Jórdanía meira,
Flag of Jordan

SAGAN I
SAGAN II
SAGAN III
ÍBÚARNIR
STJÓRNSÝSLA
EFNAHAGSMÁL
TÖLFRÆÐI

JÓRDANÍA
MEIRA

Map of Jordan
.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

LANDIÐ.  Jórdanía skiptist í þrjú landfræðilegs svæði frá austri til vesturs, eyðimörkina, hásléttuna austan Jórdanárinnar og Jórdandalinn (norðvesturhluti Sigdalsins mikla.

Eyðimörkin er að mestu í Sýrlandi en teygist inn í austur- og suðurhluta Jórndaníu og þekur rúmlega fimmtung landsins.  Norðurhluti hennar er blágrýtishraun og suðurhlutinn sandsteinn og granít.  Landslagið er mjög vindveðrað.  Hálendið austan Jórdanár er að meðaltali 600-900 m hátt og rís hæst í Ramm-fjalli (1754m), sem er hæsta fjall Jórdaníu.  Teygingar sandsteins, kalks, krítar og tinnu ná inn í syðsta hluta landsins, þar sem hraun eru annars ríkjandi.  Á norðurhásléttunni stefna dalirnir og ár þeirra til vesturs.  Við Al-Karak renna þær til vesturs, austur og norðurs.  Sunnan Al-Karak renna árstíðabundnar ár til austurs í áttina að Al-Jafr-lægðinni.

Jórdandalurinn nær næstum 400 m niður fyrir sjávarmál við Dauðahaf.  Þar er lægsti staður á yfirborði jarðar.  Jórdanáin er u.þ.b. 300 km löng.  Hún bugðast suður um Tiberiasvatn (Galíleuvatn eða Kinneretvatn) og tekur við Al-Yarmuk-ánni og þverám beggja vegna dalsins áður en hún fellur í Dauðahafið.  Jarðvegur neðri hluta dalsins er mjög saltur og strandlengja Dauðahafsins er þakin saltmýrum, þar sem  er ekki stingandi strá.  Sunnan þess er Wadi al-‘Arabah (Wadi al-Jayb) svæðið, þar sem eru líklega verðmæt jarðefni.

Loftslagið er mismunandi frá Miðjarðarhafinu í vestri að eyðimörkunum í austri og suðri en landið er að mestu þurrlent.  Nálægð Miðjarðarhafsins hefur mestu áhrifin á loftslagið, þótt loftmassar meginlandsins og hæð yfir sjó hafi áhrif á það.  Meðalárshiti í höfuðborginni og norðurfjöllunum er 8°C-26°C en í Al-‘Aqabah allra syðst 16°C-33°C.  Ríkjandi vindar blása úr vestri og suðvestri en oft blása heitir, þurrir og rykmettaðir vindar úr suðaustri og valda óþægilegasta veðurfarinu í landinu.  Þessir vindar eru kallaðir khamsin og þeirra gætir helzt síðsumars og geta blásið dögum saman í einu.

Úrkoman fellur aðallega á veturna.  Hæsta meðaltalið, 400 mm, í norðvesturhlutanum, fer niður í 100 mm í suðurhlutanum.  Á hásléttunni austan Jórdanárinnar er ársmeðaltalið 355 mm.  Í dalnum sjálfum er ársmeðaltalið 200 mm og í eyðimörkunum er það í kringum 50 mm.  Stundum er frost og snjór á hásléttunni en slíkt er afarsjaldgæft í Sigdalnum.  Eitthvert erfiðasta vandamál Jórdaníu er að sjá vaxandi íbúafjölda fyrir vatni.

Flóra og fána landsins skiptist í þrjá greinilega flokka, Miðjarðarhafs, steppu og eyðimerkur.  Á hásléttunni er mest um fyrstnefnda flokkinn, runnagróður og lítil tré.  Á þurrari steppunum austar er þurrlendisrunnagróður algengastur auk graslendis og einstaka trjáa.  Í eyðimörkinni er helzt að finna gróður í lægðum, jöðrum og dalbotnum eftir hina mögru vetrarúrkomu.

Mjög lítill hluti landsins er vaxinn skógi, aðallega í stórgrýttum fjöllum landsins.  Þessi skóglendi hafa lifað af nýtingu þorpsbúa og hirðingja.  Ríkisstjórn landsins hvetur til gróðursetningar trjáa og dreifir ókeypis plöntum til bænda.  Á hærra liggjandi svæðum hásléttunnar eru aðallega aleppoeik, kermes-eik, pistatíutré, apellofura og asíska jarðaberjatréð.  Villtar ólífur vaxa þar einnig auk fönikíueinis, þar sem minna rignir.

Meðal villtra dýra eru villisvín, fjallageitur (ibex o.fl.), hérar, sjakalar, refir, villikettir, hýenur, úlfar, gasellur, moldvörpurottur og nokkur pardusdýr.  Meðal fjölda tegunda skordýra eru fjölfætlingar og sporðdrekar.  Eðlutegundir eru margar og fuglalífið er fjölbreytt (gullernir, gammar, dúfur, akurhænur o.fl.).

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM