða töluð í Buenos Aires.  Spænskir og pólskir innflytjendur höfðu líka mikil áhrif á menningu landsins.  Brezkt fjármagn stóð undir lagningu járnbrauta og uppbyggingu kjötiðnaðarins.  Þjóðverjar komu sér aðallega fyrir í landbúnaði.  Frakkar fluttu með sér vínmenninguna og vínræktina og Japanar fjárfestu í viðskiptalífinu eins og Sýrlendingar og Líbanar.

Börn innflytjenda voru fljót að verða Argentínumenn, þannig að ágreiningur varð ekki á milli hinna mismunandi þjóðflokka, sem ægði saman í landinu.  Skiptingin kom aðallega fram í bilinu milli íbúa þéttbýlis og dreifbýlis.  Mörgu sveitafólki gramdist verulega auður, pólitískt vald og menningaráhrif íbúa Buenos Aires og nærliggjandi hafnarborga og bæja.  Margir þessara borgarbúa litu niður til þessara heimsku sveitamanna.  Þessarar skiptingar og hugarfars gætti og gætir enn í stjórnmálum landsmanna.


Tungumál og trúarbrögð.  Spænska er þjóðartungan, þótt hún skiptist í margar mállýzkur og beri merki áhrifa frá öðrum tungumálum, einkum ítölsku.  Fjöldi annarra tungumála og mállýskna heyrast víða, s.s. baskamál, sikileyska, velska og gelíska.  Í lok 19. aldar þróaðist neðanjarðarmál í Buenos Aires, sem er kallað lunfardo.  Það er deigla margra tungumála, ítölsku, portúgölsku, spænsku, frönsku, þýzku og afrískra mála.  Lunfardo heyrist oft í tangóljóðum.

Langflestir Argentínumenn eru rómversk-katólskir.  Meðal annarra trúarhópa eru mótmælendur og gyðingar.  Áhrif katólskunnar eru greinileg í stjórnmála- og þjóðlífi og hún er stjórnarskrárbundin ríkistrú landsins, þótt trúfrelsið sé virt þar á bæ líka.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM