Buenos
Aires er fylki og höfuðborg ríkisins.
Borgin er á bökkum Plataárinnar, 240 km frá Atlantshafi.
Hún er einhver mikilvægasta hafnarborg í heimi og meðal fjölmennustu
borga heims. Borgin sjálf
nær yfir u.þ.b. 200 km² svæði en séu útborgir taldar með er svæðið
tæplega 4000 km². Spænskir
sjómenn 16. aldar nefndu höfnina eftir verndardýrlingi sínum samkvæmt
gamalli hefð og kölluðu hana „Santa María del Buen Aire” (Heilög
María góða loftsins).
Borgin
er miðstöð allrar þjóðarinnar fyrir viðskipti, iðnað, stjórnmál
og menningu. Auður og áhrif
hennar skyggja á aðra hluta þjóðarinnar og hún veldur líka mestum
erfiðleikum í efnahagslífi og félagslegum málum þjóðarinnar.
Vegna legu sinnar hefur hún tíðum verið aðalvettvangur stjórnmálalegrar
og félagslegrar ólgu. Argentínska
skáldið og heimspekingurinn Ezequiel Martinez Estrada hefur kallað
borgina „höfuð Golíats”.
Þessi myndlíking táknar ójafnvægið milli borgarinnar og annarra hluta landsins, sem lítur út eins og
líkamslítill risi með of stórt höfuð.
Þessi
rúmlega 420 ára borg glímir við flest sömu vandamál og aðrar
milljónaborgir. Vaxandi iðnaður
veldur aukinni mengun og takmarkað lóðaframboð hefur leitt til
byggingar háhýsa, sem hafa leitt til aukins fólkssteymis til
borgarinnar. Of hröð fólksfjölgun veldur ónógri félagslegri þjónustu
og ört stækkandi fátækrahverfum.
Há verðbólga bætist við vandamál líðandi stundar og
hamlar umbótum. Hvað sem
þessu öllu líður sjást merki um framfarir og styrkleika borgarinnar.
ARGENTÍNA |