Laos hagnýtar upplýsingar,
Flag of Laos


LAOS
HAGNÝTAR UPPLÝSINGAR

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Sendiráð Laos
Sendiráð, 74, avenue Raymond Poincaré, F-75016 Paris, Frakklandi, sími 5 53 02 98 (nær yfir Þýzkaland, Austurríki og Sviss).

Heimilisföng í Laos
Ferðamálaráð Laos:  Lao Tourism Office (LTO), Samsenthai Road (við gosbrunninn), Vientiane, Laos.  Sími 29 98 og 32 54.

Ríkisflugfélagið:  Lao Aviation, P.O.Box 119, L Pan Kham Road (við Lane Xang hótelið), Vientiane, Laos.

ATVINNUVEGIR
Laos er enn þá vanþróað landbúnaðarland.  Aðalræktunarsvæðin eru í fljótsdölum Mekong-fljótsins og þveráa þess.  Mest er ræktað af hrísgrjónum (aðallega blautræktun), meginfæðu íbúanna.  Auk hrísgrjóna er lítið eitt ræktað af maís, kartöflum, maniok, grænmeti, sítrusávöxtum, melónum, tóbaki, kaffi, tei, jarðhnetum, indigo (dökkblátt litarefni), baðmull o.fl.  Afrakstur akuryrkjunnar og ræktun húsdýra (nautgripa, vatnsbuffala, svína og alifugla) beinist aðallega að innanlandsmarkaði.  Skógarhögg er smátt í sniðum, þrátt fyrir fjölda trjátegunda og eðaltrjáa (tekk og mahóni).  Fjallafólkið brennir enn þá skóga til að ryðja sér akra.  Í „Gullna þríhyrningnum”, þar sem Laos, Tæland og Burma mætast, mega þjóðflokkarnir rækta valmú(melasól; draumsóley) til ópíumframleiðslu.  Framleiðsla þess og viðskipti með eiturlyfin eru háð „ströngu eftirliti ríkisins”.

Eftir valdatöku kommúnista var komið á samyrkjubúskap 30 - 50 fjölskyldna á hverju búi.  Langtímaáætlanir gera fyrst ráð fyrir framförum í landbúnaði og skógarhöggi og síðan iðnvæðingu.  Enn þá er aðeins um smáframkvæmdir í vinnslu tóbaks, baðmullar og trjáa.  Einnig er lítið eitt framleitt af vefnaðar-, létta- og matvöru.

Ýmis jarðefni eru víða í jörðu:  Tin, kopar, járngrýti, kol og salt.  Tin og salt eru flutt út í vaxandi mæli.

Orkuvinnsla fer fram við Nam-Ngum-stífluna, 90 km norðan höfuðborgarinnar Vientiane, sem nýtur rafmagnsins að mestu ein.

AFÞREYING  og  UPPÁKOMUR
Næturlífið
Í raun og veru er ekkert alvörunæturlíf í Laos, ef frá eru taldir hótelbarir og örfáir staðir, sem innfæddir geta bent gestum á.  Þessir staðir loka fyrir miðnætti.

Íþróttir
Það er ekki um auðugan garð að gresja í þessum efnum í Vientiane.  Gestir Ástrala geta leikið tennis í orlofsklúbbi sendiráðsins á bökkum Mekong.

VERZLUN
Á morgunmarkaðnum við Avenue Lane Xang í Vientiane er hægt að fá fallegan, handunninn silkivefnað og ísaumaða borða (oft með silfur- og gull-þráðum) í takmörkuðum mæli.  Þar eru líka ofnir dúkar með gömlum munstrum, litaðir klæðastrangar eða ísaumaðir og fatnað frá ýmsum landshlutum.  Við Samsenthai-götu, beint á móti Vieng Vilay hótelinu, bjóða konur af Meo-þjóðflokknum (H'Mung) listmuni og litskrúðuga vefnaðarvöru.  Handavinna, s.s. dúkar, leirmunir og bambusflautur (khene) og aðrir minjagripir fást í heimilisiðnaðarverzluninni við Luang-Phrabang-götu, í 'House of Dolls' við Phon-Kheng-götu, í Impeng Boutique nærri Vieng Vilay hótelinu, í búðum Lane Xang hótelsins og í flugstöðinni.

Gullsmiðirnir við Samsenthai-götu bjóða silfurhálsmen, armbönd, úrakeðjur eða laosk belti, sem þeir smíða eftir pöntun á nokkrum dögum.

Klæðskerar í grennd við Vieng Vilay hótelsins sauma laoskar skyrtur, ef þeir eiga nóg efni á lager.

Ríkiseinkasalan fyrir útlendinga Magasin d’approvisionnement pour les missions étrangères við Samsenthai-götu selur innfluttan dósamat, frosið kjöt, áfengi, sígarettur og elektrónísk tæki á háu verði gegn greiðslu í US$.

MATUR  og  DRYKKUR
Matur
Í hinum fáu veitingahúsum höfuðborgarinnar er lítið framboð af réttum landsins.  Söluvagnar á götum úti bjóða aðallega hrísgrjónakúlur, sem er difið í piparsósu eða paddek (gerjaður fiskur) og borðaðar með steiktu hænsnakjöti eða grænu papæjasaladi.  Frönsk matargerð er enn þá í hávegum höfð í landinu.

Drykkur
Skyndibitastaðir bjóða aðallega laoískt viskí (Lao Lao), sem er sterk útgáfa af japönsku sake.  Það er ekki alltaf hægt að fá laoskan bjór og óáfenga drykki.  Innfluttir áfengir drykkir (vín, bjór og áfengi) bjóðast aðeins í veitingastöðum og nokkrum börum, sem hafa leyfi til að afgreiða útlenda gesti.

Veitingahús
Í veitingastað Lane Xang hótelsins eru franskir réttir á matseðlinum (greiðsla í US$).  Aðrir veitingastaðir með franska rétti eru Le Sureya (Souryia; andspænis skrifstofu 'Lao Aviation') og Nam Phou.  Staðir, sem bjóða alþjóðlegan matseðil (vestrænan) eru Peace (áður Apollo), La Pais (Rue du Boun) og Ban Phim (við Luang-Phrabang-götu á leið til flugvallarins) og veitingastaður Inter hótelsins.  Margir litlir veitingastaðir í grennd við Vieng Vilay hótelið við Samsenthai-götu bjóða franskan mat og vín.  Australian Embassy Recreation Club'við Tha-Deua-götu býður meðlimum sínum og gestum þeirra evrópska rétti.  Tan Dao Vien og Cocoa (við Rue du Boun) eru góðir kínverskir veitingastaðir.  Huong Lan (á móti Tan Dao Vien) er góður víetnamskur veitingastaður.  Ódýr götuveitingahús er að finna í leikhúshverfinu.

Hótelin bera fram evrópskan morgunverð.  Gott kaffi og franskir brauðsnúðar fást í Santisouk (áður La Pagode) í grennd við íþróttavöllinn.

SAMGÖNGUR  í  VIENTIANE
Samgöngur í landinu eru enn þá að mestu vanþróaðar.  Mikilvægasta samgönguæðin er enn sem fyrr Mekongfljótið, en þar eru víða flúðir, sem hindra siglingar.  Vegakerfið er u.þ.b. 8000 km langt og mestur hluti þess er í Mekongdalnum.  Aðeins 10% þess er með bundnu slitlagi og fjórðungur þess er fær allt árið.  Járnbrautir eru engar.  Við höfuðborgina er alþjóðlegur flugvöllur.  Innanlandsflugið er í uppbyggingu.

Leigubílar
Ríkisreknu leigubílarnir með marglitu merkingunum á framhurðunum aka um aðalgötur borgarinnar og stanza þar sem beðið er um.  Bezt er að kynna sér verðið fyrirfram hjá Lao Aviation á flugvellinum eða á hótelum, því að bílstjórnarnir eiga það til, að krefjast allt of hás gjalds.

Strætisvagnar
Að vísu eru margar biðstöðvar í Vientiane og fargjaldið með vögnunum er mjög lágt, en það er frekar hending en hitt, að vagnarnir aki eftir einhvers konar áætlun.

Þríhjólavagnar
Riksha kallast hinir manndrifnu en Samlor hinir véldrifnu.  Hvorir tveggja eru mjög algengir í Vientiane og annars staðar í landinu eru þeir aðalsamgöngutækin.  Fargjaldið með þeim er fremur hátt og fólk ætti að kynna sér og semja um það áður en haldið er af stað.

Bílaleigur
Það er hvergi hægt að fá leigðan bíl til að aka sjálfur og alþjóðlegar bílaleigur eru ekki starfandi í landinu.

Skipulagðar skoðunarferðir

Upplýsingar um slíkar ferðir veitir LTO.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM