Buenos Aires sagan Argentína,
Flag of Argentina


BUENOS AIRES
SAGAN
ARGENTÍNA

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Buenos Aires var stofnuð tvisvar, fyrst árið 1536, þegar Spánverjinn Pedro de Mendoza, leiðangursstjóri, var gerður að landstjóra á Plataársvæðinu.  Þessi fyrsta byggð varð indíánum og birgðaskorti að bráð.  Eftirlifandi verjendur hennar urðu að hörfa upp með Plataánni til virkisins Asuncíon.  Juan de Garay stjórnaði stærri leiðangri á þessu svæði nærri hálfri öld síðar og stofnaði Nuestra Senora Santa María del Buen Aire árið 1580.  Leiðangursmenn fengu gríðarstór landsvæði í sinn hlut og þeir hófu strax búskap með húsdýrunum, sem fyrri íbúar höfðu skilið eftir.

Næstu tvær aldirnar stækkaði Buenos Aires og þróaðist hægum skrefum.  Þarna var nokkuð góð höfn en spænsk yfirvöld stóðu henni fyrir þrifum vegna þess, að þau voru óhagganleg í stuðningi við nokkrar valdar hafnir í landinu í viðskiptatilgangi.  Allt svæði Plataárinnar varð hluti af varakonungsdæmi Perú og stjórnað frá Lima.  Callao, höfnin í grennd við Lima, var hin eina, sem mátti eiga viðskipti við spænska kaupmenn, þannig að Buenos Aires varð útundan.  Það tók u.þ.b. 6 mánuði að flytja vörur frá Callao til Buenos Aires á uxakerrum og jafnlangan tíma tók að flytja vörur, sem landnemarnir þar sendu til Spánar, til Callao.  Alls tók það íbúa Buenos Aires 2 ár að ljúka hverjum viðskiptum við Spán.

Gífurlegar vegalengdir milli Buenos Aires og annarra byggða í varakonungsdæminu olli mjög stopulu sambandi við landstjórnina.  Smám saman tók þróun borgarinnar sína eigin stefnu, sem var byggð á nautgriparækt og viðskiptum með smyglvarning.  Önnur landnám varakonungsdæmisins byggðust á námavinnslu í Andesfjöllunum, einkum í Efra-Perú, þar sem Kólumbía er nú.  Fjöldi þorpa byggðist við rætur Andesfjallanna til að þjóna námusvæðunum.  Tengsl þeirra við höfnina í ósum Plataárinnar voru smávægileg.

Íbúar Buenos Aires létu það ekki á sig fá og þeirra eigin viðskipti blómstruðu.  Á síðasta fjórðungi 17. aldar og fyrri helmingi 18. aldar stækkuðu byggðirnar ört á frjósömu landi til norðvesturs meðfram Paraná-ánni, þar sem ár og lækir sáu um áveitur.  Það var auðvelt að ferðast um árnar á litlum bátum, sem smygglarar notuðu sér óspart til að komast til býlanna meðfram þeim.  Í upphafi 18. aldar voru Argentínumenn farnir að flytja út þúsundir tonna af kornvöru, tugþúsundir tonna af húðum og mikið af þurrkuðu nautakjöti til ræktunarsvæðanna í Norður-Brasilíu og Karíbaeyja.  Bretar sáu um fjármögnun og flutninga í þessum ólöglegu viðskiptum.

Um miðja átjándu öldina bjuggu u.þ.b. 20.000 manns í borginni.  Húsin stóðu við mjóar moldargötur til norðurs frá Riachuelo-ánni.  Upprunalega höfnin var orðin full af framburði og stórir bátar urðu að leggjast við stjóra fyrir utan.  Það stóð þó ekki efnislegum framförum fyrir þrifum og árið 1776 ákvað Bourbon-veldið að gera Buenos Aires að höfuðborg varakonungsdæmisins Rio de la Plata.  Valdhafarnir vonuðust til að auka skatttekjur sínar með bættum stjórnarháttum og vernd gegn keppinautum Spánar, einkum Bretum.  Buenos Aires var þá orðinn löggiltur verzlunarstaður.  Helztu námusvæðin í Efra-Perú voru nú innan hins nýja varakonugsdæmis og silfur varð að verðmætusta útflutningnum.  Borgin blómstraði og á síðasta fjórðungi 18. aldar og í upphafi hinnar nítjándu lá við að Íbúafjöldinn tvöfaldaðist (1778 = 24.000; 1810 = 42.500).

Viðskiptahagsmunir skiptu auðmönnum í tvo hópa í kjölfar stjórnarumbótanna 1776.  Annar hópurinn hélt áfram að flytja út landbúnaðarvörur til Kúbu, Brasilíu og Stóra-Bretlands.  Hinn hópurinn var bundinn leikreglum varakonungsdæmisins og varð að fara að flestum lögum og reglum.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM