Stjórnsýsla.
Stjórn borgarinnar
er í höndum borgarstjóra og kjörinna borgarfulltrúa.
Framkvæmda- og löggjafarvald borgarstjórnarinnar er takmarkað
vegna afskipta ríkisstjórnarinnar, sem situr í borginni.
Lögum
samkvæmt stjórnar forseti landsins borginni og þingið er ábyrgt
fyrir löggjöf, sem snertir hana.
Forsetinn skipar borgarstjóra.
Borgarfulltrúar þjóna ráðgefandi hlutverkum og á tímum
herstjórna, hafa þær ráðið lögum og lofum.
Borginni er skipt í stjórnsýslusvæði, sem eru ekki bundin
hverfaskiptingunni, þótt þannig sé í sumum tilfellum.
Hvert slíkt svæði hefur sína stjórn, sem annast hagsmuni íbúa
þess.
Þjónusta.
Flestar
félagslegar þjónustustofnanir eru á vegum hins ríkisins og óháðar
borgarstjórninni, sem sér aðeins um gatnakerfið og garða
borgarinnar. Stöðug og
mikil fjölgun borgarbúa og stjórnlaus stækkun fátækrahverfanna
hefur valdið brestum í félagslegri þjónustu.
Vatnsveita, fráveita og skolpkerfi eru á ábyrgð og undir stjórn
heilbrigðisstjórnar ríkisins. Vatnshreinsunarverið
í Palermo-garðinum hreinsar vatn úr Plataánni og veitir því í
geyma um alla borgina. Ríkishlutafélög
annast rafveitu, símaþjónustu og gasveitu frá olíusvæðunum norðan,
sunnan og vestan borgarinnar.
Heilbrigðismál.
Einka-
og ríkisreknir spítalar, heilsugæzlustöðvar, apótek og
hreinsunarstöðvar eru rekin í hverfum borgarinnar. Fjöldi sjúkrarúma miðast við að geta veitt íbúum
annarra landshluta þjónustu líka.
Sorphreinsun byggist á brennslustöðvum, en mestur hluti
sorpsins er notaður í tippa meðfram Plataánni.
Slíkar landfyllingar eru notaðar undir garða, íþrótta- og
byggingarsvæði.
Menntamál.
Argentínumenn
eru meðal menntuðustu þjóða heims og borgarbúar eiga kost á beztu
menntastofnunum landsins. Grunnskólakerfið
er hverfaskipulagt og ríkið rekur sérstaka miðskóla.
Nemendur þeirra og annarra skóla, sem katólska kirkjan eða önnur
trúarfélög reka, stefna að stúdentsprófi.
Stjórnarfarið í landinu hefur ekki dregið úr fjölda afburðanemenda
og kennara. Menntamenn hafa
unnið til Nóbelsverðlauna á sviði læknisfræði og vísinda.
Stjórnmálaleg óreiða í rekstri Buenos Aires-háskóla olli
stofnun nokkurra einkarekinna háskóla, s.s. Belgrano-háskóla. Meðal annarra háskóla í borginni eru Morónháskólinn og
tveir stórir katólskir háskólar.
Menningarlífið.
Ráðandi
hlutverk borgarinnar í athafnalífi landsins kemur einna bezt í ljós
í menningarlífinu. Höggmyndasöfn
eru fjöldamörg, s.s. við Calle Florida, Avenida Santa fe og í
endurbyggðum nýlenduhúsum í San Telmo-hverfinu. Allar nýbylgjur í listaheiminum eru virkar og auðvelt er að
fylgjast með listaþróun heimsins í Buenos Aires.
Flestir helztu óperusöngvarar heims leggja leið sína til
borgarinnar fyrr eða sienna og koma fram í hinu frábæra Colón óperuhúsi.
Pólitísk óreiða hefur haft slæm áhrif á menningarlíf
borgarinnar, þar eð herstjórnirnar voru með puttana í því og
vildu stjórna og takmarka listalífið.
Dagblöð hafa einkum orðið að berjast fyrir ritfrelsi í stjórnartíð
herstjórna. Borgin er
einhver mesta miðstöð útgáfustarfsemi í Latnesku-Ameríku og þar
er gefinn út fjöldi dagblaða og sum þeirra á erlendum tungumálum.
Tvö þessara blaða, La Prensa og La Nación, eru heimsþekkt.
Leiklist.
Mikilvægasta
leikhús borgarinnar er Colón, sem þjónar þjóðaróperunni, þjóðarballettinum
og synfóníuhljómsveitinni líka.
Í San Marín borgarleikhúsinu eru þrjú leiksvið og Listasafn.
Leikhús Alvear forseta býður leikverk daglega.
Cervantes þjóðleikhúsið er meðal velsóttra leikhúsa.
Margir áhugaleikhópar eru virkir og í La Boca er óperusvið
undir berum himni. Leikhús,
sem bjóða þjóðlög og dansa (penas) eru mjög vinsæl.
Söfn.
Safnaflóran
er fjölbreytt og borgin rekur sum þeirra.
Bernardino Rivadavia þjóðvísindasafnið er auðugt af
steingervingum og rekur vísindastofnun. Þjóðlistasafnið býður verk heimsþekktra og argentínskra
málara og myndhöggvara og Skreytilistarsafnið hýsir glitvefnað og gömul
húsgögn. Í Isaac Fernández
Blanco borgarlistasafninu er að finna verk spænsk-amerískra
listamanna, s.s. silfursmíð í endurgerðu nýlenduheimili.
Önnur söfn sýna spænska, ítalska og nútímalist og einnig
er að finna mörg söguleg söfn.
Bókasöfn
eru víða um borgina, bæði á vegum borgarinnar og háskólanna.
Þjóðarbókhlaðan er stærsta bókasafn borgarinnar í nútímabyggingu
í Barrio Norte.
Afþreying.
Borgin
er prýdd fjölda grænna svæða (espacios verdes), s.s. torgum,
skemmtigörðum og trjáprýddum breiðgötum. Elzti skemmtigarðurinn er Palermo og garðarnir Alirante
Brown í Riachuelodalnum og Tres de Febrero voru gerðir á
landfyllingum við Plataána.
Hestaíþróttir
eru mjög vinsælar, einkum póló, sem er þjóðaríþrótt Argentínumanna.
Pato er önnur hestaíþrótt, sem nýtur mikilla vinsælda, og
á rætur sínar að rekja til pampa indíána, sem lifðu hirðingjalífi.
Vinsælasta hópíþróttin er knattspyrna, sem menn leika í
skemmtigörðum og víðar um alla borg.
Meðal íþróttamannvirkja borgarinnar eru kappakstursbrautir, dýra-
og grasagarðurinn, leikvangar við háskólana, sundlaugar og margs
konar siglinga- og íþróttaklúbbar. |