Jórdanía efnahagsmál,
Flag of Jordan


JÓRDANÍA
EFNAHAGSMÁL

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Efnahagur landsins var á uppleið fyrir sexdagastríðið 1967.  Vesturbakkinn stóð undir þriðjungi tekna landsins.  Eftir stríðið var þróunin hægari en á réttri leið vegna áætlana ríkisstjórnarinnar.  Viðskipti jukust milli Jórdaníu og Íraks í stríði þess við Íran (1980-90) vegna aðgangsins, sem Írak hafði að hafnarborginni Al-‘Aqabah.

Í upphafi studdi Jórdaníustjórn Saddam Hussein, forseta Íraks, þegar hann réðist inn í Kúveit og hernam landið (1990-91), en féllst á viðskiptabann Sameinuðu þjóðanna gegn Írak, þótt það ógnaði efnahag landsins.  Erlend neyðaraðstoð hélt Jórdönum á floti og jákvæð þróun hófst á ný, þegar 200.000-300.000 Palestínumenn voru reknir frá Kúveit til Jórdaníu, því að margir þeirra áttu gnægð fjár.

Efnahagskreppur hafa oft riðið yfir.  Skuldastaða landsins hefur verið erfið og atvinnuleysi mikið frá miðjum tíunda áratugi 20. aldar.  Árið 1997 afskrifuðu Bandaríkjamenn eins milljarðs dollara skuld og Alþjóðabankinn veitti Jórdaníu mikla fyrirgreiðslu til að hleypa lífi í efnahaginn.

Efnahagurinn byggist aðallega á einkaframtaki.  Námuvinnsla og iðnaður standa undir mestum hluta vergrar þjóðarframleiðslu, þótt þjónusta eigið þar líka drjúgan hlut.  Þótt Alþjóða gjaldeyrissjórðurinn og Alþjóðabankinn hafi reynt að styðja við einkaframtakið, er ríkið veigamikill aðili að atvinnulífinu.  Innanlandsmarkaðurinn er smár í sniðum og sveiflur í landbúnaði eru miklar vegna mismunandi úrkomu.  Fjármagnsskortur, pólitísk ólga í þessum heimshluta og mikill fjöldi flóttamanna í landinu valda því, að landið er háð erlendri aðstoð.  Mikill fjöldi Jórdana, sem vinna erlendis og senda ættingjum sínum heima peninga, er mikilvæg gjaldeyristekjulind fyrir landið.  Landið hefur líka misst margt faglært og velmenntað fólk til nágrannalandanna.  Nálægt 400.000 manns yfirgáfu landið snemma á níunda áratugnum en síðan hefur ástandið lagazt svolítið.  Þessu valda aðallega aukin atvinnutækifæri í landinu og minnkandi tækifæri í nágrannalöndunum við Persaflóann.


Náttúruauðlindir og iðnaður.  Helztu náttúruauðæfi landsins eru fosfat, pottaska, kalk og marmari en einnig má finna dólómít, kaólín og salt.  Rétt um aldamótin fannst barít, kvarts, gips og feldspat og vitað er um einhverjar birgðir kopars, úraníums og flöguolíu.  Mesta iðnvæðingin er í og umhverfis Amman.  Þungaiðnaður landsins byggist aðallega á fosfatvinnslu, olíuhreinsun og sementsframleiðslu.  Talsvert er framleitt af matvöru, fatnaði og ýmsum neytendavörum.

Langmestur hluti raforkunnar er framleiddur með olíu og lítils háttar með kolum.  Helzlu orkuverin þrjú, við Amman, Al-‘Aqabah og Az-Zarga eru tengd.  Í lok 20. aldarinnar var næstum lokið við samtengingu rafkerfa allra aðalborga landsins.


Landbúnaður og fiskveiðar.  Innan við 10% landsins eru ræktanleg og flytja verður inn matvæli til að fæða alla íbúana.  Hveiti og bygg eru aðaluppskerurnar á hásléttunum, þar sem rignir nægilega og áveituland í Jórdandalnum gefur af sér sítrusávexti, melónur og grænmeti (tómata og gúrkur).  Beitiland er takmarkað og víðast svo uppblásið, að það er vart hæft til beitar lengur.  Beitilandið hefur líka minnkað vegna áveitna og ræktunar ávaxta og ólífutrjáa.  Brunnar hafa verið grafnir til að auka beitarþolið.  Sauðfé og geitur eru mikilvægustu gripirnir en einnig er talsvert ræktað af nautgripum, úlföldum, hestum, ösnum, múldýrum og hænsnum.

Fjármál.  Seðlabandi landsin annast seðlaútgáfu (dinar).  Margir innlendir og erlendir bankar starfa í landinu.  Ríkisstjórnin hefur tekið þátt í fjármögnun einkafyrirtækja á sviði námuvinnslu, iðnaðar og ferðaþjónustu.  Það á líka verulegan hlut í mörgum stórum fyrirtækjum.  Ríkið hefur lagt áherzlu á aukna innheimtu tekjuskatts en samt sem áður eru óbeinir skattar enn þá mesta tekjulindin.  Reynt hefur verið að samræma skattakerfið sparnaðarhvetjandi aðgerðum til að stuðla að aukinni þátttöku landsmanna í fjármögnun fyrirtækja.  Erlendar fjárfestingar og nýting erlends hagnaðar hefur verið undanþegin skatti.

Ferðaþjónustan tók fjörkipp eftir miðjan tíunda áratug 20. aldar.  Mest er aðsókn vestrænna ferðamanna, sem koma til að skoða biblíuborgirnar í Jórdandalnum.  Tekjurnar eru orðnar veigamikill hluti efnahagslífsins.

Viðskipti.  Helztu útflutningsvörur landsins eru fosfat, pottaska og áburður.  Jórdanía flytur mest inn af vörum frá Írak, BNA og ESB (matvæli, vélbúnaður, farartæki og eldsneyti).  Verðmæti útflutningsins hefur vaxið en viðskiptajöfnuðurinn er enn þá óhagstæður.  Hann er jafnaður með erlendri fjárhagsaðstoð, lánum og öðrum fjáröflunarleiðum.  Þótt hann hafi verið mikill, hefur ferðaþjónustan, innstreymi fjár frá Jórdönum starfandi erlendis og styrkir frá öðrum arabalöndum dregið verulega úr honum.

Samgöngur.  Vegakerfi landsins er ekki stórt í sniðum en allir aðalvegir landsins eru með bundnu slitlagi.  Það tengir aðalborgir landsins og nær til nágrannalandanna.  Ein aðalleiðin er Amann-Jarash-Ar-Ramtha-þjóðvegurinn, sem tengir Jórdanínu og Sýrland.  Leiðin frá Amman um Ma’an til hafnarborgarinnar Al-‘Aqabah er mikilvægasta leiðin til sjávar.  Frá Ma’an liggur eyðimerkurvegur um Al-Mudawwarah til Sádi-Arabíu.  Amman-Jerúsalemvegþjóðvegurinn liggur um Na’ur og um hann liggur leið fjölda ferðamanna.  Ríkið rekur Hejaz-Jórdaníujárnbrautina frá Dar’a í norðri um Amman til Ma’an í suðri.  Aqaba-járnbrautin tengist Hejaz-Jórdaníubrautinni í Bant al-Ghul.  Einnig tengir járnbraut Dar’a í norðri við Damaskus í Sýrlandi.

Konunglega jórdanska flugfélagið býður millilandaflug víða um heim.  Millilandaflugvöllur Alia drottningar við Al-Jizah, sunnan Amman, var opnaður 1983.  Einnig eru minni millilandaflugvellir  við Amman og Al-Aqabah.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM