Laos
er landlukt ríki í Suðaustur-Asíu á milli 13°55' og 22°30'N og
100°10' og 107°40'A.
Landið teygist frá norðvestri til suðausturs meðfram
Mekongfljótinu, sem myndar víða náttúruleg landamæri við Tæland
og Burma.
Mesta lengd landsins er 1100 km.
Landið
er fjalllent
að tveimur þriðju hlutum og er víða hærra en 2800 m.
Í austurhlutanum eru Annam-fjöll, Xiang-Khuang-hásléttan í
norðurhlutanum og í suðurhlutanum er hin frjósama Boloven-háslétta.
Í vesturhlutanum rennur Mekongfljót um láglendi, sem er reitað
í hrísgrjónaakra, og í Savannakhet er ræktað grænmeti.
Loftslagið
er heitt og rakt.
Sumarmisserisvindurinn ríkir frá maí til oktober og þá rignir mikið
(1000 mm á hásléttunum, 2000-3000 mm uppi í fjöllum).
Meðalvetrarhiti í norðurhlutanum er 13°C og 23°C í suðurhlutanum
og á sumrin er meðalhitinn 30°C en fer upp í 40°C rétt áður en
monsúninn skellur á.
Svölustu mánuðirnir eru nóvember, desember og janúar.
Þá fer hitinn stundum niður í frostmark uppi í fjöllum.
Hitabeltisflóran
skammt sunnan nyrðri hvarfbaugs í Laos fer mikið eftir hæð yfir sjó
og u.þ.b. 60% landsins eru þakin hitabeltisskógi (regnskógi).
Í árdal Mekong er strjáll monsúnskógur og ofar er sígrænn
regnskógur.
Háslétturnar eru grassvæði (savanna) og ofar eru blandaðir
skógar.
Víðlendir
skógarnir
bjóða ýmsum dýrategundum hitabeltisins enn þá ágæt lífsskilyrði.
Þar lifa m.a. fílar, nashyrningar, apar (hálf- og mannapar),
tapírar, vatnauxar (arni), skógarnautgripir (gaur), sjakalar, kattardýr
og nokkur tígrisdýr.
Íbúarnir,
sem flestir lifa af landbúnaði, eru flestir (90%) laoar, skyldir tæfólkinu.
Þeir búa við Mekongfljót, þverár þess og upp á hásléttunum.
Fjallafólkið (frumbyggjarnir; meo, yao o.fl.) ásamt kínverjum
og víetnömum eru u.þ.b. 10% þjóðarinnar.
Meira en helmingur borgarbúa landsins býr í höfuðborginni
Vientiane.
Hinajana-Buddhatrú
var ríkistrú þar
til hið marx-leníníska alþýðulýðveldi var stofnað.
Hið nýja þjóðfélagskerfi er andsnúið öllum trúarbrögðum.
Buddhaklaustrum og musterum var lokað og kristinboðum var vísað
úr landi.
Þrátt fyrir það stendur Buddhadómur föstum rótum og
fjallafólkið stunda nú sem fyrr sína náttúru- og andatrú.
Þjóðartungan
er lao, sem er skyld tæ, en fjallafólkið talar eigin mállýzkur.
Franskan er enn þá mikið útbreidd og er nokkuð notuð í stjórnsýslunni
enn þá.
Við uppbyggingu hins sósíalíska þjóðfélagskerfis er lögð
áherzla á heilsugæzlu og menntun.
Nú sækja 90% barna skóla.
GISTING
Eina
þrifallega hótelið í Vientiane með rennandi heitu og köldu vatni
og síma er Lane Xang (1998). Öll
herbergi þess eru loftkæld. Þar
kostar eins manns herbergi nálægt 20 US$ og tveggja manna 25 US$ og aðeins
hægt að greiða með reiðufé. Hin
helztu hótelin eru: Vieng
Vilay (áður Constellation), Imperial (dvalarstaður Rússa) og Inter.
Þessi hótel taka 15 US$ á mann fyrir nóttina. |