Sjálfstæðisandi
borgarbúa var vakinn hressilega, þegar spænski herinn á svæðinu
varð að verjast tveimur innrásartilraunum Breta.
Bretar sóttu ekki með miklum krafti og spænski herinn þurfti
ekki að fórna miklu til að reka þá af höndum sér.
Engu að síður urðu þessar innrásir upphafið að þjóðernishyggju
Argentínumanna. Árið
1808, þegar Napóelon réðist inn í Spán og setti bróður sinn,
Joseph Bonaparte í hásætið í Madrid, endurskoðuðu margir íbúar
borgarinnar tengsl sín við krúnuna.
Í maí árið 1810 rauf borgarráðið tengslin við Spán og
varakonungsdæmið og 25. maí lýsti það yfir stuðningi við hina nýju
stjórn konungsríkisins.
Atburðir
næstu áratuga báru merki sambandsleysis borgarinnar og annarra hluta
varakonungsdæmisins. Aðeins
fáir íbúar þess fylgdu íbúum Buenos Aires að málum.
Önnur héruð landsins lýstu ekki yfir sjálfstæði fyrr en á
þinginu í Tucumán árið 1816. Bráðabirgðastjórn var mynduð og Buenos Aires var gerð að
höfuðborg sambandsríkja Rio de la Plata.
Fjarlægari héruð, Bólivía, Úrúgvæ og Paragvæ neituðu að
verða hluti ríkjasambandsins með hafnarborgina í fararbroddi. Næstu þrjá áratugina hékk þetta samband saman undir stjórn
Buenos Aires og nágrannahéraðanna.
Héruðin lengra inni í landi fóru sínar eigin leiðir.
Innanlandshéruðin
báru skarðan hlut frá borði í þessu lausbeizlaða sambandi og
sameinuðust um aðgerðir til að breyta valdahlutföllunum með valid.
Þeim tókst að koma leiðtoganum Juan Manuel de Rosas frá völdum
er skorti getu til að koma á fót nýju þjóðskipulagi.
Áratug síðar tókst höfuborgarbúum undir stjórn Bartolomé
Mitre, hershöfðingja, að beygja innanlandshéruðin undir sitt vald
og láta þau fallast á stjórnina í Buenos Aires.
Þessar ráðstafanir voru staðfestar opinberlenga, þegar
borgin var gerð að sambandshöfuðborg árið 1880.
Stjórnmálabaráttan
milli borgarbúa og innanlandsfylkjanna magnaðist eftir 1850 vegna
aukinna hagsmunaárekstra. Iðnbyltingin og innreið kapitalismans í Evrópu olli
miklum breytingum á markaðnum í álfunni og tæknilegar framfarir gerðu
hagnýtingu frjósamra sléttnanna í Argentínu efnahagslega fýsilegri.
Þar skorti einungis vinnuaflið til að erja landið og fjármagn
til að flytja afurðirnar til útflutningshafna.
Fjármagnið kom að mestu leyti frá Bretlandi og vinnuaflið frá
Spáni og Ítalíu. Argentína
breytti gjörsamlega um svip á nokkrum áratugum og í upphafi fyrri
heimsstyrjaldarinnar var landið orðið eitt mesta útflutningsland
landbúnaðarafurða í heimi.
Breyttur
efnahagur sveitanna leiddi til þriggja grundvallarbreytinga í höfuðborginni.
Borgarbúum fjölgaði ört vegna þess, að innflytjendurnir höfðu
búizt við að eignast eigið land, en í ljós kom að þeim var ómögulegt
að kaupa það og streymdu því til borgarinnar.
Samtímis óx þörfin fyrir vinnuafl í borginni, því að síaukinn
útflutningur krafðist nýrra hafnarmannvirkja.
Þessir verkamenn, sem voru aðallega frá Spáni, Ítalíu,
Austur-Evrópu og Þýzkalandi, bjuggu þröngt í gömlum húsum í suðurhluta
borgarinnar og hröktu miðstéttarfólkið norður fyrir Avenida de
Mayo. Atvinnutækifærin
voru aðallega við höfnina og í sláturhúsunum í úthverfunum, þannig
að aðkomufólkið fór að setjast að í nágrannasveitarfélögunum
sunnan Riachuelo-árinnar.
Önnur
veigamikil breyting var hinn mikli auður, sem einstaklingar og ríkið
komst yfir. Nýríka fólkið
byggði sér glæsihallir í stíl við hinar frönsku.
Nú á dögum hýsa þær aðallega ráðuneyti eða eru erlend
sendiráð. Á sínum tíma
voru þær tákn um gífurlegt ríkidæmi.
Flestar þessar hallir voru byggðar í norðurhlutanum (Barrio
Norte) og kringum San Martín-torgið við norðurenda Calle Florida
breiðgötunnar eða nærri Avenida Santa Fe.
Þriðja
stórbreytingin fólst í útliti borgarinnar.
Eigendur hallanna, ráðandi stéttir borgarinnar, ákváðu að
breyta borginni í París Suður-Ameríku.
Árið 1910, þegar haldið var upp á aldarafmæli fyrstu sjálfstæðisyfirlýsingarinnar,
voru áætlanir í anda Napóleons III um byggingu kerfis neðanjarðarlesta
og breiðgatna, sem skyldu geisla út frá miðborginni, kynntar.
Áætlanirnar gerðu ráð fyrir því, að fjórða hver gata í
austur-vestur stefnu yrði breiðgata og tíunda hver gata í norður-suður
stefnu sömuleiðis.
Mannvirkin,
sem voru byggð fyrir fyrri heimsstyrjöldina standa enn þá fyrir sínu.
Breiðgöturnar í borgarmiðjunni, sem voru að mestu lagðar á
þriðja og fjórða áratugnum, eru enn þá þungamiðjur umferðarinnar
og aðeins einni neðanjarðarleið var bætt við eftir síðari
heimsstyrjöldina. Umferðin
er vissulega orðin gatnakerfinu ofviða, en engu að síður fer hún
um gatnakerfi, sem nítjándualdar leiðtogar hennar byggðu upp snemma
á 20. öldinni.
Nútímaborgin.
Þrjár
meginbreytingar hafa haft áhrif á einkenni og útlit borgarinnar á síðari
helmingi 20. aldarinnar. Eftir
1930 stöðvaðist straumur innflytjenda, þegar vinnumarkaðurinn var
orðinn mettaður af sveitafólki frá norðurhluta landsins (mestizo),
Úrúgvæ, Paragvæ og Bólivíu. Norðanmenn
(mestizo) fundu ekki laust húsnæði inni í borginni og fóru að
byggja sér skúra í jaðri hennar í grennd við vinnustaðina í
verksmiðjunum og fátækrahverfin (villas miseries) fóru að myndast.
Kynþáttamisklíð milli þessara nýju íbúa og hinna jók
biturleika átaka, sem einkenndu fjórða, fimmta og sjötta áratug 20.
aldar. Fjöldinn allur
hinna nýkomnu urðu tryggir stuðningsmenn alþýðuleiðtogans Juan D.
Perón, sem komst til valda í byltingu hersins árið 1943 og var
forseti landsins á árunum 1946-55 og aftur frá 1973 til dauðadags
1974.
Þriðja
meginbreytingin á síðari hluta síðustu aldar var lá í samgöngumunstrinu
í borginni. Bílar og
litlir stætisvagnar (colectivo) tóku við hlutverki neðanjarðarkerfisins
og sporvagna. Ólíkt öðrum
stórborgum í hinum vestræna heimi eru engar stórar stoðbrautir
umhverfis Buenos Aires. Samkvæmt
skipulagi borgarinnar eftir síðari heimsstyrjöldina var gert ráð
fyrir þeim en efnahagur landsins og borgarinnar leyfði ekki lagningu
þeirra, þannig að umferðaröngþveitið hefur stöðugt aukizt.
Nokkrar umbætur urðu við tilkomu borgarlestanna 1979.
Hverfastjórnir og aðalborgarstjórnin sameinuðust um lagningu
þeirra og fengu japönsk fyrirtæki til verksins vegna þekkingar þeirra
á rafknúnum lestum.
Nýju
lágstéttirnar í borginni, nýjustu borgarbúarnir, hafa aukið og flækt
vandamál hennar. Þetta fólk
er ómenntað og ófaglært og á þar af leiðandi erfitt með að fá
atvinnu. Yfirvöldum hefur
ekki tekizt að bæta kjör þessa fólks, þrátt fyrir ítrekaðar
tilraunir. Fátækt er því
mjög áberandi og eitt helzta vandamál yfirvalda á síðustu áratugum
20. aldar. |