Oberammergau Þýskaland,
Flag of Germany

HALLIR og KASTALAR
í NÁGRENNINU

GARMISCH- PARTENKIRCHEN

WIESKIRCHE AMMERVATN LINDERHOF ETTAL

OBERAMMERGAU
ÞÝSKALAND

.

.

Utanríkisrnt.

Oberammergau í Bæjaralandi er í 850 m hæð yfir sjó. Oberammergau er við ána Ammer í dalverpi, sem er umkringt af Ammergau-Ölpunum.  Bærinn er vinsæll hressingar- og vetraríþróttastaður.  þar er ríkisrekinn tréskurðarskóli.  margir íbúanna stunda tréskurð.  Hann er heimsþekktur fyrir helgileika, sem fara þar fram á 10 ára fresti.

Oberammergau varð til á rómverskum tíma.  Nágrenni viðskiptaleiðarinnar milli Augsburg og Ítalíu færði íbúunum velmegun.  Tréskurður hófst á 17. öld eins og helgileikarnir, sem hófust 1634.  Ástæðan var heit, sem íbúarnir strengdu til að þeim, sem eftir lifðu, er pest geisaði, yrði þyrmt.

Mörg hús bæjarins eru fagurlega skreytt freskamyndum að utan.  Myndskreytingarnar segja oft helgisögur og ævintýri.  Sumar myndanna málaði málarinn Franz Zwink (1748-92), t.d. á Píla-tushúsi og Geraldshúsi.

Sóknarkirkjan er mjög skrautleg að innan og er í rokokostíl (1736-42).  Arkitekt hennar var Josef Schmuzer.  Loftmyndir í henni eru eftir Matthäus Günther.

Byggðasafnið með alls konar tréskurði og Kristsjötum er við Dorfstraße 8.

Í norðurhluta bæjarins er helgileikhúsið með sviði undir berum himni, þar sem landslagið er hluti af leiktjöldunum.  Áhorfendasvæðið, sem er undir þaki, rúmar 5.200 manns.  Bezt er að vera hlýlega klæddur.  Panta verður miða með a.m.k. árs fyrirvara.

Nágrenni Oberammergau
Laberfjall er 1.684 m hátt.  Uppi er víðsýnt frá veitingastaðnum.  Þangað liggur kláfferja með litlum vögnum frá Laber Bergbahnstation í Oberammergau.  Svifdrekamenn sækja mjög þangað.  Einnig liggja góðir gangstígar upp fjallið.

Helgileikarnir hófust í hörmungum 30 ára stríðsins, þegar svartidauði (1633) bættist við plágurnar.  Þessi pest hafði lagt 84 af 600 íbúum þorpsins að velli, þegar hinir eftirlifandi stigu á stokk og strengdu þess heit að halda helgileika um þjáningar og dauða frelsarans á 10 ára fresti þaðan í frá, ef pestinni linnti.  Frá þeirri stundu dóu ekki fleiri af þeim sökum í þorp-inu.  Árið 1634 voru þeir haldnir í fyrsta sinn í kirkjugarðinum.

Árið 1680 var þeim snúið upp á heila áratuginn, sem síðan hefur haldizt með einni undantekningu árið 1770 vegna banns þáverandi kjörfursta.  Efnahagserfiðleikar ollu tveggja ára seinkun árið 1920, þannig að þeir voru fluttir 1922. Á 300. árstíð leikanna voru þeir haldnir árið 1934 og hinni 350. árið 1984.  Þeir féllu niður árið 1940 vegna stríðsins.  Upprunalegur texti verksins var færður í nútímahorf árið 1811 af föður Ottmar Weis.  Klerkurinn Daisenberger færði verkið í þá mynd, sem það hefur nú árið 1860.  Hljómlistin, sem flutt er með leikunum, er eftir Rochus Dedler, kennara í Oberammergau, og var fyrst flutt árið 1811.

Fimmtíu hljóðfæraleikarar og 48 söngvarar flytja þessa hljómfögru og þjóð-legu tónlist.  Leikarnir standa yfir sumarlangt frá maí til september.  Hlutverk í leikunum annast 1.400 innfæddir íbúar Oberammergau, allt starfsfólk meðtalið.  Leikendur eru 700 fullorðnir og 250 börn á aldrinum 5-15 ára, sem taka þátt í verkinu í hlutum.  Í fjöldasenum eru allt að 600 manns á sviðinu í einu.  Aldurstakmörk leikkvenna eru 35 ár og þær verða að vera ógiftar.  Engin slík skilyrði eru sett karlleikurum.  Sýningin tekur einn dag frá kl. 09:00 til 17:00 með þriggja stunda matarhléi.  Allt sem að leikunum snýr, er búið til í Oberammergau.  Búningar eru úr litföstum og slitþolnum efnum.  Þeir eru um 1000 talsins.

Leikhúsið var reist á engi, þar sem leikarnir fóru fram frá árinu 1830.  Það var reist árið 1900 og er 27 m hátt, þakið hvílir á 6 stálbogum, lengdin er 80 m og breiddin 48 m.  Hljómsveitargryfjan er framan við sviðið.  Áhorfendasætin eru 5.200.  Gott er að búa sig vel í leikhúsið fyrir sýningu, því að það er opið og getur orðið svalt inni, þótt hlýtt sé úti.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM