Ferðamenn,
sem koma til borgarinnar, hvort sem er til skemmri eða lengri dvalar,
komast ekki hjá að verða varir við kraftinn og ysinn, sem ríkir.
Skammtímagestir ganga gjarnan eftir Calle Florida, göngugötunni
með lúxusverzlununum, og dást að allsnægtunum, sem eru til sölu,
og velklæddu fólkinu. Þar
er hægt að fá ýmsar vörur á góðu verði, einkum heimsþekktar leður-
og ullarvörur, og bregða sér í gæðasteikhús, sem eru mun ódýrari
en í BNA og Evrópu. Á
kvöldin og nóttunni er hægt að heimsækja næturklúbba (boite) til að dansa tango, sem
á uppruna sinn í hverfum lágstéttanna í borginni og er sagður lýsa
skapgerð íbúa borgarinnar (porteno).
Stutt
heimsókn í borginni er tæpast fullkomin nema kíkt sé á La Boca,
fallegan hluta borgarinnar við mynni Riachuelo-árinnar, þar sem
fyrstu landnemarnir komu að landi.
Þarna er fjöldi ítalskra veitingahúsa og við sumar göturnar
(Caminito) eru prýddar timburhúsum máluðum í skærum litum, sem færðu
borgarbúum verulegan auð á 19. öldinni.
Gestirnir
taka líka eftir trjáprýddum breiðgötum, sem liggja á mörkum
hverfa miðborgarinnar með fjölbýlishúsum á báðar hendur. Á mestu umferðartímum eru göturnar stíflaðar af farartækjum,
að hluta til sérkennilegum smárútum (colectivo), sem eru argentínsk
uppfinning, sem setur svip sinn á borgina.
Þessar rútur eru yfirleitt troðfullar og stanza sjaldan og fólkið
stekkur út og inn á meðan þær eru á ferð.
Bílstjórarnir, oftast meðeigendur í útgerð þeirra, eru
yfirleitt skrautlegir náungar, sem sitja ekki á sér að koma með
alls konar athugasemdir um allt milli himins og jarðar, fótbolta, veðrið,
stjórnmál o.fl. Þeir eru
líka þekktir fyrir óvægið aksturslag og eru orðnir ímynd
streitunnar og hraðans í borginni.
Fæstir
ferðamannanna gera sér ferðir út fyrir miðborgina, sem er aðeins lítill
hluti Buenos Aires vegna þess, að flest, sem heillar þá er þar.
Samt er ekki hægt að segjast hafa kynnzt og skilið borgina
nema að hafa skoðað úthverfin, sem auka skilninginn á tengslum
borgarinnar við aðra hluta landsins.
Á síðari hluta 20. aldar var fólksfjölgunin þar fimmfalt
meiri en annars staðar í landinu.
Hverfaskiptingin er ákaflega greinileg, þar sem íbúar hvers
hverfis eiga sína fundarstaði á börum eða kaffihúsum.
Þetta einkenni má rekja til nýlendutímans, þegar slíkir mótsstaðir
voru verzlanir og krár (pulperia).
Loftslagið.
Temprað
loftslag Plata-strandsléttunnar er einkennandi í borginni.
Það er heitt og rakt á sumrin (desember til febrúar) með 28°C
meðalhita. Á haustin og
vorin er veðurlag og hitastig sveiflukennt.
Veturnir (júní-ágúst) eru mildir og rakir og meðalhitinn er
11°C. Meðalárshitinn er
u.þ.b. 16°C. Frost getur
orðið á tímabilinu maí til september en snjór er mjög fátíður.
Vindstyrkur er yfirleitt ekki mikill, þótt Kári láti stundum
að sér kveða frá september til marz.
Úrkoman er mest í marz.
Borgarmyndin.
Borgin
er á norðaustanverðri Pampa-sléttunni, þar sem árósar Paraná
breikkar og Plataáin bætist í þá.
Austur- og norðurmörkin eru við Plataána og helztu einkenni
borgarinnar eru fjöldi kvísla, sem streyma um hana.
Miðborgin er á hæð með útsýni yfir Plataána og sunnan hæðarinnar
streymir áin Riachuelo. Aðrir
borgarhlutar eru á flæðilendum ánna, sem eru mjög flatar.
Borgarsvæðið
skiptist í tvennt, annars vegar fylkið, sem var stofnað 1880, og hins
vegar úthverfin umhverfis það. Á
fylkissvæðinu býr sífellt minnkandi hlutfall íbúanna, því að úthverfin
stækka stöðugt, þegar fleiri setjast þar að og fleiri iðnfyrirtæki
byggjast upp. Miðhluti
borgarinnar er gamla nýlenduhverfið.
Þar eru þröngar götur, sem mynda ferhyrningslagað munstur,
og nær yfir u.þ.b. 20 götur. Þetta
hverfi var Buenos Aires fram á síðari hluta nítjándu aldar.
Skipulag hefur verið losaralegra síðan og gatnamunstrið óreglulegra. Fylkissvæðið er innan marka Riachuelo-árinnar og breiðgötunnar
Avenida General Paz, sem var opnuð 1941 eftir nærri áratugs framkvæmdir.
Nútímaborgin
þróaðist út frá hinu sögulega torgi Plaza de Mayo. Þar standa ráðhúsið (Cabildo), sem var byggt á 18. öld
og ríkisstjórnarhúsið (Casa Rosada), sem snýr upp eftir Avenida de
Mayo. Þessi breiðgata
liggur að Þingtorginu (Plaza del Congreso) og þinghúsinu, sem var
byggt snemma á 20. öldinni. Allar
vegalengdir í landinu miðast við litla 0-punktinn á torginu fyrir
framan það. Þarna er líka
dómkirkja borgarinnar, sem er stór og stæðileg og var byggð á nýlendutímanum
og flest hús sem minna á þennan tíma eru sunnan torgsins í San
Telmo eða Barrio Sur, sem drabbaðist niður í heila öld áður en
farið var að huga að viðhaldsvinnu og enduruppbyggingu.
Mest
ber á fjórum byggingarstílum íbúðarhúsnæðis í borginni.
Algengust eru sambyggð einbýlishús meðfram gangstéttum með
opnum inngarði, röð lítilla herbergja meðfram honum og eldhús í
endanum. Í upphafi 20.
aldar, þegar íbúum borgarinnar fjölgaði ört, var þessum húsum
skipt í smærri einingar. Þessi
þróun leiddi til tveggja og þriggja hæða húsa, sem voru styttri og
mjórri en hin fyrstnefndu. Stærð
og lögun þessara fyrstu fjölbýlishúsa þróaðist út frá lóðastærðinni
og þau urðu mjög algeng í miðstéttarhverfum borgarinnar, s.s.
Palermo, Recoleta og Retiro, sem eru ásamt öðrum hverfum kölluð
Barrio Norte (Norðurhlutinn). Þessi
hús voru líka byggð hlið við hlið við fjölda gatna í norðurhlutanum.
Í Belgrano-hverfinu, rétt norðan við Barrio Norte, standa
risastórar íbúðablokkir á lóðum stórra einbýlishúsa, sem voru
algeng í úthverfunum.
Fjórði
byggingarstíllinn finnst í fátækrahverfunum, bárujárnskúrar, sem
fjölgar stöðugt. Þessi
hverfi risu og rísa á einskismannslandi, þar sem óvissa ríkir um
eignarhaldið. Þau fóru að
myndast á sjöunda áratugi 20. aldar í Buenos Aires.
Þarna búa aðallega aðfluttar fjölskyldur, sem leita betri lífskjara
en í sveitunum. |